Lesbók Morgunblaðsins - 29.03.2003, Side 7

Lesbók Morgunblaðsins - 29.03.2003, Side 7
ritshöfundar í Hollywood hefði ekki getað lát- ið sér detta í hug mörg þau viðtöl og viðsvör sem Moore fær og finnur í myndinni. Keiluspil í Littleton Að morgni 20. apríl árið 1999 brugðu þeir Eric Harris og Dylan Klebold sér í keilu. Það atvik væri heimsbyggðinni ekki kunnugt nema vegna þess að fáeinum klukkustundum síðar myrtu þessir tveir piltar á annan tug samnemenda sinna við Columbine-gagnfræði- skólann í Littleton, Colorado, og særðu fjölda annarra áður en þeir sviptu sig sjálfir lífi. Myndbandsupptökur sem teknar voru af ör- yggismyndavélum skólans og sýna úthugsaða og miskunnarlausa ferð drengjanna tveggja, gráa fyrir járnum, um ganga og stofur skól- ans, þar sem þeir taka af lífi hvern jafnaldra sinn á fætur öðrum, upptökur sem jafnframt sýna þá skelfingu sem grípur um sig, eru vafalaust einhverjar þær óhugnanlegustu mínútur sem hægt er að upplifa, þótt úr öruggri fjarlægð sé. Hörmungaratburður þessi er eins konar útgangspunktur mynd- arinnar Keilað fyrir Columbine í þeim skiln- ingi að hann er skoðaður sem sjúkdómsein- kenni sem gefur vísbendingu um öllu víðtækara og útbreiddara vandamál: Djúp- stæður kvilli hlýtur að hrjá samfélag þar sem unglingar finna ekki aðeins hjá sér löngun og vilja til að fremja ódæðisverk sem þetta held- ur einnig þar sem þeim tekst að útbúa sig fyr- ir hefðbundinn skóladag með slíkt magn skot- vopna innanklæða og í skólatöskunni að fullnægt hefði lítilli herdeild. Þeim Eric og Dylan tókst að verða sér úti um sjálfvirka riffla, haglabyssur, skammbyssur og sprengj- ur enda þótt nokkur ár hafi vantað upp á að þeir gætu löglega keypt sér bjór. Moore leggur af stað með þá spurningu að leiðarljósi hvort ekki megi sjá orsakasam- hengi milli þess að almennir borgarar í Bandaríkjunum eru meira eða minna byssu- óðir og þeirrar staðreyndar að tíðni alvarlegra ofbeldisglæpa þar í landi, þ. á m. manndrápa, er geigvænlega há og fullkomlega úr sam- hengi við reynslu annarra þjóða, sem í nær öllum tilvikum (þegar horft er á Vesturlöndin) hafa strangari reglur um eignarhald á skot- vopnum og þær tegundir skotvopna sem al- mennir borgarar hafa aðgang að. Ljóst er að þótt skoðanir séu skiptar um þessa hliðstill- ingu staðreynda er Moore, þegar hann miðar við þessi grundvallarsjónarmið, að vinna inn- an skýrt afmarkaðs rannsóknarramma, ramma sem hann er heldur ekki að mæla út fyrstur manna. Einkenni á þessari heimild- armynd (líkt og öðrum eftir Moore) er þó að ekki fer mikið fyrir skipulagi; þeir leiðarvísar sem farið er eftir og beina kvikmyndagerð- arfólkinu og framvindu myndarinnar í ólíkleg- ustu áttir virðast nefnilega að nokkru leyti handahófskenndir, eða er a.m.k. ekki fylgt af göfugri ástæðum en þeim að Moore finnst þeir áhugaverðir eða lýsandi. Minna máli skiptir hvort ákveðin hliðarspor og útúrdúrar tengist heildarmynd þeirri sem verið er að skapa og falli að og styðji þá röksemdafærslu sem fram er stigið með. Ýmis dæmi eru um þetta í myndinni; og ætli það skýrasta birtist ekki í því rafmagnaða mikilvægi sem Moore virðist ákveðinn í að hlaða inn í þá staðreynd að Lockheed-fyrirtækið – einn stærsti vopna- framleiðandi heims – er með höfuðstöðvar í Littleton. Þrátt fyrir heiðarlegan ásetning er hætt við að fáir, fyrir utan Moore sjálfan, tengi þessa staðreynd á einhvern innihalds- ríkan hátt við harmleikinn í grunnskólanum þar í bæ. En sú staðreynd að Moore heldur opnum möguleikanum fyrir breytingar – myndin er að miklu leyti formgerðarlaus en sú formgerð, sem þó er lagt af stað með, er hugmyndin að kvikmynda persónulegt ferðalag Moores sjálfs um lendur bandarísks sálarlífs og oft sjáum við hann hissa eða sleginn yfir því sem fram kemur – og það hvernig hann spilar dá- lítið eftir eyranu leiðir til þess að honum er fært að bregðast við hinu óvænta á skilvirkan hátt. Þannig getur hann gripið tækifæri og mótað myndina út frá því sem fram er komið í stað þess að móta það sem fram kemur eftir skipulagðri grunnhugmynd þar sem efnið er lagað að steinsleginni höfundarætlun sem ljós er frá byrjun. Gott dæmi um þetta er hin einkennilega kú- vending sem á sér stað eftir um það bil þriðj- ung myndarinnar, en þá virðist Moore skipta nokkuð um skoðun varðandi mikilvægi áð- urnefndar tengingar milli auðsótts aðgangs að skotvopnum og glæpa og leggur því snarlega á hilluna hugmyndir um að skilvirkari og strangari stjórnun á útbreiðslu skotvopna myndi leysa vandann. Vissulega lítur Moore á aðgengileika vopna sem hluta af skýringunni fyrir fjölda ofbeldisverka en þetta atriði er ekki lengur, að hans mati, miðlægt. Það sem öðru fremur leiðir til þessarar breytingar í nálgun er sú staðreynd að byssueign sé jafn algeng og útbreidd í Kanada og Bandaríkj- unum. Engu að síður er tíðni ofbeldisglæpa í Kanada tiltölulega lítil og vandinn hreinlega dvergvaxinn í samanburði við það sem þekkist hjá risaveldinu í suðri. En ef ekki er hægt að skýra glæpatíðni og sífelldan straum ofbeld- isverka í Bandaríkjunum með því að benda á skotvopnið í sokkaskúffunni, hverju skal þá gaum gefa? Innræting óttans Michael Moore færir okkur ekki afdrátt- arlaust svar, en við þessar krossgötur í mynd- inni breytist framvindan og í stað þess að rök- styðja kenningu sem boðið er upp á í byrjun lýsir eftirleikurinn leitinni að skýringum: Hvers vegna skjóta Bandaríkjamenn hvern annan svo miklu oftar en fólk gerir almennt í öðrum iðnvæddum löndum? Tengist ofbeld- ishneigðin skapgerð þjóðarinnar eða er svar- anna e.t.v að leita í sögulegum bakgrunni sem öðru fremur litast af harðgerðum landnema- anda? Kvikmyndin fer víða og dregur fram í dagsljósið ýmis þjóðfélagsmein, kynlega kvisti í mannlífinu og samfélag þar sem hættuleg undiralda kraumar og ekki virðist þurfa mikið til að hún brjótist fram. Hugsanlegar útskýr- ingar eru skoðaðar, en mörgum síðan hafnað. Er blóðidrifinni dægurmenningunni um að kenna? Nei, vegna þess að í Japan er neysla á ofbeldismyndum, ofbeldisfullum tölvuleikjum og myndasögublöðum mun meiri en í Banda- ríkjunum og þrátt fyrir það er tíðni alvarlegra glæpa ekki ýkja mikil. Hér má líka tengja við titil myndarinnar því Moore virðist svara slík- um kenningum með því að leggja nokkra áherslu á þá staðreynd að morðingjarnir ungu fóru í keilu sama morgun og glæpurinn var framinn. Margir vildu kenna tónlist Marilyns Mansons um athæfi drengjanna vegna þess að báðir áttu þeir tónlistardiska með hinum ögr- andi söngvara. En væri þá ekki alveg jafn eðlilegt að kenna keiluspilinu um hegðun þeirra? Þeir voru þó áhugamenn um íþróttina fyrst iðkun hennar var þeirra síðasta „eðli- lega“ athöfn fyrir verknaðinn. Með því að varpa þessari hugmynd fram í anda útúrsnúnings gefur Moore í skyn að slík- ar tengingar séu ekki aðeins fátæklegar held- ur líka misvísandi. En hvað með fátækt og erfiðar félagslegar aðstæður sem mögulega skýringu? Nei, segir Moore aftur, vegna þess að í Kanada og mörgum Evrópulöndum er at- vinnuleysi meira en í Bandaríkjunum. Er það sögulegur bakgrunnur þjóðarinnar sem óneit- anlega er uppfullur af vopnuðum átökum, kúgun og útrýmingu? Nei, vegna þess að þjóðir á borð við Þjóðverja og Breta slá öll met í því samhengi en eiga þó mun friðsælla borgarlíf í dag en Bandaríkjamenn. Á þennan máta útilokar Moore nokkrar skýringarleiðir án þess að verja miklum tíma í smáatriði, benda mætti á að atvinnuleysi í löndum þar sem við er haldið öflugu velferðarkerfi þarf ekki að vera samnefnari fyrir örbirgð og fé- lagsleg vandamál. Það sem gerir heimildarmynd Moores jafn litríka og áhugaverða og raun ber vitni eru viðmælendurnir sjálfir og þær aðstæður sem leitaðar eru uppi og kvikmyndaðar. Við fáum að fylgjast með Moore á skotæfingu hjá Varn- arsveitinni í Michigan; þar blandar hann geði við menn sem koma úr öllum stigum þjóð- félagsins en sameinast um óhóflega tor- tryggni í garð ríkisvaldsins og tröllatrú á mætti og almennri gagnsemi skotvopna. Glöggir áhorfendur minnast þess að spreng- juvargarnir í Oklahoma-tilræðinu komu úr röðum þessarar Varnarsveitar og gefur sú vitneskja atriðunum, sem tekin eru innan raða hennar, nokkuð óhugnanlega undiröldu. Í beinu framhaldi er nauðsynlegt að minnast á viðtal Moores við James Nichols, bróður Terrys, en þeir ásamt Timothy McVeigh voru ákærðir fyrir Oklahoma-sprenginguna, en að- eins hinir tveir síðarnefndu voru sakfelldir. Viðtalið er dæmi um þau atriði myndarinnar sem jaðra við fjarstæðu, svo mikið ólíkindatól reynist James vera; á yfirborðinu friðsamur ræktandi lífrænna sojabauna en undir niðri spriklandi vitfirringur. Þegar samræðurnar berast að því hvort ríkisborgarar Bandaríkj- anna hafi samkvæmt stjórnarskránni lög- verndaðan rétt til að eiga kjarnorkusprengjur er best að áhorfendur haldi sér fast. Einnig er hætt við að mörgum komi undarlega fyrir sjónir nýleg auglýsingaherferð banka í Suð- urríkjunum, en til að fjölga viðskiptavinunum bauð stofnunin ókeypis riffil með hverjum nýjum reikningi sem opnaður var (e. „More bang for your buck“). Moore fer á staðinn; opnar reikning og fær afhentan án frekari málalenginga forláta veiðiriffil. Hann hefur að vísu á orði við einn starfsmann bankans hvort það sé ráðlegt að ýta undir hópamyndun vopnaðara manna innan veggja bankastofn- unar, hvort slíkur mannsöfnuður sé ákjósan- legur fyrir stofnun sem á bak við sig hefur langa hefð um að þar séu framin ýmis misind- isverk undir slíkum kringumstæðum. Lítið er um svör og atriðið kannski ekki merkilegt nema fyrir þær sakir að vera sláandi dæmi um ástarsamband þjóðarinnar við skotvopn. Moore virðist vera að feta sig nær heild- rænni skýringu fyrir útbreiðslu og auðveldu aðgengi að skotvopnum í Bandaríkjunum og almennri misnotkun þeirra, þegar hann beinir sjónum að því sem hann kallar „hræðslu- áróðri“ fjölmiðla og annarra valdhafa í þjóð- félaginu. Hann bendir á hvernig ýtt er undir andfélagslegar tilhneigingar á borð við tor- tryggni, einangrun og vopnaeign, með