Lesbók Morgunblaðsins - 08.03.2003, Page 10

Lesbók Morgunblaðsins - 08.03.2003, Page 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 8. MARS 2003 Þ AÐ var nokkuð óvænt sjón þegar Mrs. Dalloway, skáldsaga eftir Virginu Woolf frá árinu 1925, skaut upp kollinum á kiljumet- sölulista New York Times í febr- úar síðastliðnum. Þó svo að Virg- inia Woolf hafi, allt frá því að fræðimenn tóku að gefa henni gaum á sjöunda og áttunda áratugnum, öðlast þann sess í virðingarstiga bókmenntanna sem æviverk hennar á skilið, er Mrs. Dalloway áreiðanlega ekki þekktasta bók höfundarins, og verður nýfenginn áhugi bandarískra lesenda á verkinu að teljast nokkuð ánægjulegur. Í tilfelli sem þessu verður kynningarmáttur kvikmynda seint ofmetinn, en Mrs. Dalloway er fyrirmyndin sem rithöfundurinn Michael Cunn- ingham byggði skáldsögu sína The Hours á, bók sem hlaut Pulitzer-verðlaunin árið 1999 og hef- ur nú verið kvikmynduð í leikstjórn Stephens Daldry. Í kvikmyndinni, sem keppir um fjöl- margar Óskarstilnefningar í ár, lifna hinar sterku kvenpersónur úr bók Cunninghams við á tjaldinu, þar á meðal sjálf Virgina Woolf sem í upphafi myndarinnar gengur sín hinstu spor út í ána Ouse, þar sem skáldkonan drekkti sér árið 1941. Lífshlaup, skáldskapur og skörp þjóðfélags- gagnrýni Virginiu Woolf hefur lengi verið fræðimönnum, femínistum og bókmenntafólki áhugaefni, en með frumsýningu kvikmyndar- innar The Hours, þar sem hin þekkta leikkona Nicole Kidman túlkar Woolf á eftirminnilegan hátt, virðist almennur áhugi hafa vaknað fyrir því að grafast fyrir um sifjafræði verksins, hver er þessi frú Dalloway og hver var Virginia Woolf, þessi mikilvirki höfundur sem endaði ævi sína á svo sviplegan hátt? Stormasamt æviskeið Ævi Virginu Woolf hefur reyndar fengið á sig goðsagnakenndan blæ. Í umfjöllun um vandaða ævisögu Virginiu Woolf eftir Hermonie Lee, sem út kom árið 1997, bendir greinarhöfundur New York Times á hversu vandkvæðum bundið það sé að fjalla um ævi Woolf og varpa á það nýju ljósi á einhvern hátt. Svo oft hafi verið sögð sagan af „hinni fögru en afskiptu móður sem lést þegar Virginia var 13 ára, sorgmædda föð- urnum sem sökkti sér í vinnu, kynferðislegri ágengni hálfbræðra Virginiu, samkeppnis- þrungnu en nánu sambandi við systurina Van- essu, andlegu niðurbroti á unglingsaldri og síð- ar á ævinni, hjónabandinu með auralausum heimspekingi, nánum samböndum við konur, þar á meðal ástarsambandi við skáldkonuna Vita-Sackville-West og að lokum sjálfsmorðinu árið 1941, þegar Virgina var 59 ára að aldri.“ Virginia (þá Stephen) fæddist árið 1882 inn í menntafjölskyldu. Að loknu háskólanámi flutti hún ásamt fjórum systkinum sínum í Blooms- bury-hverfið í London, þar sem þau komust í kynni við hóp rithöfunda, listamanna og heim- spekinga, sem mynduðu náinn vinskap og voru kenndir við Bloomsbury-hópinn. Í þessum hópi kynntist Virginia eiginmanni sínum, útgefand- anum og blaðamanninum Leonard Woolf. Leonard var dyggur vinur Virginiu, og studdi hana í gegnum veikindin, sem settu mark á and- legt líf hennar alla tíð, og drógu