Lesbók Morgunblaðsins - 17.11.2001, Blaðsíða 9

Lesbók Morgunblaðsins - 17.11.2001, Blaðsíða 9
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 17. NÓVEMBER 2001 9 aðalsmenn biðu ósigur fyrir Habsborgurum. Tékkneskir þjóðernissinnar eru eins og Íslend- ingar sammála um þá fullkomnu hnignun og nið- urlægingu sem yfir þjóð þeirra reið við þennan atburð. Um leið sést þeim yfir fjölmargt mikils- vert í sögu sinni, t.d. öflugt menningarlíf í Prag á 17. öld, sem endurspeglast m.a. í hinum glæsi- legu barokkbyggingum borgarinnar og merkum rithöfundum þess tíma. En markmið þeirra er að sýna fram á hvernig hin erlendu yfirráð leiddu þjóðina út á barm glötunarinnar. Tékk- neska þjóðin stóð samkvæmt þessu á hyldýpi ör- væntingar, þjóðtungunni var nokkurn veginn út- rýmt, þeir voru, í 300 ár, andlega lamaðir, samfélagslega og sálarlega niðurbrotnir, svo nefnd séu nokkur algeng ummæli frá tékknesk- um þjóðernissinnum. Þá litu tékkneskir þjóð- ernissinnar, líkt og íslenskir, svo á að í kjölfar niðurlægingartímabilsins hefði komið endur- reisnartímabil, þjóðin hafi vaknað úr aldalöng- um svefni og í framhaldi af því hafið baráttu fyr- ir frelsi og endurreisn. En boðskapurinn sem felst í þessari tímabilaskiptingu snýst í stuttu máli um að færa rök fyrir því að hin íslenska og tékkneska þjóð verði að öðlast sjálfstæði. Fleira er þó sameiginlegt með íslenskri og tékkneskri þjóðernisstefnu. Einn sá sem mest skrifaði um sögu Tékka í því skyni að skapa þeim þjóðernislega sjálfsmynd var tékkneski heimspekingurinn og forsetinn Tómas Masaryk (1850–1937). Masaryk var einn helsti baráttu- maður fyrir stofnun ríkisins Tékkóslóvakíu árið 1918 og síðan forseti landsins þangað til hann lést árið 1937. Hann skrifaði fjölda greina og bóka um tékkneska sögu sem þjónuðu því hlut- verki að sýna fram á sögulegan og náttúrulegan rétt Tékka til sjálfstæðis. Bent hefur verið á hvernig Masaryk leitaðist við í sínum skrifum að leiða í ljós að Tékkar hefðu eitt sinn verið frum- herjar á sviði vestræns stjórnarfyrirkomulags. Hann vildi sýna fram á að Tékkar hefðu verið upphafsmenn á sviði vestrænnar stjórnmála- legrar hugmyndafræði sem venjulega er kennd m.a. við upplýsingartímann og frönsku bylting- una. Þá er átt við hugmyndir eins og einstak- lingshyggju, frelsi, jafnrétti og lýðræðislega stjórnarhætti. Hlutverk sitt sem frumkvöðlar á þessu sviði segir Masaryk að Tékkar hafi ekki misst fyrr en með bardaganum á Hvítafjalli árið 1620 þegar tékkneskir aðalsmenn biðu ósigur fyrir Habsborgurum eins og áður var rætt. Hér er komið mjög gott dæmi um hvernig þjóðern- ismýtur voru skapaðar og sjálfsmynd þjóðanna mótuð. Það sýnir vel hvernig menntamaður sem vill að þjóð hans taki upp hjá sér nútímalega stjórnarhætti en finnur um leið fyrir vanmætti hennar gagnvart þeim hugmyndum sem í þeim felast, leysir málin. Hann segir í raun; það getur vel verið að menn haldi almennt að hugmyndir um frelsi einstaklingsins eða jafnrétti allra manna hafi fyrst orðið til í