Lesbók Morgunblaðsins - 18.01.2003, Side 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 18. JANÚAR 2003
A
RI Trausti Guðmundsson
ritaði þrjár greinar í Les-
bókina í júní og júlí sl. í til-
efni af fjallaárinu.1 Þær
eru mjög fróðlegar, en
fjalla einkum um fjöllin
eins og þau koma flestum
fyrir sjónir og ýmsa hag-
nýtingu þeirra, svo sem fjallgöngur. Í annarri
greininni drepur hann þó á fjallatrú og skyld
efni, en fer ekki nánar út í þá sálma hér á landi.
Því finnst mér ástæða til að bæta við fjórðu
greininni, sem tekur „hugarfjöllin“ til nánari
skoðunar.
Orðið fjall
Orðið fjall hefur víðtæka merkingu í ís-
lensku máli. Segja má að það geti átt við allt í
landslaginu, sem hefur sig yfir næsta um-
hverfi, nema þúfur, hóla, holt eða staka kletta.
Hæðin getur verið frá nokkrum tugum metra
upp í nokkur þúsund. Sama er að segja um
þvermálið. Auk þess hefur fjall eða fjöll al-
menna merkingu, sem fjalllendi, óbyggðir eða
afréttir, sbr. orðið fjallleitir og fjallgöngur í
gömlu merkingunni. Orðið fell hefur næstum
alveg sömu merkingu, a.m.k. í örnefnum, en í
seinni tíð finnst mörgum það eiga við lítil fjöll.
Svipuð orð eru algeng í grannmálum (fjell,
fjäll, fjeld). Upphaflega merkingin er talin vera
klettur eða steinn, sbr. Felz á þýsku. Auk þess
hafa orðin fjall og fell merkinguna skinn, sbr.
bókfell, og að fjalla um eitthvað, en líklega er
það orð af öðrum toga. Algengasta orð fyrir
fjall í skyldum tungumálum er þó berg (bjerg,
berg, Berg, Gebirge), en í ensku og rómönsk-
um málum orð sem dregin eru af latneska orð-
inu mons (ef. montis).
Fjöll og veður
Fjöll hafa mikil áhrif á veðurfar og þar með
einnig á gróður, dýralíf og mannabyggð. Rakir
vindar af hafi missa vatnsmagn sitt í formi úr-
komu þegar þeir rekast á fjallgarða, og jafn-
framt losnar varmi sem hlýjar loftið. Hlémegin
við fjöllin er því bæði sólríkara og oft til muna
hlýrra en vindmegin. Þessi hitamunur er því
meiri sem loftið er rakara og stígur hærra upp.
Það kallast í veðurfræðinni föhn-áhrif. Það er
alkunnugt fyrirbæri hér á landi, og er kannski
óvíða eins áberandi. Mestur hitamunur er hér í
suðlægum vindum, því að þeir eru að jafnaði
rakastir, og því mælast hæstu hitatölur á
Norður- og Austurlandi. Vegna fjallanna er
oftast hlýtt og bjart í einhverjum landshluta,
þó að rigning og súld sé í öðrum og kemur það
sér vel fyrir lífríkið. Þar að auki veita fjöllin
skjól og hlíðar sem vita í sólarátt eru hlýrri en
skuggahlíðar eða flatlendi. Kemur það oft fram
í ríkulegum gróðri sólarhlíða. En fjöllin valda
líka sterkari vindum, og mestu hvassviðri á
hverjum stað koma gjarnan þvert af fjöllum.
Leiða má líkur að því að Ísland væri óbyggi-
legt túndruland ef það væri eintóm flatneskja.
Þá væri alskýjað loft og úrkoma flesta daga um
land allt. Jarðvegur væri lítill sem enginn og
gróðurinn aðallega grámosi og mýrlendisgróð-
ur. Það er því ekkert smáræði sem við Íslend-
ingar eigum fjöllum að þakka.