hana að lokum til dauða. Í kveðjubréfi sínu til Leonards segir Virginia m.a: „Ég finn fyrir víst að ég er að verða veik aftur: Ég held að við munum ekki höndla enn eitt af þessum hræðilegu skeiðum. Ég mun ekki ná mér aftur í þetta skipti. Ég er byrjuð að heyra raddir, ég get ekki einbeitt mér. Ég geri því það sem virðist réttast í stöð- unni …“ Í ævisögunni segir Lee það nær ómögulegt að vita fyrir víst hvort Virginia varð í raun fyrir kynferðislegri misnotkun og að hvaða leyti and- leg barátta hennar var aðstæðubundin, og að hvaða leyti afleiðing illvígs geðsjúkdóms. Mich- ael Cunningham tekur afstöðu til þessa vafa- máls í skáldsögulegri nálgun sinni á Woolf þeg- ar hann beinir sjónum að þeirri stund í lífi hennar er hún tók þá ákvörðun að flytja úr út- hverfinu Richmond aftur til London þrátt fyrir ráðleggingar lækna um að slíkur flutningur myndi valda henni andlegu álagi, sem hún vart mætti við. Virginia ólst upp á tímum gríðarlegra sam- félagslegra breytinga, og gagnrýni hennar á breska heimisveldið var bæði skörp og framsýn. Hún fjallaði ekki síst um stöðu kvenna í sam- félaginu, hlutverk og stöðu kvenna í skáldskap, og rígskorðaða hlutverkaskipan kynjanna. En hin víðsýna og yfirvegaða leið Virginiu til að tjá þá gagnrýni í skáldskap sínum og ritgerðum, á borð við hina frægu A Room of One’s Own, mætti oft vanskilningi, jafnvel meðal hennar nánustu vina sem þó efuðust ekki um að hún væri snjall hugsuður og hæfileikaríkur rithöf- undur. Umsvif hennar á skáldskaparsviðinu mörkuðu hins vegar mikilvæg spor í módern- ískri umbyltingu bókmenntalegrar tjáningar á 20. öldinni þar sem rannsóknir hennar á mögu- legum bókmenntalegum framsetningaraðferð- um sjálfsvitundar og flókinna tilfinningatengsla áttu margt sameiginlegt með starfi rithöfunda á borð við James Joyce og Marcel Proust. Verkefnið sem Micheal Cunnigham leggur upp með í skáldsögunni The Hours er áhuga- vert, bæði í ævisögulegu tilliti og skáldskap- arlegu. Cunningham leitast við að nálgast Virg- iniu Woolf, tilvist hennar, innra stríð og skapandi hugsun, í gegnum eitt af skáldverkum hennar, hina margræðu Mrs. Dalloway. Til að geta notið skáldsögu Cunninghams, og kvik- myndarinnar nýju, til fulls er því nauðsynlegt að kunna nokkur skil á sögu Woolf því að að- ferðafræði Cunninghams einskorðast ekki við lauslegar vísanir eða hefðbundin textatengsl heldur er um að ræða innlimun, endurvinnslu og opinbera lofgjörð til skáldskapar Woolf; Cunningham skrifar sig inn í skáldsöguna um Dalloway og skáldskapararfleifð Virginiu Woolf samhliða því sem hann færir hvort tveggja inn í samtímann með nýstárlegri túlkun sinni og formgerð skáldverksins. Hin órjúfanlegu tengsl verkanna eru innsigluð með nafngift nýju bók- arinnar, The Hours, en það var einmitt vinnutit- illinn sem Woolf studdist við þegar hún var að skrifa Mrs. Dalloway. Frú Clarissa Dalloway Mrs. Dalloway er fjórða skáldsaga Woolf sem jafnframt er af mörgum talin ein af hennar merkustu verkum. Þar þróaði Woolf áfram að- ferð sem hún kenndi sjálf við „tunnelling“, eða að grafa göng, og