Lesbók Morgunblaðsins - 21.12.2002, Qupperneq 16
16 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 21. DESEMBER 2002
Ö
ÐRUVÍSI dagar, nýjasta bók Guðrúnar
Helgadóttur, er með sanni öðruvísi saga
– þar sem fjallað er um heimsmálin, þjóð-
félagsmál, náungakærleikann, samskipti
innan hinnar íslensku fjölskyldu, vinátt-
una og síðast en ekki síst áhrif fjölmiðla.
Og jú, Öðruvísi dagar er barnabók.
Sagan segir frá nokkrum vikum í
kringum jól og áramót hjá fjórum systkinum sem eru 9–19 ára og
það er yngsta systirin, Karen Karlotta, sem er sögumaður. Í upp-
hafi sögunnar snúast dagar hennar um Jöra bróður sem er næst-
ur henni í aldri – og Baddí vinkonu hennar. Það eina sem truflar
þeirra annars ágætu daga er hvort þeim líkar fjölskyldumynstrið
sem þau búa við eða ekki. Allt þar til Karen Karlotta, kölluð
Kæja, og Jöri fara að bera út Morgunblaðið í hverfinu sem þau
eru tiltölulega nýflutt í. Hverfið er ósköp venjulegt að öllu öðru
leyti en því að eitt hús stendur þar dálítið sér, eiginlega á kletti
næst sjónum. Á hverju kvöldi sjá þau Kæja og Jöri íbúa hússins,
eldri konu, ganga að sjónum og standa þar um stund og finnst
hún meira en lítið dularfull – varla jarðnesk.
Þegar þau svo fara að bera út Morgunblaðið kynnast þau dul-
arfullu konunni – sem verður til þess að augu þeirra opnast fyrir
því að heimurinn er ekkert einfaldur leikvöllur. Kæja dregst inn í
samsæri sem verður til þess að hún fer að fylgjast nánar með
fréttum og spyrja spurninga. Eins og eðlilegt er í heimi barnsins
vill hún fá að vita hver hefur rétt fyrir sér í stórum heimsátökum,
í sögunni, í nánasta umhverfi. Réttlætiskennd hennar krefst
skýringa en þegar þær fást ekki ákveður hún að tjá sig með því
að skrifa „bréf til blaðsins“ og birta í Morgunblaðinu. Bréfið sem
hún birtir í Morgunblaðinu vekur gríðarleg viðbrögð og frétta-
kona hjá einni sjónvarpsstöðinni segir gleðilegt að börn hugsi um
óréttlætið í þjóðfélaginu og bregðist við því – og bætir við: „Og
það ætti að hlusta á börnin.“ Þegar Guðrún er spurð hvað hún sé
að segja með þessari setningu svarar hún:
„Þessu má svara með annarri spurningu: Af hverju eru menn
að skrifa fyrir börn? Fjölmiðlar fara ekkert framhjá börnum.
Það er óskaplega miklum upplýsingum dengt yfir börn sem þau
eiga enga möguleika á að skilja.“
Ekki auðvelt að plægja sig í gegnum upplýsingar
„Það er ekki mikið tillit tekið til barna í samfélaginu og þau
eiga ekkert auðvelt með að fóta sig í því sem fyrir þau er lagt.
Börn eiga áreiðanlega erfitt með að greina í sundur þær upplýs-
ingar sem þau fá alls staðar að.
Þar sem Morgunblaðið leikur nú ekki lítið hlutverk í þessari
bók minni fannst mér viðeigandi að benda á að börn bera ekki
bara út Morgunblaðið; þau lesa það líka, því þá ekki einnig að
skrifa í það?
