Lesbók Morgunblaðsins - 22.12.2001, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 22.12.2001, Blaðsíða 11
Skildinganesi (f. 1786), sá ábúenda í Engey sem mest ber á. Pétur Benediktsson segir í óprentuðu riti sínu um Engey að hann hafi flutt „tvennt með sér til Engeyjar, nafnið og smíðahneigðina“. Hann var þekktur skipa- smiður og sennilega má eigna honum „Engeyj- arlagið“ sem síðar var kallað svo. Í samtíma- heimild er getið um „það lag sem hann brúkaði á skipum“ og tók öðrum fram. Reyndar hafa seinni fræðimenn eignað Engeyjarlagið sonum hans, Jóni og Guðmundi. Pétur drukknaði við Engey á leið frá Reykjavík að kvöldi 22. sept- ember 1852 og mun hafa verið við skál. Þjóð- ólfur greindi frá því nokkrum dögum síðar að bátnum hefði hvolft því bæði var dimmt og af- takaveður gekk að. Sonarsyni hans nýfermd- um skolaði á land í Engey og tókst að skríða heim undir bæ og varð bjargað. En lík Péturs og bát rak á land á Akranesi. Þrettán árum áð- ur hafði Pétur skrifað í Búnaðar-rit Suður- amtsins: „[Formanninum er] allt kapp best með forsjá ... Hann ætti að venja sig á að fara vel að sjó, og kalla ég það, ef hann sækir að vísu djarft, en situr ekki lengi, síst þegar tví- sýnt veður er á loptinu. Fyrir eingan mun ætti hann að bíða á sig myrkur á haustvertíðum, en róa heldur snemma, þá dagur er í vændum.“ Eigi má sköpum renna. Kristinn í Engey En Pétur hafði eignast lærisvein sem átti eftir að drottna yfir Engey í 40 ár. Þetta var Kristinn Magnússon frá Brautarholti á Kjal- arnesi, af þeirri nafntoguðu Kortsætt sem Íra- fells-Móri fylgdi. Kortsætt, handbók Írafells- móra (óprentað rit) eftir Pétur Benediktsson geymir mikinn fróðleik um þennan ættbálk. Kristinn gekk að eiga Guðrúnu dóttur Péturs árið eftir að faðir hennar drukknaði. Hún var rúmum 9 árum eldri en Kristinn og hafði að sögn hryggbrotið 11 biðla áður en hún játaðist honum. Hann var mikill athafnamaður til sjós og lands, skipasmiður, formaður, útgerðar- maður, oddviti og bóndi. Hann hélt áfram að smíða skip í anda tengdaföður síns og mága og þótti „bestur skipasmiður innan Garðskaga“, og á árunum 1853–75 smíðaði hann alls 220 skip og báta, allt frá tveggja manna förum upp í áttæringa. En framlag hans til seglabúnaðar er sennilega ekki ómerkara því eftir fiskveiða- sýningu sem hann sótti í Björgvin árið 1865 tókst honum að þróa seglabúnað sem síðar varð almennur á opnum bátum og skipum við Faxaflóa. Kristinn hóf jafnframt þilskipaút- gerð ásamt Geir Zoëga og Jóni Þórðarsyni í Hlíðarhúsum árið 1866 og er sú saga mikil og merk þótt ekki verði rakin hér. Þar með hófst hið mikla veldi Geirs og má rekja það til áhrifa fyrrgreindrar sýningar í Björgvin. Þrjú þilskip höfðu þeir félagar átt saman áður en Kristinn seldi Geir hlut sinn. Sigurður Ingjaldsson frá Balaskarði var um tíma háseti á fyrsta þilskipi þeirra Kristins. Honum farast svo orð í ævisögu sinni: „Það var siður Kristins að koma til okkar þegar við komum inn, og færa okkur eitthvert nýnæmi að gjöf, og eins þegar við fórum út, þá að gefa okkur tvo potta af rommi og hvítasykur í það og sagði okkur að hita púns til að gleðja okkur á leiðinni út. Líka var hann alúðlegur við okk- ur, svo okkur þótti vænt um hann.