Lesbók Morgunblaðsins - 28.06.2003, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 28.06.2003, Blaðsíða 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 28. JÚNÍ 2003 var samband þeirra Tove gott alla tíð, hann sendi henni peninga og hún kom verkum hans á framfæri í Danmörku.“ Indriði G. Þorsteinsson nefnir til orsaka sam- búðarslitanna fjárhagsörðugleika og segir mörg dæmi þess, að ungar erlendar konur hafi átt erf- itt með að flytjast hingað til lands og fóta sig hér. Þá megi einnig með nokkru sanni segja að með brottförinni til Íslands hafi verið klippt á rætur rithöfundarferils Tove. Indriði nefnir líka, að guðspekiáhugi Tove hafi valdið einhverju missætti milli hjónanna. Allt um það var það staðreynd, að komið var að sambúðarslitum, „sem aldrei greri yfir hjá Kjarval. Ég er alveg viss um að honum hefur þótt vænt um Tove,“ er haft eftir Guðmundi G. Hagalín. Tove fór utan með Gullfossi 28. ágúst 1924 og tók Svein með sér. Ása varð eftir hjá Krabbe- hjónunum, en þau sigldu svo til Hafnar í desem- berbyrjun og fór Ása með þeim. Helga Krabbe segir í bréfi, að þennan vetur hafi Tove unnið áfram að skáldsögu sinni og lif- að af því að selja myndir, sem Kjarval sendi henni. Tove skrifaði Kjarval bréf um skilnað þeirra í marzmánuði 1925, þar sem hún fullvissar hann um að þótt hún fái lagalegan umráðarétt yfir börnum þeirra, muni hann eftir sem áður hafa föður- og tilfinningarétt til þeirra og hún muni aldrei neita honum um hann, hvað sem öllum lagagreinum líði. Bréfið undirritaði hún: „Með bedste Tanker for Dig. Hilsen Tove. Þegar Kjarval hafði lesið bréfið, skrifaði hann á auða hluta blaðsins: „Sömuleiðis fyrir þig, veslings, sterka en óbil- uga, gáfaða kona.“ Tove gerði sér glögga grein fyrir því hversu samband Kjarvals við börnin var þeim öllum mikils virði. Þau heimsóttu föður sinn til Íslands og Tove bauð honum að koma í heimsókn til þeirra ytra. „Hann mætti vita að hann væri sér- lega velkominn, og hún lét í ljós þá von að hann hefði ekkert á móti því að búa hjá þeim. Ef hann vildi hins vegar ekki búa hjá þeim, þá lagði hún til að hún tæki sér ferð suður á bóginn um haustið og þá gæti hann verið hjá börnunum einum.“ Tove var vakin og sofin yfir listferli Kjarvals. „Í einu orði sagt, Jói, máttu vita að ég er sann- arlega sú hér, sem fús er til að gera það sem þú óskar fyrir þig. Amen.“ Þetta voru ekki orðin tóm. Indriði G. Þor- steinsson segir frá sýningu á verkum Kjarvals í Höfn í árslok 1931, sem Tove hafi komið á með ærinni fyrirhöfn. Sýningin tókst vel og Tove vildi fylgja henni eftir með farandsýningu á Norðurlöndum, í Þýzkalandi og kannski París og London. Í bréfi um þessa fyrirætlan í upphafi árs 1932 víkur hún að aðskilnaði þeirra Kjar- vals: „Det er snart gaaet 7 aars ulykkelige dage. Nú skal det være forbi.“ Ekkert varð úr farandsýningunni og má vís- ast til kenna peningaþrengslum þar um. Jón Þorsteinsson, sem var einn mestur trún- aðarmaður Kjarvals, segir í samtali við Indriða G. Þorsteinsson, að Kjarval hafi rætt mikið við hann um sín einkamál, en ekki hvernig skilnað þeirra Tove bar að. „Einu sinni kom ég með kveðju frá Tove. Hún var þá hér í heimsókn og bjó vestur á Melum. Hún talaði við mig, og ég sé alltaf eftir að hafa ekki kynnst þeirri konu meira, en þá bað hún mig fyrir kveðju til Kjar- vals og skilaði ég því. Hann sagði ekki neitt, en það kom á hann. Þá voru þau búin að vera lengi skilin.“ Stríðsárin var Tove ein í Danmörku. Sveinn var seztur að á Íslandi og Ása bjó í Svíþjóð. En fyrir tilstilli Tove voru myndir Kjarvals á sýn- ingum á stríðsárunum í Danmörku og Svíþjóð. Þátttaka hans bendir til þeirrar umhyggju, sem hún bar alltaf fyrir honum, segir Indriði G. Þor- steinsson. „Það er eins og maður finni hlýju hennar á bak við sýningarnar í Danmörku og Svíþjóð.