Lesbók Morgunblaðsins - 21.12.2002, Side 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 21. DESEMBER 2002
E
INU sinni seint á tuttugustu öld
voru fimm gamlir vinir sem
bundust um það fastmælum að
hittast í Laugardalsgarðinum í
Reykjavík á aðfangadag 2002.
Þeir reiknuðu með að verða
horfnir úr heimi fyrir þann
tíma og töldu vissara að mæla
sér mót ef ske kynni að þeir mundu tvístrast
og það yrði ekki þægilegt að hafa uppi á fólki í
öllu kraðakinu fyrir handan.
Þegar til átti að taka lifði Vernharður
áfram. Hann hafði hikað við að fara á þetta
stefnumót af því vinirnir áttu varla von á hon-
um. Hins vegar hálflangaði hann að hitta þá og
þætta gæti þetta orðið eina tækifærið í bili.
Vernharður afréð eftir talsverðar vangaveltur
að staulast niður í garð og taka því sem að
höndum bar. Hann átti nú einu sinni heima á
Sunnuvegi og það var auð jörð.
Hann tók til kaffi og flatköku í sundlauga-
töskuna sem var komin svo til ára sinna að það
stóð Loftleiðir á henni. Ef hann skyldi nú
þurfa að hinkra. Það var fyrirhyggjulaust að
hafa ekki nefnt ákveðinn tíma. Svo var ekki
víst að vinirnir ættu yfirleitt heimangengt.
Gamli maðurinn kveikti á rauðu perunum
um leið og hann gekk. Hann hafði komið þeim
fyrir í reynitrénu um miðjan desember eins og
vant var. Það var ekki gott að segja hvernig
svona lappalaus maður fór að því að klifra upp
í tröppu. Hann var heldur ekkert að hugsa um
hvernig hann fór að því. Skammdegið var bara
óhugsandi án rauðu ljósanna fyrir utan stofu-
gluggann. Að biðja um hjálp var líka óhugs-
andi. Hann var búinn að gera upp við sig að ef
honum skrikaði fótur í tröppunni og hann
dytti á hausinn, þá væri það ekki versti dauð-
daginn.
Við Langholtsskóla var hópur af peyjum í
hröðum fótbolta og hrópin og köllin bergmál-
uðu í hverfinu. Skyndilega fóru kirkjuklukkur
í gang, en ómögulegt að segja úr hvaða átt
hljóðið barst. Hvort það voru klukkurnar í
Langholtskirkju, Áskirkju eða Laugarnes-
kirkju sem höfðu bilað. Því engar klukkur áttu
að hringja rétt upp úr þrjú á aðfangadag.
Vernharður var handviss um tímann, nýbúinn
að stilla úrið. Hann varð nefnilega að vera
kominn heim aftur í síðasta lagi hálfsjö áður
en Hekla kæmi að sækja hann í rjúpurnar.
Verst að honum þótti rjúpur ekki góðar og
hann var alveg á móti því að skjóta fugla, sér-
staklega rjúpur. En hann fengi að hitta uppá-
haldsmanneskjuna sína, Möggu litlu langafa-
barn sem kallaði hann Vennafa og skríkti og
hló þegar hann setti upp svipina.
Hann hafði ekki treyst sér í Laugardals-
garð síðan um miðjan október. Þó hafði hann
farið út á hverjum degi þegar veður var sæmi-
legt, að minnsta kosti út á stétt. Eina heila
viku í byrjun desember var hann innilokaður í
hálku og samfelldu roki. Hann ráfaði um hús-
ið, hlustaði við útgöngudyr, en hann lagði ekki
í að opna neinar þeirra, ekki svaladyr, bakdyr
og þá ekki aðaldyr, svo vindasamt hafði það
verið. Því síður hafði hann hætt sér út á stétt í
glærahálkunni. Þann tímann var hann mjög
dapur. Eins og þetta væri búið og það tæki því
ekki að tala við fólk. Ef einhver hringdi þóttist
hann vera að leggja sig, svo það kæmist ekki
upp hvað honum leið. Hann var svo langt niðri
að hann afstýrði skúringakonunni, sem hann
hafði annars gaman af.
