Lesbók Morgunblaðsins - 28.12.2002, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 28.12.2002, Blaðsíða 16
16 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 28. DESEMBER 2002 Tveir vinir H austið 1971 bjó ég fáeinar vikur hjá afa mínum Vil- mundi Jónssyni í Ingólfs- stræti 14. Ég flutti til hans þegar amma mín, Kristín Ólafsdóttir, lagðist á sjúkra- hús. Amma lézt eftir skamma legu. Eftir að hún dó var Halldór Kiljan Laxness nánast einn um það af gömlum vinum afa að sinna honum. Hinir voru flestir látnir eða sjúkir. Halldór var afar nærgætinn. Til dæmis færði hann afa handrit sitt að nýrri bók til að lesa, og hreppti bæði umvandanir og aðdáun. Þeir töl- uðu líka um bókmenntir líðandi stundar, mest um svonefndar heimildaskáldsögur sem þá voru tízka á Norðurlöndum. Halldór hafði haft veður af danska höfundinum Thorkild Hansen, og afi hafði lesið hann. Heimildaskáldsögur eins og þær sem Hansen setti saman minntu Hall- dór á Upton Sinclair sem þeir afi höfðu haft mikið dálæti á í gamla daga, og afi haldið að Þórbergi Þórðarsyni með þeim afleiðingum að Sinclair grasserar í Bréfi til Láru. Afi átti flest- ar bækur Sinclairs, mikið ritsafn. Þegar ég hélt til háskólanáms í Ameríku 1961 gaf hann mér þrjár bækur úr safninu mér til styrkingar, þar á meðal Gæsagang (The Goose Step: A Study of American Education) sem er árás Sinclairs frá 1923 á bandaríska háskóla fyrir þjónustu þeirra við auðvaldið. Ég sá fyrir vikið margt í öðru ljósi vestra en ég hefði annars gert. En ég var að tala um annað. Eitthvert kvöld- ið haustið 1971 kom þar rökræðum þeirra fé- laga um heimildir og skáldskap að Halldór veik að minningu úr vinskap þeirra á fyrri tíð. Sú var að afi hafði sagt honum um kvöld, á útmánuðum 1933, mikla sögu norðan úr landi. Afa hafði ver- ið sögð þessi saga þegar hann var læknir á þeim slóðum þar sem hún átti að hafa gerzt. Halldóri þótti svo mikið til um söguna að hann settist við næsta dag og samdi sína eigin útgáfu af henni. Svo færði hann afa handritið. Það hét „Úngfrú- in góða og Húsið“. Halldór fór þar hvorki of nærri né of fjarri þeim atburðum sem afi hafði sagt honum frá. En allt fyrir það þótti afa handritið misheppn- að. Þetta sagði hann Halldóri. Meinið var frá- sagnarhátturinn og stíllinn. Afa fannst Halldór hafa í handritinu sagt söguna með þunga og til- þrifum sem spilltu efni hennar alveg. Halldór féllst á þessa gagnrýni af heilum hug og lagði handritið til hliðar um hríð. Nú man ég ekki lengur hvernig þeim tveimur sagðist frá um framhaldið í einstökum atriðum. En einhvern veginn rifjaðist upp fyrir þeim fyrr en voraði 1933 að söguefnið ætti sér nokkra og þó fjarlæga hliðstæðu. Bandaríska skáldið Washington Irving (1783–1859) hafði skrifað smásögu um ást og ættardramb. Hún birtist fyrst á frummálinu 1819 eða 1820, og í ís- lenzkri þýðingu í tímaritinu Nýrri sumargjöf 1860, árið eftir lát Irvings. Sagan heitir „The Spectre Bridegroom“ („Brúðardraugurinn“). Þar segir frá brúðguma sem kemur ekki til brúðkaups síns. Þar takast ást og ættardramb á, en að vísu með þeim lyktum að drambið lýtur í lægra haldi fyrir ástinni. Í „Úngfrúnni góðu“ fer það með nauman sigur af hólmi. En efnið skiptir minnstu. Það var ekki heldur neitt að efninu hjá Halldóri í fyrstu atrennu hans. Lýtin voru efnistökin, sögðu þeir afi. Og