Lesbók Morgunblaðsins - 22.12.2001, Blaðsíða 20

Lesbók Morgunblaðsins - 22.12.2001, Blaðsíða 20
20 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 22. DESEMBER 2001 1. „Ég skrifa bækur ekki eftir formúlu; maður sem teiknar, hann ljósritar ekki aðkeyptar myndir,“ segir Valgarður Egilsson krabba- meinslæknir sem var að senda frá sér skáld- söguna Waiting for the South Wind. Þetta er veraldarsaga drengs. Sögusviðið er yst við Eyjafjörð og sagan gerist upp úr seinna stríði. „Þetta er skáldsaga en fylgir 97% raunveru- leikanum – eða 93%, ég man ekki hvort.“ En hvers vegna er sagan skrifuð á ensku? „Ég lít á það eins og fasaskipti; eins og ef myndlistarmaður sem hefur unnið í gifs fer yf- ir í járn.“ 2. „Það sem rak mig til að skrifa söguna var það hve hrifinn ég var af þeirri veröld sem ég fæddist inn í. Ég held við höfum verið heppn- astir allra kynslóða: fengum nóg að éta, góða upplýsingu og rosalega góða alhliða líkams- þjálfun. Maður var á hlaupum fjóra tíma á dag. Utanhússtegund. Og veröldin var þá ennþá stabíl.“ 3. Á bókarkápu er mynd af Jóhanni Bessasyni, langafa Valgarðs, þekktum manni á sinni tíð. Hann var sagður líkastur þálifandi manna Agli Skallagrímssyni. „Það var mér mikill styrkur í æsku að vita af þessum trausta manni þótt hann væri löngu dauður. Það fór orð af verks- viti hans. Verksvit er fallegasta vit sem ég þekki.“ 4. Faðir drengsins kenndi honum; hann fór að- eins nokkrar vikur í skóla 12 ára og kveðst þá hafa lært tvennt: að tvö l væru í Halldór og að Saskatchewan-fylki væri í Kanada. „Ég held ég sé síðasti strákurinn í Evrópu sem fór ekki í skóla fyrir utan einhverja sem fundust í dal í Albaníu. Það ætti náttúrlega að stoppa mann upp.“ 5. „Elsta minning mín úr bernsku tengist breskum hermönnum á götunni á Grenivík, þar sem ég er fæddur. Einn sími var í þorpinu, heima hjá okkur; það var símstöð sem móðir mín annaðist og foringi Bretanna kom daglega til að hringja, hann þurfti að fylgjast með víg- stöðunni í veröldinni.“ 6. „Faðir minn sigldi á móti straumnum; við fluttum úr þorpinu út í sveit þegar straum- urinn lá í þéttbýlið. Strákar sem alast upp ut- anhúss, þeir persónugera alla náttúruna. Vindurinn hafði 33 nöfn og snjórinn 22. Samt voru þetta dálítið harðneskjuleg lífsskilyrði. Það er eiginlega tilraun um þanþol mannsins sem ég er að segja frá í bókinni – í nyrstu byggðum við Atlantshaf.“ 7. „Ég hélt fram eftir öllu – fram á tánings- aldur – að það yrði mitt hlutskipti að verða teiknari. Þegar kom í menntaskóla fór maður að velta fyrir sér alls kyns heimspeki. En til að eitthvert vit yrði í heimspekinni fannst mér ég verða að þekkja manninn sem efnislegt dýr. Fór þess vegna í læknisfræði. Ég er þeirrar skoðunar að listamenn okkar ættu að fara á kúrsus í líffræði.“ 8. „Þó þetta sé veraldarsaga stráksins þá er hann samt í fylgd fullorðins manns og manns sem hrærst hefur í læknisfræði og líffræði. Sá maður veit að grænn litur á grasi jarðar er erfður frá móðurinni einungis, ekki frá föðurn- um og sama er að segja um líkamsvarma jarð- ardýra, hvatberarnir eru erfðir frá móður; vís- indamaðurinn hefur áhuga á rythma lifandi vera og á erfðum og hefur áhyggjur af 3% lög- máli eyðileggingarinnar, en strákurinn áhyggjur af haus hanans, hvað hann hugsi af- höggvinn.“ 9. „Eftir að orðið samkeppni var fundið upp, þá eru allir að flýta sér. En þú veist að sá sem flýtir sér, hann tapar tíma, hann upplifir lítið á meðan. Við ljóðagerð er til dæmis ekki ráðlegt að flýta sér, það bitnar á kvalitetinu. Sam- keppninni í þessu þjóðfélagi nútímans, flýt- inum, fylgir einhver heimspekileg markleysa, fólkið ætlar ekki að njóta neins. Íslendingar eru ekki lífslistarmenn. Lífsmáti og uppeldi eru í klemmu, lífsnautnin er að verða úti. Það vantar yfirlitsmenn að segja þetta upphátt, sérfræðingar geta það ekki. En bókin er semsé um lífsaðdáun stráksins. Hann var ekki að flýta sér.