Lesbók Morgunblaðsins - 18.01.2003, Qupperneq 14
14 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 18. JANÚAR 2003
KRISTÍN R. Sigurðardóttir sópran og Ant-
onía Hevesi píanóleikari halda tónleika í Há-
sölum, safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju, í
dag, laugardag, kl. 17. Á efnisskránni eru
þekkt íslensk sönglög og óperuaríur m.a. eftir:
Eyþór Stefánsson, Árna Björnsson, Markús
Kristjánsson, Þórarin Guðmundsson, Sigvalda
Kaldalóns, Händel. Mozart, Cilea, Rossini,
Puccini, Mascagni og Verdi.
Þær Kristín og Antonía flytja sömu lög á
tónleikum í í Siglufjarðarkirkju 1. febrúar kl.
17 og í Miðgarði í Varmahlíð 2. febrúar kl. 15.
Miðar verða seldir við innganginn.
Antonía Hevesi og Kristín R. Sigurðardóttir.
Íslensk
sönglög í
Hásölum
HAMRAHLÍÐARKÓRINN flytur tónlist frá
16. og 17. öld í Háteigskirkju í dag, laug-
ardag, kl. 17. Fluttir verða madrigalar og
söngvar frá endurreisnartímanum, m.a.
eftir Gesualdo, Orlando di Lasso, Morley,
Bennet, Dowland og Wilby. Flest ljóðanna
fjalla um ástina, gleði hennar og unað, en
líka sársauka, söknuð og kvöl. Þau eru öll
sungin á frummálinu, þ.e.a.s. ensku,
frönsku, ítölsku, þýsku og latínu. Einn kór-
félaga, Árni Heimir Ingólfsson, kynnir
madrigalana með tónlistarformi og segir
frá helstu tónskáldum þessarar raddlistar.
Kórfélagar flytja þýðingu á ljóðunum.
Nú í upphafi árs er Hamrahlíðarkórinn
skipaður 46 ungum söngvurum og stjórn-
andi kórsins er Þorgerður Ingólfsdóttir.
Kórinn var tilnefndur til Íslensku tónlist-
arverðlaunanna 2002 í tveimur flokkum
sem flytjandi ársins og fyrir hljómplötu
ársins.
Í febrúar mun Hamrahlíðarkórinn ásamt
Kór Menntaskólans við Hamrahlíð og eldri
kórfélögum flytja nýtt verk Arvo Pärts,
Cecilia, Vergine Roman, með Sinfóníu-
hljómsveit Íslands undir stjórn eistneska
stjórnandans Tönu Kaljuste.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Hamrahlíðarkórinn með stjórnanda sínum, Þorgerði Ingólfsdóttur, á æfingu í Háteigskirkju.
Madrigalar í Háteigskirkju
HAYDN, Beethoven og Schubert eruþau tónskáld sem boðið verður upp áá tónleikum Kammermúsíkklúbbs-ins í Bústaðakirkju á sunnudaginn
kl. 20. Það er EÞOS-kvartettinn sem mætir til
leiks og ræðst ekki á garðinn þar sem hann er
lægstur. Á efnisskránni er Stóra fúga Beet-
hovens op. 133, auk Keisarakvartetts Haydns
og Strengjakvartetts nr. 14 í d-moll (Dauðinn
og stúlkan) eftir Schubert.
EÞOS-kvartettinn hefur verið starfandi frá
1998 en meðlimir hans eru Auður Hafsteins-
dóttir, Greta Guðnadóttir, Guðmundur Krist-
mundsson og Bryndís Halla Gylfadóttir.
Það hafa ekki margir íslenskir strengja-
kvartettar orðið langlífir en EÞOS-kvart-
ettinn hefur haldið nógu lengi út til þess að
skapa sér nafn, takast á við verulega krefjandi
verkefni og er nú á launum hjá Reykjavík-
urborg. Þegar talsmaður kvartettsins, Greta
Guðnadóttir, er spurð hvað haldi EÞOS sam-
an, segir hún: „Að okkar mati er kvart-
ettformið göfugasta kammerform sem til er
og öll tónskáld sögunnar hafa skrifað
strengjakvartetta. Þegar svo maður hittir fólk
sem gaman er að spila með, er þetta engin
spurning.“
Hvað er svona erfitt?
„Strengjakvartettformið er erfitt, vegna
þess að við verðum að starfa saman eins og
einn hugur. Við þurfum að hugsa eins. Það
hafa ekki margir kvartettar verið stofnaði hér
á Íslandi og fáir hafa orðið langlífir. Það er
vegna þess hvað þetta er erfitt form og kostar
gífurlega vinnu. Við erum mjög heppin þetta
árið að EÞOS-kvartettinn skuli vera á launum
hjá Reykjavíkurborg. Það gefur okkur svig-
rúm til þess að æfa okkur meira saman en við
hefðum annars getað gert.“
Þyrftum næstum að stunda
kraftlyftingar
Er það þess vegna sem þið ráðist í flutning á
verki eins og Stóru fúgu Beethovens?
