Pressan - 23.11.1989, Page 4
4
"' 'Fimmtadagur 23: nóv.“1989
lítilrædi
af viðu og breiðu
Mér hefur alla tíö þótt alveg undur notalegt
að láta aðra „taka af mér ómakið", svona skjóta
mér undan skyldustörfum, vera að heiman
þegar tekið er slátur, kartöflum plantað eða
farið á berjamó, týnast þegar á að fara að
skreyta jólatréð eða færa píanóið, vera hand-
lama þegar þarf að setja tengikló á straujárnið,
taka til í bílskúrnum eða smyrja reiðtygin.
Já svona skjóta mér undan hlutunum og láta
aðra taka af mér ómakið.
Ég held að þetta sé ekki endilega afþví að ég
sé illmenni, því í raun og veru er ég nú vænsti
maður, nei, nei, þetta er, held ég, einfaldlega
vegna þess að ég er að eðlisfari fremur latur og
hef oftar en hitt komist upp með það.
í brúðkaupsveislunni okkar heiðurshjón-
anna, fyrir rúmum þrjátíu árum, tók frændi
minn mig afsíðis og gaf mér heilræði.
— Neitaðu aldrei, sagði hann, neitaðu aldrei
konunni þinni um hjálp þegar hún biður þig að
hlaupa undir bagga með sér við heimilisstörf-
in. Gerðu það bara svo illa að þú verðir ekki
beðinn um það aftur.
Konan mín er löngu hætt að biðja mig að
koma til liðs við sig í kokkhúsinu.
Sömuleiðis eru menn hættir að fara þess á
leit við mig að ég taki virkan þátt í stjórnmál-
um.
Og ég er ósköp feginn því hvað margir virð-
ast ólatir að taka af mér ómakið.
Menn sem gera sitt besta en vanda sig ekki
við handvömmina.
Mér kemur þetta svona einsog í hug þegar
ég sé hve farsælan endi landsfundur Alþýðu-
bandalagsins fékk.
Manni bara létti.
Ég trúi því staðfastlega að með hverjum
landsfundi nálgist Alþýðubandalagið það tak-
mark að komast að niðurstöðu um það hvort
réttara sé að læra af fortíðinni og gera framtíð-
arplön eða hitt, sem löngum hefur þótt af-
bragðs valkostur og notið mikils fylgis, að
plana fortíðina og læra af framtíðinni.
Gífurleg átök urðu á landsfundinum, einsog
dæmin sanna, en ég var bara til skamms tíma
ekki alveg klár á því um hvað var deilt og barist
af þessari líka hörkunni.
Kannski var það vegna þess að ég hafði að
undanförnu verið svo mikið að spögléra í þjóð-
málum almennt en minna hirt um að fylgjast
með ólgandi ástríðum blóðheitra einstaklinga.
Hvað um það. Nú er ég búinn að kynna mér
endanlegar niðurstöður landsfundarins.
í stóriðjusamþykktinni segir að í undantekn-
ingartilfellum geti komið til greina að efna til
samvinnu við útlendinga um uppbyggingu ís-
lenskra fyrirtækja og er það túlkað þannig af
svonefndum lýðræðisarmi Allaballa að það sé
ekki lengur skilyrði að íslendingar eigi meiri-
hluta í stóriðjufyrirtækjum.
í verkalýðs- og kjaramálum lét landsfundur-
inn sitt ekki eftir liggja og var lengi og mikið um
það bitist hvort:
„Alþýöubandalagið teldi mikilvægt að halda
niðri verðlagi á brýnustu lífsnauðsynjum og
berjast gegn skattlagningu á matvælum
með því að afnema matarskattinn" — eða
hvort — „Alþýðubandalagið teldi mikilvægt
að halda niðri verðlagi á brýnustu lífsnauð-
synjum og berjast gegn skattlagningu á
brýnustu lífsnauðsynjum með því að draga
verulega úr skattlagningu á matvæli".
Mikið og lengi var deilt um aðild íslands að
Evrópubandalaginu, þartil að lokum endanleg
niðurstaða fékkst, semsagt þessi:
„Óhjákvæmilegt er að farið verði vandlega
yfir málið í heild og er þingflokki Alþýðubanda-
lagsins falið að taka endanlega afstöðu til
málsins."
Aðild að Alþjóðasambandi jafnaðarmanna
var endanlega afgreidd með því að fela fram-
kvæmdastjóra að skipa starfshóp sem aflaði
upplýsinga um erlenda flokka og samtök.
Engin stjórnmálaályktun kom frá þessum
landsfundi, heldur var Ólafi Ragnari, Svavari
og Steingrími J. Sigfússyni falið að sjóða hana
saman við tækifæri.
Það er ekki að undra þó mikill taugatitringur
fylgi slíkum niðurstöðum.
í frægu íslensku leikriti er þessi setning:
— Ástin er sterkasta aflið. Þarnæst kemur
hnefinn sem brýtur manni braut.
Einhvernveginn finnst mér einsog aflvakar
þessa landsfundar hafi einmitt verið sterkasta
og næststerkasta aflið.
En þegar maður hefur ástina og hnefann að
leiðarljósi, þá gleymist stundum að líta til hlið-
ar, en þar kann stundum að leynast eitt og ann-
að sem máli skiptir.
Sumum finnst að það skipti ekki meginmáli
hvort þeirra er varaformaður, stúlkan frá Dalvík
eða maðurinn sem er að láta bora gat í gegn-
um fjallið fyrir ofan Dalvík.
Þessum sömu sumum finnst, að því er mér
skilst, að landsfundur Alþýðubandalagsins
hefði meira átt að snúast um kaup og kjör eða
tvísýnuna um sjálfstæði þjóðarinnar heldur en
það hver sé í hvaða örmum og hvort dömur
séu réttdræpar í Alþýðubandalaginu.
Það var haft eftir Steingrími J. Sigfússyni
eftir landsfundinn að ætlunin með kjöri hans
hefði verið að „breikka forystu flokksins" og
Ólafur Ragnar sagði orðrétt:
— Flokkurinn er víður og í honum margar
vistarverur.
Svo ætla má að Alþýðubandalagið sé eftir
þennan landsfund bæði vítt og breitt.
NORRÆNA FERÐASKRIFSTOFAN
ÖLL ALMENN EARSEÐLASALA OG SKIPULA GPÍinG FERÐA PERSÓHULEG ÞJÓNUSTA
NORRÆNA FERÐASKRIFSTOFAN HF. LAUGAVEGI 3, REYKJAVÍK i V/FJARÐARGÖTU, SEYDISRRÐI . SÍMI 91-626362 TELEFAX: 91-29460 1 SÍMI 87-21111 TELEFAX' 97-21105