Englandi eða í Frakk- landi en það byggist eingöngu á vanþekkingu og misskilningi. Þessar hugmyndir eru í raun upp- runnar hér hjá okkur og ekki nóg með það, þær eru eðlislægur hluti tékknesku þjóðarsálarinn- ar. Það eina sem sögulega hefur komið í veg fyr- ir að þessir eiginleikar Tékka fengju notið sín til fulls, þeim sjálfum og öðrum jarðarbúum til góðs, hafa verið erlend yfirráð, þ.e. yfirráð hinn- ar austurrísku, þýskumælandi yfirstéttar. Með þessu vildi Masaryk að sjálfsögðu sýna fram á að Tékkar ættu óumdeilanlegan rétt á að teljast meðal nútíma lýðræðisþjóða. Aðferð íslenskra menntamanna til að gera nútímaþjóð úr Íslend- ingum og byggja upp íslenska sjálfsmynd var á margan hátt lík aðferð Masaryks. Íslenskir þjóðernishugmyndafræðingar voru, líkt og tékk- neski forsetinn, mjög ákveðnir í að sýna fram á að einstaklingshyggja og hugsjónir nútíma vest- rænna stjórnarhátta hefðu blómstrað á Íslandi þegar á miðöldum. Í því sambandi er rétt að minna á að hugmyndir um einstaklinginn eins og við þekkjum hann nú á dögum urðu að mati fræðimanna ekki til fyrr en á 17. öld eða þar um bil. Þá fór sú hugmynd að þróast að maðurinn hefði rétt til að ráðstafa lífi sínu að sinni eigin vild. Þangað til á síðmiðöldum var litið á mann- inn fyrst og fremst sem hlekk í samfélaginu þar sem hann hafði fyrir fram ákveðnu hlutverki að gegna. Einstaklingshyggja í þeim skilningi að maðurinn ætti rétt á frelsi og að menn skyldu vera jafnir gagnvart lögum var ekki fyrir hendi. Þess vegna hefur það litla merkingu að nota hugtök á borð við frelsi mannsins, jafnréttishug- sjónir og lýðræðislega stjórnarhætti um skipan stjórnmála í þjóðfélögum miðalda þar sem allt önnur viðhorf ríktu til einstaklingsins. Þetta er hins vegar meginatriði bæði í íslenskri og tékk- neskri þjóðernisgoðsögn. Aðalskýring íslenskra þjóðernissinna á því að íslensku landnámsmenn- irnir flúðu Noreg og settust að á Íslandi er sú að ekkert var þeim jafnheilagt og einstaklingsfrelsi þeirra. Þannig segir sagnfræðingurinn Bogi Melsteð (1860–1929) í bókinni Þættir úr Íslend- inga sögu, sem út kom árið 1909, að það hafi strítt gegn frelsis- og sjálfræðisanda útflytjend- anna frá Noregi að koma á einu framkvæmda- valdi í sínu nýja heimalandi, þeir sem gátu þolað að hafa yfir sér framkvæmdavald og yfirráð eins manns voru, samkvæmt Boga, kyrrir í Noregi, þeir sem gátu það ekki fluttu burt. Sú sjálfs- mynd sem þessi saga boðar er að sjálfsögðu skýr: frelsisástin er eitt helsta einkennið á hinni íslensku þjóðarsál. Í tékkneskri sögu er hreyf- ing Hússítanna sem áður hefur verið rædd talin eitt helsta dæmið um ást þjóðarinnar á frelsi ein- staklingsins. Bæði Palacký og tékkneski forset- inn Masaryk túlkuðu Hússítahreyfinguna og kenningar Húss á þann veg að með þeim hefði Bæheimur orðið fyrsta landið í Evrópu þar sem varð til fjöldahreyfing með einstaklingsfrelsi mannsins að leiðarljósi. Þar hefði í fyrsta sinn myndast andstaða gegn máttarstólpum miðalda- þjóðfélagsins, blindri trú