Ég man eftir því sjálf hvað það var erfitt – og stundum alveg
hræðilegt – að lesa blöðin og það sem þar var að finna þegar ég
var stelpa og varla til sála sem gat útskýrt upplýsingarnar fyrir
manni. Ég var sjálf orðin lesandi í lok síðari heimsstyrjald-
arinnar, til dæmis á þeim tíma sem Nürnberg-réttarhöldin stóðu
yfir, og það var ekkert auðvelt að plægja sig í gegnum þá lesn-
ingu.“
Það má kannski segja að í Öðruvísi dögum sé súmmeruð upp
átakasaga Evrópu frá síðari heimsstyrjöldinni; systkinin reyna
að átta sig að einhverju leyti á átökunum á milli Ísraels og Pal-
estínu og læra um leið um nasismann í Þýskalandi og útrýmingu
á gyðingum.
„Þetta eru atburðir sem börn sjá og heyra um í fjölmiðlum.
Hvernig eiga þau að átta sig á því sem þarna á sér stað? Þau sjá
bara hryllinginn. Það er auðvitað ekki hægt að útskýra hann í
barnabók – en það er hægt að opna einhverja glugga. Það er
kannski það sem ég var að reyna að gera í þessari sögu.“
Það eru ekki síst samskiptin við dularfullu konuna, Elísabetu,
sem opna systkinunum einhverja glugga. Í upphafi sögunnar
þekkir hana enginn – en velflestir hafa skoðun á henni, jafnvel
hræðast hana.
„Elísabet gerir ekki mikið af því sjálf að kynnast fólki – sem
móðir hennar á kannski mikinn þátt í. Það er engin tilviljun að
það eru börn sem brjóta þennan ís.“
Hvað áttu við?
„Börn eru miklu opnari en fullorðnir. Þau eru ekki þjökuð af
einhverju viðteknu hegðunarmynstri, hafa ennþá þessa eðl-
islægu forvitni og áhuga á öðru fólki. Þeim fullorðnu hættir til að
lokast inni í eigin heimi – sem er stundum harla þröngur.
Það sem ég var kannski að reyna að sýna fram á er að þótt fólk
sé svona lokað inni í eigin heimi er þetta gott fólk sem vill hjálpa
þeim sem á hjálp þurfa að halda – en það virðist þurfa að hjálpa
því til þess.“
Réttlætiskennd og umhyggja
Ein eftirminnilegasta persóna bókarinnar er amma Karlotta,
78 ára dugnaðarforkur sem hefur ein og sjálf komið syni sínum,
föður systkinanna, til manns. Eitt af því sem hún hefur afrekað í
lífinu er að hugsa um gamlan einstæðing, Benjamín, nett skrýt-
inn karl sem „móðgar“ hana svo með því að arfleiða hana að íbúð
sinni þegar hann hrekkur upp af standinum. En hvers vegna
þessi viðbrögð hennar?
„Karlotta amma skuldar engum neitt og vill ekki skulda nein-
um neitt og finnst bara skoðun vera skoðun. Hún hefur óbilaða
réttlætiskennd.“
Og víst er að réttlætiskennd ömmu Karlottu er Kæju lær-
dómsrík – því auðvitað er Benjamín heitinn að koma ömmu í
bobba með því að arfleiða hana að íbúðinni, því hver hefur ekki
heyrt talað um erfðafjárskatt og alla hina skattana. Því má ekki
heldur gleyma að amma Karlotta er orðin ellilífeyrisþegi. Hún
gæti verið í vondum málum. En þegar Guðrún er spurð hvort
karakterar eins og amma Karlotta séu ekki að verða sjaldgæfir í
okkar heimi samsinnir hún því.
„Ég held að ekki margir myndu hugsa um furðufugl eins og
Benjamín í dag. Amma Karlotta er fulltrúi umhyggjukynslóð-
arinnar sem lét engan farast af umkomuleysi. Ég er hrædd um
að það sé ekki lengur mikið um svona umhyggju með beinum af-
skiptum af þeim sem engan eiga að.
Ég man til dæmis eftir því í Hafnarfirði þegar ég var krakki,
að þar voru fjölskyldur sem höfðu tekið að sér vandalaust fólk;
fatlað fólk og munaðarleysingja; tóku það inn á sitt heimili og ólu
það upp án þess að einhver félagsþjónusta kæmi þar að máli. Ég
er hrædd um að lítið sé um slíkt núna.“
Spurning hvort alltaf er ljótt að skrökva
Þrátt fyrir harmþrungna sögu hefur dularfulla konan, El-
ísabet, ekki heldur tapað þessum umhyggjuhæfileika en hún
dregur Kæju inn í samsæri þar sem telpan þarf að takast á við þá
spurningu hvort verjandi sé að hún segi fjölskyldu sinni ósatt.
