Lesbók Morgunblaðsins - 11.01.2003, Blaðsíða 3
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 11. JANÚAR 2003 3
LESBOK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING LISTIR
2 . T Ö L U B L A Ð - 7 8 . Á R G A N G U R
EFNI
HATTURINN
Ég fylgdi stúlkunni heim, og hún bjó
bakdyramegin. Annað meira og
merkilegra var það nú ekki.
Verið þér sælir, og þakka yður kær-
lega fyrir fylgdina, sagði hún.
Sælar, sagði ég.
Hatturinn yðar!
Hann hefur gott af því, sagði ég, og
hélt áfram að kveðja stúlkuna.
EFTIR
DANSLEIK
Elskar hann mig? spurði hún, og
lagaði á sér hárið.
Elskar hann mig? spurði hún, og
púðraði sig í flaustri.
Elskar hann mig? spurði hún.
Spegillinn brosti.
Já, sagði spegillinn, og brosti.
Jón Thoroddsen fæddist árið 1898, sonur hjónanna Skúla og Theódóru Thoroddsen. Flugur kom út
1922 og er fyrsta prósaljóðabókin sem komið hefur út á íslensku og var eina ljóðabók Jóns en hann
lést 1924. JPV útgáfa gaf út Flugur fyrir nýliðin jól. Hrafn Jökulsson bjó til prentunar og Guðmundur
Andri Thorsson ritaði inngang.
JÓN THORODDSEN
Martröð á
Álmstræti
er flokkur hryllingsmynda sem
nýtur mikilla vinsælda. Roald
Eyvindsson skrifar um Freddy
Kruger og áhangendur hans.
Hálendið norðan
Vatnajökuls
heillar enn sem fyrr. Bergþóra Sig-
urðardóttir rifjar upp ferð sem
hún fór með Ferðafélagi Íslands
fyrir rúmum aldarfjórðungi.
Skoski
rithöfundurinn
Robert Louis Stevenson var einn af vinsæl-
ustu rithöfundum 19. aldar. Sigurður A.
Magnússon rekur sögu þessa merka höf-
undar sem varð aðeins 44 ára gamall.
Þrír listamenn
Húbert Nói, Hallgrímur Helgason og Bjarg-
ey Ólafsdóttir opna sýningu á verkum sín-
um í Listasafni Kópavogs í dag. Súsanna
Svavarsdóttir ræddi við þau um áreitið,
húmorinn og dauðann.
FORSÍÐUMYNDIN
er eftir þýska ljósmyndarann Kurt Kranz frá árinu 1930 og er ein af Bau-
haus-ljósmyndunum sem Menningarmiðstöðin Gerðuberg opnar sýningu á í
dag.
Þ
EGAR þessar línur eru festar
á blað er skammt til áramóta,
en þegar þær birtast í Les-
bók eru áramótin nýliðin og
hafið nýtt herrans ár.
Það er til siðs að nota ára-
mótin sem kögunarhól, –
horfa til baka yfir liðið ár og
freista þess að skyggnast inn í framtíðina.
Það verður ekki reynt hér. Margir láta við
það sitja um áramót að setja sér hin sí-
gildu markmið, strengja þess heit að verða
nýir og betri menn á nýju ári. Leggja lest-
ina á hilluna og lifa heilbrigðara lífi. Það er
ekki erfitt að vinna slík heit, þegar jóla- og
áramótaveislurnar eru rétt liðnar hjá,
jólakonfektið gleypt og gleymt og bæði
buxnastrengurinn og skyrtuhálsmálið
virðast hafa þrengst með óútskýranlegum
hætti. Enn og aftur sannast hið forn-
kveðna um veginn sem varðaður er góðum
áformum. Um áramótin syngjum við um
árið sem leið í aldanna skaut og kannski
líka um „hin gömlu kynni“, sem gleymast
ei. Ef til vill ætti að breyta þeim texta í þá
veru, að hin góðu áform gleymist æ, er
glóir vín á skál. Það væri líklega meira
sannmæli.
En er það ekki einkennilegt hve alltaf
verður styttra milli jóla þegar árin færast
yfir, – og milli afmælisdaga. Svei mér þá,
þrettándinn er rétt að baki þegar jólin eru
farin að nálgast að nýju. Ekki veit ég
hvort ég er einn um þessa tilfinningu.
Grunar reyndar að svo sé ekki. Það er al-
kunn staðreynd meðal fólks á miðjum
aldri og rúmlega það, að börnin okkar eld-
ast langtum hraðar en við. Þegar maður
við morgunraksturinn horfist í augu við
sjálfan sig í speglinum þá hefur maður
hreint ekki elst nein ósköp, eða þannig.
Hárunum hefur að vísu fækkað eftir því
sem árunum hefur fjölgað og svo ein-
kennilegt sem það er, þá hækkar verðið á
klippingunni jafnt og þétt í öfugu hlutfalli
við hárafjöldann. Rakarinn réttlætir
hærra verð með því að segja að það séu
fundarlaun. Svo taka hárin líka upp á því
að vaxa á vitlausum stöðum, utan á nefinu
og innan í eyrunum. Það segir rakarinn að
séu ellimörk. Ég þykist ekki heyra hvað
hann er að segja.
Raunar beið þessi ímyndaða sjálfsmynd
alvarlegan hnekki í Winnipeg í Kanada í
fyrra. Ég var nokkuð lengi að ná mér.
