Pressan - 09.08.1990, Blaðsíða 10

Pressan - 09.08.1990, Blaðsíða 10
10 Fimmtudagur 9. ágúst 1990 Friöjón Þórðarson hefur enga ákvöröun tekiö um aö hœtta í pólitík Ekkert kominn að fótum traml Þingkosningar eru nú á næsta leiti og verða ekki síðar en næsta vor. Innan stjórnmálaflokkanna er þegar farið að ræða um framboð og munu þar mun fleiri kallaðir en útvaldir sem oftar og að sjálf- sögðu er spáð í það hverjir muni nú hætta þingmennsku. Friðjón Þórðarson er einn þeirra sem hve lengst hafa setið á þingi. EFTIR: GUÐRÚNU FINNBOGADÓTTUR MYNDIR: KRISTÍN BOGADÓTTIR Það eru ekki margir ís- lenskir stjórnmálamenn sem hafa átt eins mikilli velgengni að fagna og eiga eins langan feril að baki og Friðjón Þórðarson, þingmaður i Vesturlandskjördæmi og fyrrverandi dómsmálaráð- herra. Hann var ráðherra í hinni umdeildu ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen og gekk þar í berhögg við meiri- hluta þess flokks sem hann hefur alla tíð verið fulltrúi fyrir á Alþingi, Sjálfstæðis- flokkinn. Það mun hafa ver- ið stormasamasta tímabil stjórnmálaferils sem annars hefur verið lygn og hnökralít- ill í hátt á fjórða tug ára. Blaðamaður Pressunnar náði tali af Friðjóni á dögun- um og innti hann eftir því hvort þessum langa ferli hans væri nú að ljúka eða hvort liann hygðist bjóða sig fram enn á ný í næstu kosningum til Alþingis. „Velgengnin hófst nú reyndar á falli. Það var vorið 1953 þegar ég bauð mig fram í Dalasýslu sem einmenn- ingskjördæmi og svo komst ég inn á broti úr atkvæði 1956, sem 11. landskjörinn þingmaður. Ég sat á þingi til 1959 þegar kjördæmabreyt- ingin var gerð. Þá féll ég aftur út og kom ekki inn aftur fyrr en 1967. En síðan hef ég setið sam- fleytt á þingi, svo það er satt að ég hef verið mjög lengi í þessu starfi. Það er raunar satt líka að mér hefur gengið vel alla tíð síðan, bæði í próf- kjörum og kosningum. Og þó ég hafi ekki alltaf verið sam- mála mínum fylgismönnum og okkur greint á um margt, hef ég alltaf sagt að við skyld- um halda hópinn sem lengst og það hefur gengið vonum framar. Ég get ekki svarað því enn hvort ég muni nú að hætta í pólitíkinni, ég hef einfaldlega ekki enn tekið ákvörðun um það. Ég geri ekki ráð fyrir að kosningar verði fyrr en næsta vor. Það kemur auðvit- að að því að ég hætti, en nú er ég þingmaður og störfum hlaðinn sem slíkur. Ég er alls ekki elstur þingmanna nú og nokkrir hafa setið lengur en ég á þingi." — Er nú alveg gróiö um heilt á milli þín og Sjálf- stæðisflokksins eftir aö þú gekkst til liðs við Gunnar Thoroddsen um árið? „Það lifir lengi í gömlum glæðum! Þó held ég að ég megi segja að nú sé alveg gró- ið um heilt. Samstarf mitt við Sjálfstæðisflokkinn er gott enda vakti aldrei fyrir mér að kljúfa hann heldur halda hon- um sameinuðum á breiðum grunni." — Hvað segja sjálf- stæðismenn í Vestur- landskjördæmi um framboð þitt í næstu kosningum? „Það má vel vera að sum- um finnist tími til kominn að ég hætti. Það getur verið að ein og ein rödd láti þá skoðun í ljós á Vesturlandi, en ég hef ekki heyrt þær. Það vita það margir að nú fer að líða að því að ég hætti og ég skal svo sannarlega ekki dylja þá þess lengi þegar þar að kem- ur. Ég er ekki kominn að fót- um fram og ég vil líka benda á að það eru a.m.k. 5 eða 6 þingmenn eldri en ég.“ — Hvernig líst þér á horfurnar í stjórnmálum núna? „Það eru ýmsar blikur á lofti. Ég held að það verði ekki kosningar fyrr en næsta vor, þótt ríkisstjórnin sem nú situr eigi oft í miklum vanda. Fyrst þeim tókst að klóra sig fram úr bráðabirgðalögun- um, held ég að þeim takist að sitja til vors." — Þú átt fjóra syni sem eru frammámenn í þjóðlíf- inu og eina myndarlega dóttur. Þekkir þú einhverja töfraformúlu í barnaupp- eldi? „Ég átti ágæta konu sem helgaði heimilinu alla krafta sína og uppeldið hvíldi meira á henni en mér sem var upp- tekinn í pólitíkinni. Það hefur átt mikinn þátt í því hvað börnunum hefur vegnað vel. Þau urðu líka að læra að spjara sig sjálf. Það var ekki mulið undir þau. Elsti sonur minn, Sigurður, byrjaði til dæmis að vinna við mjólkur- búið í Búðardal þegar hann var um fermingu. Nú er hann mjólkurbússtjóri þar, eftir að hafa lært til þess í Dan- mörku. Næstur í röðinni er Þórður sem nú er settur for- stöðumaður Þjóðhagsstofn- unar. Síðan kemur Helgi Þorgils, sem er talinn efni- legur listmálari og ég veit að hann er góður kennari, því það er talsvert kennarablóð í ættinni. Síðastur af strákun- um ér Lýður Árni sem er framkvæmdastjóri Vífilfells. Yngst barnanna er Steinunn Kristín sem er flugfreyja. Ég á þrettán barnabörn. Það elsta, Friðjón Rúnar Sig- urðsson, átti einmitt 22ja ára afmæli sl. þriðjudag." — Hvað hefurðu fyrir stafni á sumrin þegar þú ert ekki á þingi? „Það eru margir sem halda að þingmenn séu í sumarleyfi frá vori til 10. október, þegar þing hefst að nýju. Það er misskilningur. Ég hef til dæmis undanfarið verið á ferðalagi um Vestfirði með fjárveitinganefnd Alþingis og er á förum til Austfjarða, með ferðamálanefnd sam- gönguráðuneytisins. Við erum nú að endur- skoða ferðamálalöggjöfina. Sérhver þingmaður sem ekki vill verða eins og fiskur á þurru landi verður að ferðast um kjördæmi sitt og kynnast mönnum og málefnum. Þess- vegna hef ég lagt rækt við að kynnast mönnum, búnaðar- háttum og atvinnulífi á Vest- urlandi. Eg tel mig þekkja kjördæmið mitt vel, eftir all- an þennan tíma." — Hver eru helstu áhugamál þín, auk starfs- ins? „Ég hef mikinn áhuga á ís- lenskri sögu og bókmenntum og hef gaman af ferðalögum. En frístundirnar tengjast óneitanlega mjög oft mínu pólitíska starfi. Ég hef ferðast til mjög margra landa en það hefur aðallega verið á vegum þingsins. Ég hef sótt fundi og ráðstefnur hjá Sameinuðu þjóðunum, Nato og í Norð- urlandaráði. En nú orðið hef ég meiri áhuga á að ferð- ast um ísland. Ég hef líka mikinn áhuga á tónlist og hef sungið í ýmsum karlakórum, Karlakór Reykjavíkur, Lögreglukórnum og fleiri kórum. Á árunum 1945 til 1952 söng ég í kvartettinum Leikbræður sem ég stofnaði ásamt félögum mínum. Carl Billich, sem nú er nýlátinn, útsetti fyrir okkur. Þegar ald- arfjórðungur var liðinn frá fyrstu tónleikunum okkar, gáfum við út safnplötu sem nú er löngu uppseld. í haust ætlum við að gefa út bók með raddsetningum Carls Billich en ég held að það sé í fyrsta sinn á íslandi sem gefin er út bók með raddsetningum fyrir kvartetta." —• Hvað hyggstu taka þér fyrir hendur þegar þú hættir stjórnmálaafskipt- um? „Ég hef góða heilsu og hef engar áhyggjur. Að sjálfsögðu eru slíkar breytingar við- brigði en þá er að taka sér eitthvað nýtt fyrir hendur. Ég er lögfræðingur og gæti tekið upp þráðinn á því sviði. Ég á góða vini og er bjartsýnis- maður svo ég kvíði ekki framtíðinni." KNATTSPYRNAN ISLANDSMOTIÐ I KNATTSPYRNU Leikir í 13. umferð karla: Möguleikar liðanna: Athyglisverðir leikmenn: IBV KAPLAKRIKAVELLI laugardaginn 11. ágúst /;/. 