Lesbók Morgunblaðsins - 11.10.2003, Qupperneq 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 11. OKTÓBER 2003 5
arþykkni“ töfrasögunnar, frá gyðinglegri
launspeki, um arabísk og býsantísk fornrit, til
andabóka síðmiðalda og galdrakvera árnýjald-
ar, – tengslaflókinn er slíkur að útilokað er að
ákvarða orsakir og afleiðingar, enda er ólíkum
hefðum steypt saman á óreglulegan hátt: guð-
um og djöflum frá Babýlon, Egyptalandi, Per-
síu, Grikklandi og Palestínu, máttarnöfnum úr
löngu dauðum tungumálum, – arabískri
stjörnuspeki, hebreskum þjóðsögnum, kabala,
kaþólskri guðfræði og eldfornri sígaunavisku.
Þessum hefðum er blandað saman á óreglu-
legan hátt, nöfn og skilríki einstakra anda eru
ólík frá einu riti til annars, spillt og afmynduð,
englar verða að djöflum og öfugt, tignarstigar
og textarunur umbreytast, oft fyrir misskiln-
ing og ófullkomnar þýðingar, en undir niðri býr
ákveðin heimsmynd, hefðföst töfrasýn sem
birtist okkur í nöfnum ímyndaðra galdrameist-
ara, Mósesar, Enóks, Zóróasters, Hermes
Trismegistus, Jóhannesar Fásts – og Lofts
Þorsteinssonar.
Sagan um Galdra-Loft sýnir að hugmyndir
um máttarbók, lykil allra galdrarita, höfðu á
átjándu öld safnast saman í íslenska stórsögn
með rætur í hugarheimi raunverulegs fólks.
Hvort sem bók þessi var hugarfóstur eða veru-
leiki þá átti hún sér flókin drög eftir heimildum
að dæma; úlfheiðin stef fléttast saman við and-
astefnur af blendnum uppruna, suðræn töfra-
myndaskrif og bænarsæringar með miðalda-
rætur. Þessi gögn varpa ljósi á blætisdýrkun
skrifa og bóka því galdraskræður virðast hafa
vakið geig, jafnvel ofsaskelfingu um langt
skeið. Þess voru jafnvel dæmi að íslenskir
menn væru á sautjándu öld hýddir eða brennd-
ir fyrir það eitt að luma á galdrakveri.
Sumarið 1639 ályktuðu íslenskir alþingis-
menn að hýða skyldi Odd Jónsson úr Árnes-
sýslu fyrir stafamyndir og rúnabókstafi sem á
honum fundust. Skyldu rúnablöðin vera
„brennd fyrir hans andliti“ og hann víkja til
annarrar sveitar. Oddur bar hýðinguna vel, eft-
ir annálum að dæma, því ekkert æðruorð
heyrðist til hans fyrr en reykinn af galdrablöð-
unum lagði fyrir vitin á honum. Þá sagði Odd-
ur: „þat veit kreistr minn eg þoli þat ecki, eng-
ann hlut mælti hann annann, nema íllt eitt…“
Nær fjórum áratugum síðar var Strandamað-
urinn Jón Pálsson hýddur næst lífi fyrir sams
konar afbrot. Fundust hjá honum níu papp-
írsblöð með óvenjulegum táknum, stefnum og
formálum, en öll skyldu brennd „fyrir nösum
þess drengs Jóns Pálssonar undir eins og hann
skal straffið út taka“. Ekki er getið um fleiri
bókabrennur á sautjándu öld, en þögn heimilda
er stundum mælskari en mörg orð. „Þegar upp
komst um galdramenn, og galdrabækur þeirra
náðust,“ ritaði Ólafur Davíðsson (1940), „voru
þær brendar fyrir vitum þeirra sjálfra, og …
hefur slíkur reykur eflaust ekki verið talinn
sem hollastur.“ Rætt er um brunafár enda hafa
örfá galdrakver varðveist frá sautjándu öld.
Slíkir atburðir voru ekkert einsdæmi á Ís-
landi því bruna- og galdrabækur ruddu sér til
rúms í evrópskum töframálum þegar á fyrri
hluta fjórtándu aldar. Hafa verður í huga að
ákveðin töfraform tengdust lítúrgíu kirkjunnar
á miðöldum, tíðatöfrar sem svo kallast, enda
virðast prestlærðir menn hafa lagt stund á slík-
an galdur. Þeir einir höfðu lærdóm til að stúd-
éra fornar töfrabækur og voru líklegri en leik-
menn til að blandast árum og öndum, oft með
hörmulegum afleiðingum því yfirvöld brugðust
oft hart við. Í páfabréfi 1326 eða 1327 gegn
villutrú, Super illius specula, er kristnum
mönnum til dæmis veitt átta daga dvöl til að af-
henda töfraskrár sínar, að viðlagðri bannfær-
ingu, en ritin skyldu brennd umsvifalaust.
