Lesbók Morgunblaðsins - 09.02.2002, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 09.02.2002, Blaðsíða 11
þýska og franska undir annan. Helsti for- sprakki meginlandsheimspekinnar, Þjóðverj- inn Edmund Husserl (1859 – 1938), var t.d. undir miklum áhrifum frá David Hume og Michael Oakeshott (1900 – 1991), sem ég hygg að sé merkasti stjórnmálaheimspek- ingur Englendinga á tuttugustu öld, sótti einkum innblástur í rit Hegels. Margir af bestu heimspekingum aldarinnar voru líka algerlega fyrir utan þessa flokka eða til- heyrðu báðum jafnt. Hér má til dæmis nefna Austurríkismennina Ludwig Wittgenstein (1889–1951) og Karl Popper (1902–1994). Frá því um miðja tuttugustu öld hafa Bandaríkin haft afgerandi forystu í flestum greinum vísinda og fræða og þar er heim- speki ekki undan skilin. Margir af öflugustu talsmönnum meginlandshefðarinnar sem nú eru á dögum starfa fyrir vestan haf svo „meginlandsheimspeki“ er ekki bundin við meginland Evrópu. Rökgreiningarheimspeki hefur heldur aldrei verið bundin við ensku- mælandi lönd. Áður en nasistar hröktu hugs- andi menn burt frá Mið-Evrópu var höf- uðvígi hennar raunar í Vínarborg. Oft er erfitt að draga mörk milli heim- speki og annarra fræðigreina. Niels Bohr (1885 – 1962) er þekktastur fyrir afrek sín á sviði eðlisfræði. Hann er einn af frumkvöðl- um skammtafræðinnar. Alan Turing (1912– 1954) er frægastur fyrir uppgötvanir í stærðfræði og fyrir að vera einn af helstu upphafsmönnum tölvufræðinnar. Hugmyndir Bohr um túlkun skammtafræðinnar og það sem Turing hafði að segja um hugtök eins og aðferð, hugsun og vit hljóta þó að teljast með helstu stórtíðindum í heimspekisögu síðustu aldar. Fjölmarga aðra merka vís- inda- og lærdómsmenn má nefna sem lögðu heimspekinni lið þótt þeir störfuðu einnig að öðrum fræðum. Friedrich von Hayek (1899– 1992) var t.d. hagfræðingur en hefur þó um hálfrar aldar skeið haft ómæld áhrif á stjórnmálaheimspeki beggja vegna Atlants- hafs. Þessum þremenningum er hvorki hægt að skipa á bekk með meginlands- né rök- greiningarheimspekingum. Rétt eins og Popper og Wittgenstein og ótal aðrir eru þeir utan við svoleiðis flokkun, enda hafa merkimiðar og stimplar iðulega tollað illa við hina mestu andans menn. En er þá engin leið að henda reiður á heimspeki liðinnar aldar, búa til einhvers konar flokkunarkerfi til að koma skipulagi á fjölbreytileikann? Jú, það er til dæmis hægt að skipta stjórnmálaheimspekingum í frjáls- hyggjumenn og jafnaðarmenn og fleiri flokka. Siðfræðingum má t.d. skipta í þá sem telja að trúarleg rök skipti máli og þá sem viðurkenna aðeins veraldleg rök. Margir heimspekingar sem láta að sér kveða á víg- línum andstæðra skoðana taka afstöðu og þá er hægt að skipa þeim í sömu flokka og öðru fólki t.d. fylgismenn og andstæðinga Evr- ópusamruna, frjálsra fóstureyðinga, hval- veiða, kvótakerfis eða virkjana á hálendinu. Heimspekileg hugsun á erindi í umræður um alla þessa málaflokka (því þeir gefa allir til- efni til að benda á mótsagnir, fága hugtök, bera boð milli óskyldra umræðuheima og andæfa innantómu orðagjálfri) og yfirleitt taka heimspekingar þátt í þeim til þess að leggja lóð á aðra vogarskálina. Svona flokkun á heimspekingum eftir því hvaða skoðanir þeir aðhyllast verður seint mjög fræðileg eða nákvæm og ég býst við að einhverjum finnist hún ómerkilegri en flokk- un sem tekur mið af því hvers konar rann- sóknaraðferðir og rökfærslur þeir nota. En slík flokkun orkar trúlega alltaf jafntvímælis og sú skipting í meginlands- og rökgreining- arheimspeki sem stuðst er við í mörgum kennslubókum í hugmyndasögu. Fyrir þessu eru margar ástæður. Ein hin mikilvægasta er, að minni hyggju, að hugmyndaheimurinn tekur sífelldum breytingum, átakalínur fær- ast til, hugtök þróast og breytast. Heim- spekingar bregðast við þessu með því að til- einka