„Það eru stjórnendur Kammermúsík-
klúbbsins sem velja efnisskrána að mestu leyti
– og okkur finnst auðvitað stórkostlegt að fá
að spila þessa fúgu. Mér vitandi hefur hún
ekki verið leikin hér áður af íslenskum kvart-
ett.“
Hvað er það sem gerir hana svona sérstaka?
„Stóra fúgan er „mjög“ stór og mikið torf
fyrir hljóðfæraleikarana – en um leið er þetta
mjög flott tónlist. Þegar Beethoven var að
semja þennan kvartett var hann löngu hættur
að semja skemmtitónlist og semur eingöngu
eftir sinni eigin tilfinningu. Fúgan var upp-
haflega lokaþáttur strengjakvartetts í B-dúr
op. 130 en við frumflutning kvartettsins þótti
þessi risavaxni þáttur alltof langur og torskil-
inn, þannig Artaria, sem keypti handritið,
bauðst til að kaupa fúguna sérstaklega ef
Beethoven semdi léttari lokakafla við kvart-
ettinn – og það varð úr. En í fúgunni gerir
Beethoven gríðarlegar kröfur til hljóðfæra-
leikara og áheyrenda. Hann fer alveg út á ystu
nöf. Það má segja að allt frá fyrsta fúgustefi sé
verkið merkt „fortissimo“, og samanstendur
af miklum krafti, mörgum nótum, ótrúlegum
hraða og snerpu, þannig að maður þarf næst-
um að vera í kraftlyftingum til þess að geta
spilað verkið. Þegar svo kemur að ljóðrænu
köflunum, er skipt yfir í algera andstæðu en í
mjög erfiðri tóntegund. Það er reynt á þanþol
hljóðfæraleikaranna til hins ýtrasta.
Það er alveg sérlega skemmtilegt að takast
á við þetta verk.“
Þjóðsöngur og flótti
frá dauðanum
Svo er það Haydn.
„Já, sem nefndur hefur verið faðir strengja-
kvartettsins. Ekki svo að skilja að hann hafi
fundið formið upp, heldur afmarkaði hann það
og mótaði sem sérstakt tónlistarform. Haydn
samdi 86 strengjakvartetta en Keisarakvart-
ettinn samdi hann eftir síðari Englandsferð
sína og tileinkaði Erdödy greifa. Við heim-
komuna úr þeirri ferð færði hann Franz Aust-
urríkiskeisara nýjan þjóðsöng – í stíl við
breska þjóðsönginn sem hafði hrifið hann – og
þetta stef með fjórum tilbrigðum notar hann í
adagio-kafla C-dúr kvartettsins. Af því stafar
viðurnefnið Keisarakvartett.“
Síðasta verkið á efnisskránni er Dauðinn og
stúlkan eftir Schubert.
„Já, Schubert samdi fimmtán strengja-
kvartetta á sinni skömmu ævi. Þar af ellefu
þegar hann var innan við tvítugt. Kvartettinn
sem við leikum er hinn fjórtándi í röðinni og
dregur viðurnefnið Dauðinn og stúlkan af stefi
2. kaflans, söngljóði sem Schubert samdi sjö
árum áður. Þar biður stúlkan Dauðann í líki
beinagrindar að víkja frá sér vegna æsku sinn-
ar, en hann svarar því til að hann komi sem
vinur, ekki sem óvinur. Þetta stef var jafnan
ofarlega í huga Schuberts sem var fátækur og
heilsuveill. Hann var alltaf með dauðann á
hælunum, enda er síðasti kaflinn í þessum
kvartett eins og harðahlaup undan honum.
Og þið eruð tilbúin í slaginn.
Já, við hlökkum mjög mikið til að flytja
þessa efnisskrá. Ögrunin er svo stór.“
Sem fyrr segir verða tónleikar Kammer-
músíkklúbbsins í Bústaðakirkju á sunnudag
og hefjast klukkan 20.
ÚT Á YSTU
NÖF
Morgunblaðið/Kristinn
EÞOS-kvartettinn á æfingu. Fiðluleikararnir Auður Hafsteinsdóttir og Greta Guðnadóttir,
Guðmundur Kristmundsson víóluleikari og Bryndís Halla Gylfadóttir sellóleikari.
EÞOS-kvartettinn flytur meðal annars Stóru fúgu
Beethovens á tónleikum Kammermúsíkklúbbsins á
sunnudaginn. SÚSANNA SVAVARSDÓTTIR
ræddi við Gretu Guðnadóttur fiðluleikara um
verkið og strengjakvartettinn.