Nútímafólk hlýtur að velta fyrir sér af hverju
töfrabækur vöktu slíkt uppnám. Svör liggja
ekki á lausu enda hafa fáir rannsakað inntak
þeirra og hlutverk til hlítar, fyrr en á allra síð-
ustu árum, auk þess sem fornar heimildir
stangast á. Heilagur Tómas frá Aquino (d.
1274) taldi til dæmis að bækur töframanna
hefðu engan mátt í sér sjálfum, en sé horft til
annarra miðaldahöfunda kemur í ljós að þeim
var eignað yfirnáttúrulegt galdramagn. Töfra-
kverið er samkvæmt þeim bók og töfur, helgi-
munur sem líkja má við kirkjulegar helgisiða-
bækur er tengdu saman texta (völd og
sannindi) og framsetningu (sem virkjaði völd
hans og sannindi). Bækur þessar voru oft vígð-
ar því til staðfestu að í þeim byggi andlegt vald,
bókin sem slík var hluti af flóknu rítúali, jafn-
heilög og samfléttuð framsögn og texta. Hafa
verður í huga að mörk þessara bóka eru óljós
sem sjá má af því að í töfraskræðum síðmiðalda
standa hlið við hlið stefnur engla, ára og anda
af óákveðnum uppruna, – og guðsorðabænir
um vald yfir yfirnáttúrlegum öflum. Töfra-
skræðan var vígð með hliðstæðum hætti og
helgisiðabækur, enda töldu margir að hún fæli í
sér töframagn, þótt vafi léki á hvers eðlis mátt-
ur hennar væri, og hvar mörk anda og bókar
lægju.
Því til staðfestu má nefna sögn eina af heil-
ögum Anton, erkibiskupi í Flórens, sem mikil
áhrif hafði á höfunda Nornahamarsins. Hermt
er að biskupinn hafi dag einn lagt eld í sær-
ingabók við messu, en samstundis dimmdi í
lofti svo fólk fylltist skelfingu. Sagði Anton að
bók þessi hefði verið messuvígð til særinga og
djöflastefna svo fjöldi ára ætti sér þar híbýli.
Athöfn hans var því jafngild útrekstri eða ex-
orsisma; blöð bókarinnar voru í bókstaflegum
skilningi óhrein eða flekkuð. Sömu hugmyndir
um að djöfulsárar gætu smitað eða búið í bók-
um kemur víðar fram. Michael Scot segir til
dæmis frá töfraskræðu sem byggð var öndum
er hrópuðu í hvert sinn sem hún var opnuð:
„Hvað vilt þú? Hvers leitar þú? Hver eru fyr-
irmæli þín? Segðu hvað þú vilt og það mun
samstundis verða gert.“ Eftir þessu að dæma
var bókin bústaður illra afla, gædd neikvæðri
bannhelgi, smitvaldur og flekkunarbrunnur.
Menn brugðust við henni sem hluttekju hins
illa, hún var rannsökuð, fundin sek og hún
brennd líkt og um einstakling væri að ræða.
Íslenskar galdrarúnir
Rúnir hafa alið af sér misfagra drauma. Á
sautjándu öld voru til dæmis settar fram til-
gátur um að galdramenn hefðu af eigin ramm-
leik spillt gömlum rúnum með strikum og
punktum, þetta væru djöfulleg merki, – því
hver kunni að finna upp á slíku nema Djöfull-
inn? var spurt. Í heimild frá níundu öld er þess
getið að Norðmenn skrái kvæði sín, galdra og
spádóma með rúnum, en löngu áður tengdust
þær yfirskilvitlegum öflum; í sænskri rúna-
ristu frá sjöttu öld er sagt „rúnar (ek) fái reg-
inkunnar.“ Samskonar hugmynd kemur fram í
Hávamálum þar sem spurt er að rúnum „inum
reginkunnum/ þeim er gerðu ginnregin/ og fáði
fimbulþulur,“ en orðið „reginkunnur“ mun
merkja „goðkynjaður“.
