Lesbók Morgunblaðsins - 11.10.2003, Side 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 11. OKTÓBER 2003
S
INFÓNÍAN var að mörgu leyti
draumaform 19. aldarinnar í
tónlist. Hún stóð vissulega
traustum fótum þegar í aldar-
byrjun (eins og meistaraverk
Haydns og Mozarts bera vitni
um), en á 19. öld varð sinfónían
samnefnari fyrir margt það sem
rómantíska stefnan stóð fyrir. Hún var risavax-
in bæði í tíma og rúmi, og þess megnug að end-
urspegla bæði sálarlíf tónskáldsins og heiminn
allan – eins konar músíkölsk hliðstæða róman-
tísku skáldsögunnar. Eins og Gustav Mahler
(síðasti hlekkurinn í keðju rómantísku sinfón-
íunnar) sagði eitt sinn: „Sinfónía á að vera eins
og heimurinn sjálfur“. Módernisminn sem réð
ríkjum eftir dauða Mahlers tók á sig ýmsar
myndir, en hann var iðulega léttari í stíl og
knappari í formi en tónlist eldri kynslóða. Þessu
fylgdi að sinfóníska formið var lagt á hilluna
nema í undantekningartilvikum, og mestu tón-
skáld 20. aldarinnar hafa yfirleitt valið tónhugs-
un sinni form sem ekki bera með sér jafnþungar
klyfjar hinnar gömlu hefðar.
Þó skipar sinfónían lykilsess í höfundarverki
eins merkasta tónskálds 20. aldar – rússneska
tónskáldsins Dmítríjs Shostakovitsj. Fimmtán
sinfóníur hans ná yfir allan tónsmíðaferil hans
(frá 1925 til 1971) og eru stórmerkur vitnisburð-
ur um hina viðsjárverðu tíma sem tónskáldið
lifði á. Flestir hlustendur heyra í verkum Shost-
akovitsj trúverðuga lýsingu á hörmungum
Stalíntímans – sama hvort er í manískum
scherzóum eða hinum djúpu og tregafullu hægu
köflum sem iðulega eru tilfinningalegir mið-
punktar verka hans. Hins vegar hlaut „andófs-
maðurinn“ Shostakovitsj ekki uppreisn æru
fyrr en eftir lát sitt. Meðan hann lifði var honum
hampað sem dyggum flokksmanni. Það var ekki
fyrr en bókin Testimony (sem kveðst vera ævi-
minningabók tónskáldsins, rituð af landflótta
landa hans, Solomon Volkov) kom út árið 1979
að mynd manna af tónskáldinu gerbreyttist.
Þótt ýmsum spurningum sé enn ósvarað varð-
andi tilurð bókarinnar eru þeir sem þekktu
Shostakovitsj sammála um að hún bregði upp
sannri mynd af skoðunum hans á ástandinu í
Sovétríkjunum og hvernig þær endurspeglast í
verkum hans. Tónlist er í eðli sínu margræð og
erfitt að ákvarða „merkingu“ hennar í eitt skipti
fyrir öll. Þetta varð Shostakovitsj vafalaust til
lífs. Þótt tónlist hans sé að mörgu leyti hefð-
bundin má heyra í henni andóf af því tagi sem
listamönnum í öðrum greinum hefði varla liðist
undir ógnarstjórn Stalíns.
Fyrstu sinfóníurnar
Shostakovitsj fæddist í St. Pétursborg 25.
september 1906 og ólst upp á miklu tónlistar-
heimili. Móðir hans hafði lært píanóleik við Tón-
listarháskólann og faðir hans hafði ágæta ten-
órrödd. Þegar móðirin ætlaði að taka átta ára
son sinn í fyrsta píanótímann streittist hann á
móti, en mótþróinn varði ekki lengi. Hinar
óvenjulegu gáfur hans komu strax í ljós: hann
hafði absolút heyrn og minni hans á tónlist var
með eindæmum gott. Árið 1919 hóf Shost-
akovitsj nám við Tónlistarháskólann í St. Pét-
ursborg, þar sem hann lagði aðallega stund á
tónsmíðar (hjá Maximilian Steinberg, tengda-
syni Rimsky-Korsakovs), og píanóleik. Hljóm-
sveitin fangaði huga unga tónskáldsins strax frá
upphafi. Fyrsta verkið sem hann samdi eftir að
hann hóf nám var scherzo fyrir hljómsveit (op.