“ Heppnastir allra kynslóða Morgunblaðið/Ásdís VALGARÐUR EGILSSON læknir og rithöfundur. Eftir Skapta Hallgrímsson ÞAÐ er ekki á hverjum degi sem nýtt guðpjall lítur dagsins ljós. Það gerðist fyrir miðja síðustu öld er mjög merkir handritafundir áttu sér stað í Nag Hammadi í Suður-Egyptalandi 1945 og í hellum við Dauðhafið árið 1947. Þá fannst meðal annars Tómasarguðspjall sem kennt er við Tómas postula en hann er talinn hafa stofnað Tómasar- kirkjuna á Indlandi sem enn lifir góðu. Nú hefur það verið þýtt á íslensku úr koptísku af Jóni Ma. Ásgeirssyni, pró- fessor við guðfræðideild Háskóla Ís- lands, en það er talið hafa verið ritað upphaflega á grísku. Hann ritar einnig formála að guðspjallinu og skýringar aftan við það. Í inngangi er gerð nokkur grein fyrir apókrýfum ritum Nýja testamentinsins almennt, þ.e. ritum sem ekki voru tekin inn í Nýja testamentið þegar ákveðið var hvaða rit skyldu vera þar. Tóm- asarguðspjall er í flokki þeirra. Að mati höfundar var því vikið til hliðar með til- komu guðspjalla Nýja testamentisins og síðar af kennimönnum kirkjunnar sem líkaði ekki að hópar sem voru í andstöðu við stjórnir rómversk-kaþ- ólsku og grísk-kaþólsku kirknanna skyldu halda upp á það. Vitnað er í guð- spjallið í ritum nokkurra kirkjufeðra og öðrum fornum bókum, en síðan týndist það. Bókmenntastíll guðspjallsins er mjög ólíkur bókmenntaformi guðspjalla Nýja testamentisins en mikið af efni þess er líkt efni hinna svo kölluðu sam- stofnaguðspjalla (Matteusar-, Markús- ar- og Lúkasarguðspjalls) þó að textinn í heild sé miklu styttri. Ummæli Jesú og dæmisögur eru mest áberandi í Tómasarguðspjalli sem hafa á sér svipmót viskuhefðarinnar eins og hana er til dæmis að finna í Orðskviðum Salómons í Gamla testa- mentinu og Síraksbók sem tilheyrir apókrýfum ritum Gamla testamentis- ins. Höfundur inngangs telur að sú út- gáfa dæmisagna Jesú sem bæði er að finna í Tómasarguðspjalli og guðspjöll- um Nýja testamentisins séu uppruna- legri í riti Tómasar og því sé það með elstu þekktu heimildum um líf og kenn- ingu Jesú. Hann telur að Tómasarguð- spjall sé jafnvel í sumum tilfellum heimild guðspjallanna þó að sá mögu- leiki sé vissulega fyrir hendi, að hans mati, að áhrifa Nýja testamentisins geti hafa gætt í þýðingu guðspjallsins úr grísku á koptísku. Hvorki er sagt frá pínu og dauða Jesú né er þar túlkun að finna á lífi hans til dæmis í ljósi fyr- irheita Gamla testamentisins eins og í guðspjöllum Nýja testamentisins. Jón endar umfjöllun sína um guðspjallið á þeirri fullyrðingu að fundur þess sé upphaf umfangsmestu leitar „að rótum kristindómsins sem ekki eru lengur taldar liggja í kirkjulegu valdi eða post- ullegri helgisögn“ (s. 47). Hin postul- lega helgisögn er að hans mati túlkun guðspjallanna á lífi Jesú. Margir eru án efa ósammála skoð- unum Jóns Ma. um mikilvægi Tómas- arguðspjalls, sérstaklega þeirri fullyrð- ingu hans að túlkun guðspjalla á lífi Jesú sé postulleg helgisögn. Undirrit- aður hélt að guðfræðingar væru flestir búnir að leggja það túlkunarstig að baki fyrir löngu. Eigi að síður er mikill fengur að því að fá Tómasarguðspjall á íslensku og það varpar vissulega ljósi á líf frumkristninnar. Öll vinna við bókina er vönduð og málið hnökralaust. Nýtt guð- spjall Kjartan Jónsson BÆKUR Trúmál Höfundur: Tómas postuli. Þýðandi: Jón Ma. Ás- geirsson. 