Lesbók Morgunblaðsins - 13.12.2003, Qupperneq 9
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 13. DESEMBER 2003 9
með það. Fyrir utan þá staðreynd að það
verður engin útgáfa.“
„Hvað meinarðu?“
„Það getur verið að það sé jákvætt að fá
góð viðbrögð áður en diskurinn kemur út, en
þá verður diskurinn líka að koma út.“
„Hvað meinarðu?“
„Ég meina það sem ég segi: það verður
engin útgáfa hjá þessum Nouvel Experiment
eða hvað sem hann er kallaður, þessi
strengjakvartett. Að minnsta kosti ekki fyrir
þessi jól.“
Jafnvel þó Bárður sé langt frá því að vera
sú manngerð sem dytti í hug að skálda upp
hluti – hans veruleiki er bundinn við það sem
er, ekki það sem gæti verið – á ég afskaplega
bágt með að viðurkenna fyrir sjálfum mér að
það sem hann segir mér í framhaldinu sé í
raun og veru satt. Með hjálp ákveðins aðila,
eins og hann kallar það, segist hann hafa
fundið út hvar átti að framleiða geisladisk
kvartettsins, það hafi verið í Austurríki,
heimalandi Jürgens Schlippenbach – þess
óviðjafnanlega víóluamatörs – nánar tiltekið
hjá fyrirtæki sem kallast DADC. Hann hafi
hringt á skrifstofu DADC, fengið að tala við
framleiðslustjórann og látið hann vita að lista-
maðurinn, það er að segja strengjakvartettinn
The Noel Experience (í þetta sinn fer hann
rétt með nafnið), væri hættur við útgáfu
geisladisksins að svo stöddu, að fyrirtækið
mætti senda upptökurnar til baka; útgáfunni
yrði frestað um óákveðinn tíma.
Það myndast þögn í svolitla stund á síma-
línunni eftir að Bárður hefur rakið fyrir mér
þessa sögu, og ég ætla ekki að endurtaka þau
orð sem ég læt út úr mér inn í símtólið þegar
honum hefur endanlega tekist að sannfæra
mig um (með tæknilegum smáatriðum) að það
sem hann hefur nýlokið við að segja mér sé
allt satt og rétt. Með öðrum orðum: honum
hefur tekist að draga til baka framleiðslu-
beiðnina frá Oddgeiri, eða hver það nú var
sem sá um að senda upptökurnar til Austur-
ríkis; þessar fínu hljóðritanir sem ég hef svo
sannarlega haft gaman af að hlusta á og látið
mig hlakka til að fá í endanlegri útgáfu; út-
gáfu sem mér skildist á Oddgeiri þegar hann
heimsótti mig að yrði sérlega vönduð, í svo-
nefndu digipack formati, ekki hinum hvim-
leiðu plastumbúðum sem eru svo gjarnar á að
brotna eða rispast. Með tilheyrandi hörku í
röddinni læt ég Bárð vita að ég muni segja
Oddgeiri frá þessu og ég er reyndar staðráð-
inn í því á þessu augnabliki, þrátt fyrir að
Bárður vilji meina að ég hafi átt hugmyndina
að þessu:
„Varst það ekki annars þú,“ segir hann, allt
að því sigri hrósandi, „sem spurðir mig um
daginn hvort það væri nokkuð of seint að
stoppa þetta af?“
„Ég var að grínast,“ segi ég.
„Ertu nú alveg viss um það?“ spyr Bárður á
móti.
„Ég veit hvenær ég er að grínast og hve-
nær ég er að tala í alvöru,“ svara ég.
„En endilega segðu honum frá þessu,“ segir
Bárður, og ég geri mér ekki alveg grein fyrir
hvort raunveruleg meining er á bakvið þau
orð.
„En hvernig dettur þér í hug,“ segi ég og
reyni að hljóma eins sár og reiður og mér er
unnt, „að koma í veg fyrir eitthvað sem fólk
er að gera í góðri trú, eitthvað sem káfar ekki
upp á neinn, eitthvað sem er augljóslega gert
af … mér liggur við að segja: ást og alúð.“
„Nei, andskotinn hafi það,“ segir Bárður.
Svo endurtekur hann síðastnefndu orð mín
með djúpri vanþóknun.