á yfirvöld, híerarkískri þjóðfélagsskipun og lénsveldisfyrirkomulagi. Þar með hefðu Tékkar orðið frumkvöðlar í slík- um efnum og siðbreytingartilraunir Hússítanna voru samkvæmt þeim fyrsta skrefið í hinu al- heimslega sögulega ferli gegn blindri hlýðni ein- staklinga við yfirvöld. Eftir það sem hér hefur verið rakið þarf því ekki að koma á óvart að báðar þessar þjóðir, Ís- lendingar og Tékkar, höfðu svipaða afstöðu til lýðveldisstofnunarinnar hvor í sínu landi, í Tékkóslóvakíu árið 1918 og á Íslandi árið 1944. Hvorug þjóðin lét sér nægja að líta svo á að stofnað hefðu verið lýðveldi með nútímastjórn- arfyrirkomulagi. Þvert á móti voru þær báðar sannfærðar um að á miðöldum hefðu ríkt lýð- ræðislegir stjórnarhættir í löndum þeirra og ár- in 1918 og 1944 þegar þjóðirnar fengu sjálfstæði hefðu hin fornu lýðveldi loksins verið endurreist. Einnig er að finna þá hugmynd meðal beggja þjóða að hið forna gullaldarlýðræði þjóðanna tveggja hefði verið nokkurskonar undanfari vestrænna nútímastjórnarhátta. Vestrænt lýð- ræði ætti þegar öllu væri á botninn hvolft rætur sínar að rekja til stjórnarfars miðalda á Íslandi samkvæmt íslenskum þjóðernissinnum eða í Bæheimi samkvæmt tékkneskum þjóðernis- sinnum. Hugmyndin um lýðræðislegt stjórnarfar á tímum íslenska þjóðveldisins birtist víða í ís- lenskum heimildum á 20. öld en hana má m.a. sjá skýrt í grein frá árinu 1929 eftir Ólaf Lárusson, lagaprófessor. Greinin ber nafnið „Stjórnarskip- un og lög lýðveldisins íslenzka“ og birtist í Tíma- riti þjóðræknisfélags Íslendinga í Winnipeg. Ólafur segir að þegar kom fram á miðja þrett- ándu öld hafi Íslendingar búið við lýðveldi í þrjú hundruð ár, einir þjóða, en allan þann tíma mátti „segja að lýðveldishugmyndin væri óþekkt í Evrópu“. Ísland hafði auk þess út frá bæjardyr- um Ólafs Lárussonar hlutverk frumkvöðulsins í stjórnmálasögu heimsins, af því fræi sem lá falið í hinu nána sambandi goða og bænda segir Ólaf- ur að hafi löngu síðar sprottið „lýðræði nú tím- ans með vestrænum þjóðum“. Svipaðar hug- myndir ríktu suður í Bæheimi en þar voru þær að vísu fyrr á ferðinni. Samkvæmt Frantisek Palacký átti lýðræðisþróun síðustu alda í Evr- ópu rætur sínar að rekja til lýðræðis hinna fornu Slava. Palacký taldi að lénsskipulag með léns- herrum og bændum sem væru þeim ánauðugir hefði aldrei náð fullri fótfestu í Bæheimi vegna þess að hinn forni slavneski andi sem hafnaði allri stéttaskiptingu lét aldrei undan fyrir léns- veldinu. Á tímum Hússítanna á 15. öld náði hinn sami slavneski andi sér aftur á strik samkvæmt Palacký en sú skoðun hans að gullöld Tékka hafi verið lýðræðisleg rétt eins og gullöld Íslendinga og að Hússítarnir hafi verið lýðræðissinnar er einn af meginþáttum tékkneskrar þjóðernis- mýtu. Þessar hugmyndir komu vel fram í ræðum sem haldnar voru í tilefni af stofnun lýðveldanna tveggja árið 1918 og 1944. Í ræðu sinni á lýðveld- ishátíðinni 1944 sagði Einar Olgeirsson: „Við höfum skapað nýtt lýðveldi í Evrópu í gær – end- urreist elzta lýðveldi hinnar gömlu Evrópu.