Pressan - 09.08.1990, Blaðsíða 9

Pressan - 09.08.1990, Blaðsíða 9
Fimmtudagur 9. ágúst 1990 9 MARGRÉT EINARSDÓTTIR HEFUR GERT FRÆÐILEGAR RANNSÓKNIR Á „KÚLTÚRSJOKKI" ,,Sumir eru útlendingar alls staðar“ Óvild gagnvart fólki aföðru þjóðerni og frá öðrum menningarsvæðum lærist. Skilningur og umburðarlyndi lærist líka. Þegar fólk kynnist daglegu lífi hvers ann- ars vaknar skilningur sem eyðir óttanum og hatrinu sem af honum leiðir. En þau kynni eru ekki alltaf tekin út með sæld- inni. Þeir sem hafa búið erlendis munu kannast vel við fyrirbæri sem enn verður aðnefna „kúltúrsjokk” meðan ekki finnst orð yfir það á íslensku. EFTIR GUÐRÚNU FINNBOGADÓTTUR MYNDIR MARGRÉT EINARSDÓTTIR OG KRISTÍN BOGADÓTTIR Nú er stödd hér á landi kona sem bæði hefur kynnst vanda- málinu af eigin raun og stundað fræðilegar rannsóknir á þessu sviði. Það er Margrét Einarsdóttir sem búið hefur í nokkur ár í Angóla ásamt fjölskyldu sinni. Eiginmaður Margrétar, Skúli Waldorf, kenndi í sjóvinnuskóla á vegum sænsku þró- unarstofnunarinnar skammt frá höfuðborginni Luanda. Margrét var tekin tali á dögunum og spurð fyrst hvernig hún skiigreindi fyrirbærið ,,kúlt- úrsjokk”. ,,Þetta hugtak varð fyrst til innan mannfræðinnar. Bandarískir mannfræðingar fóru til starfa á meðal fram- andi þjóða og fundu til van- líðunar og þunglyndis. Þessi einkenni koma ekki fram nema hjá hluta þeirra sem dveljast erlendis. Kúltúr- sjokki má skipta í nokkur stig. Fyrsta stigið einkennist af spenningi og forvitni þegar maður er nýkominn til hins framandi lands. Á næsta stigi kemur í Ijós streita og þreyta sem stafar af skorti á skilningi á boðum hinna. Þetta stig reynist sérlega erfitt þeim sem eru einir og geta ekki rætt við fólk úr sínum eigin menningarheimi. Síðan bregst hver við á sinn hátt, eftir upplagi og aðstæðum. Þessi viðbrögð má flokka í 4—5 flokka. Algengast er að menn telji nýju menninguna vera óæðri sinni eigin menningu og hafni henni. Land og þjóð sam- ræmast ekki þeim væntingum sem gerðar voru og afleiðingin er höfnun. Um leið er menning heimalandsins upphafin og reynt að treysta böndin við hana. Flestir ná sér aftur þegar þeir hafa kynnst fólkinu í landinu nánar." Aukið raunsæi — Geturðu nefnt dæmi um þetta af þinni eigin reynslu í Afr- íku? „Þeir Svíar sem starfa á vegum þróunarstofnunarinnar eru sérstaklega valdir til starfsins og er þá tekið mið bæði af skap- gerð viðkomandi, menntun og reynslu. Samt eru alltaf ein- hverjir sem hafna nýju menningunni algjörlega. Þeim finnst þeir hafa verið sviknir. Svo eru aðrir sem aðlagast mjög fljótt, eru mjög hrifnir og fara að fyrirlíta sína eigin menningu. Sumir eru svo útlendingar alls staðar, líka heima hjá sér. Þeir sem dveljast langdvölum erlendis og líkar það vel öðlast meira raunsæi, bæði hvað varðar eigið land og nýja landið." — Flver er nú helsti munurinn á lífinu í Afríku og á íslandi? „Það er ýmislegt í angólskri menningu sem Islendingar skilja kannski betur en aðrar þjóðir. Galdrar og hjátrú hafa ótrúlega mikil áhrif á fólk. Því kynnist maður ekki fyrr en við persónuleg kynni við fólkið í landinu. Þegar grannkonur mín- ar veiktust fóru þær bæði til galdralæknis og til venjulegs læknis. Þegar þeim batnar, vita þær ekki hvor læknaði þær og oftast halda þær að það hafi verið töfralæknirinn. Þarna er stundaður bæði hvíti- og svartigaldur. Margt í þessu er mjög óhugnanlegt. Menn útskýra oft þjóðfélagsfyrirbæri útfrá öf- und og afbrýðisemi og í því sambandi er mikið stuðst við galdra." Til galdralækna vegna framhjáhalds — Hvað fannst þér erfitt að sætta