Lesbók Morgunblaðsins - 21.12.2002, Síða 7
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 21. DESEMBER 2002 7
Vernharður þagði dolfallinn, þangað til Sig-
ríður bætti við: karla- og kvennakórar.
Af hverju ekki blandaðir?
Þetta er allt mjög mikið aðskilið.
Aðskilið?
Það er ekki allt eins og um var talað. Vertu
undir það búinn þegar þú kemur. En við skul-
um láta það liggja milli hluta. Þetta kemur allt
í ljós.
Það væri nú fróðlegt að vita af hverju það er
haft aðskilið.
Okkur er ekkert sagt um það, þetta minnir
bara að mörgu leyti á heimavist. Dáldið
þröngt og svona. Og gangar.
En vertu ekkert að breiða þetta út með fyr-
irkomulagið, sagði Nonni, sem var mjög var-
færinn maður. Og alls ekki að kalla það heima-
vist. Það yrði varla vinsælt og gæti hreinlega
valdið misskilningi.
Ja þetta verða þokkaleg vistaskipti, sagði
Vernharður. Ég sem er vanur svo stóru húsi
að ég er meira en hálftíma núorðið að ráfa
endanna á milli. Ætli ég reyni þá ekki að
þrauka lengur í minni prívat heimavist.
Gleymdu því ekki að þetta hefur sína kosti.
Við höfum nú til dæmis félagsskapinn hvert af
öðru, sagði Valli jákvæður. Við megum líka
segja brandara eins og okkur lystir. Nema
ekki klámbrandara. Það er ekki liðið.
Hvers konar sóknarnefnd er að skipta sér af
því hvernig brandara þið segið núna, spurði
jarðarbúinn Vernharður.
Gangaverðirnir sjá um að allt fari vel fram,
sagði Raggi og hóstaði. Það má til dæmis ekki
reykja inni.
Gangaverðir? Ég hef aldrei heyrt annað
eins. Það hlýtur að vera verra en heimilis-
hjálp. Má ég spyrja í hvaða stað þið eruð.
Næstbesta.
Næstbesta. Er það rósamál fyrir neðra?
Það eru í rauninni tvær hæðir á milli. Það er
ekki bara efra og neðra eins og okkur var sagt.
En þú kemst nú að þessu öllu nógu snemma.
Það held ég síður.
Finnst ykkur rétt að segja honum frá þessu,
spurði Sigríður áhyggjufull og leit á Valla,
Ragga og Nonna.
Nei, sagði Raggi, mér finnst það ekki rétt,
ég hefði ekki viljað vita þetta fyrir.
Látiði ekki svona, það er skárra að hafa
þetta svart á hvítu, sagði Vernharður.
Það er best að þú segir þá frá Nonni, sagði
Raggi, þú ert svo hlutlaus og greinargóður.
Við skulum segja það, sagði Nonni. Ef við
byrjum þá á þriðju og efstu hæð. Þar er mikið
af dýrlingum og svona fólki sem hefur verið að
fórna sér, eins og prestar og slökkviliðsmenn
og einstæðar mæður. Á annarri hæð er bara
venjulegt sæmilegt fólk eins og við, sem hefur
ekki gert neitt sérstakt af sér annað en bara
það að vera manneskja. Á fyrstu hæð er frek-
ar vont fólk sem hefur gert eitthvað eitt sér-
stakt af sér, og í kjallaranum eru raðmorð-
ingjar og ódó og eitthvað af
stjórnmálamönnum og fólk sem var alltaf að
hækka róminn og ergja sig í lífinu. Það er tek-
ið mjög hart á því af einhverjum ástæðum.
Ertu ekki orðinn alveg hraðlyginn Nonni
minn, spurði Vernharður.
Neinei, sagði Sigríður, sem var mjög áreið-
anleg manneskja. Og þau horfðu á Vernharð
eins og þau hálfvorkenndu honum að hafa
frétt þetta.
Skyldi vera jafnleiðinlegt á öllum hæðum,
sagði Vernharður.
Vinirnir þögðu og litu undan allir sem einn.
Valli sagði að það væri nú það. Það hefði
kvisast út með gangavörðunum að það væri
mesta fjörið í kjallaranum. Þar væri svo mikið
af krassandi sögum. Sögur allan daginn, alveg
fram að háttatíma. Þær væru náttúrlega ekki
allar fallegar á þessum stað, en fólk breyttist
ekkert með það að vilja frekar heyra ljótar
sögur en fallegar. Og það var langmest hlegið í
kjallaranum, sögðu gangaverðirnir. Hins veg-
ar var góðsemin og fórnfýsin á þriðju hæð víst
þreytandi til lengdar og mæðublandin. Svo
gangaverðirnir tóku aukavaktir í kjallaranum
fegins hendi.
