Lesbók Morgunblaðsins - 20.09.2003, Blaðsíða 8
8 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 20. SEPTEMBER 2003
G
RASRÓTARSÝNING
Nýlistasafnsins er orðin
árlegur viðburður í ís-
lensku myndlistarlífi, en
Grasrót 2003 er fjórða
sýningin á jafnmörgum
árum sem ber Grasrót-
arheitið. Í ár er sýning-
arstjórnin í höndum Dorothée Kirch og Er-
lings T.V. Klingenbergs, sem bæði hafa
töluverða reynslu af sýningarstjórn. Þannig
hefur Dorothée einbeitt sér að sýningarstjórn
síðan hún útskrifaðist úr skúlptúrdeild
Listaháskóla Íslands 2001 og var t.d. sýning-
arstjóri Grasrótar 2002 og sýningarstjóri fyrir
Íslands hönd á Pragtvíæringnum í sumar sem
leið. Að myndlistarnámi loknu vann Erling
m.a. sem sýningarstjóri og sýningarhönnuður
á listasafninu Trapholt í Danmörku áður en
hann kom heim og stofnaði Kling & Bang
gallerí á Laugaveginum.
Að sögn Dorothée og Erlings komu ein-
ungis listamenn til greina, á Grasrót 2003,
sem höfðu lokið BA-námi í myndlist. Að þessu
sinni sóttu ríflega fimmtíu myndlistarmenn
um þátttöku og voru valdir þrettán úr þeim
hópi, en þeir eru Arndís Gísladóttir, Baldur
Geir Bragason, Birgir Örn Thoroddsen, Birta
Guðjónsdóttir, Bryndís Erla Hjálmarsdóttir,
Bryndís Ragnarsdóttir, Elín Helena Everts-
dóttir, Hanna Christel Sigurkarlsdóttir,
Hrund Jóhannesdóttir, Huginn Þór Arason,
Magnús Árnason, Rebekka Ragnarsdóttir og
Þórarinn Hugleikur Dagsson.
Góð framsetning lykilatriði
Aðspurð hvernig gengið hafi að velja þessa
þrettán listamenn svarar Dorothée að í raun
hafi valið verið erfiðara í ár en í fyrra. „Í ár
sóttu t.d. mun fleiri um en í fyrra, sem þýðir
að fólk er mun meðvitaðra um sýninguna en
áður,“ segir Dorothée. „Ungt myndlistarfólk
sér sýninguna náttúrlega sem tækifæri til
þess að koma sér á framfæri. Þegar við fórum
að skoða umsóknirnar komu nokkrir lista-
menn strax mjög sterkt inn og svo skemmti-
lega vildi til að það voru afar sterk tengsl milli
þeirra. Í raun má segja að þeir hafi tengst
hugmyndafræðilega en útfært hugmyndir sín-
ar í afar ólíkum miðlum.
Mér fannst afskaplega skemmtilegt að átta
mig allt í einu á tengingum milli ólíklegustu
listamanna. Þegar ég var að skoða hugmyndir
þeirra með það fyrir augum að setja saman
sýningu fór ég líka allt í einu að sjá að þeir
áttu ýmislegt sameiginlegt. En vissulega var
líka afar gaman hvað einstaklingar voru ólík-
ir. Með svona samsýningu tekst vonandi að
víkka út takmörk listarinnar og væntanlega
fara áhorfendur sjálfir að tengja hin ólíkleg-
ustu listaverk sem spila saman. En það er erf-
itt starf að velja inn á svona sýningu og oft
ekki skemmtilegt að þurfa að velja og hafna,“
segir Erling.
Dorothée og Erling eru sammála um mik-
ilvægi þess að myndlistarmenn vandi vel gerð
möppu sinnar. „Það að skoða allar umsókn-
irnar og möppur listamannanna staðfesti fyrir
mér mikilvægi þess að gengið væri vel frá
möppunum. Þannig skiptir miklu máli að að-
gangur okkar að hugmyndaheimi myndlist-
armannsins, eins og hann birtist í möppunni,
sé góður. En frágangurinn var mjög misjafn.
Hjá sumum hrundi t.d. allt út úr möppunni
þegar hún var opnuð. Í raun snýst þetta um
fagmennsku. Í framhaldinu fór ég að velta
fyrir mér hvort ekki þyrfti að leggja meiri
áherslu á kennslu í framsetningu á kynning-
arefni við Listaháskólann.
