Lesbók Morgunblaðsins - 09.08.2003, Side 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 9. ÁGÚST 2003
L
ISTAVERKA- og náttúrubókin Yzt
eftir skáldið og jarðeðlisfræðinginn
Ara Trausta Guðmundsson og
myndlistarmanninn Tolla kom út nú
í vikunni sem leið. Bókin er innblás-
inn af fjallaferðum þeirra félaga
sem farnar voru fyrr á þessu ári.
Það er Kaupthing Bank Luxembo-
urg sem, í tilefni af fimm ára afmæli bankans,
styrkir útgáfuna með því að kaupa 1.500 eintök
af bókinni en fyrsta eintakið var afhent forseta
Íslands hr. Ólafi Ragnari Grímssyni í formlegri
móttöku sem fram fór á Nordica Hótel á þriðju-
daginn var.
Spurður um samstarf sitt við Kaupthing
Bank Luxembourg svarar Tolli því til að að sínu
mati beri íslenskum fyrirtækjum í útrás erlend-
is að eiga samleið með íslenskri menningu og
listum. „Það er mjög þýðingarmikið fyrir þessi
fyrirtæki til þess að ná árangri að tengja sig ís-
lenskri menningu ekki bara í eitt skipti heldur
búa til langtímaplan sem nær yfir einhvern tíma
en skilar eftirtektarverðum árangri. Sérstaða
þeirra og styrkur endurspeglast nefnilega oft í
menningu okkar.“
Handleiðsla að ofan
„Ég hef af og til á mínum ferli búið til bækur
um myndlist mína, en einhvern veginn fannst
mér tími til kominn að gera eitthvað öðruvísi,“
segir Tolli þegar hann er spurður um tildrög
bókarinnar. „Ég var mikið að velta fyrir mér
hvern væri best að fá með mér, því ég vildi
vinna þetta með skáldi eða einhverjum andans
manni. Mitt í þessum pælingum mínum kom
skáldið og fjallamaðurinn Ari Trausti á sýningu
hjá mér. Ég þekkti Ara Trausta ekkert per-
sónulega fyrir, hafði aðeins séð hann á skjánum
og lesið verk hans, en um leið og ég sá hann fékk
ég sterka tilfinningu fyrir því að hann væri rétti
maðurinn. Ég lét því bara vaða á hann og spurði
hvort hann væri til í að vinna með mér bók og
hann tók vel í það. Síðan lögðum við í verkið af
fullum krafti,“ segir Tolli.
„Ég kom á þessa sýningu vegna þess að ég
hafði fengið boðskort frá Tolla, í fyrsta skipti á
ævinni. Sumir kynnu að segja að einhver hafi
stýrt þessu; Tolla finnst það að minnsta kosti,“
segir Ari Trausti og brosir. Tolli tekur undir
þetta: „Ég er alveg handviss um að við gerð
bókarinnar og aðdragandann að henni leynist
einhver handleiðsla, enda allt gengið eins og í
skáldsögu.“ Að sögn þeirra félaga hefur vinnan
við bókina gengið óvenju vel og hratt fyrir sig.
„Við urðum fljótlega sammála um að bókin
myndi aðallega byggja á ferð okkar á fjallið
Skessuhorn. Inn í þá ferðasögu, sem væri mjög
lausleg, yrði fléttað því sem okkur þætti mik-
ilvægt um listina, fegurðina, náttúruna og
mannlífið ásamt ýmsum grundvallarspurning-
um varðandi heimspeki og trúarbrögð. Auk
ferða upp á Skessuhorn fórum við fleiri ferðir
saman m.a. á Skarðshyrnu og í Gígjökul til þess
að binda bókina saman og reyna á eigin skinni
það sem bókin fjallar um,“ segir Ari Trausti, en
að hans sögn var fljótlega ákveðið að hann
myndi skrifa allan textann, líka fyrir Tolla.
