Lesbók Morgunblaðsins - 24.05.2003, Page 4
4 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 24. MAÍ 2003
N
Ý húsakynni Nýlista-
safnsins við Vatnsstíg
bergmála af hamars-
höggum, skellum og köll-
um. Mikið gengur á því
verið er að setja upp sýn-
inguna Cremaster Plate,
hugarsmíð Matthews
Barneys, „listamanns augnabliksins“, manns
sem aðalgagnrýnandi The New York Times
segir mikilvægasta bandaríska listamann sinn-
ar kynslóðar.
Á efri hæð safnsins er búið að rífa út alla
ofna, þar er verið að smíða eitthvað í öllum
hornum og verið er að rúlla út bláu gervigras-
teppi, en það kemur víða fyrir í verkum Barn-
eys. Verkið sækist vel enda margar hendur á
lofti. Barney er heldur ekki óvanur því að stýra
stórum hópi; við uppsetningu yfirlitssýningar-
innar í Guggenheim unnu um hundrað manns
og svo hafa tugir unnið að kvikmyndunum
fimm sem mynda Cremaster-hringinn.
„Á morgun förum við að hella vaselíninu. Það
er mikið af því,“ segir Barney og brosir þegar
ég hef á orði að verkið gangi vel. Og næst þegar
ég lít upp eru komnar upp á vegg fimm stórar
ljósmyndir sem sýna Barney í afar ólíkum
gervum karaktera í verkinu.
Nýtt verk fyrir Nýlistasafnið
Þetta viðamikla verk Matthews Barneys
sækir heitið, „cremaster“, í samnefndan vöðva í
kviðarholinu sem dregur upp eða slakar niður
eistum karlmanna, eftir ytri áreitum eða hita-
stigi. Útgangspunktur verksins er einnig innan
líkama mannsins, eða hið óvissa stig eftir
nokkrar vikur á fósturstigi, þar sem enn er ekki
víst í hvaða átt kynfærin þróast; hvort þau tog-
ist upp og myndi eggjastokka eða sígi niður og
verði að eistum. Í kringum þessa hugsun hefur
Barney skapað einstakan myndheim, sem er
blanda af mörgum ólíkum þáttum. Í fyrsta lagi
gerði hann fimm mislangar kvikmyndir, sem
eru samtals um sjö klukkustunda langar. Hann
gerði þær í „rangri“ röð, ef svo má segja, byrj-
aði á Cremaster 4, þá komu 1, 5, 2, og loks 3
sem er langlengst, eða um þrjár klukkustundir.
Kvikmyndirnar eru frásögn sem hann vinnur
fjölbreytilega skúlptúra inn í, hann sýnir líka
ljósmyndir af karakterum sagnanna, teikning-
ar sem tengjast frásögninni og gefur út bækur
um verkið.
Sýning Barneys er rós í hnappagat Nýlista-
safnsins, enda listamaðurinn einn sá vinsælasti
í listheiminum í dag. En hann tengist Íslandi
traustum böndum, er sambýlismaður og barns-
faðir Bjarkar Guðmundsdóttur, og segir að sig
hafi langað til að gera eins konar ágrip eða yf-
irlit yfir Cremaster-hringinn hér á landi.
„Þetta ár hefur farið í að ferðast um og setja
upp þessa yfirlitssýningu“ – á undan Guggen-
heim í New York, var hún sett upp í Köln og í
París – „og mér þótti því freistandi að gera
stakt verk hér í Nýlistasafninu. Verk sem um
leið er einskonar yfirlit yfir heildina.
„Eins og Cremaster-hringurinn er byggður
upp, með hlutunum fimm, þá hefst hann í Boise
í Idaho, þar sem ég ólst upp, á leikvanginum
þar sem ég lék ruðning sem unglingur. Þaðan
færist hann austur á bóginn, um Klettafjöllin,
um New York þar sem ég bý nú, og þaðan
áfram til eyjarinnar Manar og Búdapest. Og
þar sem hringurinn fer frá Norður-Ameríku,
þá skiptir hann í raun um svið; fer frá sjálfs-
ævisögusviði til goðsagnalegs. Sjálfsævisögu-
legi þráðurinn liggur áfram gegnum hringinn,
en þessir goðsögulegu þættir taka eins og að
þykkna kringum hann. Og eftir að hafa eytt
töluverðum tíma hér á Íslandi og kynnst land-
inu, hugsaði ég um gjána og landsigið á Þing-
völlum. Þar eru flekaskilin, þar skiljast Norð-
ur-Ameríka og Evrópa að; það mætti túlka eins
og þröskuld í Cremaster-hringnum.