sér ný glímubrögð. Það besta og merkilegasta í heimspeki hvers tíma verður til í átökum við hugtakalegar ógöngur, mót- sagnir og misskilning sem engin leið var að sjá fyrir og ekki eru neinar fyrirframgefnar aðferðir til að takast á við. Merkileg heim- speki er því oftast nær utan við alla flokka og kerfi sem menn kunna að nefna þegar hún kemur fram. Hún verður ekki felld und- ir neina stefnu eða „isma“ fyrr en eftir á. Sagan er ekki sögð fyrr en eftir hún gerist. Ær og kýr nútímamannsins Á síðasta fjórðungi 20. aldar hljóp tölu- verður vöxtur í íslenska heimspeki og hér á landi fjölgar mönnum sem numið hafa slík fræði nokkuð ört um þessar mundir. Þeir hafa sótt skóla víða um lönd og hér eru að verða til ágæt skilyrði fyrir frjóar og and- gæfar samræður milli ólíkra heimspekihefða. Hér er líka vaxandi þörf fyrir heimspeki því almenn menntun er á háu stigi og eins og fyrr segir þarf hinn fjölbreytti fræðaheimur nútímans á heimspekingum að halda til að túlka og tengja og bera boð milli ólíkra um- ræðuheima, krefja menn svara um hvað þeir meina og rýna í þankagang þeirra og hug- takanotkun. Á hverju ári gefa Mál og menning, Hið ís- lenska bókmenntafélag, Háskólaútgáfan og fleiri forlög út heimspekirit á íslensku, bæði þýdd og frumsamin. Þessi blómlega útgáfa sýnir svo ekki verður um villst að heim- spekin er orðin samofin menningu okkar. Þótt mestur hluti þess sem ritað er um heimspeki á íslensku tengist siðfræði er langt því frá að umræðan sé einhæf eða án tengsla við aðra þætti þjóðlífsins. Hitt er sönnu nær að íslensk heimspeki tengist ótal efnum þar sem óvissa er um hvernig best er að nota hugtök og menn rökræða ólíka sýn á tilveruna. Sem dæmi um svið þar sem ís- lenskir heimspekingar hafa látið til sín taka má nefna: Siðfræði heilbrigðisstétta (Vil- hjálmur Árnason); Átök um menntastefnu og skólapólitík (Kristján Kristjánsson); Siðferði og skyldur starfsstétta (Sigurður Kristins- son); Jafnrétti kynjanna (Sigríður Þorgeirs- dóttir); Kvótakerfið og eignarréttur á nátt- úruauðlindum (Hannes Gissurarson); Um- hverfismál (Páll Skúlason). * Hugmyndir eru ær og kýr nútímamanns- ins. Hann býr sig ekki undir lífsbaráttuna með því að eignast jarðnæði og fé á fæti heldur tryggir afkomu sína með því að afla sér hugmynda, kunnáttu og menntunar. Með tæknivæðingu, sérhæfingu og þróun samfélagsins eykst þörfin fyrir menntun og agaða fræðilega hugsun. Slík hugsun getur ekki ævinlega hliðrað sér hjá hugtakalegum ógöngum, hún verður stundum að brjóta sér leið í gegnum þær. Hún getur heldur ekki, a.m.k. ekki alltaf, einangrað sinn hugarheim frá þeim sem hugsa öðru vísi heldur verður finna leið til sameiginlegs skilnings. Túlkun, greining og gagnrýni af heimspekilegum toga er óaðskiljanlegur hluti af heiðarlegri þekkingaröflun og opinskárri umræðu. Sam- félag sem er upplýst, tæknivætt, opið og „dýnamískt“ þarf því sífellt á heimspeki að halda – ekki heimspeki sem lætur mönnum í té klisjur, einfaldar lausnir eða eitthvað þægilegt til að trúa á heldur heimspeki sem knýr þá til að efast. Slík heimspeki getur birst í gervi grafalvarlegra fræða. Hún á líka ljóðrænan tón og skáldlegt hugarflug. Stundum tjáir hún sig með ströngum rómi siðapostulans eða með íbygginni rödd efa- semdamannsins en hún á það líka til að koma fram sem glaðhlakkalegt grín og oft er stríðnistónn í rödd hennar. Svona hefur þetta verið frá árdögum heimspekinnar í Grikklandi þar sem Sókrates dró þá sem gortuðu af yfirburðaþekkingu sundur og saman í háði, Demókrítos skellihló að hug- myndum samborgara sinna, Pyrron vefengdi hvert orð sem sagt var og Platon talaði í skáldlegum líkingum milli þess sem hann sagði mönnum til syndanna. Það fer tæpast hjá því að heimspekin sé dálítið pirrandi á stundum. Það er ekkert ákaflega skemmtilegt fyrir þá sem þykjast vita betur en