Framsetningarþátturinn þykir kannski
frekar óspennandi og leiðinlegur, en hann
skiptir bara svo gríðarlega miklu máli,“ segir
Erling. „Sérstaklega þegar fólk er að senda
möppur sínar út eða til fólks sem þekkir það
ekki áður. Yfirleitt er mappan það eina sem
fólk úti í heimi sér frá viðkomandi listamanni,
þannig að ef illa er gengið frá henni getur af-
skaplega litlu breytt hversu frábær sjálf hug-
myndin er, því hún kemst einfaldlega ekki til
skila,“ segir Dorothée.
Skepna uppi á þaki
Spurð um verk listamannanna þrettán segir
Erling þá vera af margvíslegum toga. „Mér
finnst skalinn mjög breiður. Kannski er það
helst málaralistin sem verður útundan, þó að
einhver óljós tengsl mætti kannski reyna að
finna í teikningum Hugleiks Dagssonar og El-
ínar Helenu Evertsdóttur. Verk Elínar er
innsetning þar sem hún, auk teikninga, breyt-
ir formi tjalds og gerir það í vissum skilningi
ónothæft, sem er hugmyndafræðilega í beinu
framhaldi á því sem hún var að gera í út-
skriftarverkefni sínu. Verkin á sýningunni eru
unnin í ýmsum miðlum og þannig er t.d. Arn-
dís Gísladóttir að vinna myndbandsverk,
Huginn Þór Arason er með tréskúlptúr sem
felst í því að skreyta tré og Birta Guðjóns-
dóttir er með skúlptúr sem krefst þess að far-
ið sé inn í hann til þess að skoða.
Hrund Jóhannesdóttir er með innsetningu
þar sem hún vinnur með gægjuþörfina og
fjarvíddarbrenglun, en Baldur Geir Bragason
er með skúlptúrinnsetningu þar sem hann
sækir í tölvuleikjamunstur. Þannig er hann
t.d. með 36 litla kassa sem málaðir eru með
náttúrulegum efnum á borð við rauðvín,“ seg-
ir Dorothée. „Síðan er Magnús Árnason með
sérstaka skepnu uppi á þaki og hefur byggt
kofa undir þessa furðuveru. Bryndís Ragn-
arsdóttir verður með innsetningu þar sem
hún hengir hjól á hvolfi upp í loft,“ segir Er-
ling og bendir á í verki hennar megi m.a. sjá
nokkurs konar ögrun við aðdráttaraflið.
Spurð um grasrótarnafnið svarar Birgir
Örn Thoroddsen því til að sér þyki nafnið afar
skemmtilegt. „Við erum náttúrlega listamenn
sem eru að vaxa og það er afar jákvætt og
hvetjandi fyrir unga listamenn að fá að taka
þátt í svona sýningu. Hún er búin að festa sig
í sessi og það er auðvitað helsti draumur allra
ungra myndistarmanna að fá að sýna hér á
Nýlistasafninu. Ef líta má svo á að maður sé
fræ meðan maður er í Listaháskólanum þá er
maður aðeins að spretta upp sem gras núna
og er í rótinni og verður vonandi orðinn stórt
brönugras á endanum,“ segir Birgir og hlær.
„Svo er náttúrlega misjafnt hvað einstakling-
ar spretta hratt og sumir spretta kannski
aldrei, vaxa jafnvel inn á við í öfuga átt. Í því
felast m.a. kröfur og áskorun listarinnar – að
vaxa í rétta átt,“ segir Erling kíminn og bætir
við: „Annars finnst mér vöxturinn stefna í
rétta átt hjá unga myndlistarfólkinu sem tek-
ur þátt í Grasrót 2003 og metnaðurinn vera
mjög mikill, ekkert síðri en hjá mörgum sem
viðurkenndari og eldri eru, þó að mörg eigi
kannski eftir að mótast enn meira.“
Kunnuglegt hljóð í nýju samhengi
Rebekka Ragnarsdóttir segist vera að
vinna með hljóð í verki sínu. „Þetta er dyra-
bjalla með skynjara sem er við innganginn að
safninu. Þannig að þegar fólk gengur inn þá
heyrist svona ámátlegt bjölluhljóð eins og það
sem heyrist í búðum þegar einhver kemur
inn. Mér fannst skemmtilegt að setja þetta
kunnuglega hljóð í nýtt samhengi,“ segir Re-
bekka. „Fólk mun væntanlega nálgast verkið
hennar Rebekku á ýmsa vegu. Ég nálgast það
t.d. mjög pólitískt. Þú kemur inn í Nýlista-
safnið eins og um hverja aðra búð væri að
ræða. Þetta er svona til að kveikja á söfn-
urunum sem eru ekki bara komnir til að
skoða list heldur líka kaupa,“ segir Erling og
hlær. „Svo er náttúrlega gaman að heyra þeg-
ar einhver er að koma,“ segir Birgir Örn en
verk sitt á sýningunni nefnir hann Fjöl-
skyldukvintettinn.
