Lesbók Morgunblaðsins - 13.12.2003, Qupperneq 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 13. DESEMBER 2003
B
ókmenntaarfurinn er sá arfur
sem við Íslendingar erum hvað
stoltust af, arfur sem við veifum
á góðum stundum – en umgöng-
umst, því miður, sem sjálfsagð-
an hlut. Stór hluti þjóðarinnar
gerir sér litla, eða enga, grein
fyrir því hversu mikla dýrgripi
er um að ræða. En fornsögur eru ekki dýrgripir
vegna þess hversu gamlar þær eru, heldur
vegna þess hversu góðar sögurnar eru, vel
skrifaðar og af einstakri stílfærni.
Ef ekki hefðu verið til hugsjónamenn sem
skildu þýðingu þessara sagna fyrir okkur Ís-
lendinga – er eins víst að við hefðum enga hug-
mynd um að þær væru til. En, sem betur fer
voru til þeir einstaklingar framarlega á 20. öld-
inni sem sáu að hér var arfur sem nauðsynlegt
væri að þjóðin ætti aðgang að. Þeir stofnuðu
Hið íslenzka fornritafélag sem í ár fagnar 75 ára
afmæli sínu, auk þess sem 70 ár eru liðin frá því
fyrsta sagan, Egils saga, var gefin út.
Stjórn Hins íslenzka fornritafélags skipa í
dag þeir Jóhannes Nordal forseti, Baldvin
Tryggvason ritari, Jónas Kristjánsson, Sigurð-
ur Líndal og Haraldur Ólafsson. Jónas hefur
unnið mikið að útgáfum félagsins, var ritstjóri
fyrsta bindis Biskupa sagna sem nýkomið er út
og hefur, ásamt Jóhannesi Nordal, mest fjallað
um skipulagningu útgáfunnar. Þegar þeir Jó-
hannes og Jónas eru spurðir hvort stefna fé-
lagsins hafi breyst í áranna rás, neita þeir því.
„Það hefur verið stefna Fornritafélagsins frá
uphafi að útgáfur þess uppfylli ekki aðeins
strangar kröfur fræðimanna, heldur séu og að-
gengilegar öllum fróðleiksfúsum lesendum. Í
síðari bindum hefur þróunin orðið sú að hið
fræðilega efni hefur orðið fyrirferðarmeira,
skýringar við texta rækilegri og formálar
lengri. En þótt telja megi þessa þróun að mörgu
leyti eðlilega í ljósi aukinna rannsókna í fræð-
unum sem útgefendum finnst þörf á að gera
skil, má hún þó ekki ganga svo langt að ritin
verði hinum almenna lesanda óaðgengileg.“
Fróðleikur í gagnorðu og einföldu máli
Hvers vegna er svona nauðsynlegt að gera
ritin öllum aðgengileg?
„Það hlýtur að vera ávinningur hverjum
fræðimanni að geta náð til sem flestra góðra
lesenda og fróðleikurinn kemur ekki síður að
gagni þótt hann sé borinn fram í gagnorðu og
einföldu máli. Það er skylda þeirra sem ráða
ferðum félagsins, nú og framvegis, að varðveita
samhengið í ritum þess og rjúfa ekki tengsl við
hið nytsamlega ætlunarverk sem því var fengið
í öndverðu.“
Frumkvöðullinn að stofnun Fornritafélags-
ins var Jón Ásbjörnsson, síðar hæstaréttar-
dómari. Jón hafði frá unga aldri haft miklar
mætur á fornritunum, einkum Íslendingasög-
unum. Framan af átti hann aðeins kost á ís-
lenskum útgáfum sagnanna, en þar var nær ein-
göngu um að ræða útgáfur Sigurðar
Kristjánssonar. Þegar Jón fór að loknu skóla-
námi að kynnast erlendum útgáfum fornrit-
anna, þar á meðal flokknum Altnordische Saga-
bibliothek, rann honum til rifja að hérlendar
útgáfur skyldu standa þeim langt að baki, bæði
fræðilega og að ytri búningi. Fannst Jóni, eins
og hann komst síðar að orði „hin mesta óhæfa,
hversu lítinn sóma vér Íslendingar höfðum sýnt
fornritum vorum, svo mjög sem þau hafa haldið
hróðri lands vors á lofti meðal erlendra fræði-
manna og blásið þjóðinni í brjóst kjarki og
krafti á tímum eymdar og örbirgðar.“
Þótt útgáfur Sigurðar Kristjánssonar hafi
ekki uppfyllt þær kröfur sem Jón Ásbjörnsson
vildi gera, segja þeir Jóhannes og Jónas þær
hafa haft mikil áhrif á Íslendinga um og eftir
aldamótin 1900. „Útgáfur Sigurðar voru mikið
keyptar og voru stór liður í því að efla þjóðern-
isvitund Íslendinga á þessum tíma og ekkert
nema gott um það að segja,“ segja þeir. „En Jón
Ásbjörnsson vildi hafa bækurnar enn betur úr
garði gerðar, með myndum og kortum. Hann
vildi að útgáfurnar yrðu vandaðar og sérstak-
lega gerðar fyrir Íslendinga.