“ Til Íslands kom Tove snemma vors 1946 og dvaldi í þrjá mánuði. Hún hitti þá Svein son sinn og fjölskyldu hans, en Kjarval var norður í landi og má ráða af texta Indriða G. Þorsteinssonar að þau hafi ekki hitzt. Hins vegar fól málarinn Guðbrandi Magnússyni að annast með Tove út- gáfu í Danmörku á steinprentuðum manna- myndum. Vinkona Tove, Helga Krabbe flutti með börn sín til Gentofte haustið 1946. Þá bjó Tove í Nordre Frihavnsgade 5 þar sem hún bjó til dauðadags; 5. marz 1958. Indriði vitnar til bréfs Helgu, þar sem hún segir ma.: „Tove var svo sérkennileg og ynd- isleg að ég kann ekki að lýsa henni. Hún var mjög trúuð manneskja, eins og bækurnar henn- ar bera með sér, blíð og róleg í viðmóti, alvöru- gefin, djúpt hugsandi, músíkhneigð og hafði yndi af öllu fögru, og með afbrigðum trygg í vin- áttu. Hún klæddi sig eftir eigin smekk en skipti sér ekkert af tískunni. Hún hafði sinn eigin stíl að öllu leyti.“ Á árunum 1917 til 1945 voru gefin út 17 verk eftir Tove Kjarval; skáldsögur, smásögur og leikrit og hún var ritstjóri tímaritsins Ude og hjemme 1933–36. Árið sem hún lézt, 1958, kom út sex binda skáldsaga hennar Stjernene syng- er – Roman fra Köbenhavn 1800 – 1857. Árið sem Kjarval stóð á sjötugu, 1955, kenndi Tove sér meins sem síðar dró hana til dauða. Indriði G. Þorsteinsson segir að hún hafi ekkert látið uppi um þetta, en skrifað Kjarval bréf og beðið hann að lána sér myndina Reginsund, sem hann málaði 1938. „Vilt þú lána mér hana um stund, nokkra mánuði, eitt ár – eða þangað til ég dey.“ Kjarval skrifaði um hæl og sagði sjálfsagt að senda myndina. Í marz árið eftir lauk Tove við síðara bindi bókar sinnar til Kjarval með heimspekilegum hugrenningum og dæmisögum. Bókina sendi hún Kjarval sem lítinn þakklætisvott fyrir myndina – og annað. Og í bréfi bætir hún við margfaldar kveðjur og þakkir: „Kæri Jói – takk – takk fyrir myndina … Aase hefur fengið fyr- irmæli um að senda þér hana til baka, þegar – já þegar að því kemur að ég stíg um borð í bát sem stefnir á aðrar strendur. Þakka þér enn og aftur og vertu kært kvaddur. Tove.“ Matthías Johannessen hefur í Kjarvalskveri sagt frá því, að vorið 1914 hafi Tove Merrild, unga danska stúlku, sem var nútrúlofuð Jó- hannesi Kjarval, dreymt draum sem hún hefur lýst á þessa leið: „Ég sat í báti á miklu hafi. Hann stefndi að strönd. Í bátnum sátu skeggjaðir, veðurbarðir menn undir árum. Þeir voru í sjóklæðum. Í bátnum lá lítill, nakinn mannslíkami í svo fögr- um ópallitum, að líkast var því sem þeir væru ekki af þessum heimi. Þegar báturinn kom að ströndinni, báru mennirnir fjórir þennan litla líkama á milli sín í land og fannst byrðin aug- sýnilega ekki létt. En mér þótti sjálfri sem ég yrði ein eftir í bátnum. Þegar þeir fóru með líkamann á milli sín, hafði það djúp áhrif á mig, því ég vissi í draumn- um að það var sál Kjarvals sem þeir báru.“ Fjörutíu árum síðar skrifar Tove Kjarval enn í draumabókina með öruggri hendi þroskaðs rit- höfundar: „Nú fyrst skil ég þennan draum. Jói er aftur kominn til Kaupmannahafnar eftir tutt- ugu og tveggja ára fjarvist, „mér var sagt það í gær.“ Til þess að hann gæti skapað þessa stóru íslensku málaralist, mátti hann ekki líta í nein önnur horn – hinir miklu líkamlegu kraftar hans og skynjanir gátu truflað köllun hans. Þegar ég dvaldist við hlið hans, var andi hans bundinn. Öll þessi ár hefur hann aðeins átt líkama og sál. Andi hans er geymdur okkur, þar til köllun listamannsins er fullnægt.“ „Svo mikill er skilningur þessarar dönsku konu á hlutverki þess manns, sem ann henni ungri,“ segir Matthías. „Listin skiptir Kjarval öllu, það er ekki rúm fyrir annað. Jafnvel kona og börn verða að sitja á hakanum. Frú Tove veit að Kjarval getur ekki orðið hversdagslegur maður eins og við hin, fyrr en hann hefur lokið listamannsköllun sinni. Þeirri köllun er ekki enn lokið.