Svo fór landið að rísa þegar hann gat aftur
rölt út í búð. Þá var ekkert orðið eftir mat-
arkyns á heimilinu annað en fryst þorskflök,
fryst rúgbrauð, tvær ístertur, og svo kók og
prins póló. Hann gætti þess að eiga alltaf nóg
kók og prins póló þannig að hann yrði ekki
hungurmorða jafnvel í margra vikna inni-
teppu. Hann harðbannaði Heklu og skúringa-
konunni að sjá um aðdrætti. Þær svindluðu
báðar með því að bera reglulega í hann heima-
bökuð brauð, flatkökur og kæfu. Þeim var
óskiljanlegt hvernig hann fór að því að kaupa
inn. Það var hans leyndarmál. Hann fór sem
sagt í búðina og lét senda sér heim, því hann
átti nógu erfitt með að staulast alla leið þótt
hann þyrfti ekki að halda á pokum líka. Sigrún
í búðinni hafði margboðið honum að hringja og
panta, en það kom ekki til greina. Hann vildi
borga á staðnum í beinhörðum peningum, og
þar að auki ímyndaði hann sér að hann ætti í
rauninni ekki framar erindi úr húsi þegar búð-
arferðum sleppti, að hann yrði því of feginn að
þurfa ekki úr húsi.
Þessi gamli maður sem ég er að segja frá
tekur sem sagt illa við ellinni. Hann sturtar
ellistyrknum í klósettið í hverjum mánuði.
Hann trompast ef elliheimili er nefnt við hann,
eða bara sakleysisleg þjónustuíbúð. Í síðustu
hrinu fór Hekla ofurvarlega að honum, en það
hafði ekkert að segja, pabbi hennar tútnaði
svoleiðis út af bræði að hún nefndi stofnanir
ekki framar. Í staðinn, af því hann skamm-
aðist sín hálfgert fyrir óhemjuskapinn, lét
hann sig hafa það það að fallast á neyðarhnapp
og skúringakonu. Orðið heimilishjálp var eitur
í hans beinum. Hann passaði svo að hafa
hnappinn ekki í sambandi og að halda skúr-
ingakonunni þannig uppi á snakki og sígar-
ettum að henni varð ekki úr verki. Þau voru
hins vegar svo dugleg við sígaretturnar að
reykskynjarinn pípti og Vernharður lá hóst-
andi í rúminu daginn eftir skúringadag. En
honum fannst það þess virði. Daginn þar á eft-
ir laumaðist hann til að skúra sjálfur. Það
gekk frekar hægt og í það fór dagurinn, með
hléum. En með þessu móti styttist vikan næst-
um því um helming, og það kom sér þá vel, úr
því hann var ekki flínkari en hann var við að
drepa tímann.
Garðurinn faðmaði gamla manninn og hann
baðaði sig í volgri skammdegisbirtunni eins og
loftið væri sundlaugarvatn. Hann settist rétt
við hliðið, á bekkinn sem hann kallaði fyrsta
bekk. Nú lét hann líða úr sér eins og hann
væri í heita pottinum þar sem hann hafði svo
oft setið á öllum tímum ársins með vinum sín-
um sem væru vonandi komnir til hans í garð-
inn. Raggi var reyndar ekki sundlaugamaður,
nei þar var á ferðinni innimaður af sömu hug-
sjón og aðrir eru útilífsfólk. Það var kannski
ekki sennilegt að hann héldi þetta stefnumót.
Vernharður fékk sér kaffisopa og hugsaði
til Fjalla-Bensa í einu bókinni sem hann las
núorðið, gömlu hetjunnar sem leitaði fjár á að-
ventunni og gróf sig í fönn og hitaði kaffi í
snjóbyrgi meðan fárviðrið geisaði uppi á jörð-
inni. En hvað með vinina sem hann var kom-
inn til að hitta? Enginn hafði komið í flasið á
honum eins og hann var að vona. Það var eng-
inn ómur af flissi í Valla, sönglandanum í Sig-
ríði, hóstanum í Ragnari.