„Nei, í alvöru,“ segi ég. „Það er nánast eitt-
hvað satanískt við þetta; að stoppa af saklausa
jólaútgáfu, að eyðileggja allt fyrir fólki sem
hefur ekki gert þér neitt og kemur ekki til
með að gera þér neitt. Það dettur engum í
hug að gera eitthvað svona nema … það er
enginn nema Djöfullinn sjálfur sem fær svona
hugmyndir.“
„Voðaleg læti eru þetta!“ segir Bárður, rétt
eins og ég hafi ómaklega ráðist á hann. „Ert
þú ekki sjálfur kominn með eintak? Þú verður
bara að líta á þetta þannig að þú sért einn af
þeim heppnu.“
Ég reyni hvað ég get að móta einhverja
setningu í huganum sem hugsanlega gæti út-
skýrt með ótvíræðum hætti hvers lags ódæði
Bárður hefur framið, en ég á í raun og veru
ekki orð. Þegar ég hef lagt niður símtólið
horfi ég fram fyrir mig í dágóða stund – lík-
lega tómur í framan, ef ég á að lýsa hugar-
ástandi mínu – síðan kveiki ég mér í vindli og
ákveð að láta það vera að segja Oddgeiri frá
samtali okkar Bárðar. Í mínum augum hefur
þetta símtal aldrei átt sér stað, ekki frekar en
símtal Bárðar við framleiðslustjóra DADC í
Austurríki.
Finale: moderato
Á þessu augnabliki eru ekki nema rúmlega
tvær klukkustundir eftir af árinu. Ég stend í
um það bil tíu metra fjarlægð frá áramóta-
brennunni við Ægisíðuna, einn míns liðs (bú-
inn að vera einn allt kvöldið), og það er byrjað
að snjóa í fyrsta sinn síðan snemma í desem-
ber, eftir tæplega mánaðarlangt rigningar- og
hitaskeið. Á meðan ég rifja upp tónleika The
Noel Experience í Tónlistarsal Kópavogs í
miðjum mánuðinum læt ég renna í gegnum
hugann nokkrar fjörugar hendingar úr síðasta
hluta Haydn kvartettsins sem Oddgeir, Noel,
Jürgen og Heiðdís léku fyrir mig og konuna
mína, og á að giska sjö eða átta aðra hlust-
endur sem mættir voru í tónleikasalinn. Ha-
ydn kvartettinn var reyndar ekki að finna á
geisladisknum sem til stóð að kynna; hóp-
urinn hafði æft upp nýja efnisskrá þegar ljóst
var orðið, vegna einhverra einkennilegra mis-
taka sem höfðu átt sér stað í samskiptum fjór-
menninganna við framleiðslufyrirtækið í Aust-
urríki, að pródúktið, eins og Oddgeir orðaði
það þegar við hittumst af tilviljun fyrir tón-
leikana, næði ekki inn á íslenska jólamark-
aðinn.
Það er hins vegar ekki ólíklegt að sú tónlist,
það er að segja hljóðritunin sem send hafði
verið til Austurríkis og síðan aftur til baka,
hljómi þessa stundina á Kanaríeyjum. Að
minnsta kosti þessa dagana. Ég hafði spilað
CDR diskinn frá Oddgeiri fyrir konuna mína
og hún varð á samri stundu svo hrifin af tón-
listinni (og ekki síður flutningnum) að hún
krafðist þess að fá eintakið með sér til Las
Palmas. „Ég er líka alveg viss um að
mamma þín hefði gaman af þessu,
sérstaklega af því þetta hljómar ekki
ósvipað og Árstíðirnar eftir Vivaldi,“
sagði hún og talaði um að þetta væri
aldeilis eitthvað sem þær gætu hlust-
að á saman þarna fyrir sunnan, það
væri í þessu svo fín jólastemmning.