Klukkurnar slógu sex. Hljómurinn var svo
margfaldur að það var engu líkara en heyrðist
í öllum kirkjuklukkum Reykjavíkurborgar inn
í gróðurhúsið í Laugardal. Núna voru allir í
landinu nýbaðaðir, búnir að pakka öllu inn, há-
tíðamaturinn til eða alveg að verða það, búið
að ræsta út í öll horn, veskin tæmd, yfirdrátt-
arheimildir fullnýttar, margra mánaða kapp-
hlaupi við klukkan sex á aðfangadag var lokið.
Þeir einu sem tóku ekki þátt í því voru ómálga
börn, sumir glæpamenn, rónar og gamal-
menni. En einmitt á þeirri stund stund varð
gamalmennið hann Vernharður að hefja kapp-
hlaup, eða kappgöngu öllu heldur heim á
Sunnuveg. Annars yrði lýst eftir honum.
Vinir mínir, ég verð að fara, sagði hann við
Sigríði, Valla, Nonna og Ragnar. Það á að
sækja mig í rjúpurnar, eins og mér finnast
þær nú vondar á bragðið og synd að skjóta
þær.
Þú færð sjálfsagt eitthvert gott meðlæti,
sagði Sigríður.
Já ég ætti að skammast mín, sagði Vern-
harður, og heimatilbúinn ís á eftir. En hvað fá-
ið þið?
Iss verum ekkert að fara yfir það, sagði
Ragnar, og sogaði að sér reykjarkúlu sem
hann virtist fyrst hafa blásið frá sér eins og
tyggjói.
Jú, mig langar að vita hvað þið fáið.
Við fáum ekkert, sagði Ragnar hryssings-
lega. Við verðum send beint upp á herbergi
þegar við komum og fáum ekkert að éta fyrr
en annað kvöld. Og það verða leifar.
Það er samt einn gangavörður sem gæti
reynt að smygla til okkar ef hann er á vakt-
inni, af því það er aðfangadagskvöld. Hann er
á móti þessum reglum, að það megi ekki
bregða sér frá til að hitta gamla vini.
Það er leitt að vita af ykkur svöngum, sagði
Vernharður.
Iss, okkur er alveg sama, sagði Valli. Og al-
veg væri ég til í að koma aftur hingað að ári.
Vinirnir tóku vel í það. En það var ekki laust
við tár á gömlum hvörmum á kveðjustund.
Vernharður náði ekki að vera sorgmæddur
langan spöl því hann þurfti að hafa svo mikið
fyrir því að komast leiðar sinnar til baka.
Hann var líka niðursokkinn í hvar hann mundi
lenda þegar þar að kæmi. Það var útilokað að
hann hefði verið svo ótrúlega góður maður að
hann mundi lenda hjá fórnfúsum mæðrum og
slökkviliðsmönnum á þriðju hæð. Fyrsta hæð
var heldur ekki sennileg, því hann hafði ekki
gert neitt sérstakt eitt af sér um dagana, held-
ur margt smátt eins og gengur og gerist. Það
hlaut því að vera daufleg vistin á annarri hæð
sem beið hans. Hvort það væri ekki skárra að
möndla sér niður í kjallara meðan hann hafði
enn svigrúm til að gera ráðstafanir. Hins veg-
ar hafði hann ekki þrek í neinn sérstakan
kvikindisskap eða raðmorð til þess að koma
sér í versta stað. Hann gæti auðvitað reynt að
fara að hækka róminn. En við hvern? Við
skúringakonuna? Við Sigrúnu í búðinni? Og á
hvaða forsendu? Útrunnir rúsínupakkar ?
Gallinn var líka sá að þetta var honum ekki
eiginlegt. Og jafnvel þótt honum tækist upp
yrði kannski allt unnið fyrir gýg. Það yrði
hugsanlega talið of seint ef hann færi fyrst að
hækka róminn á síðustu árum eða mánuðum
ævinnar. Þannig að úr yrðu tóm leiðindi hérna
megin og engin umbun fyrir handan.
Hann heyrði hrópin í Möggu litlu langafa-
barni þegar hann nálgaðist Sunnuveg: Venn-
afi, Vennafi, komdu í jólin.
Hún var á undan ömmu sinni til gamla
mannsins, og faðmaði á honum fótinn. Hann
klappaði henni á kollinn og sagði að hún væri
aðal Maggan.
Hvaða flandur er á þér pabbi, sagði Hekla.