Þetta verk sem ég er að gera hér hef ég ekki
gert áður. Ég tek ákveðið grunntákn sem ég
nota í Cremaster, skipti því í tvennt – eins-
konar flekaskil – og við steypum hvorn hluta
fyrir sig í sitthvorum hluta rýmisins. Verkin
eru mótuð í vaselín sem er blandað með svolitlu
vaxi. Þegar mótin verða fjarlægð ætti formið að
gefa sig á einhverjum stöðum; verkin ættu þá
að renna út. Ég hef einu sinni áður gert verk á
þennan hátt, í London, og það endaði með því
að skríða töluvert út og gefa ekki ólíka tilfinn-
ingu og skriðjökull.
Í miðju rýmisins verður standur með flötum
skjám þar sem allar fimm myndirnar verða
sýndar. [Myndirnar verða einnig sýndar í
Regnboganum] Og allar hljóðrásirnar verða á
samtímis. Það verður vissulega einskonar
kakófónía á stundum, en þótt hljóðið verði
stundum kaótískt, þá koma líka augnablik þar
sem samruninn verður furðulega fínn. Þá mæt-
ast hljómar frá ólíkum verkum og skapa næst-
um kórus. Þar koma saman hljóð sem ættu ekki
að eiga saman en eiga það samt, eins og óp-
eruröddin, sekkjapípuleikararnir og kántrís-
öngvarinn; að heyra þetta þrennt á sama tíma
finnst mér afar áhugavert. Þegar frásagnar-
hlutarnir fimm eru þannig leiknir saman færir
maður saman hluti sem ættu ekki að hæfa hver
öðrum en gera það samt.
Á sýningunni er ég líka með bláa gervigrasið
sem ég hef talsvert notað, en það kemur frá
leikvanginum sem ég lék á í Boise, og svo tvö
ljósmyndaverk sem tengjast öllum fimm köfl-
um verksins. Þau sitja yfir skúlptúrunum.“
Kraftmikið samfélag listamanna
Hvernig datt honum í hug að setja upp þetta
sérstaka yfirlit yfir Cremaster verkið hér í Ný-
listasafninu.
„Þetta kom út úr samræðum við nokkra
listamenn hér,“ segir Barney. „Það væri allra
best ef maður gæti bara ferðast um heiminn og
haft samskipti hvar sem væri á sínu eigin
tungumáli. Það eru forréttindi að geta gert það
og þetta er sú besta leið sem ég hef til að hafa
samskipti við fólkið hér. Og geta um leið tekið
þátt í samræðu við aðra sem eru að gera svip-
aða hluti. Mér finnst vera hér mikilvægt og
kraftmikið samfélag listamanna sem áhugavert
er að eiga samræðu við.“
Þrátt fyrir margbreytileika miðlanna sem
Barney vinnur í segist hann vera skúlptúristi.
En skyldi kvikmyndaformið vera leið fyrir
hann til að losna undan hefðbundnu samhengi
listasafna og sýningarsala?
„Það er freistandi að gera eitthvað sem nær
sambandi við fólk. Og að sjá verkin fara yfir
einhver mörk, til stærri hóps áhorfanda, eins
og þeirra sem sækja kvikmyndir, það er vissu-
lega spennandi. En það var aldrei markmiðið.