Viðhorf til fjalla
Fjöllin auka fjölbreyttni landsins til muna
og raunar finnst mörgum að án þeirra sé
landslagið lítilfjörlegt. Svo hefur okkur Íslend-
ingum þótt þegar við ferðumst um flöt lönd
eins og Danmörku eða Holland. „Leiðist oss
fjalllaust frón … svipljótt land sýnist
mér … sem neflaus ásýnd er, augnalaus með“,
kvað Bjarni Thor. í kvæði sínu Eldgamla Ísa-
fold og átti þá við Danmörku. Í flötum löndum
kemur gróðurinn, og þá aðallega skógar, í stað
landslags, og þar getur líka verið fagurt.
Fjöllin eru merkileg náttúrufyrirbæri, en
það er til önnur hlið á hverju fjalli, sem aðeins
er að finna í huga manna og má því nefna „hug-
arfjall“. Það líkist hinu raunverulega fjalli í út-
liti, en hefur auk þess ýmsa eiginleika, sýnilega
og ósýnilega, sem menn tileinka því.
Viðhorf manna til fjalla er líklega eins og
margvíslegt og mannfólkið sjálft, en mótast þó
af siðum, trú og tísku hverrar þjóðar eða ríkis
á hverjum tíma. Víða hafa menn sýnt fjöllum
óttablandna virðingu, og litið á þau sem tákn
visku og göfgi. En menn hafa líka litið á háfjöll-
in sem ógnvald, þar sem illar vættir og af-
brotamenn ættu heimkynni sín. Með aukinni
upplýsingu á 17. og 18. öld tók þetta viðhorf að
breytast, og menn fóru að skynja fegurð og
mikilleik fjalla og leitast við að kynnast þeim.
Með rómantísku stefnunni urðu fjöllin uppá-
haldsviðfangsefni margra listmálara. Gætti
þess mjög í Evrópu og Norður-Ameríku á 19.
öld og hérlendis á 20. öldinni. Kjarval málaði
fjöll á yngri árum, þar á meðal Dyrfjöllin, sem
hann ólst upp við, en sneri sér svo að fínni
dráttum landslagsins og ímyndaðri veröld
þess. Ásgrímur Jónsson og Jón Stefánsson
máluðu líka fjöll. Ýmsir telja að landslagsmál-
arar hafi kennt okkur að meta fegurð lands-
lags, sem áður hafi verið óþekkt hugtak. Skáld-
in létu heldur ekki sitt eftir liggja í þessu efni,
allt frá Jónasi Hallgrímssyni til nútímans.
Fjallvættir og þjóðtrú
Menn hafa löngum talið að fjöll væru heim-
kynni alls konar vætta sem kallast landvættir
einu nafni. „Hann sá að fjöll öll og hólar voru
fullir af landvættum, sumt stórt en sumt
smátt“, segir Snorri í hinni alþekktu „land-
vættasögu“ í Heimskringlu, þegar sendimaður
Haralds Danakonungs Gormssonar kom hér
að landi. Á Suðurlandi kom á móti honum
bergrisi „og hafði járnstaf í hendi, og bar höf-
uðið hærra en fjöllin, og margir jötnar með
honum.“ (Ólafs saga Tryggvasonar).
Jötnar hafa jafnan síðan verið álitnir helstu
íbúar fjallanna hér á landi, en það er sá flokkur
sem í seinni tíð kallast oftast tröll. Af þeim fara
margar sögur í öllum landshlutum, en þó eink-
um á Austfjörðum, þar sem þau virðast hafa
þraukað lengst, því að nú telja flestir að tröllin
séu útdauð. Bústaðir trölla voru oftast nær
stórir hellar í fjöllum eða sjávarbjörgum. Þau
voru misjöfn að eðli og háttum, oftast fremur
meinfýsin við menn, en þó stundum góðgjörn
og greiðasöm, ef þeim var gert gott til.