aðrir þegar eftirmenn Demokrítosar hlæja að þeim eða einhver Sókratískur stríðnispúki bendir á mótsögn í máli þeirra. Það er heldur ekkert gaman að sitja undir því að rétt sé að nota hugtök á einhvern annan hátt en manni er tamt. Enn síður er mönnum skemmt þegar þeim er sagt að skoðanir þeirra á andstæðingum sín- um séu byggðar á tómum misskilningi. Ergi- legast af öllu er þó þegar einhverri heim- speki, sem maður álítur sjálfur að sé engin heimspeki heldur bara „heilbrigð skynsemi“, er andmælt hressilega og hún jafnvel kveðin algerlega í kútinn. Stundum hefur íslenskum heimspekingum tekist nokkuð vel að vera pirrandi á einmitt þann hátt sem góðir heimspekingar eiga að vera. Þetta gerði Þorsteinn Gylfason til dæmis fyrir um það bil tveim áratugum með ágætum greinum um sálarfræði og fleiri fé- lagsvísindi. Styttra er síðan Kristján Krist- jánsson fór skemmtilega í taugarnar á mörg- um með greinaflokki um póstmódernisma hér í Lesbókinni. Nútímafólk þarf á svona hrekkjalómum að halda. Þeir stugga við svefngöngum vanans. * Ef heimspeki nútímans er ruglingsleg þá er það líklega vegna þess að nútíminn þarf á heimspeki að halda. Sé hún pirrandi er trú- legasta skýringin sú að heimspekingarnir standi sig þokkalega í stykkinu. Falli hún hins vegar flestum í geð þá finnst mér að minnsta kosti vert að spyrja hvort hún sé nokkuð annað en hugsunarlaus kliður og vaðall í mönnum sem njóta þess að þykjast gáfaðir með því að bergmála ruglið hver úr öðrum. Höfundur er heimspekingur. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 9. FEBRÚAR 2002 11 Hvernig stofnar maður þjóðríki, til dæmis ef maður á jörð á Suðurlandi eða eyju á Breiðafirði? SVAR: Stofnast getur til ríkja með tvenns konar hætti. Í fyrsta lagi getur verið að land- svæði sé þegar háð yfirráðum eins eða fleiri ríkja. Ef svo háttar til getur nýtt ríki aðeins stofnast á svæðinu með einhvers konar samn- ingum við það ríki eða þá í kjölfar uppreisnar, stríðs eða annarra átaka, sem leiða til þess að íbúar viðkomandi svæðis taka stjórn þess var- anlega í eigin hendur. Íslenska ríkið varð til dæmis til á grundvelli sambandslagasamn- ingsins við Danmörku árið 1918, eins og flest- um er kunnugt. Önnur ríki hafa orðið til með meira eða minna vopnuðum átökum. Nýlegt dæmi um stofnun slíks ríkis er Erítrea sem var hérað í Eþiópíu allt til ársins 1991. Oft er þó sjálfstæðisþróun ríkja bæði grundvölluð á vopnaðri baráttu og síðan beinu og óbeinu samkomulagi við það ríki sem áður fór með yfirráð yfir svæðinu. Stofnun sjálf- stæðs ríkis Palestínumanna hefur til dæmis mjög verið til umræðu á undanförnum árum og er ljóst að þar koma bæði við sögu vopnuð átök og samningar, enda þótt ekki sjái fyrir endann á þeirri þróun. Mikilvægur þáttur í því að nýtt ríki geti þrifist í samfélagi þjóðanna er að það njóti viðurkenningar annarra ríkja og alþjóðlegra stofnana, en um það atriði er ekki ástæða til ræða frekar hér. Í annan stað kann tiltekið svæði að hafa ver- ið utan yfirráða nokkurs ríkis. Nýtt ríki getur þá stofnast á svæðinu í kjölfar landnáms (eða svæðið er fellt undir yfirráð annars ríkis með töku þess). Þetta á auðvitað aðeins við þegar svæði er ekki þegar talið vera háð yfirráðum einhvers ríkis, en auk þess verður svæðið að vera þess eðlis að unnt sé að gera tilkall til yf- irráða yfir því (lat. terra nullius). Surtsey varð til dæmis hluti íslensks yfirráðasvæðis þegar hún varð til á árunum 1963 til 1967. Íslenska ríkið á auðvitað rætur sínar í fundi og landnámi Íslands og stofnun allsherjarríkis sem almennt er færð til ársins 930. Í fram- kvæmd hafa þó oft risið vafamál um hvort unnt væri að nema landsvæði og færa þau undir yfirráð ríkja. Á dögum landafundanna litu ríki Evrópu til dæmis þannig á að lönd nýja heimsins væru ónumin og unnt væri að gera tilkall til yfirráða yfir