Mér krossbrá þegar þú svaraðir ekki bjöll-
unni.
Það tók því.
Og hvert fórstu eiginlega?
Ég var búinn að öllu svo ég leyfði mér að
skreppa í garðinn.
Hvers konar uppátæki er þetta á aðfanga-
dag? Þarftu ekki að hafa fataskipti?
Þetta er allt í lagi, ég get komið beint. Ég
veit að rjúpurnar mega ekki bíða.
Við getum nú alveg hinkrað eftir því að þú
farir í jólafötin pabbi minn.
Ég er alltaf í jólafötum. Við skulum bara
drífa okkur.
Dífa sig, dífa sig, sönglaði Magga.
Og með það fóru þau í rjúpurnar sem Vern-
harður kunni ekki að meta og lýsti því yfir á
hverju aðfangadagskvöldi að hann vildi ekki
hafa að það væri verið að skjóta þennan fal-
lega og bráðgáfaða fugl. En meðlætið bragð-
aðist óvenju vel í dag. Waldorfsalat og brún-
aðar kartöflur. Og hann tók vel til sín af ísnum
hennar Heklu og hugsaði til veslings vina
sinna sem sátu matarlausir í skammarkrókn-
um á annarri hæð á ótilteknum stað.
Á þriðja í jólum var komin snjóföl yfir borg-
ina. Skrúðgarðsvörður rölti um Laugardals-
garð í birtingu og dáðist að hvítu sáldrinu á
trjám og jörð. Þegar hann tók í hurðarhúninn
á gróðurhúsinu þá var ólæst. Hann fann reyk-
ingalykt og sá vindlastubba á gólfinu hjá lú-
inni Loftleiðatösku. Hún hafði að geyma köfl-
óttan kaffibrúsa og flatköku í smjörpappír.
Vernharður gamli á Sunnuveginum hringdi
til skrúðgarðsvarðar þennan dag og sagðist
vera orðinn sá rati að hann hefði orðið viðskila
við skjóðuna sína, líklega í garðinum. Skrúð-
garðsvörður spurði hvenær hann hefði gleymt
henni, en Vernharður sagðist vera orðinn svo
kalkaður fálki að hann kæmi því ekki fyrir sig
hvenær hann var síðast á ferðinni, það væri nú
komið þannig fyrir honum að það gætu auð-
veldlega orðið skammhlaup milli páska og
Þorláksmessu. En hann væri feginn að skjóð-
an væri fundin. Þau hefðu átt langa og góða
samleið og hann saknaði hennar.
Skrúðgarðsvörður spurði kurteislega um
vindlastubbana í gróðurhúsinu. Vernharður
kannaðist auðvitað ekki við þá og sagði sem
var að hann reykti hvergi nema heima hjá sér
skúringakonunni til samlætis, og þá sígarett-
ur.
Höfundur er rithöfundur.
Í Steinsmýrar tóftunum stendur minn biskup sem drengur
og stráin sig vefja í golu að heimkomu fótum.
Er víst að í grasfylgsnum logi ei eldurinn lengur,
mun leynast þar glóðin sem fórnin í bernskunnar rótum?
Úr torfinu seilist upp funandi faðmlag hans móður
og frelsunarbaug yfir gránandi hvirfilinn setur.
Hún lífið sitt gaf til að bjarga úr eldi hans bróður,
en biskupskvöð skóp honum sjálfum það eldtungu letur.
Í dulræðum augunum logi hver ljómar sem viti
og lifandi neistaflug orðsins á hjálpræðið bendir.
Enn streymir úr djúpsæjum tóftum sá trúarfars hiti,
sem tvísýnu mannlífi heilu í friðarhöfn lendir.
Hjá Steinsmýrar tóftum varð biskup minn aftur að barni
og brennandi tungurót mælti: hví fór ég burt héðan?
Þá fann ég að lífsþunga fórnin var helgunar kjarni,
sem fékk hann til kærleikans glóandi þjónustu léðan.
Hvar vaggan stóð flaug upp einn fugl eins og háborin sending
og fólgið í grasinu sá ég hans hreiður með eggjum.
Mér virtist sá Steinsmýrar búskapur einskonar bending,
um brottflug míns vinar með heimþrá á grasgrænum leggjum.
Efri-Steinsmýri er fæðingarstaður Sigurbjörns Einarssonar, biskups,
en hann varð 91 árs 30. júní á þessu ári.
INGIMAR ERLENDUR SIGURÐSSON
Höfundur er skáld.
STALDRAÐ VIÐ
EFRI-STEINSMÝRI
Teikning/Ingimar Erlendur Sigurðsson