Lesbók Morgunblaðsins - 16.02.2002, Blaðsíða 9

Lesbók Morgunblaðsins - 16.02.2002, Blaðsíða 9
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 16. FEBRÚAR 2002 9 gróður, en líklega eitthvað í kvíslum og lænum á aurunum. Vatnadýr eiga erfitt uppdráttar vegna svifaursins. Í skýrslu Hilmars Malmquist og fé- laga 2001 kemur fram að lítið er um botndýr í ánni, eða 12–75 dýr á fersentimetra, og fer fjöldi þeirra vaxandi frá upptökum árinnar. Í Kringilsá fundust engin botndýr. Í þveránum er botndýra- fjöldinn margfalt meiri, oft á bilinu 3–10 þúsund dýr á fersentimetra, og hæstur í Desjará, um 60 þúsund að meðaltali. Rykmýslirfur eru ríkjandi í botnlífi ánna, en í Desjará er þó mikið af ánum (liðormum) og af botnkrabbadýrum í Laugar- vallaá. Ólíklegt er talið að nokkurt klak eða uppeldi fisks eigi sér stað í Jöklu sjálfri, en silungur og lax ganga í einhverjum mæli í ána úr sjó og upp í þverár í neðri hlutanum, svo sem í Kaldá, Fossá, Laxá og Hneflu. Nokkur veiði er sögð vera í Jöklu sjálfri frá ósi og upp að Blöndugerði. Laxá er lítil þverá hjá Fossvöllum, lygn og djúp neðst, en ofar með mörgum og fögrum fossum. Í hana gengur lax og hrygnir, þrátt fyrir að sláturhús við ána hefur spillt henni. Silungur (bleikja) er einnig í nokkrum þverám á hálendinu, þ.e. í Hrafnkelu, Laugarvallaá-Fiskidalsá og Sauðá vestari. Þar er um staðbundna stofna að ræða, því fossar hindra fiskigöngur úr Jöklu. Neðst á aurasvæði Jöklu og í hinum sameig- inlega ósi hennar og Lagarfljóts er mikið um landseli, og hefur þeirra orðið vart upp undir brúna hjá Sellandi. Fyrir nokkrum áratugum voru um 600 selir á aurunum, en hin síðari ár hafa þeir verið um 200. Urturnar koma í ána í byrjun maí og kæpa á sandeyrum og rifjum, eftir að áin hefur rutt sig. Kópaveiði hefur verið stunduð um langan aldur frá bænum Húsey, og var mest 200– 300 kópar árlega, á árunum eftir 1975. Tíðkast þar sérstök veiðiaðferð með reknetjum. Þá er mikið af grágæsum á aurasvæðinu síð- sumars, þær verpa meðfram ánni og leita út á hana í sárum. Heiðagæs verpur mikið við gilin í efri hluta árinnar. Hvorki fær bátum né hestum Í Íslandslýsingu Odds Einarssonar, sem talin er rituð um 1590, er eftirfarandi klausa: „Meira að segja veit ég um eitt foraðsfljót á austurhluta Íslands, sem hvorki er fært bátum né hestum. Hefur því einhvern tíma verið gerð þar hengibrú handa ferðamönnum, og lafir hún enn uppi nokkurn veginn. Á öðrum stað hefur ferða- mönnum einnig verið séð fyrir kláfferju, sem þannig er útbúin, að færa má hana til hvors bakk- ans um sig eftir kaðli, strengdum milli hamra. Kláf þennan dregur ferðamaðurinn til sín og fer í hann, en togar sig svo með handafli að hinum bakkanum.“ (Oddur Einarsson: Íslandslýsing. Rvík. 1971, bls. 56). Með sumarvatni er Jökla einhver torfærasta á yfirferðar sem fyrirfinnst hér á landi. Ástæðan er sú að hún rennur víðast hvar aðkreppt í gili eða gljúfri, og er yfirleitt mjög straumhörð. Þó voru á henni fáein vöð, en þau voru oft ófær langtímum saman. Lögferjur voru hjá Hofteigi og Sleðbrjót, en ekki var alltaf ferjufært. Þessar aðstæður hafa gefið tilefni til samgöngumannvirkja, sem eru sérstæð á íslenskan mælikvarða og jafnvel á heimsvísu. Klettagil árinnar er sums staðar ekki nema 20– 30 m breitt og þegar hún er vatnslítil rennur hún á stöku stað í nokkurra metra breiðum stokki, svo hún er jafnvel stökkfær. Innan við Eiríksstaði heitir Steinshlaup, og