Lesbók Morgunblaðsins - 11.01.2003, Blaðsíða 7
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 11. JANÚAR 2003 7
þegar Louis neitar á yngri árum að semja sig
að hefðbundinni guðstrú foreldranna eða
helgisiðum og siðferðiskröfum kirkjunnar. Þá
leiðist hann útí sársaukafull átök við
strangtrúaðan föðurinn. Hann flýr úr landi, en
er með púrítanska arfleifðina í farteskinu.
Hann er lagður í einelti af samviskuspæjaran-
um og er kannski að refsa sjálfum sér í per-
sónu hins sakbitna læknis. Þema tvífarans er
reyndar líka tekið fyrir í smásögunum „Mark-
heim“ (1885) og „Olalla“ (1885), og einkanlega
í skáldsögunni The Master of Ballantrae
(1889) sem bæði Bertolt Brecht og Italo Calv-
ino telja hans besta verk og margir aðrir veg-
sama, til dæmis þeir Henry James, Walter
Benjamin, André Gide og Jorge Luis Borges.
Þegar sagan um Jekyll og Hyde kemur út
árið 1886, verða þeir báðir eftirlæti almenn-
ings. Lesendum Viktoríutímans fellur mæta-
vel að láta útsmoginn reyfara kitla taugarnar
við arineldinn á löngum vetrarkvöldum. En
þessi könnun á skelfingu og samviskukvölum
er líka tvíræð og innhverf: sjálfsuppgjör sem
sennilega léttir fargi af höfundinum. Til marks
um það má kannski hafa, að hann segir end-
anlega skilið við haustrigningar og vetrar-
mistur Edinborgar. Hann snýr baki við
heimalandinu og Evrópu, siglir enn einusinni
yfir Atlantshafið og á ekki afturkvæmt.
Áðuren hér er komið sögu hefur Stevenson
sent frá sér smásagnasafn sem þykir tíðindum
sæta í bókmenntaheiminum, New Arabian
Nights (1882) með sjö samtengdum og fjórum
löngum smásögum. Eina sagnanna, „The
Pavilion of Links“, taldi Arthur Conan Doyle
árið 1890 „hámark snilldarinnar“ og „fyrstu
smásögu í heimi“, og bókmenntafræðingurinn
Barry Menikoff telur safnið vera upphaf smá-
sagnagerðar í enskum bókmenntum í tímarit-
inu Journal of the Short Story in English
(1987) og yfirlitsritinu Nineteenth-Century
Literature (1990). Í bók sinni um Stevenson
(1927) telur G.K. Chesterton safnið vera „óvið-
jafnanlegt“ og „einstæðast af verkum hans“.
Á flakki um Suðurhöf
Á þessum árum er Stevenson ekki einasta
mikið lesinn víða um heim, heldur líka virtur
af vandlátum starfsbræðrum. Þegar hann
siglir frá Lundúnum færir Henry James hon-
um heilan kassa af kampavíni, sem hann segir
vera óbrigðult meðal við sjóveiki! Þegar skipið
nálgast mynni Hudsonfljóts kemur uppúr
dúrnum að lóðsinn um borð heitir Hyde. Það
þykir Louis vera góður fyrirboði! Enda líður
ekki á löngu þartil hann fær heimsókn af for-
leggjara sem leggur fyrir hann æsilega til-
lögu: Hvernig væri að takast á hendur heilsu-
bótarsiglingu um Suðurhöf ásamt allri
fjölskyldunni? Meðan á ferðalaginu standi geti
landkönnuður Gulleyjunnar samið ferðabréf
frá slóðum sem fæstum séu kunnar.
Þannig gerist það að íburðarmikil skonn-
ortan Casco leggur frá landi í San Francisco
rétt fyrir Jónsmessu 1888 og siglir fyrir þönd-
um seglum útá óendanleg víðerni Kyrrahafs.
Á sjókortinu er nálægasta skipalægi merkt:
Maraquesa-eyjar.
Til þessa eyjaklasa kom hálfri öld fyrr
bandaríski höfundurinn Herman Melville, þá
23 ára gamall, og átti síðar eftir að skapa sér
ódauðlegt nafn fyrir skáldsöguna Moby Dick.
Hann strauk af hvalfangara og hafðist við vik-
um saman á eynni Núkúhíva í kompaníi við
gestrisnar mannætur sem honum þóttu
„miklu betri og siðmenntaðri en við erum“.