1), og lokaverkefni hans við skólann var 1. sin-
fónían (1924–25). Hún er snilldarvel samin og
þótt Shostakovitsj hafi ekki verið nema nítján
ára gamall er ekki að heyra að hér sé unglingur
á ferð. Sinfónían vakti mikla athygli og næstu
árin kynntu hljómsveitarstjórar á borð við
Bruno Walter, Otto Klemperer og Arturo Tosc-
anini verkið fyrir áheyrendum beggja vegna
Atlantshafsins.
Þriðji áratugurinn var róttækt og spennandi
tímabil í sovéskri listasögu. Ýmiss konar fram-
úrstefna blómstraði, hvort sem var í myndlist,
bókmenntum, leiklist eða tónlist. Shostakovitsj
gerði einnig djarfar tilraunir í tónsmíðum sín-
um, eins og bæði 2. og 3. sinfónían (1927 og 29)
bera vitni um. Báðar eru „kórsinfóníur“ í einum
þætti, við texta sem lofa Lenín og kommúnism-
ann. Sú fyrri ber undirtitillinn „Október“ og var
samin að beiðni áróðursdeildar Þjóðarútgáfu
Sovétríkjanna til að minnast 10 ára afmælis
Októberbyltingarinnar. Sinfónían skiptist í
fjóra hluta. Hún hefst á hægum inngangi þar
sem strengirnir leika ekkert nema tónstiga, upp
og niður til skiptis, í sjö röddum þar sem engar
tvær nota sömu nótnagildi. Eftir skamma stund
tekur við einleikskafli fyrir fiðlu, klarínett og
fagott þar sem hvert hljóðfæri leikur algerlega
sjálfstæða tónlist; áhrifin eru svipuð og að
standa á gangi í tónlistarskóla og heyra þrjá
nemendur æfa sig hvern í sínu herberginu!
Smám saman bætast fleiri hljóðfæri við og að
lokum verður útkoman eins konar stjórnlaus
„fúga“ í 13 röddum. En öll óreiðan hefur sinn til-
gang. Eins og sovéska byltingin kom skipulagi á
hina þjóðfélagslegu og pólitísku óreiðu, þannig
kemur kórinn skipulagi á hið músíkalska kaos –
þó aðeins eftir að verksmiðjuflauta (!) hefur
skakkað leikinn og blásið hávaðann af.
Þriðja sinfónían hefur svipaða heildarmynd,
þótt hún sé nokkru viðameiri en sinfónía nr. 2.
Shostakovitsj á að hafa sagt við vin sinn, tón-
skáldið Vissaríon Shebalín, að 3. sinfónían hafi
verið tilraun til að semja sinfóníu þar sem ekk-
ert stefjanna væri endurtekið. Texti hennar er
annað lofkvæði til flokksins, og ber heitið
„Fyrsti maí“. Að loknum þremur hljómsveit-
arköflum sem leiknir eru án hlés (Allegretto –
Andante – scherzo) lýkur verkinu á lokakór þar
sem 1. maí er lofsunginn með miklum tilþrifum.
Óperur – og hörmungar
Þótt Shostakovitsj hafi með 1. sinfóníu sinni
orðið óskabarn hins nýja sovéska sinfónisma lá
metnaður hans ekki síður á óperusviðinu. For-
vígismenn í flokksmálum höfðu margsinnis
nefnt nauðsyn þess að sovésk tónskáld sköpuðu
þjóðlegar óperur sem lytu öðrum lögmálum en
hinar borgaralegu óperur Vesturlanda. Hvort
sem hann hafði slík tilmæli í huga eður ei hafði
Shostakovitsj samið tvær óperur áður en hann
náði 27 ára aldri. Sú fyrri heitir Nefið (1927–28),
og byggist á sögu Gogols um mann sem verður
fyrir því óláni að nef hans öðlast sjálfstæða til-
veru og strýkur af andliti hans. Tónlistin við
Nefið er jafnfáránleg og sagan sjálf og með því
nútímalegasta sem Shostakovitsj samdi um æv-
ina. Síðari óperan ber heitið Lafði Macbeth frá
Mtsensk-héraði og byggist á smásögu eftir Nik-
olai Leskov frá árinu 1864. Í óperunni segir frá
Katarínu, ungri konu sem er óhamingjusamlega
gift. Hún og tengdafaðir hennar elda auk þess
saman grátt silfur, og þegar eiginmaður hennar
fer í langferð tekur hún upp ástarsamband við
ungan mann. Í rás sögunnar drepur Katarína
tengdaföður sinn með rottueitri, og elskhuginn
lemur eiginmanninn til bana með kertastjaka.
Þau eru bæði fundin sek um morð og færð í
fangelsi til Síberíu, þar sem elskhuginn tekur
saman við aðra konu og Katarina missir vitið.