fylgir því saga. Örnefnið Fjalarfæri hittist á fáeinum stöðum við ána. Þar hafa menn lagt borð yfir stokkinn, þegar þeir þurftu að fara yfir. Jökulsá á Brú Þjóðsögur segja að náttúrlegur steinbogi hafi verið yfir ána hjá Brú, og hafi verið brotinn niður af tröllum vegna missættis þeirra. Einnig eru sagnir um að hann hafi brotnað í flóðum á 17. eða 18. öld. Páll Pálsson (1985) hefur leitt líkur að því að einhvers konar náttúrleg steinbrú hafi getað ver- ið hjá Brú, og jafnvel líka hjá Sellandi (Foss- völlum), þar sem örnefnið Steinbogi er þekkt. Slíkir steinbogar eru þó sjaldan færir nema gang- andi mönnum, og hefur því þurft að viðhafa ein- hverja brúargerð á þeim. Auk þess má ætla að áin hafi farið yfir þá í flóðum. Flestir sem um þetta fjalla gera því ráð fyrir trébrúm á ánni, auk hinna náttúrlegu. Getið er um brú eða brýr á ánni í Hrafnkels sögu og Droplaugarsona sögu, sem ritaðar eru á 13. öld, en þar segir ekkert um gerð þeirra. Bæj- arnafnið Brú og árnafnið Jökulsá á Brú benda einnig til slíkra mannvirkja. Margt bendir til að brú hafi verið hjá Brúarási (Fossvöllum) þegar á fyrstu öldum byggðar, m.a. svonefnt „Trébrúar- þing“. Elsta heimild um brúna er í Íslandslýsingu Odds, sem vitnað var til. Þar er hún kölluð „hengibrú“, og orðalag bendir til að hún sé göm- ul. Í heimildum frá miðri 17. öld er hún nefnd trébrú, og sögð vera eina brúin í landinu. Talið er að þýskir kaupmenn hafi byggt (eða endurbyggt) þar brú um aldamótin 1600, og Eggert Ólafsson ritar í Ferðabók sinni, að hún hafi brotnað í flóði 1625, en hefur líklega fljótt verið endurbyggð. Árið 1670 braut brúna í óveðri, og árið eftir var hún byggð aftur. Þá brú tók af í hlaupi árið 1696 (eða 1698). Enn var brúin endurbyggð um 1700, og síðan margoft, síðast úr steinsteypu 1931, og stendur hún enn, þótt ný brú hjá Sellandi hafi tekið við hlutverki hennar (Agnar Hallgrímsson 1968). Árið 1908 var Jökla brúuð við Klaustursel, og nú eru fimm brýr á ánni. Kláfar eða drættir eru þó sú „brúargerð“ sem frægust hefur orðið á Jökuldal, og næstum má segja að sé einkenn- andi fyrir dalinn og Jöklu. Stundum voru drætt- irnir aðeins einn kaðall, sem strengdur var yfir gilið, til að hala sendingar eða vörur yfir ána. Upphaflega hafa verið notaðir kaðlar úr húðum eða hampi og trétrissur. Í seinni tíð hafa drættir á Jökuldal verið gerðir af tveimur vírköðlum, sem strengdir eru yfir gilið, festir í lágar vörður. Á vörðunum eru svonefnd spantré til að strekkja þá. Lítill kassi (kláfur) rennur á fjórum trissu- hjólum á strengjunum, og er halaður yfir með kaðli, annaðhvort frá landi, eða af þeim sem er í kláfnum. Elsta heimild um drætti á Jökuldal er fyrr- greind heimild frá aldamótum 1600. Um 1840 voru fimm drættir á Jöklu, og 7 um 1874. Um 1940 voru sex drættir á Jöklu. Páll Pálsson (1985, bls. 89) segist vita um 11 „dráttarstæði“ við ána og 5–6 „dráttarvíra“. Drættir voru einnig á nokkrum þverám, svo sem á Hneflu, Gilsá, Þverá, Sauðá og Kringilsá. Sögur fara af því að menn hafi klifrað á drátt- arvírum yfir ána, þegar þurfti að sækja kláf, eða hann var bilaður, en til þess þurfti kjark og lagni. Nokkur dauðaslys hafa orðið af dráttum. Björn Þorkelsson (1939 /1993) nefnir 4 menn sem farist hafa af dráttum frá um 1860, en hjá tveimur eða þremur að auki skall hurð nærri hælum. Ekki er vitað hvar þessi farartæki eru upp runnin. Þau hafa lítið tíðkast hérlendis utan Jök- uldals, og erlendis