„Ég heimsótti því Tolla til Berlínar þar sem
ég þurfti að kynnast því hvernig hann hugsar
vegna þess að ég átti að fanga hugsanir hans á
prent.“ Sem tókst greinilega mjög vel því að
sögn breytti Tolli varla einum einasta staf eftir
á. „Textinn, eða hugsanir mínar, er eitthvað
sem flæðir annað hvort í návígi við Ara Trausta,
eða í návígi við fjallið. Það er ekki legið yfir ein-
hverri hugsun og reynt að meitla setningarnar,
heldur er þetta bara ósjálfrátt flæði. Þetta eins
og að mála vatnslitamynd. Það bara er og þann-
ig var það við gerð þessarar bókar, hún einfald-
lega flæddi,“ segir Tolli.
Að sögn Ara Trausta var fyrsti stafkrókurinn
skrifaður í apríl. „Þetta var nánast samfelld
veisla því það liðu aðeins þrír mánuður frá því
við byrjuðum þar til hún lá fullbúin. En vissu-
lega hefði ekki verið hægt að vinna þetta svona
hratt og örugglega án þess frábæra teymis sem
kom að gerð bókarinnar, nefni einkum hönn-
uðinn Ámunda Sigurðsson, prentstjórann Mar-
tein Viggósson, Hilmar Eggertsson pappírsinn-
flytjanda og Guðmund í Prentmeti og svo Hrein
Magnússon og Ragnar Th. Sigurðsson ljós-
myndara. Við þurftum aldrei að hugsa um neitt
nema koma frá okkur texta og velja myndir,“
segir Ari Trausti.
„Við lentum hvergi í erfiðleikum, hvergi stífla
á vinnuferlinu. Ari Trausti er náttúrlega gríð-
arlega þjálfaður í fjallamennsku og allt sem
hann gerir er pottþétt. Til þess að ná þessum
árangri og ná á þessa tinda, sem við Ari Trausti
höfum farið á saman, þá er afar mikilvægt að
vinna eftir prinsippum og mjög yfirvegað. Það
var afar gott að njóta þess hve agaður Ari
Trausti er í sínum vinnubrögðum. Það er aldrei
neitt „á morgun“, að loknu samtali eru hlutirnir
strax unnir. Þess vegna gátum við unnið þetta
svona hratt án alls fums og fáts,“ segir Tolli.
Milliliðalaus upplifun af náttúrunni
Aðspurður hvernig það sé fyrir jarðeðlis-
fræðing að skrifa um fjöll á mun fagurfræðilegri
hátt en áður svarar Ari Trausti því til að hann
hafi í bókum sínum sífellt verið að færa sig
lengra út á þennan kant. „Ég gaf t.d. út smá-
sagnasafn í fyrra og ætla mér að fara meira í
áttina að fagurfræðinni því nú er einfaldlega
kominn tími á það. Vissulega fólst ákveðið frelsi
fyrir fræðimann, sem er oftast að skrifa upplýs-
andi texta, að geta allt í einu verið að spinna.
Þess vegna var sérstaklega gaman að vinna
þessa bók, af því þarna gat ég bara slett úr
klaufunum og við gátum kastað hugmyndum á
milli, en við gerðum einmitt mikið af því að
henda textahugmyndum á milli okkar.
Bókin sjálf er í raun nánast eins og málverk.
Við byrjuðum á grófu dráttunum og fórum svo
að fylla inn í þetta og laga. Meiningin var að búa
til fallegt verk og hafa gaman af vinnunni. Sum-
ar ferðir fórum við til þess að mála, en við fórum
líka ferðir til að príla eða ganga, en þær voru í
raun og veru innblásturinn að bókinni því það
gerist allt annað þegar maður situr við borð en
þegar maður er að puða í jökulsprungu uppi í
Eyjafjallajökli. Þá fer maður virkilega að segja
og gera hluti sem maður myndi aldrei láta
flakka undir venjulegum kringumstæðum,“
segir Ari Trausti.
„Þegar maður er í návígi við verkefni á borð
við það að klífa fjall eða haka sig upp einhvern
ísvegg þá er eiginlega ekkert svigrúm fyrir
mikla yfirborðsmennsku. Þú blæst bara út úr
svitaholunum nákvæmlega því sem er í hausn-
um á þér þá stundina. Ég hef áður gengið tölu-
vert á fjöll og er mikið útivið, því ég sæki inn-
blástur minn til náttúrunnar og þess að upplifa
náttúruna milliliðalaust. Það var mikil reynsla
að fara í þessar ferðir sem við fórum, en ég hafði
t.d. aldrei á ævi minni klifið ís áður en við Ari
Trausti fórum í slíkan leiðangur. Ég hef heldur
aldrei verið í líftaug í harðfenni áður, að höggva
mig upp í samvinnu við einhver annan. Svo er
það náttúrlega líka ákveðin reynsla að kynnast
manni eins og Ara Trausta sem býr yfir svona
mikilli þekkingu, það er mikill sjóður,“ segir
Tolli.
