Lesbók Morgunblaðsins - 28.12.2002, Blaðsíða 15

Lesbók Morgunblaðsins - 28.12.2002, Blaðsíða 15
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 28. DESEMBER 2002 15 A UK ÞESS að kenna og fást við alls kyns hugtök og hugmyndir felst líf mitt og starf sem skólamanns í því að glíma við flókið kerfi stofnana og hefða, siða og laga, sem lúta að menntun og skilyrðum okkar til að þroskast sem frjálsar, hugsandi verur. Þetta kerfi – skólakerfið – tengist með margvíslegum hætti tveimur öðrum kerfum sem einnig liggja þjóðfélagi okkar til grundvallar. Annars vegar efnahagskerfinu með fjölda fyrirtækja í fram- leiðslu, verslun og viðskiptum. Hins vegar stjórnmála- og stjórnsýslukerfinu með fjölda opinberra stofnana á vegum ríkis og sveitarfé- laga. Í mínum huga ræðst uppbygging og vel- ferð þjóðfélagsins af því hvernig okkur tekst að láta þessi þrenns konar kerfi vinna saman og styðja hvert annað: Efnahagskerfið, stjórn- kerfið og skólakerfið. Líf okkar sem einstaklinga og þjóðfélags- þegna felst í að taka þátt í þeim ólíku heimum sem þessi þrjú kerfi vísa til. Heimur efnahags- lífsins snýst um öflun og dreifingu lífsgæða, heimur stjórnmála snýst um skoðanaskipti og ákvarðanir í sameiginlegum hagsmunamálum, heimur skólanna snýst um skilyrði okkar til þekkingar og þroska. Á milli þessara þriggja heima þjóðfélagsins er margvíslega spenna og togstreita sem birtist í fjölmiðlum á degi hverj- um þar sem karpað er um ótal málefni, svo sem rekstur heilbrigðisstofnana, tengsl við Evrópu- sambandið og virkjanir á hálendinu. Stöku sinnum ber málefni kirkjunnar á góma og þá einkum í tengslum við stöðu hennar gagnvart ríkisvaldinu og þá er spurningin gjarnan þessi: Hversu háð eða óháð hinu opinbera á þjóð- kirkjan að vera? Þetta er ekki í mínum huga mikilvægasta spurningin um kirkjuna. Miklu brýnna er að spyrja hvaða þýðingu kirkjan hafi fyrir þjóðfé- lagið og okkur öll. Skiptir kirkjan einhverju máli fyrir uppbyggingu og þróun samfélags okkar? Hefur hún einhverju hlutverki að gegna andspænis þremur undirstöðukerfum þess – stjórnkerfinu, efnahagskerfinu og skólakerf- inu? Er henni kannski ofaukið í þjóðfélagi nú- tímans þar sem lögmál markaðar og harðrar samkeppni á öllum sviðum ræður ríkjum? Hvernig eigum við, kirkjugestir góðir, að svara þessari spurningu? Hlýtur ekki hvert og eitt okkar að svara fyrir sig? Sjálfur veit ég ekki gjörla hvernig leiða skal rökræðu um stöðu og hlutverk kirkjunnar til skynsamlegrar niðurstöðu. Og ég ætla ekki að gera tilraun til þess hér í kvöld, heldur freista ég þess að nálg- ast málefni kirkjunnar, boðskap hennar, frá annarri hlið – með játningu á eigin vanmætti andspænis þeim hlutlæga heimi sem flókin og yfirþyrmandi kerfi þjóðfélags og náttúru spinna um okkar persónulega líf. Hlutskipti okkar sem einstakra persóna virðist mér oft of- urselt öflum sem fjötra okkur við einskisverða hluti og ráðskast með okkur eins og strengja- brúður á leiksviði lífsins. Og gera okkur þannig framandi sjálfum okkur og náunganum og um leið eiginlegum, mannlegum samskiptum. Það er um þetta sem mig langar til að ræða við ykkur í kvöld, um merkingu okkar persónu- lega lífs og samkenndar, um afstöðu okkar til máttar sem kann að vera æðri öllum öflum og kerfum náttúru og þjóðfélags. Sá máttur, ef hann er til, er sannarlega dulinn, og hann starf- ar, ef hann gerir það, örugglega í leynum. Það er um hann sem boðskapur kirkjunnar snýst og um leið merkingu okkar persónulega lífs. Staðreyndir lífsins blasa við og við skulum hiklaus horfa á þær. Við erum ofurseld ómennskum öflum sem soga lífsorku okkar til sín, leika sér að okkur og kasta okkur að end- ingu inn í myrkur og