Bara að þetta væri ekki fýluferð. Þetta var
þvílíkt erfiði fyrir hann. Það yrði á mörkunum
að hann hefði það heim aftur. Að hann skyldi
ekki hafa skrifað miða til að láta vita um ferðir
sínar. Hann var jú með fjandans neyðar-
hnappinn, en fyrr dræpist hann en að ýta á
hann. Það var að minnsta kosti ekki hætta á
því að hann frysi í hel, enda var ekki frost.
Hann var í síðum og ullarbol, með gæruhúf-
una, í gærubomsum. Þetta var eins og að vera
inni í húsi. Það færðist yfir hann værð þar sem
hann sat á bekknum og óþæg grenigrein skag-
aði yfir öxlina á honum og færði honum ilm af
lífi og lit.
Hann hlaut að hafa blundað. Sætt rökkur
var komið yfir garðinn og einhver fugl hví-
skraði fremur en tísti ekki langt frá honum.
Hann setti lokið á litla brúsann og kom honum
fyrir í Loftleiðatöskunni. Svo notaði hann staf-
inn til að styðja sig á fætur. Jólaseríur tindr-
uðu inni í miðjum garðinum og hann fikraði
sig þangað. Nú var svo komið að jafnvel lau-
flétt taskan seig í. Steikarilmur barst úr húsi
skrúðgarðsvarðar og hann fann til svengdar,
enda hafði hann gleymt að borða flatkökuna
sína.
Vernharður var óralengi að feta sig í uppá-
haldsstaðinn þar sem íslensku jurtirnar eiga
heima. Þar tyllti hann sér lémagna á bekk og
hlustaði. Það var nokkurn veginn víst að vin-
irnir kæmu saman þar í grennd. Alltaf var
staldrað á íslenska blettinum þegar farið var í
garðinn eftir laugar. Öll áttu uppáhaldsjurt.
Hans eigin var holtasóley, Sigga hélt mest upp
á klettafrú, og Valla spaugara þótti vænst um
vallhumal sem hann kallaði nafna, og bætti við
að þeir hefðu lækningamátt báðir tveir. Jafn-
vel Raggi, innipúkinn, sem kom ekki nema ör-
sjaldan með í garðinn, hélt mest upp á eitt-
hvað eitt. Það var dýragras, minnsta og
skærasta blóm sem var hægt að hugsa sér.
Raggi var nefnilega furðu rómantískur og fín-
gerður inn við beinið, þrátt fyrir hryssings-
legar reykingar og fas. Einmitt þarna höfðu
þau oft rifjað upp gamla tíma. Það var ekki tal-
að um neitt sem hafði gerst fyrir minna en
hálfri öld. Það var lítið talað um veikindi, sem
var þó nóg af, eins var lítið talað um afkom-
endur, sem var líka nóg af. Nei Valli sagði sög-
ur úr útreiðartúrum í Skagafirði með hljóð-
effektum og rapptilburðum og Sigga fjallaði
um Skaftártunguna sína í mildum sönglanda
og fór með vísur sem hún var grunuð um að
hafa ort sjálf.
Vernharður heyrði engan óm sem benti til
þess að gamlir vinir væru nálægir, en hann
var ekki frá því að vindlareykurinn hans
Ragga lægi í loftinu. Hann rann á lyktina, að
gróðurhúsinu þar sem eitthvað blómstrar all-
an ársins hring og fólk getur setið með nestið
sitt. Þar hafði hann staldrað marga daga
þangað til í hitteðfyrra. Það var árið sem fæt-
urnir fóru að gefa sig, já og það var líka árið
sem Valli dó.
Hann var sá sem alltaf bjó til létta stemn-
ingu og hafði spaug um hönd út í eitt. Hann
var reyndar gegnheill grínisti og það fékkst
ekki orð af viti upp úr honum tímunum saman.
Víst gat það verið þreytandi, en minningin
snerist ekki um það. Valli var drengur góður.