Ég var þó ekki alveg tilbúinn til að
láta frá mér diskinn – mér fannst ég
hafa meiri þörf fyrir hann en þær –
en þegar konan mín linnti ekki látum
féllst ég á að láta búa til aukaeintak,
jafnvel þótt Oddgeir hefði beðið mig
um að hafa upptökurnar algerlega út
af fyrir mig. Mér hafði fyrst dottið í
hug að láta einn vinnufélaga minn
brenna fyrir mig diskinn, en þegar í
ljós kom að græjurnar hans voru í
viðgerð voru góð ráð dýr (rétt eins
og sjálf tækin sem þurfti til brennsl-
unnar) og mér varð það fljótlega
ljóst að til að þurfa ekki að bregðast
konunni minni var ekki um annað að
ræða en að snúa mér til þeirrar
manneskju sem síst hefði átt að
tengjast þessu máli meira en komið
var, það er að segja til Bárðar. Fyrir
utan vinnufélaga minn var hann sá
eini sem ég vissi að ætti tölvu með
geisladiskabrennara. Auðvitað leið
mér ekki vel að leita til hans með ná-
kvæmlega þetta erindi en ég ákvað
að horfa framhjá hinu fólskulega at-
hæfi hans sem hafði einmitt komið í
veg fyrir að við hjónin gætum keypt
aukaeintak af disknum í plötubúð eða
fengið hann með afslætti hjá Odd-
geiri. Hins vegar – til að friða sam-
visku mína – bað ég Bárð lengstra
orða að brenna alveg örugglega ekki
nema eitt eintak, hann yrði síðan að
lofa mér að eyða skjalinu úr tölvunni
að lokinni brennslu.
Þegar ég síðan sótti diskana til
Bárðar daginn eftir hafði hann
brennt fyrir mig tvö eintök; eitt til
vara ef mér dytti í hug að einhver
annar hefði gaman af þessu. Ég gat
ekki annað en brosað þegar ég tók
við diskunum úr hendi vinar míns, en
lét hann vita að ef einhver annar
hefði gaman af þessu þá væri það al-
veg örugglega ekki hann; vildi hann
gjöra svo vel að búa ekki til fleiri
eintök og fyrir alla muni: eyða skjal-
inu.
„Það á nú eftir að koma í ljós
hvort ég hef gaman af þessu,“ sagði
hann; hann væri ekki búinn að hlusta
á sitt eintak. „Það er ekki á hverjum
degi sem maður er í skapi fyrir
svona kammermúsík,“ bætti hann
við.
Hjá sumu fólki virðist það sem fer inn í eyr-
un ekki hafa nokkur áhrif á það sem gerist á
milli þeirra.
Núna þegar ég stend við áramótabrennuna
og horfi á eldtungurnar kveikja í síðustu
klukkustundum þessa árs, rifjast upp fyrir
mér það sem ég sagði við Bárð í símanum fyr-
ir nokkrum vikum, að ég myndi eflaust labba
út á brennu á gamlárskvöld og kannski henda
mér á bálið. Ég horfi í kringum mig í upplýstu
Vesturbæjarmyrkrinu og velti fyrir mér
hverjir af þeim karlmönnum sem standa næst
mér hér við snarkandi brennuna myndu
hlaupa á eftir mér og toga mig í átt frá eld-
inum. Hafi maður á annað borð látið sér detta
í hug að enda sitt skeið inni í þessum tákn-
ræna varðeldi – að brenna sitt eina eintak í
miskunnarlausum logunum – væri auðvitað
mun nær að lauma sér óséður inn í brennuna
einhvern tíma seinnipart gamlársdags eða að
minnsta kosti áður en kveikt er í.
Hvaða skoðun ætli Bárður hefði á því?
Hann sem stendur eflaust núna úti á svölum
hjá sér, áhyggjufullur á svip, og skýtur upp
flugeldum með börnunum sínum. Hugsanlega
er faðir hans hjá þeim hjónum þetta kvöld,
með enn meiri áhyggjur en sonurinn, og
væntanlega margfalt meiri áhyggjur en
barnabörnin tvö sem af þeim ljósmyndum sem
ég hef séð af þeim má auðveldlega ímynda sér
að kvíði einhverju nú þegar, hafi áhyggjur af
því sem er framundan.
Ég kveiki mér í nýjum vindli og yfirgef
hlýju áramótaeldsins. Á leiðinni heim, undir
mjúkri og hátíðlegri snjókomunni, ákveð ég
með sjálfum mér að ég sé ekki í skapi fyrir
áramótaskaupið í sjónvarpinu. Í staðinn ætla
ég að fá mér viskí og vindil inni í hlýrri stof-
unni, ljúka við að lesa síðasta kafla sex hundr-
uð blaðsíðna skáldsögunnar, og láta síðan
fyrstu tónlistarlegu upplifun mína á nýju ári
vera púðursprengingar; eitthvað sem þegar
hefur verið ákveðið að muni hljóma og engin
leið er að koma í veg fyrir eftir að kveikurinn
hefur verið tendraður.
Höfundur er rithöfundur.
Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson