Lesbók Morgunblaðsins - 09.02.2002, Blaðsíða 10
Arfurinn frá Locke og Kant
Undir lok 17. aldar urðu þáttaskil í enskri
heimspeki þegar John Locke (1632–1704)
skrifaði Ritgerð um mannlegan skilning.
Hliðstæð þáttaskil urðu í þýskri heimspeki
þegar Gagnrýni hreinnar skynsemi eftir
Immanuel Kant (1724 – 1804) kom út árið
1781. Í þessum tveim bókum birtust ný við-
horf til heimspekilegra fræða sem hafa mót-
að flest það besta sem unnið hefur verið á
þeim vettvangi síðan. Fyrir daga Locke og
Kants litu flestir menntamenn svo á að
heimspekin væri þess umkomin að skýra
fyrir mönnum hvernig heimurinn er og
hvers vegna hann er svona en ekki einhvern
veginn öðru vísi. Með vísindabyltingunni á
17. og 18. öld varð fleirum og fleirum ljóst að
menn gætu ekki aflað þekkingar á nátt-
úrunni öðru vísi en með reynslu og rann-
sóknum, úr heimspekilegum rökum einum
saman væri í besta falli hægt að byggja
skýjaborgir og loftkastala.
Locke og Kant þekktu báðir vel til í heimi
vísindanna. Kant vann fyrir sér með kennslu
við háskólann í Königsberg og meðal náms-
greina sem hann kenndi voru stærðfræði og
eðlisfræði. Locke var samverkamaður Newt-
ons og Boyle og þótt hann hafi sjálfur ekki
verið neinn stærðfræðingur gerði hann sér
grein fyrir því að auk reynslu og rannsókna
studdust hin nýju vísindi einkum við stærð-
fræðileg rök fremur en heimspekileg.
Það er ekki vanalegt að stilla þeim Locke
og Kant upp hlið við hlið, enda voru þeir
ólíkir um margt. En hugmyndir þeirra um
hlutverk heimspekinnar eru þó nauðalíkar
og þessar hugmyndir hafa heimspekingar
nútímans tekið í arf. Þeir höfnuðu því báðir
að heimspekin sé uppspretta þekkingar á
náttúrunni og mannlífinu. Slíkrar þekkingar
töldu þeir að menn yrðu að afla með aðferð-
um reynsluvísinda. En þessi vísindi styðjast
við hugtök, þankagang og rökvísi sem eru
engan veginn hafin yfir gagnrýni og leiða
menn raunar stundum á villigötur. Að áliti
Locke og Kants er hlutverk heimspekinnar
einkum að rannsaka, gagnrýna og leiðrétta
hugsunarhátt manna og hugtök. Einstakar
greinar vísinda og fræða skoða aðeins af-
markaða þætti veruleikans og nota oft hug-
tök sem vart eru skiljanleg öðrum en inn-
vígðum. Hér kemur líka til kasta
heimspekinnar að gera þankagang einnar
fræðigreinar skiljanlegan öðrum og tengja
saman þekkingu úr ólíkum áttum. Með orða-
lagi, sem ég held að sé ættað frá Páli Skúla-
syni háskólarektor, má segja að það sé hlut-
verk vísindamanna að pæla í veruleikanum
en heimspekingar pæli í pælingunni. Nánar
tiltekið fást þeir við að:
Tengja þekkingu, sem tiltæk er, saman í
heildarmynd af veröldinni og bera boð milli
óskyldra umræðuheima.
Leita uppi og benda á mótsagnir í skoð-
unum manna, viðhorfum, hugmyndum eða
kenningum. Til að
gera þetta þarf oft
að greina hugtök og
rannsaka rökleg
tengsl milli þeirra.
Lagfæra hugtök,
fága þau eða tálga til.
Þetta er stundum gert til
að sneiða hjá mótsögnum,
stundum til að koma í veg
fyrir margræðni og misskiln-
ing.
Andæfa hugsunarleysi, klisjum
og innantómu orðagjálfri og vefengja
ýmislegt sem er haft fyrir satt vegna þess
eins hvað það lætur vel í eyrum.