Og maður vissi hvar maður hafði hann. Öðru
máli gegndi um brandarana. Þeir voru yfir-
leitt einhver furðuskeyti, sem ekki var hægt
að henda reiður á.
Nú heyrði hann óminn af röddinni í Sigríði,
þýðan sönglandann sem var eins og hlátur-
skenndur. Gamla hjartað í Vernharði hraðaði
sér og hann flýtti sér eins og hann gat á eftir
því. Dyrnar á gróðurhúsinu opnuðust þegar
hann átti nokkra metra ófarna og þar stóðu
þau í gættinni; Valli, Ragnar, Sigríður, Nonni.
Sigríður breiddi út faðminn móti vini sínum
og hann seig í fangið á henni.
Velkominn, sagði hún.
Velkominn, sögðu kallarnir.
Takk.
Sigríður studdi hann að næsta borði. Þau
settust öll kringum það og horfðu hvert á ann-
að brosandi og vandræðaleg.
Þið voruð þá að búast við mér, sagði Vern-
harður.
Já svona, sagði Sigríður feimin. Þetta er
ekki svo langt að fara hjá þér.
Heppinn var ég að hitta á ykkur, sagði
Vernharður og vinirnir brostu.
Þegar hann fór að jafna sig eftir mestu
áreynsluna sá hann vini sína skýrar og þeir
sýndust ekki hafa látið á sjá í annarri vist. Þeir
höfðu þá verið vel geymdir og honum létti að
sjá það.
Hvað þetta var indæll staður fyrir góðra
vina fund, gróðurhús þar sem eitt og annað
blómstraði í sortanum. Það virtist vera gegn
náttúrulögmálum að þessi koldimmi árstími
gæti fætt af sér rauðgula túlípana, djúpbláar
híasintur og hvít smáblóm á runna.
Fallegt, sagði Vernharður, og horfði á fínleg
jólaljós umvefja grindverkið á trébrúnni yfir
litlu tjörnina. Þau rísluðu sér í vatninu og
hann hugsaði sér smækkaða mynd af stjörn-
um himinsins og hafinu sjálfu.
Já það er fallegt, sagði Sigríður. Vernharði
sýndist hún hálfklökk, hvernig sem á því stóð.
Gat verið að hún saknaði einhvers úr jarðlífinu
sem hún og fleiri höfðu talað um eins og svo
mikið hjóm miðað við sæluríkt framhaldið?
Hún bætti við:
Alltaf hugsar maður nú í laugarnar og garð-
inn.
Hinir vinirnir þögðu og Vernharður horfði
spyrjandi á þá.
Því er ekki að neita, sagði Nonni.
Jæja, sagði Vernharður. Á ekki allt að vera
svo fullkomið hjá ykkur?
Þetta er svosem ágætt, sagði Ragnar og
blés frá sér reyk og ekki reyk.
Og þið hafið náttúrlega fullt sem jafnast á
við sundlaugarnar og garðinn?
Verum ekkert að fara út í þetta, sagði Valli
alvarlegur.
Vernharði leist ekki á blikuna. Valli var orð-
inn alvarlegur. Þau voru að leyna hann ein-
hverju, já hlífa honum við einhverju.
Þetta er nú bara svo sérstaklega indæll
staður, sagði Nonni, Laugardalsgarðurinn.
Varla jafnast það á við ódáinsakrana og
hörpusláttinn sem er búið að lofa manni, sagði
Vernharður, nema það að píanó hefur alltaf
verið mitt hljóðfæri. Mér finnst harpan væm-
in.
Hafðu engar áhyggjur af hörpum, sagði
Sigríður, það er ekkert verið að spila hjá okk-
ur.
Nú, er engin tónlist?
Það er öflugt kórastarf.
LIFANDI VINURINN
Morgunblaðið/Golli
„Garðurinn faðmaði gamla manninn og hann baðaði sig í volgri skammdegisbirtunni eins og loftið væri sundlaugarvatn.“
E F T I R S T E I N U N N I
S I G U R Ð A R D Ó T T U R
SMÁSAGA