Að leyfa sér að finnast
Tolli leggur áherslu á að fyrir sér felist
ákveðin andleg vinna í því að mála náttúruna.
„Þetta er eins og regnbogi yfir til almættisins.
Þegar þú málar einhvern stein úti á Mýrdals-
sandi þá er það samnefnari fyrir alla steina
heimsins, steina sem blökkubörn í Sómalíu
klappa úti í eyðimörkinni eða inúítinn klappar á
klöpp á Grænlandi. Þetta er allt sama efnið,
maður og náttúra. Stóra spurningin felst í rök-
ræðunum sem skapast milli manns og náttúru.
Þess vegna er það mikilll fengur þegar maður
fær að njóta slíkrar fagmennsku í fjallamennsk-
unni og svona skáldlegrar hugsunar og reynslu
eins og Ari Trausti hefur yfir að búa,“ segir
Tolli.
Að mati Ara Trausta breytist sýn mannsins á
fjallinu eftir að hann hefur fengið að upplifa það
í návígi. „Þú getur málað fjall úr fjarska, en síð-
an upplifir þú eitthvað allt annað þegar þú ert
kominn nánast inn í það. Ég held að það hafi
valdið vissri sprengingu í bókinni að við unnum
þetta svona. Þegar þú ert kominn upp, búinn að
fara á fjallið, á klettinn, þá færðu enn aðra sýn
heldur en ef horft er á það af jafnsléttu. Allt
snýst þetta um að túlka og miðla fegurðinni til
fólksins. Okkur finnst þetta fallegt, áhrifamikið
og satt og reynum að skila því í gegn, hvort sem
er gegnum texta eða myndir, en út á þetta
gengur nú listin í sjálfu sér. Og það sem er „fal-
legt“ þarf ekki endilega að vera sætt, það getur
verið hrikalegt, jafnvel ljótt í hina röndina.
Þetta er sókn eftir þessu sem enginn nær nokk-
urn tímann að fanga alveg. Tolli er líka kraft-
mikill og flinkur málari sem er gefandi að vinna
með,“ segir Ari Trausti.
„Þegar kemur að listinni og lífinu er mjög
mikilvægt að leyfa sér að finnast. Leyfa sér það
að segja „mér finnst“ því aðeins það er hinn
æðsti sannleikur. Það skiptir engu máli hversu
vel vopnaður þú ert þekkingu, af því list verður
aldrei skilgreind til hlítar. Þú getur fjallað um
listina af mismikilli þekkingu, en þegar öllu er á
botninn hvolft þá snýst þetta bara um hvað
hverjum og einum finnst,“ segir Tolli. „Það er
enginn sem nær að skilgreina listina og feg-
urðina, þó margir reyni vissulega,“ segir Ari
Trausti. „Á okkar stuttu vegferð um lífið áttar
maður sig á því að á þessari ævi hefur maður
hlutdeild í öllu því sem mannsandinn hefur ver-
ið að fjalla um á sinni vegferð, sem er ást, list,
sársauki og lífið. Enginn getur svipt mig rétt-
inum til að segja „mér finnst“ og ég segi það
með sama rétti og hver annar,“ segir Tolli að
lokum.
„EINS OG REGNBOGI
YFIR TIL ALMÆTTISINS“
Nýverið kom út bókin Yzt, en í henni er að finna mál-
verk Tolla og hugleiðingar Ara Trausta sem innblásnar
eru af fjallaferðum þeirra félaga frá því fyrr á árinu.
SILJA BJÖRK HULDUDÓTTIR fékk Ara Trausta og Tolla
til þess að segja sér frá bókinni og vinnuferlinu.
Skessuhorn eftir Tolla.
Gígjökull eftir Tolla.
silja@mbl.is