14 Vestmannaeyingar verða án tveggja lykilmanna í þessum leik, varnarmaðurinn Jón Bragi Arnarson og sóknarmaðurinn Tómas Ingi Tómasson sem hefur skorað næstum öll mörk liðsins undanfarið verða í leik- banni. Þetta dregur mjög úr sigurlíkum Eyjamanna. Það getur hins vegar haft áhrif að FH-ingar hafa ekki að neinu að keppa en Eyjamenn eru í topp- baráttu og verða að vinna leik- inn. Markahrókurinn Hörður Magnússon hjá FH heyr nú ein- vígi við Guðmund Steinsson um markakóngstignina. Andri Marteinsson hefur leikið vel og krækt sér í landsliðssæti nokk- uð óvænt. Hjá Eyjamönnum hefur borið mikið á Inga Sig- urðssyni sem meðal annars lék afskaplega vel í sigurleiknum gegn Fram og Hlynur Stefáns- son hefur verið góður í allt sumar. KR ÞÓR KR-VELLI sunnudaginn 12. ágúst kl 16 KR-ingar hafa leikið vel und- anfarið en brenna sig oft á því að slaka á þegar þeir hafa náð forystu í leikjum. Úrslit í þess- um leik velta umfram allt á hugarfari KR-inga. Þórsarar munu án efa leggja sig fram en leiki bæði liðin af eðlilegri getu á KR að sigra. Pétur Pétursson náði sér á strik í bikarleik gegn Keflavík um daginn eftir að hafa verið slakur og baráttulaus í mörg- um leikjum. Mikilvægt er fyrir KR-liðið að hann sýni sitt rétta andlit i næstu leikjum. Rúnar Kristinsson hefur leikið af- bragðsvel undanfarið, svo og Ragnar Margeirsson. Hjá Þórs- urum er það liðsheildin og bar- áttan sem gildir en helst hefur Bjarni Sveinbjörnsson skorið sig úr undanfarið fyrir góðan leik. KA FRAM AKUREYRI sunnudaginn 12. ágúst kl. 19 Leiki Framarar eins vel og þeir geta sigra þeir í þessum leik. Geri þeir það ekki geta þeir alveg eins tapað. KA er á heimavelli og enn i fallhættu og munu norðanmenn án efa veita harða mótspyrnu. Steingrímur Birgisson KA lék mjög vel í síðasta leik og var valinn í landsliðshópinn gegn Færeyjum. Steingrímur er bak- vörður. Þórður Guðjónsson, framherjinn kornungi vekur eftirtekt knattspyrnuáhuga- manna. Jón Erling Ragnarsson í Fram hefur vakið mikla athygli eftir að liða tók á mótið i sumar en Framliðið nær sér ekki á strik nema máttarstólparnir Pétur Ormslev og Guðmundur Steinsson leiki vel. VALUR STJARNAN VALSVELLI sunnudaginn 12. ágúst kl. 19 Valsmenn hyggja á hefndir því þeir töpuðu fyrri leik lið- anna nokkuð óvænt. Stjarnan hefur sýnt það í sumar að hún getur lagt hvaða lið sem er að velli. Valsmenn eru samt sigur- stranglegri því þeir eru einfald- lega betri. Nýliðinn Ágúst Gylfason skoraði sitt fyrsta mark fyrir Valsmenn í bikarkeppninni ný- lega. Þorgrimur Þráinsson og Sævar Jónsson hafa verið bestu menn liðsins í sumar. Hjá Stjörnunni eru það Sveinbjörn Hákonarson og Lárus Guð- mundsson úr hópi eldri leik- manna sem mest hefur borið á en Valdimar Kristófersson og Ingólfur Ingólfsson af hinum yngri. ÍA VÍKINGUR AKRANESI sunnudaginn 12. ágúst kl. 19 Skagamenn virðast stefna beint niður í aðra deild og mikil breyting þarf að verða á leik þeirra ef þeir ætla sér að sigra Víkinga sem hafa verið sterkir i sumar. Það getur hins vegar haft áhrif að á meðan ÍA berst fyrir fyrstu deildar sætinu hafa Víkingar að engu að keppa. Atli Helgason er ungur fram- herji í Víkingsliðinu sem hefur vakið athygli undanfarið fyrir góða leiki. Máttarstólpar Vík- ingsliðsins í sumar hafa verið Trausti Ómarsson í vörninni, Goran Micic og Aðalsteinn Að- alsteinsson á miðjunni og Atli Einarsson i framlínunni. Eftir síðustu leiki er ekki ástæða til að nefna neinn Skagamann öðrum fremur, það er helst að elstu mennirnir í liðinu, Karl Þórðarson og Guðbjörn Tryggvason, sýni lit. STAÐAN I FYRSTU DEILD: leikir u j t mörk stig Valur 12 8 2 2 21:12 26 KR 12 7 2 3 18:12 23 Fram 12 7 1 4 23:11 22 ÍBV 12 6 4 2 19:19 22 Víkingur 12 3 7 2 14:13 16 FH 12 5 1 6 16:18 16 Stjarnan 12 4 2 6 14:17 14 KA 12 4 1 7 14:16 13 ÍA 12 2 2 8 13:23 8 Þór 12 2 2 8 6:17 8

x

Pressan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Pressan
https://timarit.is/publication/298

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.