Viðfangsefni af þessu tagi hafa verið snar
þáttur í allri heimspeki frá því á dögum
Sókratesar og síðan Locke og Kant rituðu
áðurnefnd tímamótaverk hefur þeirri skoðun
vaxið fylgi að hún eigi ekki að fást við neitt
annað. Svona gagnrýni er ekki og hefur aldr-
ei verið bundin við eitt viðfangsefni öðrum
fremur. Hennar er alls staðar þörf þar sem
rökræður manna og pælingar lenda í ógöng-
um vegna þess að hugmyndir þeirra eru
mótsagnakenndar, hugtök ófullkomin, ein-
hver djúpstæður misskilningur á ferðinni
eða menn eru farnir að japla á innantómum
klisjum í stað þess að rökræða í alvöru. En
þótt heimspeki nútímans sé ekki bundin til-
teknum viðfangsefnum hefur hún mest látið
að sér kveða þar sem eru átök milli and-
stæðra hugmynda sem varða kjarnann í
heimsmynd manna eða gildismati.
Sé reynt að segja sögu heimspekinnar án
þess að tengja hana öðrum hræringum í
andlegu lífi þá virðist hún ósköp marklaus.
Við áttum okkur ekki á því lykilhlutverki
sem hún gegnir í allri vitsmunalegri
framþróun, hvort sem það er í vísindum,
stjórnmálum, siðferði eða almennum lífsvið-
horfum, nema við skoðum hana sem tilraunir
manna til að átta sig á mótsögnum í hug-
myndaheimi samtímans, skilja og greina
hugmyndafræðilegan ágreining, bera boð
milli ólíkra umræðuheima og krefja menn
svara um hvað þeir meina þegar málflutn-
ingur þeirra virðist kominn út í klisjur, stagl
eða rugl.
Annarlegar tungur
Á sautjándu og átjándu öld skipuðu evr-
ópskir lærdómsmenn sér í nokkrar meg-
infylkingar og mikilvægustu átökin voru á
milli talsmanna skólaspekinnar og þeirra
sem fylgdu Galíleó og öðrum frumkvöðlum
hinna nýja vísinda. Einnig tókust málsvarar
jafnréttis og einstaklingshyggju á við þá sem
vildu halda í samfélagsskipan frá miðöldum.
Þessar meginátakalínur í hugmyndaheimi
menntamanna fyrir tvö til fjögur hundruð
árum voru ekki ljósar þá á sama hátt og þær
eru núna. Hugmyndasagan er sögð eftir á.
Á nítjándu öld urðu átakalínurnar fleiri og
margbrotnari. Þá breikkaði bilið milli raun-
vísinda og húmanískra greina og þrætur
ólíkra stjórnmálahugmynda urðu flóknari og
fylkingarnar fleiri þegar rómantísk þjóðern-
isstefna og sósíalismi tóku að láta að sér
kveða. Átök veraldarhyggju og trúarlegra
sjónarmiða öðluðust líka nýja vídd með þró-
unarkenningu Darwins. Þessi flókni hug-
myndaheimur 19. aldar ól af sér margbreyti-
lega og sundurleita heimspeki og það er
miklu erfiðara að skipa höfuðspekingum 19.
aldar í flokka heldur en frumkvöðlunum í
heimspeki 17. og 18. aldar. Þegar kemur að
20. öldinni verður þetta ennþá flóknara. Ég
get mér þess til að í framtíðinni þyki mönn-
um að það merkasta í heimspeki 20. aldar
hafi annars vegar tengst átökum milli jafn-
aðarstefnu og frjálshyggju og hins vegar til-
raunum kristinna heimspekinga til að verja
leifar trúarlegrar heimsmyndar gegn ásókn
veraldarhyggju og vísindalegrar hugsunar.
En þetta eru ágiskanir einar því ég get ekki
horft á hugsun samtímans úr þeirri fjarlægð
að ég sjái skóginn fyrir trjánum og þá stærri
drætti í landslaginu sem nauðsynlegir eru til
að ná áttum. Hverri kynslóð þykir erfitt að
átta sig á heimspeki samtímans vegna þess
að á hverjum tíma lætur heimspekin helst að
sér kveða þar sem menn eru hvað áttavillt-
astir.