Undirbúningur og fjármögnun
Haustið 1926 hóf Jón síðan að kynna hug-
mynd sína um nýja fornritaútgáfu, sem yrði að
ýmsu leyti sniðin eftir Altnordische Saga-
bibliothek, en þó fjölbreyttari og vandaðri að
gerð að hæfi íslenskra lesenda. Undirtektir
voru ágætar og um vorið eftir voru þrjátíu
menn, sem heitið höfðu stuðningi sínum, kall-
aðir saman til að hrinda málinu í framkvæmd.
Þar var kosin nefnd fimm manna til að undirbúa
félagsstofnun. Í nefndinni voru, auk Jóns sjálfs,
Ólafur Lárusson prófessor og Pétur Halldórs-
son bóksali, en þeir fengu síðan Tryggva Þór-
hallsson forsætisráðherra og Matthías Þórðar-
son þjóðminjavörð til liðs við sig. Sigurður
Nordal prófessor starfaði einnig að nefndinni,
en hann hafði verið Jóni Ásbjörnssyni til ráðu-
neytis um fyrirkomulag útgáfunnar frá upphafi
og fyrirhugað var að hann yrði útgáfustjóri.
Að undirbúningi loknum kvaddi nefndin til
stofnfundar Hins íslenzka fornritafélags 14.
júní 1928. Jón Ásbjörnsson var kosinn forseti
félagsins og gegndi því starfi til dauðadags af
óbilandi áhuga. Í stjórn með honum voru kosnir
sömu menn og skipað höfðu undirbúnings-
nefndina. Gerð var grein fyrir fjársöfnun til út-
gáfunnar, en alls voru þá fengin loforð fyrir
tuttugu þúsund krónum frá einkaaðilum og
fimm þúsundum úr ríkissjóði. Hefði þetta varla
dugað til að hleypa útgáfunni af stokkunum ef
ekki hefðu tvær stórgjafir bæst við skömmu síð-
ar. Var önnur þeirra, fimmtán þúsund krónur,
frá Kristjáni konungi í tilefni heimsóknar hans
til Íslands 1930, en hin frá útgerðarfélaginu
Kveldúlfi, sem tók að sér að greiða útgáfukostn-
að á Egils sögu. Átti þar mestan hlut að máli
Haukur Thors, einn af framkvæmdastjórum
Kveldúlfs og mikill áhugamaður um fornar bók-
menntir. Hann átti eftir að sitja lengi í stjórn fé-
lagsins og styðja það af ráðum og dáð.
Skýrt og svipmikið letur, litríkir upp-
hafsstafir og vel valdar myndir
Fyrsta útgáfa Fornritafélagsins leit dagsins
ljós árið 1933. Það kann að hljóma einkennilega
að fimm ár skuli taka að gefa út fyrstu bókina en
þeir Jóhannes og Jónas segja vinnu við hverja
útgáfu mjög tímafreka; fleiri en eitt handrit séu
til að flestum sögunum og þau þurfi að bera
saman, auk þess sem vinna þurfi skýringar til
þess að gera útgáfuna öllum aðgengilega. En,
sem fyrr segir, þá var það Egils saga sem fyrst
kom út hjá Fornritafélaginu.