þeim, enda þótt á þessum svæðum væru þegar fyrir hendi sam- félög manna sem fullnægðu í ýmsum tilvikum samkvæmt góðum rökum skilyrðum til að telj- ast ríki. Á seinni tímum hafa vaknað upp spurningar um ýmis lítt byggð eða óbyggð svæði. Norð- menn gerðu til dæmis tilkall til austurhluta Grænlands á fyrri hluta þessarar aldar og var deila Dana og Norðmanna leidd til lykta fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag. Íslendingar við- urkenndu ekki endanlega yfirráð Norðmanna yfir Jan Mayen fyrr með samningum árið 1981. Sérstæðasta dæmið um stofnun ríkis er eflaust svokallað Sjóland (e. Sealand) sem stofnað var árið 1967 á tilbúnu varnarmann- virki á Ermarsundi skammt utan landhelgi Stóra-Bretlands. Þótt Sjóland sé áhugavert frá fræðilegu sjónarmiði (meðal annars með hliðsjón af því hvort unnt sé að stofna ríki á manngerðu landsvæði) hefur það takmarkaða raunhæfa þýðingu þar sem það hefur ekki hlotið viðurkenningu neins annars ríkis svo kunnugt sé. Ýmis vafamál eru einnig fyrir hendi um endimörk ríkisyfirráða, til dæmis um yfirráð yfir heimskautunum og geimnum svo eitthvað sé nefnt. Hafa ber í huga að ekki eru öll svæði, sem eru utan yfirráða ríkja, þess eðlis að unnt sé að gera tilkall til yf- irráða yfir þeim. Þannig er til dæmis talið að ekki sé heimilt að kalla til yf- irráða yfir úthöfunum heldur eigi öll ríki þar jafnan rétt (lat. res communis). Af framangreindu má draga þá ályktun að stofnun ríkis á eyju á Breiðafirði eða jörð á Suðurlandi er veruleg- um erfiðleikum bundin. Þessi svæði eru þegar undir yfirráðum ís- lenska ríkisins og er ekki líklegt að þeim yrði afsalað eða stofnun ríkja á þeim samþykkt með neinum hætti. Engin þjóðaréttarleg rök myndu heldur styðja kröfur um að svæði sem þessi yrðu að fullvalda ríkjum. Jafnvel þótt einhverjum aðilum tækist að ná virkri stjórn á þess konar svæðum án samþykkis íslenska ríkisins er því mjög ólíklegt að þeir myndu njóta viðurkenningar annarra sem ríki í sam- félagi þjóðanna. Skúli Magnússon, lektor við lagadeild HÍ. Eru öll orð sem við notum venjulega í okkar máli til á táknmáli? SVAR: Þegar tvö tungumál eru borin sam- an er alltaf munur til staðar; hljóðkerfið er ólíkt, beygingakerfið og setningafræðin sömu- leiðis. Þetta á líka við þegar kemur að orða- forða tveggja mála. Hann er aldrei nákvæm- lega eins. Til dæmis er ekki til orð á ensku sem þýðir nákvæmlega það sama og íslenska sögn- in nenna. Hins vegar er hægt að koma sömu merkingu til skila og þá með orðasamböndum, útskýringum eða öðrum aðferðum. Í íslensku eru fjölmörg orð til um mismun- andi snjókomu en hins vegar má gera ráð fyrir því að orð um snjó séu ekki mörg til að mynda á arabísku. Hið sama gildir um táknmál. Í ís- lensku táknmáli eru ekki mörg tákn fyrir tón- list, hljóðfæri, hljóm eða tónfall. Orðaforði málsamfélags ræðst af umhverfinu sem það hrærist í og þeim umfjöllunarefnum sem upp koma. Af þessu leiðir að svarið við spurningunni er nei, ekki eru öll orð sem við notum venjulega í okkar máli til á táknmáli. Það eru heldur ekki til orð á íslensku fyrir öll tákn sem eru til á ís- lensku táknmáli. Samt sem áður duga bæði málin vel til að tala um hvaðeina, hvort sem er einfalda hluti eða flókna, heimspeki eða veð- urfar. Svandís Svavarsdóttir táknmálsfræðingur. HVERNIG STOFNAR MAÐUR ÞJÓÐRÍKI? Í vikunni sem er að líða leitaði Vísindavefurinn meðal annars svara við því hvers vegna þvotta- bretti myndast á malarvegum, hvers vegna gyðingar eru með kollhúfur, hvaða hlutverki kvarkar gegna í eiginleikum efnis og hvort karlmenn geti komist í kynni við fullnægingar kvenna. VÍSINDI Sveinn Björnsson forseti og fleiri á Þingvöllum 17. júní 1944 þar sem Gísli Sveinsson tilkynnti að lýðveldið Ísland hefði litið dagsins ljós. Morgunblaðið/Jón Sen

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.