“ Það er komið fram á vor, 1956. Matthías er á gangi eftir Peter Bangsvej á Friðriksbergi, þeg- ar hann sér mann koma á móti sér, „háan og grannvaxinn, en álútan. Hann hefur mikið ljóst hár og þegar hann nálgast, þekki ég, að þar fer Sveinn Kjarval, sonur listmálarans. „Komdu sæll, Sveinn, hvað ert þú að gera hér í Kaup- mannahöfn,“ segi ég. Hann horfir hægt á mig og segir, að mér finnst óvenjuhlýrri rödd: „Ég er að heimsækja móður mína,“ segir hann, „hún veiktist hastarlega. Pabbi sendi mig.“ Ég skildi, og við kvöddumst. Ári síðar var frú Tove látin. Yfir rúmi hennar hékk fögur mynd og gríðarstór í bláum og rauð- um litum, en stór gulur bátur með litla gula mannveru við stýri siglir inn í myndina, að strönd mikilúðlegra andlita. Enginn þarf að berja myndina augum til að sjá að hún er ekki af þessum heimi.“ Þessi mynd „var kveðja og gjöf mikils lista- manns til konu, sem hafði skilið hann betur en kannski er hægt að ætlast til nú á dögum. Þá voru liðin 32 ár frá því að leiðir þeirra skildu. En strax í upphafi hafði hún sagt honum fyrir um óumflýjanleg örlög ástar þeirra.“ Eleonore og Jóhann Eleonore Hertha Kreie var fædd 21. nóvem- ber 1907 í Dresden, dóttir Alexaanders Kreie verksmiðjueiganda. Hún stundaði listdansnám, m.a. hjá einum þekktasta listamanni þýzka expressionistadansins; Mary Wegmann, sem m.a. stofnaði skóla í Dresden 1920 og naut mik- illar hylli sem dansari, bæði í Evrópu og Banda- ríkjunum. Wegmann þróaði dansstíl, sem hún kallaði dansleikfimi. Eleonore tók sér listamannsnafnið Ellen Kid og dansaði við leikhús í Þýzkalandi, á Ítalíu, Spáni og í Sviss og einnig í nokkrum kvikmynd- um. Ungur Íslendingur, Jóhann Briem frá Stóra- Núpi í Gnúpverjahreppi, fæddur 17. júlí 1907, sótti sér myndlistarmenntun til Dresden og þar lágu leiðir málarans og dansmeyjunnar saman. Hún fylgdi honum svo heim til Íslands, þar sem þau giftust 25. júní 1937. 13. október 1937 birtist í Morgunblaðinu aug- lýsing um nýjan dansskóla í Reykjavík; Dans- skóla Ellen Kid. Í BA-ritgerð sinni; Upphaf nútímalistdans á Íslandi, fjallar Ingibjörg Björnsdóttir um Ellen Kid í kafla sem hún nefnir; Þýzka álfkonan. Þegar Ellen Kid lagði upp með dansskóla sinn í Reykjavík bauð hún upp á kennslu í ball- ett og dansgymnastik, en dansleikfimin náði ekki til nemenda, heldur urðu ballett og stepp það sem fólk vildi læra. Dansleikfimin datt því upp fyrir og segir Ingibjörg Björnsdóttir, að kennsla í nútímalistdansi hafi ekki farið fram í íslenzkum skóla aftur fyrr en 1964, þegar Fay Werner var ráðin til starfa við Listdansskóla Þjóðleikhússins. Í febrúar 1939 hélt Ellen Kid danssýningu í Iðnó og var Carl Billich við hljóðfærið. Í frétt í Morgunblaðinu segir m.a. að ekki sé að efa að margir hafi hug á að sjá Ellen Kid dansa, „enda á dansmærin marga aðdáendur hjer, er danslist unna, ekki síst meðal kvenþjóð- arinnar. Frúin hefur lært í „Mary Wegmann Schule“ í Dresden og hefir mikinn áhuga fyrir því að kynna hjer þá list, er hún hefur aðallega lagt stund á, og kend er í þeim skóla. Auk „kar- akterdansa“ alvarlegs eðlis, mun Ellen Kid dansa ýmsa dansa ljettara eðlis, og hefir lagt áherslu á að gera „prógrammið“ fjölbreytt og vel úr garði.“ Ljósmynd úr ævisögu Kjarvals eftir Indriða G. Þorsteinsson Kjarval meðan á sambúð Tove og hans stóð. Ljósmynd úr ævisögu Kjarvals eftir Indriða G. Þorsteinsson Tove nokkru eftir að hún og Kjarval giftust. Ljósmynd/Jóhann Briem Ellen Kid dansar í íslenzkri náttúru. Ljósmynd/Katrín Briem Elín Briem – 78 ára. Morgunblaðið/Ól.K. Magnússon Jóhann Briem

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.