Hugmyndir nútímamanna eru í vaxandi
mæli hugmyndir allra þjóða og allra tíma
rétt eins og tónlist okkar er í senn tónlist
margra alda og heimsins alls. Í bókahillum
standa Hávamál og Bókin um veginn
kannski hlið við hlið eða Kóraninn og bækur
um kvenréttindi. Menningarheimur nú-
tímans, hugarheimur okkar, er fjölmenning-
arlegri og um leið gróskumeiri og „dýnam-
ískari“ en hugarheimur fyrri alda. Hug-
myndir, kenningar og heilar fræðigreinar
spretta fram hraðar en fyrr og í ríki andans
verða nýjar átakalínur til nánast á hverjum
degi. Það er því eðlilegt að viðfangsefni
nútímaheimspeki séu fjölbreytt og sundur-
leit.
Ég gat þess að á 19. öld hefði bilið milli
raunvísinda og húmanískra greina breikkað.
Fyrir fræðimenn úr öðrum hópnum var mál
hinna eins og á annarlegri tungu. Nú eru
þessi ólíku „mál“ orðin
miklu fleiri. Það má orða
þetta svo að verkaskipting í
heimi vísinda og fræða hafi
aukist. Fyrir 150 árum skildu flestir raunvís-
indamenn og stærðfræðingar hver annan og
svipaða sögu má segja um sagnfræðinga og
þá sem fengust við mannvísindi. En eftir því
sem þekkingin hefur aukist kemst minna
brot hennar fyrir í einu mannshöfði. Því er
vaxandi þörf fyrir menn sem geta borið boð
milli óskyldra umræðuheima og raðað þekk-
ingu úr ólíkum áttum saman í heildarmynd.
Slíkir menn þurfa að hafa þjálfun í heim-
spekilegri hugsun, þ.e. rannsókn á hugtökum
og gagnrýninni skoðun á hugmyndaheimi og
þankagangi samtímans. Þeir þurfa líka að
hafa meira en bara yfirborðsþekkingu á
þeim annarlegu tungum sem túlkaðar skulu.
Meintur klofningur
heimspekinnar
Sumir sem fjalla um sögu heimspekinnar á
20. öld gera greinarmun á meginlandsheim-
speki og rökgreiningarheimspeki. Sú fyrr-
nefnda kvað eiga sín sterkustu vígi í Þýska-
landi og Frakklandi en sú síðarnefnda
einkum vera runnin undan rifjum Breta og
Bandaríkjamanna. Þessi flokkun er ekki al-
veg úr lausu lofti gripin því Georg Hegel
(1770-1831) og heimspekingar sem andmæltu
Hegel, eins og t.d. Daninn Søren Kierkegård
(1813 – 1855), hafa lengst af verið mun
áhrifameiri í þýsku- og frönskumælandi
löndum en meðal þeirra sem rita á ensku.
Enskumælandi heimspekingar hafa hins
vegar verið undir meiri áhrifum frá raun-
hyggjumönnunum John Locke og David
Hume (1711 – 1776) og stærðfræðilegri rök-
fræði sem mótuð var af Gottlob Frege (1848
– 1925) og Bertrand Russell (1872 – 1970)
fyrir um það bil 100 árum. Einnig hefur
dæmigerð meginlandsheimspeki jafnan haft
heldur meiri tengsl við húmanískar greinar
og guðfræði heldur en rökgreiningarheim-
spekin sem hefur verið undir meiri áhrifum
frá hugsunarhætti raunvísinda.
Þótt víst sé fótur fyrir því að hægt sé að
skipta verulegum hluta af heimspeki tutt-
ugustu aldar í meginlands- og rökgreining-
arheimspeki er samt mikil einföldun að
halda að hægt sé að setja alla breska og
bandaríska heimspeki undir einn hatt og
HEIMSPEKI NÚTÍMANS
E F T I R AT L A H A R Ð A R S O N
„Ef heimspeki nútímans er ruglingsleg þá er
það líklega vegna þess að nútíminn þarf á
heimspeki að halda. Sé hún pirrandi er trú-
legasta skýringin sú að heimspekingarnir
standi sig þokkalega í stykkinu. Falli hún
hins vegar flestum í geð þá finnst mér að
minnsta kosti vert að spyrja hvort hún
sé nokkuð annað en hugsunarlaus
kliður og vaðall í mönnum sem njóta
þess að þykjast gáfaðir með því að
bergmála ruglið hver úr öðrum.“
HEIMSPEKI , T IL HVERS?
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 9. FEBRÚAR 2002