224 bls. Hið íslenska bókmennta- félag 2001 TÓMASARGUÐSPJALL HEIMSPEKI er sérstök fræðigrein aðskilin frá öðrum. En hún er sérstök líka í þeim skiln- ingi að samband hennar við aðrar greinar er ólíkt tengslum annarra greina innbyrðis og venzl hennar við sjálfa sig eru einnig sérstök. Það er mikil lenzka að kljúfa heimspeki nú- tímans í meginlandsheimspeki og engilsax- neska heimspeki eða rökgreiningarheimspeki. Vitið í þessum greinarmun er það að nokkur munur var á þróun heimspeki á meginlandi Evrópu á tuttugustu öld og á Bretlandi. Upp- götvun hinnar nýju rökfræði í lok nítjándu aldar og upphafi þeirrar tuttugustu hafði meiri áhrif á brezka heimspekinga en þá sem störfuðu í Þýzkalandi eða Frakklandi svo að dæmi séu nefnd. Þó var einn mikilvægasti höfundur hinn- ar nýju rökfræði Þjóðverjinn Frege en hans háttur á að iðka heimspeki breiddist ekki út meðal landa hans heldur hafði meiri áhrif í Bret- landi í gegnum skrif heimspekingsins Bertr- ands Russells sem var helsti áhrifamaður í þess- ari grein fræða á fyrrihluta tuttugustu aldar. Austurríkismaðurinn Ludwig Wittgenstein dvaldi nánast allan aldur sinn eftir að hann komst á fullorðinsár á Bretlandseyjum og var mikill örlagavaldur í engilsaxneskri heimspeki. Frege hafði mikil áhrif á Wittgenstein. Russell og Wittgenstein mótuðu rökgreiningarheim- speki á síðustu öld umfram alla aðra heimspek- inga. Á meginlandi Evrópu varð þróunin önnur. Sums staðar iðkuðu menn rökfræði af miklu kappi, til dæmis í Póllandi og sums staðar í Þýzkalandi, en það nána samband rökfræði við aðrar greinar heimspeki sem einkennir rök- greiningarheimspeki varð hvergi eins áberandi á meginlandinu og á Bretlandi. Á meginlandinu varð meira áberandi svonefnd fyrirbærafræði sem kennd er við þýzka heimspekinginn Ed- mund Husserl. Eitt einkenni hennar er að beina athyglinni að hversdagslegri reynslu fólks og reyna lýsa henni. Svo má ekki gleyma því að marxismi var áhrifamikill í heimspeki lengi fram eftir tuttugustu öld, sérstaklega á meg- inlandi Evrópu. Þá er ekki verið að vísa til þess marxisma sem iðkaður var í Austur-Evrópu en hann var nánast undantekningalaust fræðilega gagnslaus heldur í Vestur-Evrópu þar sem menn gátu óhræddir mótað skoðanir sínar á samfélaginu og þróun þess. Sá marxismi var áhrifamikill lengi fram eftir öldinni en er að miklu leyti jafn fræðilega gangslaus og sá sem mótaðist í Austur-Evrópu. Þó eru ákveðnir þættir hans sem vert er að hyggja að og halda til haga. Það má nefna tvennt. Annars vegar er það hugmyndin um hlutlæga hagsmuni og hins veg- ar um falska vitund eða það hvernig samfélags- öfl geta mótað hugmyndir manna um stöðu þeirra sjálfra og umhverfi sitt. Þess ber að geta að þessar hugmyndir eru ekki nein séreign marxista en túlkun þeirra á þeim er eftirtekt- arverð. Í þessari bók er greinarmunurinn á megin- landsheimspeki og rökgreiningarheimspeki stundum skilinn landfræðilegum skilningi. Í bókina er safnað saman verkum karlmanna, það er engin grein eftir konu í bókinni, sem iðkuðu heimspeki á síðustu öld og ólu aldur sinn á meg- inlandi Evrópu með einni undantekningu. Það er misskilningur að greinarmunurinn sé land- fræðilegur, hann er fyrst og fremst munur á af- stöðu til greinarinnar sjálfrar og þess arfs sem hún byggist á. Það er réttilega bent á í inngangi bókarinnar að meginlandsspekin sem boðið er upp á er öll byggð á afstöðu til þýzku hughyggj- unnar sem átti blómatíma sinn á nítjándu öld- inni. En það er þó ekki einfalt mál að greina þennan arf í þeim greinum sem hér eru þýddar á íslenzku. Staða þessara greina verður enn óljósari þeg- ar hugað er að því að margar þeirra ber nokkuð glögg merki áhrifa frá rökgreiningarheimspeki Heimspeki um heimspeki, hvað er nú það? BÆKUR Fræðirit Tíu greinar frá tuttugustu öld. Róbert Jack og Ár- mann Halldórsson (ritstj.). 252 bls. Hugvísindastofnun Háskóla Íslands 2001 HVAÐ ER HEIMSPEKI? Reuters Þýski heimspekingurinn Juergen Habermas (t.h.) við hlið Johannesar Rau forseta Þýskalands er Habermas tók við Friðarverðlaunum þýskra bókaútgefenda í Frankfurt 14. október sl.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.