“ Ef skoðuð eru dagblöð frá þessum tíma er mjög víða talað um endurreisn lýðræðisins. Sömuleið- is sagði Tómas Masaryk í fyrstu ræðunni sem hann hélt sem forseti Tékkóslóvakíu árið 1918 að spádómurinn um hina tékknesku þjóð væri nú loksins uppfylltur enda tengdi öll saga hennar hana við lýðræðisþjóðir heimsins. Hugsjónir Hússítanna, þjáningar tékknesku þjóðarinnar þegar siðskiptin voru brotin á bak aftur og síðan endurfæðing þjóðarinnar sem var mótuð af al- mennum lýðræðishugmyndum og mannúð sýndi að hin réttu örlög tékknesku þjóðarinnar voru nú loksins uppfyllt. Íslenskir og tékkneskir þjóðernissinnar og stjórnmálamenn kepptust þannig við að sýna fram á hvernig þjóðir þeirra hefðu blómstrað á gullöld, lent í hnignun og niðurlægingu með er- lendum yfirráðum en hjarnað við þegar baráttan fyrir sjálfstæði hófst á ný. Þegar á miðöldum voru þær taldar hafa haldið á lofti sömu hug- sjónum og stjórnkerfi Vesturlanda byggðist á mörgum öldum síðar. En samanburður á þjóð- ernishugmyndum Íslendinga og Tékka sýnir einnig að það viðhorf að þjóðernið skilji þjóð- irnar hverja frá annarri á ekki á allan hátt við rök að styðjast. Margt af því sem við Íslendingar höfum löngum álitið að gerði okkur sérstaka og frábrugðna öllum öðrum, það hafa Tékkar ein- mitt talið að gerði þá einstaka meðal þjóða ver- aldarinnar. Þjóðernið virðist þannig ekki alltaf vera til marks um sérstöðu okkar heldur getur það þvert á móti verið sönnun þess að Íslend- ingar og „útlendingar“ eru um margt ákaflega líkir. Þann lærdóm getur hins vegar verið gott að taka með sér á tímum þegar svo mikið ríður á að þjóðir veraldar átti sig á sameiginlegum hagsmunum sínum í stað þess að leggja mesta áherslu á það sem skilur þær að. Helstu heimildir: John Hutchinson og Anthony D. Smith (ritstj), Nationalism. Oxford: Oxford University Press, 1994. Jón Jónsson Aðils, Íslenzkt þjóðerni. Alþýðufyrirlestrar. Reykjavík: Sigurður Kristjánsson, 1903. Magnús Jónsson, Alþingishátíðin 1930. Reykjavík: Leiftur, 1943. Thomas G. Masaryk, The Making of a State. Memories and Observations 1914-1918. London: George Allen & Unwin, 1927. Ólafur Lárusson, „Stjórnarskipun og lög lýðveldisins ís- lenzka“, Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga, 11, 1929 Franz Palacký, Geschichte von Böhmen. Größtentheils nach Urkunden und Handschriften. Prag, 1836-1865. Joseph F. Zacek, „Nationalism in Czechoslovakia“, Peter F. Sugar og Ivo Lederer (ritstj), Nationalism in Eastern Europe. Seattle: University of Washington Press, 1969. ÞJÓÐERNISINS Morgunblaðið/Golli estar þjóðir sköpuðu sér þjóðarímynd úr sögu sinni. Er þetta að breytast? Höfundur er sagnfræðingur og er með MA-próf á sviði Austur-Evrópufræða frá Lundúnaháskóla. Þjóðernið virðist þannig ekki alltaf vera til marks um sérstöðu okkar heldur getur það þvert á móti verið sönnun þess að Íslendingar og „útlendingar“ eru um margt ákaflega líkir.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.