þig við í angólskri ménn- ingu? Ólíkir kynþættir í sátt og samlyndi. „Fjölkvænið sem tíðkast þarna, eins og mjög víða í Afríku, enda þótt það sé bannað með lögum. Það er einkennandi fyrir Afríku að landslögin eru tómur bókstafur en forn lög ættar- samfélagsins eru hin gildandi lög í landinu. Samband karis og konu er ööruvísi en í okkar samfélagi. Hjá okkur er það nánara, en í Afríku hafa þau samband við miklu stærri hóp. Það er líka meiri samheldni á meðal kvennanna. Þarna eru galdrarnir óspart notaðir. Setjum sem svo að kona komist að því að maðurinn hennar haldi framhjá henni. Þá fer hún til töfralæknisins sem sér til þess, með einhverjum jurtum og lyfjum, að frillan deyi. Ég reyndi að kynnast galdramanni í gegnum afríska kunningjakonu mína. Hún vildi ekki koma mér í samband við neinn, sagði það geta orðið of hættulegt fyrir mig, ef ég færi að hnýsast í þessa hluti. Og að vissu leyti hafði hún rétt fyrir sér.“ — Veistu dæmi þess að kuklið hafi boriö árangur? „Ein vinkona mín í fiskimannaþorpinu var að safna sér fyrir ísskáp. Hún þurrkaði fisk og seldi á markaðinum. Setti ágóð- ann auðvitað ekki í banka því verðbólgan er svo gífurleg að það borgar sig alls ekki. Hún kom í kaffi til mín skömmu áður en ég fór heim, til þess að kveðja mig. Á meðan passaði dóttir hennar húsið, því þarna er mikið um þjófnaði og rán. Daginn eftir frétti ég að enginn hefði getað sofið í hverfinu hennar fyrir gráti hennar og gnístran tanna, því öllum peningunum hafði verið stolið á meðan dóttirin svaf á verðinum. Hún vildi ekki leita til lögreglunnar eins og ég ráðlagði henni og tók sér ferð á hendur til heimabæjar síns þar sem hún þekkti galdrakarl sem var sérfræðingur í að upplýsa slík mál — einskonar galdra- spæjari. Hún fékk nær allt féð aftur — þjófurinn reyndist vera nágranni hennar — og þakkaði það að sjálfsögðu töfrunum. í þessu tilfelli hrifu þeir." — Hver er helsti munurinn á hegðun og siðvenjum manna í Afríku og Evrópu? „í Afríku er fólk mjög félagslynt og það fer mikill tími í að heilsast og spyrja um líðan hvers^annars og sýna hlýlegt við- mót. Það er opnara og glaðara og hefur meiri tíma hvert fyrir annað. I Evrópu hinsvegar, og þá sérstaklega í stórborgunum, er hægt að búa í áratugi án þess að nokkur maður skipti sér af manni. Sem betur fer er þetta ekki svona enn á Islandi en stressið hér og öll vinnan gerir það að verkum að fólk hefur varla tíma fyrir annað en litlu kjarnafjölskylduna sína. Mér sjálfri fannst auðvitað mjög spennandi að fara til Afríku. En þarna var ég í hópi evrópskra þróunarstarfsmanna sem halda hópinn og hafa sína eigin tilbúnu menningu. Sumir þeirra umgangast ekki innfædda allan tímann sem þeir eru þarna. Mér fannst afstaöa þessa fólks oft mjög neikvæð. Að því leyti varð ég fyrir vonbrigðum. Ég hélt að þetta fólk væri kom- ið til Afríku af hugsjónaástæðum. Við vorum svo heppin að búa í litiu fiskimannaþorpi. Ég var fyrst heima og passaði börn- in sem voru þá fjögurra og ellefu ára og hafði góðan tíma til að kynnast fólki og læra portúgölskuna. Síðar kenndi ég ensku við skólann sem maðurinn minn kenndi við og kennaraefnum sálarfræði. Ég vann líka á vegum sænska sendiráðsins við að taka á móti nýju fólki og leiðbeina því. Ég sá um að það fengi fyrirlestra um menningu og stjórnmál í landinu og kennslu í tungumálinu — með öðrum orðum sá ég um að það kæmist í gegnum kúltúrsjokkið án mikilla átaka!" Þjóðarrembingur og menningarhroki — Hvað heldurðu að sé erfiðast fyrir útlendinga að sætta sig við á Isiandi? „Það er ýmislegt í fari okkar sem er erfitt að