“ Eitt af þremur börnum þeirra Kristins og Guðrúnar komst upp, sonurinn Pétur. Þótti hann afbragð annarra manna. Hann missti heilsuna 33 ára og lést tveimur árum síðar, 1887. Hann og kona hans, Ragnhildur Ólafs- dóttir frá Lundum í Stafholtstungum, höfðu þá eignast fjórar dætur. Um mannfjölda og fleira Frú Ingibjörg húsfreyja á Bessastöðum gat þess í bréfinu frá 1833 að Engey hefði verið „feikna dýr“. Um aldir hafði hún talist verð- mæt eign. Hún var til dæmis mun hærra metin en Laugarnes; árið 1520 er hún metin til 30 hundraða en Laugarnes 20. Fyrir grúskara er fróðlegt að kynnast eignarhaldi þessara jarða og málaþrasi sem löngum hefur fylgt því. Ég rek þá sögu í BA-ritgerð frá 1970 sem nálgast má á Háskólabókasafni. Þar koma margir höfðingjar við sögu og hefur þeim þótt eignin góð þó ekki hafi hún talist til höfuðbóla. Af eig- endunum má nefna Ögmund biskup Pálsson, síðasta katólska biskupinn í Skálholti, og Gísla lögmann Hákonarson (d. 1631) sem sjálfur bjó í Engey um tíma; Odd lögmann Sigurðsson og Jón biskup Árnason í Skálholti. Athygli vekur að Engey og Laugarnes gengu gjarnan til dætra og tengdasona. Eins og vikið var að er ekki vitað hvenær bú í Engey hófst en af Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar má sjá að árið 1236 hefur verið búið þar rausnarbúi því að Sturla Sighvatsson fær þaðan „bæði mjöl og skreið“. Af þessu má ætla að útgerð hafi þá þegar og löngum síðan verið mikilvæg undirstaða búrekstrarins enda aðstæður til lendingar allgóðar. Ekkert er vit- að hvort þar var fjölbýlt á fyrri öldum og um mannfjölda eru engar heimildir fyrr en 1703. Vitað er að kirkja var þar árið 1379 og bendir það til nokkurs fjólksfjölda þar um þær mund- ir. Í máldaga frá því ári segir að þar skuli vera heimilisprestur „ef bóndi vill“ og er það vís- bending um að einungis eitt býli hafi þá verið í eynni. Árið 1703 eru íbúar 47 (ábúendur fimm auk tveggja hjáleigubænda), en fækkar smátt og smátt á 18. öld og eru 24 árið 1801. Þetta er á mestu uppgangstímum Snorra ríka en þá er eins og fjölbýli leggist þar af því árið 1801 er aðeins getið um fjölskyldur í húsmennsku. Íbúar eru 44 árið 1845 og 47 fimmtán árum síð- ar. Þá fækkar þeim lítillega og eru 35 árið 1880 og 38 árið 1901. Um Brynjólf í Engey Þegar hér er komið höfðu ábúendur verið tveir um langt árabil, fyrrnefndur höfðingi, Kristinn Magnússon, og Brynjólfur Bjarnason frá Kjaransstöðum á Akranesi. Hann gekk ár- ið 1868 að eiga uppeldisdóttur Kristins og Guð- rúnar í Engey sem jafnframt var systurdóttir Guðrúnar, Þórunni Jónsdóttur. Geta má þess að dóttir þeirra, Guðrún, giftist Þorsteini Þor- steinssyni í Þórshamri, nafnkunnum útvegs- manni sem lært hafði til sjómennsku á Engey, einu af þilskipum Kristins. Brynjólfur var af- kastamikill bátasmiður enda lærisveinn Krist- ins í Engey. Hann var jafnframt útvegsbóndi og farnaðist vel. Hann bjó lengstum á 1⁄3 hluta eyjarinnar og keypti hann árið 1905. Skömmu síðar tóku tveir sona hans við búinu og bjuggu þar fram eftir 5. áratug síðustu aldar. Ragnhildur Ólafsdóttir En víkjum þá aftur að Kristni Magnússyni og tengdadóttur hans, Ragnhildi Ólafsdóttur. Hún var aðeins 33 ára þegar Pétur maður hennar lést. Heimilið var stórt (um 20 manns) og Guðrún