„Þetta er margþætt verk þar sem ég er
bæði að vinna með tónlist í formi strengja-
kvintetts og myndmiðilinn í formi fjölskyldu-
portretta, en seinasta árið hef ég mikið verið
að velta fyrir mér fjölskyldulífinu,“ segir
Birgir spurður um verkið sitt. „Ég fékk fjöl-
skyldu mína til þess að spila á þau fjögur
stengjahljóðfæri sem mynda fiðlufjölskyld-
una, þ.e. kontrabassa, selló, lágfiðlu og fiðlu.
Þannig er þetta ákveðinn orðaleikur, við erum
fjölskylda að spila á hljóðfæri fiðlufjölskyld-
unnar auk þess sem þetta er fjölskyldumynd.
Í raun var mjög gaman að sjá hvernig valda-
strúktúr fjölskyldunnar varð afar sýnilegur í
verkinu. Tónlistarlega séð má segja að við
séum við að vinna með spuna. Enginn í fjöl-
skyldunni spilar á þessi hljóðfæri vanalega og
ég var t.d. að reyna að spila á fiðlu sem ég
kann ekkert á, en útkoman var ekkert langt
frá þeirri tónlist sem ég hef áhuga á sem er
hávaðasöm tilraunakennd tónlist,“ segir Birg-
ir.
Aðspurð segist Hanna Christel Sigurkarls-
dóttir ætla að vera með myndbandsverk á
sýningunni. „Ég kem til með að sýna mynd-
bandið inni í litlu herbergi sem ég er búin að
smíða. Á myndbandinu má sjá manneskju
rúlla niður, en inni í þessu litla rými er eins og
hún detti niður úr loftinu og áfram niður í
gólf. Að einhverju leyti er líka eins og loftið sé
að falla,“ segir Hanna.
Að sögn Dorothée og Erlings verður í
fyrsta sinn í ár valinn myndlistarmaður Gras-
rótar árið 2003 og munu Samtök mjólkuriðn-
aðarins, sem eru samstarfsaðili Grasrótar
2003, leggja til verðlaunaféð að upphæð
hundrað þúsund krónur. Búið er að setja sam-
an dómnefnd og er hún skipuð Magnúsi Ólafs-
syni, formanni markaðsnefndar Samtaka
mjólkuriðnaðarins, Eddu Jónsdóttur galler-
ista i8, Ágústu Kristófersdóttur sagnfræðingi
og myndlistarmönnunum Hannesi Lárussyni,
Heklu Dögg Jónsdóttur og Hildi Bjarnadótt-
ur.
Grasrót 2003 verður opnuð laugardaginn
20. september kl. 17 í Nýlistarsafninu, Vatns-
stíg 3. Sýningin stendur til 12. október og er
aðgangur ókeypis.
VAXANDI LISTAMENN
Í NÝLISTASAFNINU
Hin árlega Grasrótarsýn-
ing verður opnuð í Ný-
listasafninu í dag kl. 17.
SILJA BJÖRK HULDU-
DÓTTIR sótti safnið heim
og ræddi m.a. við Dor-
othée Kirch og Erling T.V.
Klingenberg, sýning-
arstjóra Grasrótar 2003.
Morgunblaðið/Kristinn
Hluti hópsins sem stendur að Grasrót 2003.
Mynd eftir Bryndísi Erlu Hjálmarsdóttur.
Verk eftir Hrund Jóhannesdóttur.
silja@mbl.is