Eftir mánaðarlanga siglingu fer Stevenson í
land á sömu eyju og fær brátt að vita, að
nokkrum árum fyrr hafi sést til mannætuhöfð-
ingja reika um ströndina og tyggja með góðri
lyst afhöggvinn handlegg fallins fjandmanns.
Vissulega eru þvílíkar matarvenjur eilítið
ósmekklegar, en þær stafa ekki af meðfæddri
„fúlmennsku“ hjá „villimanninum“, heldur
eiga þær sér, að mati Stevensons, nærtækari
og áþreifanlegri orsakir: hungursneyð og
fólksfjölgunarvanda!
Á mörgum og löngum ferðum sínum milli
Maraquesa-eyja, Hawaí, Gilbert-eyjaklasans
og Tahítí lánast Stevenson að safna saman
heilum skipsförmum af sérkennilegum upp-
lýsingum – um það vitnar bókin In the South
Seas (1900) sem er frábært safn ferðalýsinga.
Bókin hefst að vísu á vonbrigðanótum: „Í ná-
lega tíu ár hafði heilsufar mitt versnað, og
áðuren ég lagði upp í siglinguna trúði ég um
sinn að ég væri kominn í eftirmála ævinnar og
hefði ekki annað í sjónmáli en hjúkrunarkon-
una og útfararstjórann.“ En mildir monsún-
vindarnir lækna veik lungun og þegar frá líður
getur hann sagt frá því í bréfum heim, að hann
sé aftur kominn á strönd lífsins: „Heilsufar
mitt hefur verið mér ljómandi hallkvæmt: tím-
unum saman veð ég eftir sniglum, ég hef verið
fimm tíma á hestbaki …“
En þessi frábæri lífslistamaður hittir líka
fyrir ógnvekjandi íbúa holdsveikranýlendunn-
ar. Hann kannar – ekki ólíkt félagsmannfræð-
ingi nútímans – siði og venjur innfæddra.
Hann hneykslast á nýlendupólitík stórveld-
anna sem breytt hafa upprunalegum stjórn-
endum eyjanna í bjargarlausar strengjabrúð-
ur. Í Lundúnablaðinu Times mótmælir hann
harðlega framferði hvítu fyrirmannanna „sem
eiga að láta innfædda í friði og leyfa þeim að
stjórna sér sjálfir“.
Við hlið hinna sigruðu
Eftir ríflega þriggja ára flakk um Melanesíu
varpar Stevenson loks akkerum á vestur-
strönd Samóa bjartan haustdag 1892. Hann
fer í land á eykrílinu Úpólú og sest að í fal-
legum bústað sínum, Vaílíma, þarsem hann
ríkir yfir fjölskyldu og þjónustuliði einsog ætt-
arhöfðingi í hálöndum Skotlands. Hann efnir
til fjölmennra gestaboða og klæðist þá gjarna
hvítum hitabeltisjakka, en þjónustuliðið ber
fram réttina í skotapilsum.
Þetta heldrimannaháttalag hindrar hann
samt ekki í að taka virkan þátt í pólitíska ein-
víginu. Þegar gerð er uppreisn hellir hann sér
útí baráttuna við hlið hinna sigruðu og heim-
sækir þá storkandi í fangelsið. Í þakklætis-
skyni grafa þeir, sem hann hefur varið, „Þakk-
arveg“ þvert yfir eyna alla leið að tröppunum
á Vaílíma.
Suðurhafssól, gnýr brimöldunnar í fjarska,
síesta í forsælu pálmatrjánna og indæl kvöld á
veröndinni með svalandi drykkjum meðan
stjörnurnar kvikna. Nú ætti flóttamaðurinn
frá látlausu mistri Edinborgar endanlega að
geta dregið andann léttar og látið fara vel um
sig. En hann er enginn letingi. Hann er agaður
og sívinnandi höfundur sem einatt er kominn
að skrifborðinu klukkan sex á morgnana.
Skáldið horfir gjarna um öxl til gamla lands-
ins og sökkvir sér niðrí sögu Skotlands. Áður-
en Casco léttir akkerum í San Francisco er
Stevenson þegar búinn að skjóta á loft Svörtu
örinni (The Black Arrow, 1888) um Rósa-
stríðin í Englandi á 15du öld. Nú hefur hann
lagt síðustu hönd á örlagaharmleikinn The
Master of Ballantrae, sem gerist þremur öld-
um síðar. Með Catriona (1893) semur hann
lokaþátt sögunnar um ævintýramanninn Dav-
id Balfour, sem í Kidnapped (1886) byrjar óút-
reiknanlegan flæking sinn á björtum snemm-
sumardegi á því herrans ári 1751. Tvær
síðastnefndu sögurnar ásamt Svörtu örinni og
Gulleyjunni eru ævintýrasögur samdar fyrir
unga sem aldna, börn á öllum aldri.