er ekki kunnugt um beinar samsvaranir, nema e.t.v. í Suður-Ameríku. Nytjar og sport Lítið hefur farið fyrir beinum nytjum af Jöklu, ef frá er skilin selveiðin við ósinn. Vorflóð hennar á Eylendinu þóttu samt vera til bóta fyrir engjar, ef þau voru hófleg, en oftast voru gróður- skemmdir þó meiri en bætur. Áfok leirs af Jök- ulsáreyrum er talið auka grasvöxt. Áin hefur um aldir verið náttúrleg varnarlína fyrir sauðfjár- sjúkdóma og er svo enn. Síðustu ár hefur verið tekið gríðarmikið magn af möl úr Jökulsáreyrum við Stórabakka, og fyllir áin jafnóðum í þau skörð. Þó að Jökuldalur sé í þjóðbraut hefur hann ekki verið í miklum metum sem ferðamannaland. Flestir þeysa gegnum hann á hraðakstri og gefa honum neikvæða einkunn. Þetta er þó á misskiln- ingi byggt, og skorti á kynningu, enda eru nú teikn á lofti um að þetta viðhorf sé að breytast. Gljúfrin miklu eru farin að draga að sér fjölda ferðamanna á sumrum, og sömuleiðis ferðaþjón- usta í Klausturseli. Fáir staðir á Íslandi eiga eins góða möguleika á sögutengdri ferðaþjónustu og Hrafnkelsdalur. Síðast en ekki síst mun Jökla sjálf öðlast aukið gildi til útivistar og sports. Gönguferðir meðfram henni eru ótrúlega fjölbreyttar og áhrifamiklar. Aðeins þannig kemst gesturinn í samband við það mikla náttúruafl sem Jökla er. Siglingaíþróttir eru nýjar af nálinni hérlendis, en eiga trúlega eftir að verða vinsæll þáttur í ferðamennsku. Vegna straumþunga og fossaleys- is virðist Jökla vera kjörin til ársiglinga (rafting), sérstaklega vor og haust, þegar ekki er mikill vöxtur í henni. Gljúfrin miklu voru fyrst sigld á kajökum 1998, og síðan á gúmmíbátum 1999, og þótti mikið ævintýri, en ekki hættulaust. Aðrir hlutar árinnar væru betur til þess fallnir. Seiður Jöklu Þess munu fá dæmi að vatnsfall sé jafn heima- ríkt í dal sínum og Jökla. Það lætur því að líkum að áin er djúpstæður þáttur í hugarheimi þeirra sem við hana búa, þó að fæstir geri sér grein fyrir því. Á mörgum bæjum er áin svo yfirþyrmandi, a.m.k. að sumarlagi, að hún virðist alls staðar ná- læg og allt um lykjandi. Niðurinn heyrist jafnvel í gegnum svefninn. Vitundin um hættuna sem bíð- ur neðan við túnfótinn, gerir sitt til að auka spennuna. Sagt er að Lúðvík Þorgrímsson kennari, sem drukknaði af Merkiskláf 1934, hafi verið svo gagntekinn af Jöklu í vexti, að hann stóðst ekki freistinguna að fara yfir hana sjómikla að nauð- synjalausu. Sumarið 1939 fórst kona af Teigasels- drætti og var álögum um kennt. Síðast fyrir fáum árum hrapaði útlend kona í Jöklu við Brúarás, þar sem hún var stödd í hópi ferðafólks. Virtist sem áin hefði seitt hana til sín. Hollenskt par sem lenti með bíl sínum í Jöklu hjá Arnórsstöðum sumarið 2000, bargst á furðulegan hátt. Heimamenn taka ána sem sjálfsagðan hlut, rétt eins og vindinn og veðrið. Áin er óaðskilj- anlegur hluti af náttúru dalsins og umhverfi íbú- anna, og séu þeir spurðir hvort þeir vilji losna við hana vefst þeim tunga um tönn. Enginn hefur lýst þessu sambandi betur en Bjarni Benedikts- son frá Hofteigi í sögunni „Drengurinn og fljót- ið“. Nokkur kvæði hafa verið ort um Jöklu, m.a. ágætt kvæði eftir Friðrik Hansen á Sauðárkróki, nýlega fundið (óbirt). Þar er m.a. þessi vísa: Þig getur ekkert afl í heimi bundið og enginn brýtur gígjustrenginn þinn. Og hvenær verður meira og fegra fundið en finna að ekkert bugar kraftinn þinn? Þú hlærð svo frjáls að hlekkjum þúsund ára því hjá þér