Alveg frá upphafi ætlaði ég að skapa ákveðið
frásagnarkerfi, kerfi sem ég gæti gert skúlp-
túra út frá. Þetta byrjaði því og endaði sem
skúlptúrverkefni og þetta frásagnarkerfi, þess-
ir fimm textar – fimm kvikmyndir – urðu sífellt
vandvirknislegri og sjónrænni. Ég hætti á að
sýnast fullur lotningar gagnvart skúlptúrunum
þegar ég segi að kvikmyndirnar séu eiginlega
aukaafurð; þær mega næstum missa sín. Þetta
frásagnarkerfi býður upp á næringu sem þessi
frásagnakenndi skúlptúr sprettur af. Verkin
sem ég gerði áður en ég fór í Cremaster-verk-
efnið virkuðu á annan hátt, þá byrjaði ég að
gera hluti og sagan spratt svo út frá þeim. Cre-
master sneri því við, byrjaði með sögu og út frá
henni kom heil fjölskylda af hlutum.“
Barney sló í gegn strax og hann kom fram á
sjónarsviðið árið 1991 með einkasýningar í virt-
um sýningarsölum í Bandaríkjunum. Þá var
hann 24 ára gamall og hafði útskrifast frá
myndlistardeild Yale-háskóla nokkru áður.
Barney er framúrskarandi íþróttamaður og
hafði stefnt á feril sem atvinnumaður í ruðn-
ingi. Í listinni nýtti hann sér strax styrk sinn og
fimi á sérstakan hátt. Í einu af fyrstu verkum
sínum, sem voru sýnd sem vídeó, sést hann
klifra um loft og veggi salar, nakinn fyrir utan
reipi og klifurbúnað, og síga svo niður að vasel-
ínskúlptúr, en vaselínið bar hann á op líkam-
ans. Í öðru verki kleif hann um loft sýning-
arsalar og seig síðan niður og hvarf inn í stóran
ísskáp sem innihélt furðulega skúlptúra. Þessi
verk hans vöktu mikla athygli, hann vann til
virtra verðlauna, og árið 1994 hóf hann gerð
Cremaster-hringsins.
Í eldri verkunum framkvæmdi hann atburði í
kringum hluti en það breyttist í Cremaster, þá
urðu myndirnar líka vandaðri og afar rík
áhersla lögð á hvers kyns smáatriði, eins og í
gervum og öllu útliti. En hvers vegna skyldi
frásögnin vera svo mikilvæg fyrir Barney?
„Verkin í Cremaster-hringnum urðu sífellt
háðari frásögn og það fólst sífellt meira frelsi í
því fyrir mig. Þetta varð að leið sem skúlptúr-
gerðin gat þróast eftir. Vinnan fylgdi nýjum
reglum. Skúlptúrinn hætti að fara eftir hefð-
bundnum leiðum þar sem unnið er með þyngd-
araflið og sannleikann.“
– Var hefðin heftandi?
„Mér fannst alltaf áhugavert að hafa þetta
kerfi af reglum, ég er þónokkuð háður þeim, en
síðan hafa þessar reglur vikið fyrir reglum frá-
sagnarinnar. Sagan tók að þróast og hlutirnir
þurftu að svara þeim reglum sem sagan krafð-
ist. Ég held það hafi verið frelsandi.“
Margir áhorfendur tala um frelsun þegar
þeir upplifa þennan nýstárlega myndheim – en
aðrir skilja hvorki upp né niður. Barney hefur
Gagnrýnendur hafa sagt hann mikilvægasta bandaríska listamann sinnar kynslóðar. Matthew Barney
hefur nýlokið við stórvirki sem tók hann átta ár að gera; Cremaster-hringinn, sem þessa dagana er efni yfirlits-
sýningar í Guggenheim-safninu í New York. Þar bíður fólk í löngum röðum eftir aðgöngumiðum, en lista-
manninn sjálfan er þar hvergi að finna, hann er upptekinn við að setja upp sýningu í Nýlistasafninu við Vatns-
stíg. Þar sýnir hann Cremaster-kvikmyndirnar fimm, skúlptúra og önnur verk sem tengjast hringnum.
EINAR FALUR INGÓLFSSON ræddi við Barney og reyndi að setja sig inn í frásagnarheim sem er engum líkur.
Morgunblaðið/Einar Falur
„Mér þótti freistandi að gera stakt verk hér í Nýlistasafninu, verk sem er einskonar yfirlit yfir heildina,“ segir Matthew Barney.
LÍKAMINN ER MITT TÆKI