tóm. Við getum, góðir kirkjugestir, kosið að loka augunum fyrir þess- um staðreyndum og reynt að telja okkur trú um að við séum herrar lífsins og jarðarinnar og höfum himin höndum tekið af því að við séum svo sterk og auðug af veraldargæðum og fjarri ógnum hermdarverka og styrjalda. En hið innra með okkur leynist sannleikurinn um hlut- skipti hverrar manneskju, fjötra hennar og firringu frá því sem mestu skiptir að endingu. Þess vegna býr í mannssálinni, í sál hverrar manneskju, djúpstæð þörf fyrir mátt sem er handan veruleikans sem umlykur okkur í dag- legu lífi og starfi. Sál okkar finnur sig í fjötrum, veit að hún er á valdi afla sem hún þekkir ekki, veit að hún getur ekki leyst lífsvandann af eigin rammleik, fundið leiðina út úr völundarhúsinu þar sem hún reikar um vitandi um ógnir og raunir sem geta skollið á hvenær sem er. Engar orðræður um hnattvæðingu, markaðshagkerfi, kvóta- kerfi eða skólakerfi færa okkur nær því til að leysa sjálfan lífsvandann, gátuna um það hvernig við fáum lifað lífinu sátt við sjálf okkur og aðra. Vandinn er óleystur, því mannssálin óttast, hún óttast lífið, hún veit að hún er agnarsmá og vanmegnug í voldugum, dimmum og djúpum heimi, þar sem blóð, tár og sviti renna í stríðum straumum. Hvaða tilgangi þjónar að ræða um flækjur félagslegra kerfa andspænis veröld þar sem ekki gefst ráðrúm til annars en að skynja æðaslátt lífsins eitt andartak milli vöggu og grafar, þar sem þekkinguna þrýtur jafnharðan og tæknin skapar iðulega meiri vanda en hún leysir? Er sú viðleitni nokkuð annað en klútur til að þerra tár sálarinnar yfir þeim ósköpum að hafa fæðst inn í annan eins heim? Hvað dug- ar, ef þá nokkuð, til að róa hina ráðvilltu sál, láta hana sjá ljós í myrkrinu og vísa henni veg- inn í átt til annars heims bjartari og fegurri þeim sem við blasir? Við því á ég ekkert svar, en mig grunar að þráin eftir frelsara hvíli á djúpri þörf sem við ættum að hugsa um og sinna miklu oftar en við gerum. Sú þörf á sér rætur í því eðli sálarinnar, að hún hugsar og er einstök vitandi vera sem byggir sinn eigin hugarheim og þarf að geta ræktað hann í samfélagi við aðra. Þörf manns- sálarinnar fyrir frelsara stafar af því að hún hefur ekki fengið að vera hún sjálf, að hlutveru- leikinn, hinn ytri, harði heimur náttúru og þjóðfélags, hefur ekki veitt henni svigrúm til að þroskast og dafna og að henni sjálfri hefur síð- an skjöplast í viðleitni sinni til að fóta sig í líf- inu. Frelsarinn hefur aðeins einu hlutverki að gegna, því að endurreisa sálina, gefa henni tækifæri til að skynja sinn eigin mátt og mögu- leika. Sálin þráir sjálfræði. Hún þráir frelsi til að hugsa og ferðast í huganum um alla heima og geima, kynnast sjálfri sér og veröldinni, upp- götva fegurðina, sannleikann, réttlætið, kom- ast að leyndardómum lífsins, afhjúpa þá, sýna öðrum sannindi sem hún hefur fundið, deila þekkingu sinni með öðrum, eignast allsgáða, heilsteypta vini, skapa nýja og betri veröld í ná- inni samvinnu við aðra. Sálin er manneskjan sem sjálfstæð hugsandi vera sem veit að hún ber ábyrgð á sjálfri sér og líka á lífinu og heim- inum að svo miklu leyti sem hún þekkir þau og getur haft áhrif á gang mála. Verkfæri mannssálarinnar eru skoðanir og rök, það er með þeim sem hún ræktar garðinn sinn, reynir að standa á eigin fótum og styðja aðra í sömu viðleitni. Stundum er sálin vissu- lega eins og sært dýr sem einskis þarfnast nema líknsemi þess sem á leið hjá. Þá skiptir miklu að gera sér skýrar hugmyndir um aðstæð- urnar og meta með rökum skyn- seminnar hvað best sé að gera. Og þá skiptir líka miklu að vera ekki bundinn á klafa neinna fyr- irfram gefinna skoðana eða kerfa, heldur