Þótt tónlistin væri djörf og uppfærslan óhefð-
bundin naut Lafði Macbeth mikilla vinsælda frá
því hún var frumflutt 1934, bæði innan Sovét-
ríkjanna og utan þeirra. En 28. janúar 1936,
tveimur árum eftir frumflutninginn, hrundi fer-
ill Shostakovitsj á einni nóttu. Í Prövdu, mál-
gagni kommúnistaflokksins, birtist nafnlaus
leiðaragrein (sem síðan hefur oft verið eignuð
Stalín sjálfum): „Óreiða í stað tónlistar“
(„Sumbur vmesto muzïki“). Greinin, sem er
harkaleg árás á Shostakovitsj og tónlist hans,
jafngilti í raun opinberri fordæmingu. Í upphafi
hennar er velgengni óperunnar rakin og fullyrt
að fram til þessa hafi enginn þorað að veita
Shostakovitsj „alvarlega og skynsamlega gagn-
rýni, sem geti orðið honum veganesti í framtíð-
inni.“ Í greininni segir m.a. um Lafði Macbeth:
„Áheyrendum er misboðið allt frá fyrsta takti
með ómstríðum hljómum og ruglingslegum
straumi hljóða. Laglínubútum sem gætu hugs-
anlega orðið að hendingu eða frasa er drekkt
jafnóðum og þeir birtast, þeir koma aftur upp úr
kafinu, en hverfa aftur í ískrandi hávaða. Að
fylgja þessari „tónlist“ er afar erfitt; að leggja
hana á minnið er ómögulegt. Í stað söngs heyr-
ast öskur á sviðinu. Ef tónskáldið ratar fyrir
slysni á einfalda og grípandi laglínu, þá forðar
hann sér frá henni eins fljótt og hann getur og
æðir aftur út í eyðimörk hinnar músíkölsku
óreiðu – sem sums staðar verður að einskærum
hávaða. (...) Lafði Macbeth nýtur mikilla vin-
sælda hjá smáborgaralegum áheyrendum um
víðan heim. Er skýringin ekki sú að hún kitlar
pervertískan smekk smáborgaranna með óró-
legri, öskrandi, taugaveiklaðri tónlist?“
Tíu dögum eftir birtingu greinarinnar fylgdi
önnur í kjölfarið, þar sem nýjasti ballett tón-
skáldsins var fordæmdur á svipaðan hátt. En
þótt viðtökurnar hefðu vart getað verið harka-
legri hefði Shostakovitsj kannski mátt sjá þær
fyrir, a.m.k. að einhverju leyti. Meginboðskapur
Lafði Macbeth er í sjálfu sér sá, að morð á harð-
stjóra geti, undir ákveðnum kringumstæðum,
verið réttlætanlegt og jafnvel nauðsyn. Stalín
var vitaskuld ekki skemmt að þurfa að sitja und-
ir slíkum boðskap.
Shostakovitsj lifði í stöðugum ótta um líf sitt
eftir árásirnar í Prövdu. Í minningabókinni
Testimony er honum eignuð eftirfarandi frá-
sögn: „Tvær árásir í leiðara Prövdu á tíu dögum
– það var of mikið fyrir einn mann. Nú voru allir
vissir um að mér yrði tortímt. Frá og með þess-
um degi var ég kallaður „óvinur alþýðunnar“, og
ég þarf varla að útskýra hvað það þýddi. Eitt
dagblað tilkynnti um tónleika mína á þennan
hátt: „í kvöld mun óvinur alþýðunnar, Shost-
akovitsj, halda tónleika“. Ég fékk ógrynni af
nafnlausum bréfum þar sem sagði að ég, óvinur
alþýðunnar, myndi ekki ganga lengi enn á sov-
éskri grundu, að asnaeyru mín yrðu bráðlega
látin fjúka af, – og hausinn með“.
Bót og betrun?