„Útgefandi hennar var Sigurður Nordal sem
ráðinn hafði verið útgáfustjóri félagsins,“ segir
Jónas. „Með þessu bindi kom til framkvæmdar
sú stefna um frágang og innihald útgáfunnar
sem þeir höfðu markað sameiginlega Sigurður
og Jón Ásbjörnsson. Texti sögunnar var prent-
aður skýru og svipmiklu letri sem hafði verið
sérstaklega pantað fyrir útgáfuna og skreyttur
með litríkum upphafsstaf og vel völdum mynd-
um. Skýringum við texta og vísur og rækilegum
formála var ætlað það tvíþætta hlutverk að
greina söguna fræðilega og opna hinum al-
menna lesanda greiða leið til skilnings
á efni sögunnar og stöðu hennar í ís-
lenskum bókmenntum. Strax á næstu
árum komu næstu bindi, Laxdæla,
Eyrbyggja og Grettis saga og var þar
fylgt sömu stefnu um frágang og
fræðileg vinnubrögð.“
Hvernig var útgáfunni
tekið af landsmönnum?
„Fornritaútgáfan náði fljótlega vin-
sældum meðal lesenda og sögurnar
seldust vel þótt á krepputímum væri,“
segir Jóhannes. „Fljótlega þurfti að
endurprenta fyrstu bindin, en það var
ekki unnt hér á landi fyrr en fyrsta
ljósprentunarfyrirtækið var stofnað
eftir styrjöldina. Síðan hefur það verið
stefna félagsins að endurprenta ritin
eftir þörfum svo að tryggt væri að þau
væru ætíð öll fáanleg hjá bóksölum.
Framan af voru fornritin einu vönd-
uðu útgáfur sagnanna á markaðnum
og voru þá mikið notaðar við íslensku-
kennslu í framhaldsskólum. Brátt var
þó farið að gefa út sérstakar skóla-
útgáfur af þeim sögum sem mest voru
notaðar auk þess sem nýjar heildar-
útgáfur sagnanna, sumar með nútíma-
stafsetningu, ruddu sér til rúms á
markaðnum.“
Til grundvallar þýðingum
og skólabókum
Þrátt fyrir þessa grósku hafa út-
gáfur Fornritafélagsins haldið sér-
stöðu sinni sem vandaðasta útgáfa
fornritanna sem bæði er aðgengileg
almenningi og uppfyllir um leið
ströngustu kröfur fræðanna eins og
frumkvöðlar útgáfunnar höfðu stefnt
að í upphafi. Textar hennar eru nær
undantekningarlaust lagðir til grund-
vallar þýðingum á erlend mál og í
skólabókum, sem og öðrum almenn-
um útgáfum sagnanna hér á landi.
Auk útgáfu Fornritafélagsins sem
ætluð er almenningi hefur Stofnun
Árna Magnússonar á Íslandi unnið miklar rann-
sóknir á handritum og gefið út vísindalegar út-
gáfur fornritanna. Þeir Jóhannes og Jónas
segja að útgáfur Fornritafélagsins hafi það
hlutverk að brúa bilið á milli þessa rannsókn-
arstarfs og þeirra almennu lesenda sem einlæg-
astan áhuga hafa á að lesa fornritin ofan í kjöl-
inn og nálgast þann menningarheim sem þau
eru sprottin upp úr.
Á þeim 75 árum sem Fornritafélagið hefur
starfað hafa komið út tuttugu og þrjú bindi af
fornsögunum: Íslendinga sögur, fjórtán bindi,
Heimskringla, þrjú bindi, Aðrar konunga sög-
ur, þrjú bindi og Biskupa sögur þrjú bindi. Enn-
fremur er undirbúningur vel á veg kominn að
útgáfu tveggja binda í viðbót af Biskupa sögum,
Eddukvæðum í tveimur bindum, Ólafs sögu
Tryggvasonar eftir Odd munk ásamt Færey-
inga sögu og Sverris sögu. Hafinn er undirbún-
ingur að Snorra-Eddu í tveimur bind-
um sem og Morkinskinnu, en sú
síðarnefnda hefur aldrei komið út í að-
gengilegri útgáfu. Síðar meir eru uppi
áætlanir um að gefa út Sturlunga
sögu í fjórum bindum, Hákonar sögu
Hákonarsonar og Úrval fornkvæða.