miðaði að því að miðla innra lífi persónanna; innra lífi sem flæddi handan við þann stað og þá stund sem hinn ytri heimur af- markar svo skýrt. Þannig er ytra tíma- og rúmsvið sögunnar mjög afmarkað, það lýsir degi í lífi Clarissu Dalloway þar sem hún und- irbýr og heldur veislu á fyrirmyndarheimili þeirra hjóna, en hugleiðingar Clarissu um stöðu sína, dauðann og fortíðina, veita mun dýpri inn- sýn í tilveru hennar og það samfélag sem hún býr í en dagurinn spannar. Reyndar fer frásögnin eins og kvikmynda- tökuvél um sögusviðið, og fangar hugsanir óþekktra og þekktra persóna, vegfarenda, Richards eiginmanns Clarissu, hins ógæfusama Septimusar Smith og eiginkonu hans, róttækr- ar kennslukonu, Peters Walsh, fyrrum vonbið- ils Clarissu og annarra persóna sem við sögu koma. Og umfram allt fangar frásögnin iðandi borgarlífið og skoðar það frá ólíkum hliðum, innan frá og utan. Með því að gera hina fremur yfirborðs- kenndu þingmannsfrú Clarissu að aðalpersónu sögunnar, kannar Woolf tilveru og skilyrði hinnar góðborgaralegu eiginkonu og tilvistar- legan grunn hjónabandsins í bresku samfélagi. En um leið tekur Woolf þá meðvituðu ákvörðun að fjalla um hina tíðindalausu hversdagsveröld konunnar, veröld sem bókmenntasagan hafði ekki hirt um að gefa gaum, nema ef vera skyldi í afstöðu við miðlæga karlpersónu. Clarissa Dalloway hefur verið fræðimönnum og lesendum nokkur ráðgáta, en köld og glað- beitt yfirvegun hennar í ákvörðunum er miðar að því að tryggja stöðu hennar í virðingarstig- um samfélagsins, gera hana ekki að sérlega við- kunnanlegri persónu. Með því að hafna vonbiðli sínum og elskhuga, hinum skáldlega sinnaða Peter Walsh, og velja sér traust eiginmanns- efni, hefur hún fórnað andlegum gæðum fyrir hin veraldlegu. Þegar fundum þeirra Peters ber saman, íhugar hún val sitt og telur sig, þrátt fyrir allt, hafa valið rétt. Það er líklega þetta sjálfsöryggi Clarissu sem gerir hana að svo eft- irminnilegri persónu. Hún stendur við val sitt, því það hefur gefið henni færi á að ná hámarks- árangri á því valdsviði sem henni er markað, hún er hinn fullkomni gestgjafi, fullkomna heldri kona, hin fullkomna húsmóðir. Clarissa á sér hins vegar skugga, sem holdgerður er í per- sónu Septimusar Smith, fyrrum hermanns sem barðist í heimsstyrjöldinni fyrri og hlaut heið- ursmerki fyrir. Eftirköst stríðsins gera hins vegar vart við sig þegar Septimus verður sífellt þunglyndari og verður að lokum fullkominni ör- væntingu að bráð, en ástand þetta, er síðar var greint í tengslum við andlegt áfall stríðsupplif- unar og hlaut sjúkdómstitil, var á þessum tíma álitið hálfgerður kveifarháttur. Á meðan Clar- issa táknar og athafnar sig innan hins rígskorð- aða og staðnaða hefðarveldis samfélagsins, er Septimus holdgervingur alls þess sem er óstöð- ugt og breytingum háð, dauða, umbyltinga og óröklegrar hugarstarfsemi. Clarissa er tákn þeirrar sem lifir af, þolir við, Septimus þess sem tortímist. Lifandi textatengsl Skáldsaga Cunninghams, The Hours, hefst líkt og Mrs. Dalloway á kafla þar sem Clarissa nokkur Vaughn, ritstjóri