að einbeita sér að því einu að gera lífið bærilegra. Í þessu felst höfuðstyrkur kristins boðskapar. Kristur kemur sem lausnari, sá sem frelsar sálina úr viðjum allra fyrirfram gefinna skoðana og kerfa. Og fer síðan á braut, stíg- ur til himins og skilur sálina eina eftir með það fagnaðar- erindi að hún sé laus úr viðjum hins illa, frelsuð, frjáls til að hugsa og skapa eftir sínu eigin höfði. Kristin heims- eða lífs- skoðun er í rauninni ekki til. Kristur færði mönnum ekki neinar fastmótaðar skoðanir, heldur frelsi undan fargi óttans, fargi kerfa og fyrirfram skoð- ana, sem fjötra fólk og hindra í að skynja möguleikana og tæki- færin sem lífið hefur upp á að bjóða. Í stað kristinnar heims- eða lífsskoðunar væri því nær að tala um kristilega lífssýn, lífið í ljósi Krists – lífið á andartaki lausnarinnar þegar mannssálin rís úr rústum syndarinnar, hörmunganna og eyðilegging- arinnar. Kristur táknar og sýnir sigur lífsins yfir dauðanum; það er kjarni hinnar kristilegu lífssýnar. Hér snýst spurning ekki um gildar skoðanir og rök og ekki er lagt upp til umræðu um staðreyndir lífsins. Staðreyndir lífsins benda raunar allar til þess að lífið lúti í lægra haldi fyrir dauðanum, það eina sem við vitum með nokkurri vissu sé að við sleppum ekki lif- andi frá lífinu. Þess vegna er hin kristilega lífs- sýn glapsýn eða missýn sé hún tekin bók- staflega sem skoðun á lífinu og dauðinn talinn vera hjóm og blekking. Dauðinn ásamt þján- ingu, eymd og böli, sem honum fylgja, er sann- arlega ekki blekking, heldur blákaldur veru- leiki, daglegt brauð okkar mannanna. Við erum á valdi þessa veruleika, ofurseld sárindum bæði á sál og líkama, og raunar særð til dauða – af þessari ástæðu og engri annarri biður fólk um frelsara. Þess vegna tekur það á móti manni eins og Kristi sem er ekki mennskur, heldur sendur inn í heiminn til að taka á sig mennskuna og endurskapa hana til æðra og fegurra lífs. Þessi frelsunarsaga er sannkallað ævintýri, fantasía sem er engu lík og óþrjótandi upp- spretta líknar og lausnar. En hún er ekki heimsskoðun, miklu fremur trú á fjarstæðu- kennda hluti og furðulega veru og verur og stendur í sjálfu sér miklu nær draumórum en skynsamlegum skoðunum á lífinu og tilverunni. Hún er ekki ómerkari fyrir það, öðru nær. Ef kristin trú væri heimsskoðun, og þegar hún er skoðuð sem slík, þá verður hún eins og hver önnur hjátrú og hindurvitni, tóm vitleysa hvernig sem á hana er litið. Og þessi vitleysa getur meira að segja orðið stórhættuleg, ef menn taka hana bókstaflega og ætla að leggja hana gagnrýnislaust til grundvallar skoðunum sínum á lífinu og tilverunni. Trúin, ef hún er heil og hrein, á að gera manneskjunni kleift að vera hún sjálf, vera heil í sál sinni, endurreist. Ekkert getur komið í stað trúar sem tryggir samband sálarinnar við eigin veruleika. Ef þetta traust brestur verður erfitt að fóta sig í tilverunni, kannski ókleift með öllu. En trúin kemur ekki í stað þeirra skoðana og þekkingar sem við þurfum til að takast á við lífið og þau verkefni sem það legg- ur okkur á herðar. Hver eru þessi verkefni? Hvað er lífið? Hvers krefst það af okkur? Kannski einskis nema þess að við lifum, þiggj- um lífið, hugsum um það, vöndum til þess, sinn- um því. Lífið er eins og lítið barn, óskrifað blað og óendanlegir möguleikar. Og fæðing þess er framundan. Jólin eru stóra stundin. Þjónar ein- hverjum tilgangi að spyrja til hvers sú stund renni upp? Eigum við að spyrja: Stefnir lífið að einhverju? Eða er það stefnulaus, stjórnlaus orka, marklaus hringiða sem hrífur okkur með sér, þeytir okkur áfram eftir óræðum brautum til fundar við dauðann og tómið? En hvaða dauða og hvaða