sætta sig við. Við heilsum ekki eins hjartanlega, spyrjum ekki eins mikið um líðan fólks eins og t.d. Afríkubúar. Ástæðan er margbrotin, að sumu leyti er iðnaðarþjóðfélaginu um að kenna, kannski líka loftslaginu. Það þarf að upplýsa fólk um þessi mál og ræða þau meira en hér er gert. Það hefur gefist mjög vel. Þessi mál eru nú í brennipunkti víða um lönd, því það má segja að við lifum nú á einskonar þjóðflutningatímum. Afstaða íslendinga gagn- vart fólki af öðru þjóðerni markast því miður oft af þjóðremb- ingi og menningarhroka. Þeir eru svo hræddir um að skaða eitthvað sem þeir eigi einir að sitja að. Þeir sem þannig hugsa eiga erfitt með að þróa með sér aðlögunarhæfni. Þeir eiga t.d. erfitt með að skilja þriðja heiminn og halda að tæknileg van- þróun þýði vanþróun á andlega sviðinu, sem er alrangt. Þá sér maður gamla fordóma staðfestast hjá fólki sem það hefur úr bókum. Ég get tekið sem dæmi Karen Blixen sem hélt því fram að fólkið sem starfaði á búgarði hennar í Kenýa næði ekki meiri andlegum þroska en fjórtán ára Evrópubúar. Þetta má kannski rekja iil þróunarkenningar Darwins sem mjög var í tísku á þessum tíma." — Heldurðu að Islendingar hafi breyst í viðmóti við útlend- inga á síðustu árum? „Ég las nýlega bók, í sambandi viö rannsóknina mína, um þjóðir sem fjandsamlegar eru útlendingum, m.a. ferðamönn- um. Þar eru Islendingar ofarlega á blaði, ásamt Frökkum, eða öllu heldur Parísarbúum sem heimsfrægir eru fyrir óliöleg- heit og hroka, sem íslenskir ferðamenn hafa stundum kvartað undan! En í íslensku sveitunum finnur maður enn vott af sið sem tíðkast í Afríku en hann er sá að halda myndarleg boð ef á annað borð er verið að bjóða fólki heim og gefa þá allt sem til er. Borðin svigna undan veitingunum sem maður verður að þiggja til þess að móðga ekki gestgjafana." — Hvaða þjóðir komast auðveldast yfir kúltúrsjokkið í Afr- iku? „Norðurlandabúar eru vel undirbúnir áður en þeir koma og komast nokkuð vel frá þessu. Fólk sem ég hef kynnst frá austantjaldslöndunum er lang fordómafyllst. Hjá því rekst maður á skoðanir sem núorðið er löngu liðin tíð að nokkur maður hafi orð á. Þaö fólk liefur greinilega ekki verið búið undir dvölina í Angóla." — Hvað er helst til ráða fyrir þá sem fara til útlanda og verða fyrir kúltúrsjokki? „Það er mikilvægt að hafa samband við einhvern frá sama menningarsvæði sem hefur svipaða reynslu og maður sjálfur og maður getur spjallað við. Auðvitað breytist maður og kemst að raun um að það er mjög margt sem verður að túlka öðruvísi en maður hefur gert í sinni eigin menningu. Sannleikurinn er aldrei einn eða algildur. Það er hægt að líta á málin frá svo mörgum hliðum og ég held að það sé ekki fyrr en maður hefur þroskast að þessu marki sem manni fer að líða vel og kemst í það jafnvægi og samræmi sem til þess er nauðsynlegt. Ég hef tekið eftir þvi að enda þótt vankunnátta í tungumáli sé talsverð hindrun í tjáningu eru margir sem ná mjög góðu sambandi, þótt þeir geti ekki tjáð sig. Skapgerð fólks hefur sitt að segja. Svo má ekki gleyma því að þetta er tvíbent, það er ekki bara aökomufólkið sem er fordómafullt, heldur heimamenn líka. Það er hættulegt að túlka allt út frá sínum aðstæðum. Þá er maður farinn að haga sér eins og nasistarnir á sínum tíma. Þessi hugsunarháttur hefur verið að skjóta upp kollinum í Evr- ópu undanfarið og vekur óhugnað." Margrét Einarsdóttir viö sundin blá.

x

Pressan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Pressan
https://timarit.is/publication/298

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.