Ímyndaðir hellar eða undirgöng gegnum
fjöll eru sérstakur flokkur þjóðtrúar á Íslandi,
sem líklega er óvíða til annars staðar. Þau voru
sérlega algeng á Mið-Austurlandi og mátti
heita að þar væru undirgöng milli allra fjarða
og Héraðs og fjarða, en þau voru sjaldan fær
nema köttum, sem þó komu stundum sviðnir út
úr þeim.2
Einnig voru til blendingar manna og jötna,
sem höf ðu eiginleika beggja og voru hollari
mönnum, enda virðast þeir stundum hafa verið
tignaðir sem goðmögn og voru þá jafnvel kall-
aðir ásar og kenndir við fjöllin sem þeir bjuggu
í. Er þá torvelt að greina hvort það var fjallið
eða ásinn sem trúað var á.
Alkunn er fornsagan er af Bárði Snæfellsás,
sonar Dumbs konungs, sem Dumbshaf er við
kennt. Dumbur var af risakyni, en móðir hans
var tröllaættar. Kona hans hét Mjöll og var
dóttir Snæs konungs í Kvænlandi. Hún var
kvenna fríðust og brá Bárði til beggja ætta.
Hann fór til Íslands og bjó að Laugarbrekku
undir Jökli.
Sagan segir hann hafa „horfið“ í jökulinn
„með allt búferli sitt“ „Var því lengt nafn hans
og kallaður Bárður Snjófellsás, því að þeir
trúðu á hann nálega þar um nesið og höfðu
hann fyrri heitguð sinn. Var hann og mörgum
hinn mesti bjargvættur …“ Því til staðfesting-
ar eru mörg örnefni í nánd við Jökulinn og ótal
sögur frá ýmsum tímum.
„Líklegt má telja, að Snæfellsásinn hafi í
fyrstu verið náttúruvættur, andi fjallsins. Í
sögunni er hann það ekki. Hann er þar maður
sem gerist landvættur.“3
Útilegumenn eru annar flokkur sem oft
nálgast það í þjóðsögum að vera fjallvættir, og
raunar er Bárður líka dæmi um það, því að
menn gerðu ráð fyrir að hann byggi í helli.
Mögnuð trú var á tilveru útilegumanna allt
fram á 19. öld á Íslandi.
Þeir áttu að byggja lítt þekkta eða óþekkta
dali í hálendi og fjöllum, þar sem sumir töldu
vera gósenland og búfénaður gengi sjálfala ár-
ið um kring. Einn slíkur átti jafnvel að vera í
Herðubreið, og getur Jón lærði hans í riti sínu
„Lítið ágrip um hulin pláss og yfiskyggða dali á
Íslandi.“4
Loks má geta um þá trú, að „náttúrusteina“
sé að finna á fjöllum uppi. Er Tindastóll í
Skagafirði ágætt dæmi, en þar á að vera tjörn,
sem óskasteinar fljóta í á Jónsmessunótt. Gull
og silfur á að vera að finna í sumum fjöllum,
einkum líparítfjöllum, sem gjarnan eru lit-
skrúðug. Er Drápuhlíðarfjall á Snæfellsnesi
frægast slíka málmfjalla.
Mikil hjátrú var bundin eldfjöllum á miðöld-
um mannkynssögunnar, og fór Hekla ekki var-
hluta af því. Hún var þó líklega alltaf talin ógn-
vænlegri á erlendri grund en heima fyrir, og
trúðu því margir í Evrópu að hún væri inn-
gangur Helvítis, þar sem sálir fordæmdra
brenna og engjast í vítiskvölum. Af því ganga
margar sögur, sem hér verða ekki raktar.
Að dýrka fjöll
Frá örófi alda hefur mannfólkið lagt átrúnað
á fjöll og tileinkað þeim guðlega eiginleika.
Olymposfjall er frægast slíkra fjalla í Evrópu.