vaggar frjáls hin minnsta bára. Ekki fer nærri eins miklum sögum af furðu- dýrum í Jöklu eins og í Lagarfljóti, og má það undarlegt teljast. Þó herma sögur að skrímsli hafi sést í ánni, fyrir ofan brúna hjá Fossvöllum. Sögur hafa gengið um að menn hafi riðið yfir Jöklu á hreindýrum, og komst afbrigði hennar í skáldsögu Halldórs Laxness: Sjálfstætt fólk. Vá og væntingar Nú eru áformaðar svo miklar breytingar á Jöklu, í tengslum við svonefnda Kárahnjúka- virkjun, að eftir þær verður hún óþekkjanleg. Ráðgert er að stífla ána við Fremri-Kárahnjúk, og veita vatni hennar um jarðgöng til virkjunar í Fljótsdal og síðan í Lagarfljót. Innan við stífl- urnar myndast lón á stærð við Löginn, um 30 km langt og allt að 2 km breitt. Það mun fylla efsta hluta Jökuldals af jökulvatni, og síðan af jökulaur á nokkum öldum. Neðan við stíflur verður áin því jökulvatnslaus, nema þegar yfir þær rennur síð- sumars, sem gerast mun í flestum árum. Með- alrennsli árinnar minnkar um meira en helming neðantil. Jökulaurinn hættir að berast út á Eyr- arnar, þar sem talið er að hið breytta vatnsfall muni grafa sig niður, og ströndin við Héraðsflóa mun færast inn um nokkur hundruð metra á næstu öld. Aðrir virkjunarmöguleikar í Jöklu hafa lítið verið kannaðir eða kynntir. Þar á meðal er svo- nefnd „þrepavirkjun“. Er þá vanalega gert ráð fyrir 4–5 stíflum, með tilheyrandi lónum, um endilangan dalinn, og myndi um þriðjungur dal- botnsins fara á kaf í þau. Þykir það að vonum ekki aðgengilegt. „Rennslisvirkjun“ án verulegrar miðlunar væri hins vegar óskakostur frá sjón- armiði verndunar. Slík virkjun yrði óstarfhæf mikinn hluta ársins, og gagnast því ekki sem orkugjafi stóriðju, hins vegar gæti hún notast til vetnisframleiðslu. Sumir Héraðsbúar hafa átt sér þann draum að breyta óhemjunni Jöklu í silfurtæra bergvatnsá, með „vatnareyðar sporðablik“ og laxveiðihyljum. Með umgetnum virkjunaráformum telja þeir drauminn vera að rætast. Þetta er þó harla óraunsæ skoðun, því að í fyrsta lagi losna menn ekki við jökulvatnið varanlega, og í öðru lagi mun hálftómur árfarvegur verða lítið aðlaðandi fyrir fiska og menn. Stóra spurningin er nú hvort það afl sé komið til sögunnar, sem brotið geti „gígjustreng“ Jöklu, og hvort Íslendingar nútímans verði svo skamm- sýnir að láta það viðgangast. Helstu heimildir: Agnar Hallgrímsson, 1968: Brúin á Jökulsá á Dal.– Múla- þing 3: 26-57. Bjarni Benediktsson frá Hofteigi, 1964: Drengurinn og fljótið.– Því gleymi ég aldrei III: 35-45. Björn Þorkelsson, 1993: Brot úr sögu dráttanna á Jökuldal. – Glettingur 3 (1): 19-21. Helgi Hallgrímsson, 2001: Gengið með Gljúfrunum miklu. Lýsing gönguleiða. Egilsst. 32 bls. Hilmar Malmquist o.fl., 2001: Vatnalífríki í virkjanaslóð. Áhrif fyrirhugaðrar Kárahnjúkavirkjunar... á vistfræði vatnakerfa. Unnið fyrir Náttúrufræðist. og Landsv. 254 bls. Páll Pálsson, 1985: Um steinboga og trébrýr á Jökulsá á Dal. – Afmælisrit UMFJ 1925–1965: 70–90. Sigurjón Rist, 1990: Vatns er þörf. Menningarsjóður, Rvík. 248 bls. Stefanía Karlsdóttir, 1989: Stuðlaberg við Jökulsá á Dal. – Áfangar 35 (4): 56–57. Morgunblaðið/RAX rennur úr þröngum gljúfrum til norðurs. Kláfur yfir Jöklu. Í kláfnum er Sigríður Jónsdóttir, sem lengi var póstmeistari á Egilsstöðum, en Brynhildur Stefánsdóttir, ljósmóðir frá Merki á Jökuldal, stendur hjá. Ljósmyndari ókunnur. Höfundur er líffræðingur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.