tengdamóðir hennar farin að reskj- ast. Það kom því í hlut Ragnhildar að annast bústjórn innan húss og reyndar utan húss að miklu leyti einnig því Kristinn varð blindur um þetta leyti, þá um sextugt. Undir stjórn Ragn- hildar var heimilið rómað fyrir myndarskap. Ýmsar nýjungar flutti hún inn og nægir þar að nefna eina af fyrstu prjónavélunum á Suður- landi og skilvindu. Ragnhildur naut aðstoðar bróður síns Ólafs við ýmsar nýjungar í búskap; hann hafði numið við búnaðarskóla í Noregi 1877–79 en gerðist síðar bóndi í Lindarbæ í Holtum (faðir Ragn- ars Ólafssonar lögfræðings og þeirra bræðra). Mun hafa verið sóst eftir mjólkurafurðum frá Ragnhildi í Engey. Æðarvarp hófst til vegs í Engey undir umsjá Kristins og síðar Ragnhildar. Þegar best lét fengust þar 90 pund af hreinsuðum dún sem er gríðarmikið þegar þess er gætt að af 10 pund- um dúns fást einungis tvö til þrjú af hreins- uðum dún. Dætur Ragnhildar og Péturs voru Guðrún sem giftist Benedikt Sveinssyni alþingis- manni; Ragnhildur sem giftist Halldóri Kr. Þorsteinssyni skipstjóra og útgerðarmanni í Háteigi (bróður fyrrnefnds Þorsteins í Þórs- hamri og hins nafnkunna tónlistarmanns, sr. Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði); Ólafía; og Maren sem giftist Baldri Sveinssyni ritstjóra, bróður Benedikts. Fimm árum eftir lát Péturs giftist Ragnhildur Bjarna Magnússyni frá Digranesi í Seltjarnarneshreppi; hann hafði al- ist upp hjá Kristni og Guðrúnu í Engey frá 8 ára aldri. Um tíma var hann skipstjóri á einu af þilskipum Kristins. Bjarni og Ragnhildur eign- uðust eina dóttur, Kristínu, sem síðar giftist Helga Tómassyni yfirlækni á Kleppi. Til fróð- leiks skal þess getið að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra var skírður í höfuðið á Bjarna Magnússyni, stjúpföður móður sinnar, Guðrúnar Pétursdóttur. Eftir afa sínum, Pétri Kristinssyni í Engey, er svo Pétur Benediks- son heitinn en Kristinn Magnús Baldursson lögfræðingur eftir langafa sínum Kristni Magnússyni í Engey. Ragnhildur Helgadóttir fyrrverandi ráðherra er skírð eftir ömmu sinni, Ragnhildi í Engey. Og svona mætti víst halda áfram. Þau Ragnhildur og Bjarni reistu myndar- legt íbúðarhús úr timbri í Engey árið 1896. Og Brynjólfur reisti hús á sínum parti skömmu fyrir aldamót (austurbærinn). Þessi hús stóðu á háeynni fram undir 1970 að þau voru brennd. Ragnhildur og Bjarni keyptu sinn hluta í Eng- ey árið 1905, „meðfram til þess að geta selt aft- ur ásamt húsinu,“ eins og segir í minningar- grein um Ragnhildi. Tímar voru nú breyttir. Það var orðið erfitt að fá fólk til starfa í Engey og góða menn á bátana. Þau hjón afréðu að selja hlut sinn í eynni árið 1907. Ef til vill hefur Ingvarsslysið svokallaða orðið til að hraða þessari ákvörðun eitthvað. Bjarni varð áhorfandi að því úr Eng- ey þegar þilskipið Ingvar fórst úti fyrir Viðey 7. apríl 1906 og með því 20 menn. Skipstjóri var Tyrfingur Magnússon, bróðir Bjarna, og hafði hann að nokkru alist upp í Engey. Ragn- hildur lést árið 1928 en Bjarni 1952, þá kominn á tíræðisaldur. Báturinn dreginn yfir eyna Hér hefur einkum verið dvalið við hina svo- kölluðu Engeyjarætt, afkomendur og tengda- fólk Snorra ríka. Skylt er að víkja að lokum aft- ur að börnum Brynjólfs