Barnslundin varðveitt
Einmitt þennan hlýja vetrardag er hús-
bóndinn í Vaílíma bjartsýnn og innblásinn.
Kannski verður Weir of Hermiston hans besta
bók til þessa. Átta kaflar eru þegar fullsamdir.
(Sagan kom út 1896 og er af mörgum talin
hans besta verk.) Nú ætlar hann niður að
snæða kvöldverð og fá sér rauðvínsglas með
Fanny. Og á morgun …
En það er 3ji desember 1894 og Robert
Louis hefur nýlokið æviverki sínu í miðri setn-
ingu. Hann á ekki eftir að líta morgundaginn.
Túsítala – einsog „sagnaþulurinn“ var
nefndur á samóamáli – lifir samt enn meðal
okkar. Skapandi barnið – sem eftilvill er
frjóasti kjarni listamannsins – finnum við
hvarvetna í verkum hans. Einnig á fullorðins-
árum átti hann til að leika sér að tindátum, og
einhverju sinni var komið að honum þarsem
hann var að skylmast með trésverði.
Höfundur Gulleyjunnar lætur ekki truflast
af andlausum augnagotum þeirra sem þykjast
vera fullvaxta og fullþroska. „Festin er úr
gulli og brandurinn úr silfri og barnið er
ánægt.“
Stevenson á Íslandi
Robert Louis Stevenson naut mikillar hylli
fyrir og eftir aldamótin 1900 fyrir lygilega fjöl-
hæfni, hugarflug og stílsnilld, en þegar mód-
ernisminn kom til sögunnar varð Stevenson
fyrir því óláni að vera talinn einn hans helsti
Þrándur í Götu vegna margbreytni sinnar,
áhuga á vinsælum bókmenntaformum og róm-
önsum. Þótt vinsælustu verk hans haldi áfram
að koma út og mörg þeirrra hafi verið kvik-
mynduð, hefur litríkur persónuleikinn og æv-
intýralegur æviferillinn yfirskyggt bók-
menntalega verðleikana, enda leit hann sjálfur
á iðju sína sem barnaleik: „Skáldskapur er
fullorðnum mönnum það sem leikir eru börn-
um.“ Hann skrifaði fyrir lesendur en ekki
gagnrýnendur. Samt skipta lærðar bækur um
hann mörgum tugum og eru látlaust að koma
út um víða veröld.
Á íslensku hafa örfá af verkum Stevensons
verið þýdd. Þar ber hæst Gulleyjuna sem
komið hefur út níu sinnum í ýmsum þýðingum
síðan 1906; síðast árið 2001 í þýðingu Páls
Skúlasonar. Eftirtaldar sögur hafa birst í ís-
lenskum búningi: Flöskupúkinn 1918, Í ræn-
ingjahöndum 1934 og 1973, Sumarskálinn í
sandmóunum 1937, Svarta örin 1954 og Hið
undarlega mál Jekylls og Hydes 1994. Ljóð
eftir Stevenson hafa birst í þýðingum Yngva
Jóhannessonar (1973), Guðmundar Frímanns
(1980) og Braga Sigurjónssonar (1995).
Önnur tengsl Stevensons við Ísland eru þau
að hann mun hafa byggt söguna „The Waif
Woman“ á atviki úr Eyrbyggju.
Heimildir:
Henry James: Notes on Novelists, 1914
G.K Chesterton: Robert Louis Stevenson, 1927
J.C. Furnas: Voyage to Windward: the Life of Robert
Louis Stevenson, 1951
David Daiches: Robert Louis Stevenson and his World,
1973.
Jenni Calder: RLS: A Life Study, 1980
Frank McLynn: Robert Louis Stevenson, 1993
Richard Woodhead: The Strange Case of R.L. Steven-
son, 2001.
Heimasíða Landsbókasafns.
Heimilisfólk í Vaílíma: Robert Louis og Fanny kona hans ásamt börnum hennar, Lloyd t.v. og
Belle fyrir miðju, ungum syni hennar og innfæddu þjónustuliði.
Í „landi laksins“. Tæp heilsa Stevensons neyddi hann langtímum saman til að hafast við í rúminu.