stíllinn. Halldór hafði nú ekki fyrr lesið „Brúð- ardrauginn“ en hann skrifaði nýja gerð sögu sinnar. Þar þótti afa vera komin hin rétta gerð hennar. Hún var prentuð í Fótataki manna á Akureyri haustið 1933. – Nú var vikið að öðru unz Halldór bauð góða nótt og ók í Mosfells- sveit. Þegar hann var farinn las ég „Brúðar- drauginn“ í fyrsta sinn. Tvær ungfrúr Í fyrsta kafla „Úngfrúarinnar góðu“ segir um ungfrúna að hún kunni einn og sérhvern saum sem þektur var á Íslandi í þann tíð, ekki aðeins flatsaum, kont- órstíng, blómstursaum, krosssaum, klaustur- saum, afturstíng og flos, heldur einnig enskan og franskan útsaum, góbelínsaum, feneyasaum, harðángurssaum og jafnvel heðibúsaum; hún heklaði heil sjölin og ábreiðurnar, prjónaði tíg- laprjón, knúppaprjón, x-gataprjón og síla- beinsprjón, baldýraði með gulli og silfri, knipl- aði heil millumverkin og gimbaði kvenna best. Og þó var hjartalag hennar fegra en allur út- saumur veraldarinnar.1 Á fyrstu síðu „Brúðardraugsins“ segir svo frá kvenhetju sögunnar: Barúninn átti eina dóttur barna; en það er oft farið svo með einbirnin, að þau eru gerð að undri, og svo var einnig gert við barúnsdótt- urina. Allar barnfóstrur, kjaftakerlingar, frændur og frændkonur gengu í skrokk á bar- úninum og héldu hrókaræður út af því, hversu dæmalaus mannkosta-kvenprýðissómagæddur kvenmaður dóttir hans væri, enda var það fólk líklegast til að vita hvað það söng. Tvær eld- gamlar og óspjallaðar meyjar ólu upp stúlkuna; þær voru skyldar henni, og höfðu verið nokkur ár við einhverja þjóðverska hirð; kunnu þær því til alls þess, sem útheimtist til að uppala unga mey, og voru sprenglærðar í öllu námi til munns og handa. Þetta sannaðist og á ung- frúnni litlu; hún varð að hreinu undri í hönd- unum á frændkonunum sínum; átján ára kunni hún alskonar saum, krossaum og pellsaum og blómstursaum, þræðing og fastasting og als- konar glitvefnað; hún óf og saumaði helgra- mannasögur í dúka og dýrindis lín, og það var svo himinljómandi fallegt, að mönnum lá við að hníga niður að horfa á það.2 Svona má halda áfram að bera saman allt til enda beggja sagna. Um það þarf engra vitna við að þýðandinn að „Brúðardraugnum“ í Nýrri sumargjöf var Benedikt Gröndal Sveinbjarnarson. Svo má gizka á að hér höfum við ekki eina dæmi þess að stíll Benedikts hafi leyst Halldór úr hafti. Frásögn Irvings Einhverjum þykir ugglaust fróðlegt að sjá hvernig Irving gerir grein fyrir barúnsdóttur- inni góðu. Hann segir svo frá: The baron had but one child, a daughter; but nature, when she grants but one child, always compensates by making it a prodigy; and so it was with the daughter of the baron. All the nurses, gossips, and country cousins assured her father that she had not her equal for beauty in all Germany; and who should know better than they? She had, moreover, been brought up with great care under the superintendence of two maiden aunts, who had spent some years of their early life at one of the little German courts, and were skilled in all branches of knowledge necessary to the education of a fine lady. Under their instruction she became a mir- acle of accomplishments. By the time she was eighteen, she could embroider to admiration, and had worked whole histories of the saints in tapestry, with such strength of expression in their