síbylju fjölmiðla um glæpi og meint öryggisleysi al- mennra borgara. Í þessu samhengi bendir Moore á að viðvaranir um yfirvofandi stórslys og ýmiss konar hættuástand verði gjarnan til í fjölmiðlum og eigi sér litla stoð í veru- leikanum. Þá bendir Moore á að fréttaflutningur af al- varlegum glæpum sé oft og tíðum villandi og tengist auk þess ákveðnum hagsmunum sem ekki séu endilega miðaðir við alþýðu manna. Máli sínu til stuðnings nefnir hann þá stað- reynd að rýmið sem fréttum af ofbeldisglæp- um er gefið í fjölmiðlum vaxi meðan tíðni glæpanna fari niður á við. Þá bendir hann líka á þá kynþáttafordóma sem gjarnan tengjast glæpafréttum; nær allir glæpamenn sem aug- lýst er eftir í bandarísku sjónvarpi, eða hljóta umfjöllun þar, eru blökkumenn. Ótta hvítra við áðurnefnda blökkumenn virðist aðeins vera hægt að lægja með skovopni heimafyrir, en tölfræðin sýnir að hættan sem steðjar að hvítu millistéttarfólki í úthverfum stafar ekki af svörtu undirmálsfólki heldur hvítu ná- grönnunum, og því að hafa skotvopn innan- húss. Þessa misvísandi áherslu fjölmiðlanna skýr- ir Moore m.a. með hliðsjón af markaðskring- umstæðum þeim er stýra umfjöllun sjón- varpsstöðvanna. Blóðugar hryllingsfréttir eru söluvænlegri og fá meira áhorf en aðrar frétt- ir. Moore er hins vegar ekki eðlislægt að láta kyrrt liggja þegar einhvers konar niðurstöðu virðist hafa verið náð heldur fer hann lengra með hugmyndina og setur í samhengi við stærri hagsmuni. Í raun vill hann meina að með innrætingu almenns ótta við umhverfið, nokkuð sem viðhaldið er áratugum saman, verði þjóðin sem slík meðfærilegri varðandi óskir ríkisstjórnarinnar (og vísar Moore þá til jafn ólíkra hluta og stríðsáforma sem og sam- þykkis almennings á sífellt harkalegri laga- setningum). Hér að ofan hefur aðeins verið snert á þeirri umræðu sem birtist áhorfendum í Keil- að fyrir Columbine, fleiri dæmi væri hægt að nefna og fleiri þræði hægt að rekja. Sjón er hins vegar sögu ríkari í þessu tilviki. Það sem eftir stendur er hins vegar sú staðreynd að af- ar hressandi er að sjá fjölmiðlamann eins og Moore stinga í doðann sem umlykur umfjöllun um þjóðfélagsmál í fjölmiðlum nútímans, mann sem heldur áfram að kafa í málefni eftir þau hafa endað skamma lífdaga sína í dæg- urumræðunni, mann sem fer af stað til að leita svara, heldur í ákveðnum skilningi í krossferð með skoðaðnir sínar og gagnrýni á ríkjandi ástand. Mál eins og Columbine-morð- in, enda þótt tími þeirra í dægurumræðunni sé útrunninn, hljóta að halda áfram að naga okkur í undirvitundinni og Moore gerir til- raun til að skýra orsakir og afleiðingar á djúp- stæðan hátt, eða að minnsta kosti setja hlut- ina í samhengi sem gjarnan vill mást út í upplýsingaflaumnum, og þannig gera sýnileg- an kvillan sem liggur að baki sjúkdómsein- kennum á borð við atvikið í Littleton. Ef til vill má skýra þær óvæntu vinsældir sem Keil- að fyrir Columbine hefur hlotið í Bandaríkj- unum í ljósi þeirrar leitandi spurnar sem 11. september skildi eftir sig í hjörtum hinna áð- ur dofnu Bandaríkjamanna. Reuters Michael Moore flutti harðyrta ræðu er hann tók við Óskarnum og gagnrýndi Bush fyrir stríðsbrölt. Höfundur er bókmenntafræðingur. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 29. MARS 2003 7

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.