tóms? Dauðinn er ávallt dauði einhvers, veru sem ber í sér lífið, veru sem er lífið, andartak þess eða eilífðin í augnablikinu. Og tómið er fjarvera þess sem var hér fyrir andartaki og hvarf á einu augnabliki. Er ekki lengur. Einmitt vegna þess að lífið er sífellt á förum, þurfum við og verðum að gera áætlanir um lífið sem berst okkur á hverju andartaki úr framtíð- inni. Lífið eins og streymir til okkar úr hinu ókomna, við tökum það til okkar, sinnum því eða vanrækjum það. Svo er það horfið, farið, liðið, dáið. Það getur einungis farið vegna þess að það er ætíð að koma, ætíð, ávallt, eilíflega að koma á meðan við dveljum hér, erum hér, lifum hér. Að lifa fyrir okkur mennskar, hugsandi verur er að taka á móti lífinu, skoða það, rækta það og gæta þess eftir megni. Komutímann, aðventuna, skulum við nýta okkur til að hugleiða þátttöku okkar í þeim sköpum og ósköpum sem yfir heiminn dynja. Ekkert okkur getur vitað hinsta hlutverk sitt í tilverunni, en hver veit nema okkur sé öllum boðið að vera, hverju á sinn hátt, ljósmæður frelsarans á fæðingarhátíðinni sem framundan er. Hér og nú og eilíflega. HVERS VEGNA FRELSARA? ERINDI Á AÐVENTUNNI Í DÓMKIRKJUNNI 1. DESEMBER 2002 Höfundur er rektor Háskóla Íslands. E F T I R PÁ L S K Ú L A S O N Altaristafla á Skarði á Skarðsströnd. MYNDLIST Borgarskjalasafn Reykjavíkur, Grófar- húsinu: Reykjavík í hers höndum. Til 2.2. Galleri@hlemmur.is: Viktoría Guðnadótt- ir. Til 5.1. Gallerý nr. 5, Skólavörðustíg 5: Samsýn- ing Álfheiðar Ólafsdóttir og Helgu Sigurð- ardóttur. Til 31. des. Gerðuberg: Teikningar úr nýjum barna- bókum.Til 6.1. Hallgrímskirkja: Aðalheiður Valgeirsdótt- ir. Til 1.3. Listasafn Einars Jónssonar: Safnið er lok- að til janúarloka. Listasafn Íslands: Íslensk myndlist 1980- 2000. Til 15.1. Listasafn Reykjavíkur - Ásmundarsafn: Listin meðal fólksins.Til 31. des. Listasafn Reykjavíkur - Hafnarhús: Borg - innsetning Ingu Svölu Þórsdóttur. Nú- tímalist frá arabaheiminum. Til 19.1. Listasafn Reykjavíkur - Kjarvalsstaðir: Martin Bigun. Til 15.1. Miðrými: Odd Nerdrum. Til 31.1. Listasafn Sigurjóns Ólafssonar: Andlits- myndir og afstraksjónir. Opið e. samkomu- lagi út janúar. Til 30.3. Mokkakaffi: Hildur Margrétardóttir. Til 15.1. Nýlistasafnið, Vatnsstíg 3B: Giovanni Garcia-Fenech. JBK Ransu. Til 12.1. Reykjavíkur Akademían, Hringbraut 121: Ingólfur Júlíusson. Til 31.1. Þjóðarbókhlaða: Yfirlitssýning á verkum Halldórs Laxness. Til 31. des. Þjóðmenningarhúsið við Hverfisgötu: Handritin. Landafundir. Skáld mánaðar- ins: Einar Sigurðsson í Eydölum. Íslands- mynd í mótun - áfangar í kortagerð. Til 8.8. Upplýsingamiðstöð myndlistar: www.umm.is undir Fréttir. TÓNLIST Laugardagur Langholtskirkja: Jónas Guðmundsson ten- ór og Magnús Ragnarsson organisti. Kl. 12. Þriðjudagur Hallgrímskirkja: Hátíðarhljómar við ára- mót. Trompetleikararnir Ásgeir H. Stein- grímsson og Eiríkur Örn Pálsson ásamt Herði Áskelssyni organista. Kl. 17. LEIKLIST Þjóðleikhúsið: Með fullri reisn, lau. Jón Oddur og Jón Bjarni, sun. Halti Billi, sun., fös. Karíus og Baktus, sun. Veislan. Sun., fös. Borgarleikhúsið: Sölumaðru deyr, lau., sun. Honk! sun. Jón og Hólmfríður, sun., fös. Herpingur og Hinn fullkomni jafningi, lau. Rómeó og Júlía, mán., fös. Iðnó: Beyglur, lau., fös. Hafnarfjarðarleikhúsið: Grettissaga, fös. Upplýsingar um listviðburði sem óskað er eftir að birtar verði í þessum dálki verða að hafa borist bréflega eða í tölvupósti fyrir kl. 16 á miðvikudögum merktar: Morgun- blaðið, menning/listir, Kringlunni 1, 103 Rvík. Myndsendir: 5691222. Netfang: menning@mbl.is. MENNING LISTIR N Æ S T U V I K U

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.