Bjartsýnir á framtíðina
Þótt margt loflegt megi segja um
útgáfustarfsemi Fornritafélagsins,
segja Jóhannes og Jónas það helst
valda vonbrigðum hve hægt útgáfan
hefur gengið nema fyrstu árin. Af
þeim 23 bindum sem komið hafa út,
komu tólf út á fyrstu tuttugu og fimm
árunum. En hvað veldur?
„Það er margt sem valdið hefur
þessum seinagangi og þá kannski
fyrst og fremst skortur á fjármagni.
Vinnan við hverja útfáfu er seinleg og
gríðarlega dýr. Hins vegar urðu
þáttaskil í starfsemi félagsins þegar
það fékk fyrir nokkrum árum öflugan
stuðning til þess að gefa út Biskupa
sögur í tilefni þúsund ára afmælis
kristnitökunnar. Þrjú bindi þeirra eru
þegar komin út og undirbúningur síð-
ustu tveggja bindanna er vel á veg
kominn. En þrátt fyrir ýmsa erfið-
leika á liðnum áratugum, höfum við
fulla ástæðu til að vera bjartsýnir. Það
er útlit fyrir að úr vanda félagsins sé
að rætast – og svo vel að á næstu árum
verði verulegur skriður á útgáfunni.“
Þið haldið ótrauðir áfram?
„Já, og þegar við höfum náð að gefa
út það sem liggur fyrir, verður kom-
inn tími til að huga að fleiri merkum
ritum sem eldri áætlanir gerðu ráð
fyrir að félagið gæfi út. Þar á meðal
eru lögbækur, vísindi, annálar, forn-
aldarsögur, ýmsar þýðingar, riddara-
sögur og ævintýri. Það kemur mjög til
álita að félagið hefji nýjan útgáfuflokk
með þessum fjölskrúðugu bókmennt-
um.“
Nútíminn og ævintýrin
Víst er það tilhlökkunarefni fyrir unnendur
góðra bókmennta að líta fram á þennan veg – og
gætir í rauninni nokkurrar furðu hvað við Ís-
lendingar erum sljóir í sambandi við þessa dýr-
gripi okkar. Eða, eru þeir margir sem hafa velt
því fyrir sér að á meðan börnin okkar lesa þýdd-
ar ævintýrabækur frá útlöndum liggja Fornald-
arsögur Norðurlanda, grunnurinn að „nútíma-
fantasíunni,“ ólesnar.
En hvað hyggst Hið íslenzka fornritafélag
gera í tilefni af 75 ára afmælinu?
„Við viljum efla sem mest útbreiðslu á ritum
félagsins. Í því skyni er búið að gera fallegar
kápur á öll bindin sem út eru komin. Jafnframt
er verið að undirbúa rækilegan kynningarbækl-
ing sem dreift verður snemma á næsta ári
ásamt tilboðum til þeirra sem vilja eignast út-
gáfuna í heild.“
DÝRGRIPIR
Í VANDAÐRI
ÚTGÁFU
Hið íslenzka fornritafélag er 75 ára á þessu ári.
Auk þess eru 70 ár liðin frá því fyrsta útgáfa þess
leit dagsins ljós, en það var Egils saga. SÚSANNA
SVAVARSDÓTTIR ræddi við forsvarsmenn félagsins,
Jóhannes Nordal og Jónas Kristjánsson,
um tilurð félagsins, sögu og útgáfu.
Í tilefni af 75 ára afmæli Fornritafélagsins hafa verið gerðar nýjar kápur á öll bindin.
Morgunblaðið/Ásdís
„Það hefur verið stefna Fornritafélagsins frá upphafi að útgáfur þess uppfylli ekki aðeins strang-
ar kröfur fræðimanna, heldur séu og aðgengilegar öllum fróðleiksfúsum lesendum,“ segja Jónas
Kristjánsson og Jóhannes Nordal.
Einar Ólafur
Sveinsson
Jón Ásbjörnsson
Pétur Halldórsson
Sigurður Nordal