Rúnirnar báru sérstök nöfn sem hafa fylgt
þeim aftan úr grárri forneskju. Sex þær fyrstu
hétu til dæmis fehu, uruz, thurizas, anzuz, ra-
idho og kaunaz á forn-germönsku, en á Íslandi
urðu þessi heiti að Fé, Úr, Þurs, Óss, Reið og
Kaun. Sum nafnanna féllu í gleymsku með rún-
um sem hurfu en aðrar héldu heitum sínum.
Sumar breyttu þó um nafn eða merkingu, svo
sem Úr er merkir járngjall eða úrkomu á með-
an uruz vísar á uxa. Fjórða rúnin var í önd-
verðu höfð um nefkveðið a og merkir ás eða
goð, en seinna tengdist hún ó og var nefnd Óss
sem vísar á fljótsós eða ármynni. Önnur íslensk
rúnanöfn voru Hagall, Nauð, Ís, Ár, Sol, Týr,
Bjarkan, Maður, Lögur og Ýr.
Ýmsar heimildir eru til um nöfn rúna en
þeirra merkastar eru fjögur rúnakvæði frá
miðöldum, þýskt, engilsaxneskt, norskt og ís-
lenskt. Það fyrsta, nefnt Abecedarium
Nordmanicum, er til í svissnesku handri frá ní-
undu öld, skrifað á þýsku af lærisveini Hrab-
anus Maurus. Engilsaxneska kvæðið hefur
verið rakið til loka tíundu aldar en kann að vera
eldra. Norska kvæðið mun aftur á móti vera frá
lokum tólftu aldar og er náskylt því íslenska
sem er sennilega frá fimmtándu öld. Í hand-
ritum er það nefnt Þrídeilur af því að þrjú vísu-
orð eru höfð um hverja rún. Því hefur verið
haldið fram að kvæði þessi séu rímaðar minn-
isgreinar, orðaleikir, en líklegra er að þau búi
yfir lyklaðri vitneskju sem erfitt er að ráða í nú
á dögum.
Sé horft til eldri heimilda, svo sem rúnatals
Hávamála, frá níundu öld, virðist sem rúnir
hafi tengst göldrum og helgisiðum að fornu.
Greint er frá því hvernig Óðinn hékk í vind-
stroknum aski níu nætur án matar eða
drykkjar; hann nýsist niður, skyggnist, og
nemur upp rúnir, hann er frá sér numinn, æp-
andi, segir í kvæðinu. Að auki nemur hann níu
fimbulljóð og fær drykk af dýrum mjöð, vex að
þroska og visku, öðlast kraft til orðs og æðis.
Allt vísar þetta á vígslu töframeistara sem
gengur á táknrænan hátt um dauðans dyr og
nemur leyndardóma alheimsins í formi rúna.
Óðinn hangir dægrum saman í heimstrénu,
fastar til matar og drykkjar, særður spjóti og
gefinn sjálfum sér, uns hann kemst í annarlegt
ástand, megin hans brýst úr viðjum, heimur
valds og þekkingar opnast hinum pínda. Þessi
vígsla hefur sjálfsagt vísað á fornan helgisið
þar sem menn reyndu að öðlast hlutdeild í
reynslu guðsins. Í ljósi þess er gild ástæða til
að draga hefðbundna skiptingu töfraseiðs og
rúnagaldurs í efa, en samkvæmt henni var seið-
ur tilfinningalegs eðlis, reistur á algleymi og
leiðslu, gagnstætt galdri sem byggist á vilja og
vitsmunum, formálum og rituðum táknum.
Bæði hugtökin vísa á söng eða muldur, munn-
legan gjörning, auk þess sem verksvið þeirra
renna oft saman, til dæmis í Ynglinga sögu, en í
henni er sagt að Óðinn hafi af seið sínum mátt
„vita örlög manna og óorðna hluti, svo og að
gera mönnum bana eða óhamingju eða vanheil-
indi, svo og að taka frá mönnum vit eða afl og
gefa öðrum.“ Slíkar listir mátti fremja með
rúnum samkvæmt öðrum heimildum svo senni-
legt er að seiður og galdur hafi upphaflega
fléttast saman í heiðnum helgiathöfnum.
Í öðrum íslenskum fornkvæðum má finna at-
hyglisverða kafla um goðsöguleg tengsl rúna,
svo sem í Rígsþulu, þar sem rúnaviska er talin
uppspretta andlegs og félagslegs valds; Konur
ungur kann mönnum bjarga, eggjar deyfa og
ægi lægja fyrir tilstilli „ævinrúna“ og „aldur-
rúna“. Kon[ung]ur nær æðstu völdum eftir að
hafa sigrað Ríg jarl í rúnavisku, enda gerði hún
honum kleift að nema klök fugla, kyrra elda,
lægja sorgir og magna sig afli átta manna.