„Eitt af því sem ég er að leika mér með er spurningin um hvort
það sé alltaf ljótt að skrökva. Vissulega hefur Kæja lofað að segja
ekki allan sannleikann en þagnar hennar er aðeins krafist í
nokkra daga. Sem getur reynst nógu erfitt fyrir níu ára telpu.“
En þótt tekist sé á við hörmulega heimsviðburði, óréttlæti,
missætti og vesen – er hinn þekkti höfundarhúmor Guðrúnar
Helgadóttur aldrei langt undan. Það er síður en svo að Öðruvísi
dagar séu eitthvert svartagallsraus.
„Jafnframt því að reyna að opna einhverja glugga er ég að
reyna að skrifa bók sem er skemmtileg,“ segir Guðrún, „því það
er tilgangslaust að skrifa bók sem börnin nenna ekki að lesa.
Best er þegar bæði börn og fullorðnir hafa gaman að bókunum –
því börn hafa mikla ánægju af því að hlusta á sögu með þeim full-
orðnu.“
Um leið og sagan segir frá því hvernig augu Kæju opnast fyrir
hinum stóra heimi er Öðruvísi dagar saga um venjulega íslenska
fjölskyldu, basl hennar og dagleg samskipti.
„Fólk skrifar orðið mjög mikið ævintýri og fantasíur og það er
fínt,“ segir Guðrún, „því börn þurfa svo sannarlega á fantasíum
að halda. En þau þurfa líka að geta lesið um sitt eigið umhverfi til
þess að þau tapi sér ekki úti í óravíddum. Mér hefur alltaf fundist
samskipti barna við fullorðna áhugaverð. Vitsmunir barna eru
oft mjög vanmetnir og fullorðnir setja oft skarpari skil á milli sín
og barnanna en efni standa til. Ég held að það sé afar fátt sem fer
framhjá börnum á heimilum þeirra og umhverfi. Það sem börn
þurfa er að geta rætt við foreldra sína um það sem þeim liggur á
hjarta.
Með sjónvarpi og allri þessari tölvuvæðingu sjá börn næstum
því hvað sem er og vita nánast allt sem viðkemur heimi hinna
fullorðnu – en þegar slökkt er á tækjunum eiga þau að fara í hlut-
verk barna þar sem sakleysið ríkir. Þetta er ekki auðvelt hlut-
verk.
Skilaboðin sem börn fá í heimi hinna fullorðnu, í gegnum alls
kyns miðla, eru afskræmdur raunveruleiki og þeim mun meiri
ástæða fyrir hina fullorðnu að gera börnunum það ljóst. Það þarf
töluvert sterka einstaklinga til þess að standa af sér þessa af-
skræmingu án þess að bíða tjón á andlegri og líkamlegri velferð.
Hræddust er ég um að ástin verði illilega úti. Hinir fullorðnu eru
orðnir svo samdauna þessu að það er kannski merki um ein-
hverja íhaldssemi að skrifa um eitthvað fallegt og gott fyrir börn.
Það þarf allt að vera svo skelfilegt og æsandi. Þó vona ég að enn
séu til börn sem geta lagst upp í rúm og lesið bók með ró í
hjarta.“
VITSMUNIR BARNA
ERU OFT VANMETNIR
Líf barnsins í heimi hraðsoðins upp-
lýsingaflaums birtist í nýútkominni
bók Guðrúnar Helgadóttur, Öðru-
vísi dagar. SÚSANNA SVAVARS-
DÓTTIR ræðir við hana um systkinin
í sögunni, foreldra þeirra og vini.
Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
Guðrún Helgadóttir: Mér hefur alltaf fundist samskipti barna við fullorðna áhugaverð.