Það er hæsta fjall á Grikklandi, 2.917 m y.s., og
tindur þess oftast snævi þakinn og hulinn skýj-
um. Það varð því sjálfsagður bústaður hinna
hellensku guða og rammheilagt fjall. Eldfjallið
Kilimanjaro í Tansaníu er annað dæmi, en það
er hæsta fjall Afríku, 5.895 m. Í Suður-Am-
eríku hafa fundist minjar um fórnar- eða til-
beiðslustaði á háfjöllum frá tímabilinu 1.200–
1.500 í allt að 6.700 m hæð. Í Himalajafjöllum
eru nokkur heilög fjöll, þar á meðal tindurinn
Kailas í Tíbet, sem enginn hefur klifið.
Líklega hefur þó ekkert fjall verið dýrkað
eins mikið og Fuji (Fujuyama) á Honshu-eyju í
Japan, það er eldfjall og hæsta fjall landsins,
3.776 m. Margir telja það fegursta fjall í heimi
og það er oft tekið sem dæmi um hina full-
komnu eldkeilu. Varla hefur nokkurt fjall verið
málað oftar. Hafa nokkrir Japanir haft það að
ævistarfi að mála myndir af fjallinu.
Hérlendis er Snæfellsjökull besta dæmið um
slíkt átrúnaðarfjall. Svo virðist sem hann njóti
enn nokkurs átrúnaðar, sem blandast hinni
fornu trú á Bárð Snæfellsás. Ýmsir telja sig
verða fyrir sérstökum áhrifum í grennd við
Jökulinn. Árni Óla ritar:
„Ég hef farið víða um Snæfellsnes, og sjö
sumur hef ég dvalizt undir Jökli, og ég hef ekki
farið varhluta af þeirri reynslu, sem mörgum
öðrum hefur fallið í hlut, að þar er loft víða
magni blandið. En áhrifa frá Jöklinum finnst
mér ég fyrst verða var þegar komið er út að
Bláfeldi, og svo er eins og loftið magnist smám
saman eftir því sem utar dregur og nær Jökl-
inum … Hvernig sem þessu er farið, er eitt
víst: Andi Snæfellsáss er hlaðinn kynngimagni,
og hver maður getur fundið það á sjálfum sér,
ef hann veitir því nokkra athygli.“5
Dæmi eru þess að dulspakt fólk og áhuga-
menn um dulspeki hafi flust undir Jökul vegna
þessara áhrifa, og fyrir nokkrum árum var
stofnuð dulspekistöð á Arnarstapa.
Að deyja í fjöll
Í nokkrum fornsögum er getið um menn
sem sem dóu í fjöll, björg eða hóla (kletta), eða
sáust hverfa í þau við dauða sinn. Í Njálu er
sagt frá Svani á Svanshóli í Bjarnarfirði, sem
fórst við Veiðileysu, en sjómenn sáu hann
ganga inn í fjallið Kaldbakshorn. Fræg er sag-
an af Þórólfi mostrarskegg í Landnámu:
„Hann hafði svo mikinn átrúnað á fjall það,
er stóð á nesinu, er hann kallaði Helgafell, að
þangað skyldi engi maður óþveginn líta, og þar
var var svo mikil friðhelgi, að öngu skyldi
granda í fjallinu, hvorki fé né mönnum, nema
sjálft gengi braut. Það var trúa þeirra Þórólfs
frænda, að þeir dæi allir í fjallið.“6
Frá því segir nánar í Eyrbyggju, er Þor-
steinn sonur Þórólfs drukknaði. Hann sást
ganga með förunautum sínum inn í fellið og var
fagnað þar af forfeðrum sínum með veislu-
„LEIÐIST OSS
FJALLLAUST
FRÓN“
Guðný Elísa Guðgeirsdóttir: Dulsýn, 1996.
E F T I R H E L G A H A L L G R Í M S S O N
Árið 2002 var útnefnt „ár fjalla“ af Sameinuðu þjóð-
unum. Í tilefni af því var efnt til óformlegra kosninga um
„þjóðarfjall“ Íslendinga, og hlaut Herðubreið flest at-
kvæði, eins og kunnugt er. Hekla var í öðru sæti og Snæ-
fellsjökull í því þriðja. Jafnframt var kosið „héraðsfjall“,
og þar varð Esjan í fyrsta sæti, eins og við var að búast.