Kvæðið Sigurdrífumál lýsir rúnakennslu sem
Sigurði Fáfnisbana var veitt ungum, og í Skírn-
ismálum er greint frá álögum sem sendiboði
Freys leggur á Gerði, með atbeina rúnastafa.
Íslensk dróttkvæði innihalda einnig lýsingar á
yfirskilvitlegum áhrifamætti rúna, svo sem vís-
ur Egils Skallagrímssonar, en í sögu hans er
meðal annars að finna merkilega frásögn af
bölbæn sem rist var með rúnum á níðstöng.
Eftir Hávamálum að dæma var rúnagaldur
munnlegur og efnislegur gjörningur. Fram-
kvæmd hans virðist hafa einfaldast þegar
tímar liðu, til dæmis hvað varðar vígslu galdra-
manns, en einhvers konar sjálfsmögnun hefur
eftir sem áður verið nauðsynleg. Sumir hafa
vafalaust fylgt fordæmi Óðins, aukið megn sitt
með því að ofurselja sig óblíðum höfuðskepnum
– eldi, vindi, regni og frostéli, reynt þol sitt með
föstu, meiðslum, einveru og harðrétti líkt og
rúnaguðinn forðum. Í Ketils sögu hængs er til
dæmis greint frá því að víkingur einn, sem
dýrkaði árhaug, hafi skorað Ketil á hólm.
Hvarf Ketill þá til skógar, settist á árhauginn
og tók óvarinn í mót hagli og hríð, enda huldi
snjór hann allan þegar menn komu að. Sigraði
hann víkinginn að svo búnu. Hér er sjálfsagt
vísað til sjálfsmögnunar því Ketill nær tökum á
anda árhaugsins með þrautseiglu sinni. Sá sem
undirgekkst hefðbundna vígslu hefur glímt við
þursinn með því að fasta í þrjá eða 3x3 daga,
berskjaldaður fyrir veðri og vindum, einn síns
liðs, særður og heftur í ákveðinni stellingu líkt
og Óðinn forðum.
***
Saga rúnastafrófsins hefur verið uppspretta
stórfenglegra hugarburða öldum saman, menn
hafa reist himnahallir úr rúnastöfum, frá Jo-
hannes Magnus og Bureus hinum sænska, en
sá síðarnefndi lagði grunn að vísindalegri rúna-
fræði, jafnframt því sem hann notaði rúnir við
töfra og í dulspekilegu skyni. „Virðist réttmætt
að tala um eins konar dulspeki“, ritar Einar
Ólafur Sveinsson (1962), en um hana eru litlar
og óöruggar heimildir þótt hér og þar megi
nema glampa af henni. „Svo er að sjá sem rún-
irnar innibindi ýmsa krafta í hreinleik þeirra,
og frá þeim stafi dularfull áhrif“, taldi Einar
Ólafur, þær hafi verið „eins konar innviðir allr-
ar tilveru“.
Í þessum greinaflokki verður hugað að fræð-
um hverrar rúnar um sig, táknaslóðum sem
liggja um fornrit og rúnasteina til elstu heim-
ilda. Tekið skal fram að þessi aðferð er oft vörð-
uð tilgátum sem æxlast hafa af öðrum tilgátum.
Hið eina sem túlkandinn getur gert sér vonir
um er að skýringar hans búi yfir samhengi
raka og ályktana. Getið verður gagna um
hverja rún, vitnað í uppástungur fræðimanna
sem rúnaspekinga, en þess gætt jafnan að les-
endur geti skilið á milli fróðleiks og skoðana;
hvenær vikið er af fjölfarinni þjóðbraut út á
skógarstíga tengsla og túlkana. Mörk rúna-
speki og táknfræði kunna að vísu að verða
óljós, en nauðsynlegt er að leyfa hug sínum að
leika á hvörfum og skyggnast um. Brigðulausri
trúartryggð, hvort heldur dulspeki eða vísinda,
er hafnað, enda eru heimildir iðulega af skorn-
um skammti.
Morgunblaðið/Ásdís
„Óðinn hangir dægrum saman í heimstrénu, fastar til matar og drykkjar, særður spjóti og gefinn sjálfum sér, uns hann kemst í annarlegt ástand,
megin hans brýst úr viðjum, heimur valds og þekkingar opnast hinum pínda.“
Höfundur er dósent í íslenskum bókmenntum við
Háskóla Íslands.