Hafði keypt eitthvert lítilræði í mat-
vörubúð, smáræði sem rúmaðist í litlum
plastpoka. Er ég hafði borgað og af-
greiðslustúlkan sett vörurnar í plastpoka
spurði hún með bros á vör hvort ég þyrfti
nú ekki hjálp við að bera þetta út í bíl? „Do
you need any carry-out help today?“ Sjálf-
sagt hefur hnussað í mér, en ég reyndi þó
að svara af kurteisi að þetta mundi líklega
bjargast hjá mér með þennan eina plast-
poka,sem viðskiptavinir fá reyndar ókeyp-
is. Á leiðinni út hugsaði ég með mér: Jæja,
er ég þá orðinn svona hrörlegur! Ég gekk
beint að speglinum þegar heim kom. Sá
ekki minnstu breytingu og gat enga rétt-
lætingu fundið fyrir þessu fróma boði. Ég
lét að nokkru huggast þegar konan mín
sagði að hún heyrði ekki betur en allir
fengju þetta boð um aðstoð. Huggun
harmi gegn. Nokkru áður hafði ég orðið
fyrir smááfalli þegar mér var gefinn af-
sláttur af inngangseyri í fuglaparadísina í
Oak Hammock Marsh á Manitobagresj-
unum skammt frá Winnipeg, – vegna ald-
urs! Rétt rúmlega sextugur maðurinn!
Já, það var rétt lesið hér að ofan. Af-
greiðslustúlkan setti vörurnar í plastpoka.
Hér á landi tíðkast það hins vegar í mat-
vöruverslunum að afgreiðslufólkið starir
stíft og einbeitt út í bláinn, einblínir á
ímyndaðan fastan punkt með krosslagðar
hendur meðan þú treður vörunum í rán-
dýran plastpokann. Þetta er einkennilegur
siður. Kannski banna kjarasamningar af-
greiðslufólkinu að aðstoða viðskiptavin-
ina? Hver veit? Mér krossbrá þess vegna
hér á dögunum þegar allt í einu birtist
brosandi blómarós og spurði hvort hún
mætti ekki hjálpa mér að setja vörurnar í
pokana. Ég hélt nú það og þakkaði kær-
lega fyrir. Eitt andartak fannst mér ég
vera kominn aftur til Kanada. Sá raunar
að svo var ekki, þegar ég skoðaði verð-
strimilinn. Vínberin, sem kostuðu þrjú
hundruð krónur kílóið í Winnipeg, kostuðu
þúsund krónur kílóið á Íslandi. Á báðum
stöðum var þetta innflutt frá öðrum lönd-
um.
Þetta boð um hjálp við að setja vörurnar
í pokann hefur líklega verið óvart eða
sjálfstætt frumkvæði þessarar elskulegu
stúlku vegna þess að þetta hefur ekki
gerst aftur. Ég lifi hins vegar í þeirri veiku
von að kannski endurtaki þetta sig á jóla-
föstunni næsta ár. Hver veit?
Við prísuðum okkur sæla Íslendingar að
losna úr klóm danskra einokunarkaup-
manna á sínum tíma, þegar verslunin var
gefin frjáls og það varðaði ekki lengur
Brimarhólmsvist að kaupa snæri í vit-
lausri búð. En ósjálfrátt hugsar maður:
Fórum við úr öskunni í eldinn? Erum við
nokkuð betur sett í klóm íslenskra einok-
unarkaupmanna sem halda hér uppi ok-
urverði á matvælum, – ekki síst á ávöxtum
og grænmeti?
Enn um afgreiðsluhætti. Það tíðkast
mjög erlendis og hefur raunar gert hér
líka að viðskiptavinir hafi kort sem veitir
þeim tiltekinn afslátt í einhverri mynd. Þá
stendur nafn viðskiptavinarins á kortinu
og afgreiðslufólkið segir: Kærar þakkir,
herra Eiður Guðnason, rétt eins og við
séum aldavinir. Einhverju sinni var ég að
að kaupa ritföng með afsláttarkorti að-
alræðisskrifstofunnar í Winnipeg sem á
stendur Consulate General of Iceland. Er
viðskiptunum var lokið sagði afgreiðslu-
maðurinn kurteislega: Thank you, Mr.
Iceland! Stórlega löskuð sjálfsímynd fékk
skammvinna uppreisn við þetta glæsilega
ávarp. En því miður varð ég að hryggja af-
greiðslumanninn með því að enda þótt ég
hafi fengið ýmsar nafngiftir um ævina
hefði ég aldrei verið Mister Iceland og
yrði sennilega ekki úr þessu, en þakkaði
honum fyrir hlý orð í minn garð og gekk
glaður á braut.
Þessi pistill hefur óvænt orðið um allt
annað en ætlunin var í upphafi. Það geta
menn flokkað undir elliglöp ef þeir vilja.
Árið sem nú fer í hönd verður þjóðinni
vonandi farsælt og gott. Spennandi verður
fyrir þá sem nú standa á hliðarlínunni að
fylgjast með komandi kosningabaráttu
sem verður örugglega hörð og tvísýn.
Blossar heitra deilna lýstu raunar upp
skammdegið um jólaleytið.
Ég hugsa raunar stundum til þess sem
góður maður sagði við mig á dögunum: Við
eigum að líta á hvert ár eftir fimmtugt
sem sérstaka guðsgjöf eða bónus, eins og
hann orðaði það. Ég er að reyna að muna
það sem oftast, en tekst ekki alltaf. Það
gerir sjálfsagt aldurinn.
Gleðilegt ár og góðar stundir.
HEIMA OG
HEIMAN
RABB
E I Ð U R G U Ð N A S O N
hreidur@hotmail.com