countenances, that they looked like so many souls in purgatory. Sjá má að Benedikt þýðir frjálslega. Til dæmis stendur romsan um saumaskapinn, sem Halldór tekur sér til fyrirmyndar og herðir á, ekki hjá Irving. Galimatías Halldóri lá heldur misjafnt orð til Benedikts Gröndal sem skálds. Í Sjömeistarasögunni seg- ir hann Benedikt hafa „sett met í hlálegu fimb- ulfambi á íslensku“ og hefur fyrstu erindin úr „Gígjunni“ til marks um það: „Um undrageim í himinveldi háu …“. „Svona kveðskapur heitir víst galimatías á öðrum málum,“ segir hann. „Vandséð að hverjum skáldið er að narrast, nema ef vera kynni söngkonunni sem á að fara með þetta.“4 Halldór skeytir ekki um að Bene- dikt hefur ekki fyrr sleppt orðinu um drauma- land sitt í undrageimi, með dimmróma fossum, björtum höllum og sætum hreim, en hann segir: UNGFRÚIN GÓÐA OG BRÚÐAR- DRAUGURINN Handa Dagnýju Kristjánsdóttur 19da júní 2002 Vilmundur Jónsson landlæknir sagði Halldóri Lax- ness sögu norðan úr landi sem varð kveikjan að Ungfrúnni góðu og Húsinu en hún átti sér einnig hlið- stæðu í sögu, eftir bandaríska skáldið Washington Irving, sem Benedikt Gröndal þýddi. Höfundur er prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands. E F T I R Þ O R S T E I N G Y L FA S O N Halldór á bókasafninu á Laugarvatni sumarið 1933, sama ár og hann skrifaði Ungfrúna góðu. Benedikt GröndalGuðný KlængsdóttirWashington IrvingVilmundur Jónsson Slengdu þér duglega, sál mín, um geiminn, sjóðandi kampavíns lífguð af yl! Kærðu þig ekkert um helvítis heiminn, hoppaðu blindfull guðanna til!5 Þetta er kannski það sem heitir galimatías á öðrum málum og til þess fallið að narrast að söngkonum. Fimbulfamb er það ekki. Annars staðar í minningum Halldórs er Benedikts getið af meiri skilningi. Hér segir frá ömmu Halldórs heima í Laxnesi: Eina bókin sem Guðný Klængsdóttir bað mig nokkurn tíma að lesa sér var Þórðar saga Geir- mundarsonar úr Hattardal eftir Gröndal, og var til hjá okkur í bókaskápnum ásamt Helj- arslóðarorustu. Gamla konan var þá hætt að sjá á bók nema gegnum lítilfjörlegt stækkunargler sem hún átti, og fremur fældi mann frá bókum en laðaði að þeim. En ég hafði ekki lengi lesið þegar ég varð var við að áheyrandi minn var gripinn djúpum brjóstsogum, áþekt andar- teppu. Fyrst hélt ég þetta væri hóstakast; en þegar hún virtist ekki ætla að komast í samt lag aftur bað hún mig að hætta. Þetta var hlátur. Ég man ekki til að þessi kona hlægi nokkru sinni nema að stílsmáta Benedikts Gröndal þegar hann var að lýsa framförum í Reykjavík.6 Vera má að sagan af ungfrúnni góðu hafi ver- ið skrifuð til að þóknast þeim báðum, Guðnýju Klængsdóttur og Vilmundi Jónssyni, þótt Guðný væri látin níu árum áður. Heimildir: 1 Halldór Kiljan Laxness: „Úngfrúin góða og Húsið“ í Þáttum, Helgafell, Reykjavík 1954, 95–96. 2 Benedikt Gröndal Sveinbjarnarson: „Brúðardraugur- inn“ í Ritsafni II, Ísafoldarprentsmiðja 1951, 197–198. 3 Washington Irving: „The Spectre Bridegroom“ í The World of Washington Irving, Dell, New York 1965, 109. 4 Halldór Laxness: Sjömeistarasagan, Helgafell, Reykja- vík 1978, 100–101. 5 Benedikt Gröndal: „Gaman og alvara“ í Ritsafni I, Ísa- foldarprentsmiðja, Reykjavík 1948, 126–127. 6 Halldór Laxness: Í túninu heima, Helgafell, Reykjavík 1975, 126–127.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.