í New York, heldur út í iðandi borgarlífið til þess að kaupa blóm fyrir veislu sem hún hyggst halda um kvöldið. Hér er það hin lífræna heild New York borgar við ár- þúsundamótin 2000 sem mætir lesendum í stað Lundúna millistríðsáranna. Þegar í upphafi bókarinnar má greina þau fjölmörgu þemu, frá- sagnaraðferðir, persónuheiti og umfjöllunar- efni sem Cunningham tekur úr Mrs. Dalloway og setur í nýtt samhengi. Sögunni er skipt í þrjár sjálfstæðar frásagn- ir, en tengjast þær þó bók Woolf á einn eða ann- an hátt. Fyrrnefnd saga Clarissu er eins konar nútímavæðing skáldsögu Woolf en þar koma fyrir persónur er bera tengd eða sömu nöfn og í Mrs. Dalloway, en birtast þó í yfirfærðri og dá- lítið breyttri mynd. Annað frásagnarsvið bók- arinnar lýsir persónu sem er mun óskyldari frumverkinu, óhamingjusamri húsmóður sem reynir að gæða tilveru sína merkingu með því að leita í skáldskap, m.a. títtnefnda bók Woolf um Dalloway. Þriðji hlutinn fjallar síðan um af- markað tímabil í lífi Virginu Woolf, nefnilega tímabilið þegar hún glímir við hugarfóstur sitt, Mrs. Dalloway. Sjálf hélt Woolf dagbækur á þessu tímabili og sækir Cunningham markvisst í þær heimildir við smíð skáldsögu sinnar. Hugleiðingar um dauða, geðveiki og sköpun merkingarbærrar tilveru eru miðlægar í Mrs. Dalloway, og í endurvinnslu sinni tekst Cunn- ingham ekki aðeins á við það verkefni að fanga og endurvinna andrúmsloft, ritunarhátt og um- fjöllunarefni skáldsögunnar heldur gerir hann spurninguna um sköpun að þungamiðju eigin bókar með tilvísun sinni til Woolf sjálfrar, og ritunarferlis hennar verks. Veitt er innsýn í hina átakasömu daglegu veröld Woolf, þar sem hún barðist við sjálfsefasemdir, skapsveiflur og þunglyndi, en kafaði jafnframt djúpt í vanga- veltum sínum um möguleika skáldskaparins og þess verks sem hún var að vinna að. Með hinum frásagnarsviðunum er Cunninghams hins vegar að halda áfram með það verkefni Woolf að fjalla um tilvist og innri veröld kvenna, óháð þeim staðalmyndum sem litað hafa bókmenntasög- una. Það er engin tilviljun að leikkonur í Holly- wood hafa tekið kvikmyndaaðlögun þessarar sögu fagnandi, og verður forvitnilegt að skoða kvikmyndina The Hours sem frumsýnd er um þessar mundir hér á landi í samhengi við þann marglaga bakgrunn sem þar er unnið með. Höfundur er bókmenntafræðingur. MÖRG ANDLIT VIRGINIU WOOLF Lífshlaup, skáldskapur og skörp þjóðfélagsgagnrýni Virginiu Woolf hefur lengi verið fræðimönnum, fem- ínistum og bókmenntafólki áhugaefni, en með frum- sýningu kvikmyndarinnar The Hours, þar sem hin þekkta leikkona Nicole Kidman túlkar Woolf á eft- irminnilegan hátt, virðist áhugi á höfundinum hafa gengið í endurnýjun lífdaga. E F T I R H E I Ð U J Ó H A N N S D Ó T T U R Reuters „Í ævisögunni segir Lee það nær ómögulegt að vita fyrir víst hvort Virginia varð í raun fyrir kyn- ferðislegri misnotkun og að hvaða leyti andleg barátta hennar var aðstæðubundin, og að hvaða leyti afleiðing illvígs geðsjúkdóms.“ Nicole Kidman í kvikmyndinni The Hours.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.