Bjarnasonar sem síðust afkomenda Snorra ríka bjuggu í eynni. Haustið 1945 var þar ekki mannmargt, aðeins bræðurnir Bjarni og Brynjólfur, systir þeirra og kona Brynjólfs. Bjarni veiktist hastarlega skömmu fyrir jól. Útsynningur var og ekki við- lit að komast frá eynni sunnanverðri. Tók þá Brynjólfur það ráð að láta hest draga bátinn yfir þvera eyna. Með aðstoð kvennanna tveggja og Bjarna, sem hafði þrek til að teyma hestinn, tókst Brynjólfi að koma bátnum á sjó við norðanverða eyna. Þeir bræður komust svo í land í Vatnagörðum. En Bjarna varð ekki bjargað; hann lést skömmu síðar. Þá var þess skammt að bíða að ætt Snorra ríka hyrfi af vettvangi Engeyjar. Heimildir: Hér hefur verið stuðst við fyrrnefnda BA-ritgerð mína frá 1970. Við samningu hennar naut ég nálægð- arinnar við þær tvær Engeyjarsystur sem þá voru enn á lífi, ömmu mína Marenu Pétursdóttur (f. 1884) og Ólafíu (f. 1881). Þær fræddu mig m.a. um örnefni í eynni og hef ég birt grein um þau í Landnámi Ingólfs 3 1985. Skylt er einnig að geta þess að ég fékk að nota að vild vélritað rit Péturs Benediktssonar um Engeyjarætt sem var í vörslu ekkju hans, frú Mörtu Thors. Rit Pét- urs var mér vissulega ómetanlegt. Um aðrar heimildir verð ég að vísa að mestu til BA- ritgerðar minnar. Hér skal þó getið bókar Ólafíu Jó- hannsdóttur, Frá myrkri til ljóss 1925 (2. útg. 1957). Ólafía var í þrjú ár hjá Ragnhildi og Pétri í Engey og lýsir heimilisháttum afbragðsvel. Guðrún Pétursdóttir skrifar um æskuheimili sitt í bókinni Móðir mín árið 1958. Þá skal bent á mjög fróðlega umfjöllun um útgerð Sel- tirninga í bók Heimis Þorleifssonar, Seltirningabók (1991). Höfundur er prófessor við Kennaraháskóla Íslands. Engeyjarsystur, dætur Ragnhildar í Engey: Guð- rún (sitjandi t.v.), Ólafía, Maren og Ragnhildur Pétursdætur og Kristín Bjarnadóttir (fremst). Bæjarhúsin í Engey sem Kristinn Magnússon byggði. Daninn Butz Müller tók þessa mynd um eða upp úr 1890. (Myndin er fengin úr bókinni Reykjavík. Sögustaður við Sund.) Húsin stóðu á háeynni eins og uppdrátturinn frá 1878 sýnir. Upp úr 1895 voru reist á sama stað tvö tvílyft timburhús sem minnst er á í greininni. Í ferðalýsingu Sophusar Tromholt, Breve fra Ultima Thule árið 1884 er þessi skemmtilega og afar fróðlega lýsing: „Eftir hálftíma komum við í Engey. Þar sem eyjan er hæst stendur bærinn: átta burstir í röð, íslenskur herragarður. Þér skuluð ekki vera hrædd við að ganga í bæinn. Eigandinn er óvenjulega gestrisinn, og ef þér farið inn í stássstofuna mun yður reka í rogastans: Teppi á gólfinu. Sófi og glæsilegt borð. Andlitsmyndir og málverk á fóðruðum veggj- um. Já, meira að segja heiðursskjal frá einhverri sýningu fyrir æðardún – í stuttu máli: allt er smekklegt og snyrtilegt, langtum fínna en maður býst við á íslenskum bæ. Yður mun boðið upp á eggja- snafs ásamt kaffi og afbragðs sætabrauði. Ó, að allir íslenskir bæir væru eins og þessi!“ Eigandinn sem hér er minnst á er greinilega Kristinn í Engey. Athafnamaðurinn Kristinn Magnússon í Engey og Guðrún Pétursdóttir með Pétri syni sínum . Pétur var eina barn þeirra sem upp komst. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 22. DESEMBER 2001 11

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.