Í kjölfar árásanna í Prövdu var fylgst grannt
með Shostakovitsj og þess gætt að allt sem frá
honum kæmi stæðist kröfur flokksins. Í desem-
ber 1936 var honum gert að draga hina rix-
avöxnu (og framúrstefnulegu) 4. sinfóníu sína til
baka, aðeins nokkrum dögum fyrir áætlaðan
frumflutning. Ári síðar var hann tilbúinn með
nýja sinfóníu, og var hún frumflutt í Leníngrad
21. nóvember 1937. Shostakovitsj vissi vel að ör-
lög hans gætu ráðist af þessu eina verki, og þeg-
ar hann kallaði sinfóníuna „listrænt svar sov-
ésks listamanns við réttmætri gagnrýni“ var
hann eingöngu að segja yfirvöldum það sem þau
vildu heyra. En ekki er allt sem sýnist. Fyrstu
þrír kaflar verksins eru allir hádramatískir,
hver á sinn hátt. Það er ekki fyrr en í lokaþætt-
inum sem tekur að rofa til, og tónlistin verður
tignarleg og sigursæl. Hér töldu yfirvöld sig
heyra merkingu sinfóníunnar: hið vegvillta tón-
skáld hefur séð ljósið, ýtt öllum „formalisma“ til
hliðar og semur nú glaðværa tónlist sem höfðar
til alþýðunnar. En margir hafa bent á að síðustu
blaðsíðurnar eru ekki jafnglaðlegar og ætla
mætti, heldur eru þær keyrðar áfram af ógn-
vænlegum krafti. Meðan málmblásarar leika
hetjumúsík eins og þeir eigi lífið að leysa ham-
ast strengir, tréblásarar og píanó á sömu nót-
unni 252 sinnum. Sigurgleðin er fölsk; undir
niðri býr ógn og þvingun. Í Testimony er vitnað
í þessi orð Shostakovitsj:
„Ég held að það sé augljóst hvað er á seyði í
Fimmtu sinfóníunni. Fögnuðurinn er þvingað-
ur, hann verður til af ógn, eins og í Boris God-
unov [óperu Músorgskís]. Það er eins og ein-
hver berji þig með kylfu og segi „Þú átt að
fagna, þú átt að fagna“, og þú stendur skjálfandi
á fætur og gengur burt muldrandi „Ég á að
fagna, ég á að fagna“. Hvers konar sigur er það?
Sá sem ekki heyrir þetta hlýtur að vera algjör
fáviti“.
Með fimmtu sinfóníunni fann Shostakovitsj
loksins hinn vandrataða meðalveg. Hann hafði
samið tónverk sem féll yfirvöldum í geð en var
engu að síður sönn lýsing á þeim veruleika sem
hann og milljónir annarra bjuggu við. Í sinfón-
íunum sem fylgdu í kjölfarið brá Shostakovitsj
sér stundum í hlutverk hins dygga flokks-
manns, en hann gat líka verið óforskammaður
mótþróaseggur. Sjöunda sinfónía hans (1941)
var samin meðan á umsátri Þjóðverja um Len-
íngrad stóð, og vakti mikla aðdáun yfirvalda fyr-
ir þjóðerniskenndina sem þeim þótti einkenna
verkið. Níunda sinfónía hans, meistaraverk frá
1945, vakti minni ánægju. Orðrómur hafði verið
á kreiki um að hann væri að semja sigursinfóníu
til heiðurs Stalín og Sovétríkjunum, með glæsi-
legum lokakór í anda níundu sinfóníu Beethov-
ens. Þegar til kom reyndist sinfónían vera létt-
væg og galgopaleg í meira lagi, og Stalín varð
æfur af reiði. Með því að nota gyðinglegan
skáldskap Jévgénís Jevtúshenkós í 13. sinfóníu
sinni (Babi Yar, 1962) kallaði hann enn á ný yfir
sig reiði yfirvalda – sem kröfðust þess áður en
verkið var flutt að skáldið breytti þeim ljóð-
línum þar sem sterkast var kveðið að orði. Um
þessar sinfóníur Shostakovitsj, og hinar sem
ekki hefur verið minnst á hér, verður fjallað á
síðum Lesbókarinnar eftir því sem verkefni
Sinfóníuhljómsveitarinnar vindur fram næstu
árin.
Helstu heimildir
Laurel E. Fay. Shostakovich – A Life. Oxford University
Press, 2000.
Elizabeth Wilson. Shostakovich – A Life Remembered.
Princeton University Press, 1994.
Solomon Volkov. Testimony – The Memoirs of Dmitri
Shostakovich as related to and edited by Solomon Volkov.
Harper & Row, 1979.
SINFÓNISTI 20.
ALDARINNAR
Á næstu misserum mun Sinfóníuhljómsveit Íslands
flytja allar fimmtán sinfóníur rússneska tónskáldsins
Dmitríjs Shostakovitsj (1906–1975) undir stjórn
aðalhljómsveitarstjóra síns, Rumon Gamba.
Í greininni er fjallað um tónskáldið og feril hans.
Flestir hlustendur heyra í verkum Shostakovitsj trúverðuga lýsingu á hörmungum Stalíntímans.
E F T I R Á R N A H E I M I I N G Ó L F S S O N
Höfundur er kennari í tónlistarfræðum
við Listaháskóla Íslands.