Lesbók Morgunblaðsins - 17.01.2004, Side 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 17. JANÚAR 2004
Á
samsýningunni Mynd í Hafnarhúsi Lista-
safns Reykjavíkur árið 2002 sýndi Bjarni
Sigurbjörnsson blátt málverk undir berum
himni á veggnum við endann á löngu grá-
máluðu gólfi portsins með hvíta veggi til
beggja hliða. Þetta var djúpblár veggur
gerður úr fjórum flekum af plexígleri sem
hver um sig var fjórir metrar á breidd og
tveir á hæð, samtals 32 fermetrar. Það var ekki aðeins að
stærðin væri yfirgengilegri en áður hafði þekkst hjá íslensk-
um málara heldur báru hinir gríðarmiklu sveipir í málverk-
inu vott um að listamaðurinn hefði leyst úr læðingi ofurmann-
leg öfl sem hann réð ekki nema að takmörkuðu leyti við.
Nálgun Bjarna við efni og tækni er önnur en gengur og
gerist. Hann málar á plexigler, notar margar ólíkar tegundir
litefna og snýr röngunni á málverkinu út, það sem snýr að
áhorfandanum er að öllu jöfnu hin ósýnilega bakhlið mál-
verksins. Að einhverju leyti má kannski leita skýringa á með-
ferð Bjarna á málaraefnunum í fortíð hans, en hann kynntist
fyrst málningu í gegnum vinnu sína við bíla. Bjarni var bíla-
smiður á verkstæði, vann m.a. við að mála bíla og stræt-
isvagna, og var því vel kunnugur hinum ýmsu iðnaðarefnum
áður en hann kynntist hinni hágöfugu olíumálningu.
Málningarefni hafa því aðra þýðingu fyrir Bjarna en að
vera efniviður til að fanga endurskin náttúrunnar, fyrir hon-
um er náttúran beisluð í málningunni, olíunni og leysiefn-
unum sjálfum.
Upptekinn af þýskum málurum
Bjarni nam málaralist við San Francisco Art Institute í
Kaliforníu, en það voru þó ekki amerískir vesturstrandarmál-
arar sem hann og samnemendur hans voru uppteknastir af á
þessum árum, heldur hinir þýsku málarar mikilfenglegra
fleka, þeir Gerhard Richter, Sigmar Polke og Anselm Kiefer.
Það má greina nokkurn skyldleika við verk Polke, einkum í
þeim málverkum þar sem Polke leyfir ýmsum torkennilegum
efnum að flæða frjálst um flötinn og búa jafnvel svo um hnút-
ana að þau breytast með tímanum, tærast og umbreytast
vegna óstöðugs sambands efnanna. Vegna áherslu Polke og
Kiefers á áhrifamátt efna og efnasambanda leitaði hann líka í
smiðju til ítölsku listamannanna sem kenndir voru við Arte
Povera, og þá sérstaklega vegna þeirra hugmynda sem þeir
sóttu í hina duldu symbólík sem fylgt hefur efnafræði frá
örófi alda.
Í fyrstu voru málverk Bjarna efnismikil og litefnunum hlað-
ið í þykka kekki á fletinum svo efniskennd verkanna þrengdi
sér út úr myndinni. Fljótlega fór Bjarni að notfæra sér plexi-
gler sem flöt til að vinna á og uppgötvaði nánast fyrir slysni
að glerið leiðir til þess að málverkið eignast aðra hlið, nokk-
urs konar þverskurð, sem er málaranum hulin. Málarinn sér
aldrei bakhlið þess sem hann málar og því síður getur hann
hagað verki sínu með það í huga að mála fyrir bakhliðina, ef
svo má að orði komast. En í stað þess að neita að sætta sig við
vanmátt sinn gagnvart því sem gerist á fletinum hinum megin
frá byrjar hann að notfæra sér þennan óvænta tvískinnung.
Með því að hengja verkin neðan úr loftinu frekar en að hengja
þau upp á vegg gaf hann báðum hliðum jafnt vægi. Lengst
gekk hann í þessa átt á sýningu sem bar yfirskriftina „Mörk
málverksins“ í Hafnarborg 1998, þar sem hann sýndi hvít,
hálfgegnsæ málverk á plexígleri sem héngu neðan úr loftinu
og mynduðu göng í miðjum salnum sem fönguðu áhorfandann
eins og samloku á milli sín.
Grunnar skúffur
Þessar tilraunir voru samt hliðarspor frá því formi sem
hann hafði fundið málverkunum. Á samsýningunni „Hverf-
ingum“ í Gerðarsafni 1999 sýndi Bjarni í fyrsta sinn málverk
sem voru máluð inn í plexíglerkassa, sem hann hefur lýst sem
„grunnum skúffum“, og hengdi upp á vegg þannig að botninn
sneri að áhorfendum. Meðan hann vinnur að verki sínu liggja
skúffurnar á gólfinu og inni í þeim framkvæmir hann
efnafræðitilraunir, leyfir efnum, bílamálningu, leysiefnum,
línolíu og vatni að leysa upp, hrinda hvert öðru frá sér, renna
saman eða aðskiljast. Allar þessar tilraunir verður að vinna
án þess að sjá fyrir hver útkoman verður, því ekki er hægt að
snúa verkinu við fyrr en efnin hafa sett sig og náð að harðna.
Bjarni byrjar ekki með neina fyrirframgefna hugmynd eða
sýn um málverkin í endanlegri mynd. Það felst í vinnuferlinu
að hann getur í raun ekki haft fulla stjórn á því hvernig
myndin þróast, en hann getur lagt upp með ákveðin grunn-
skilyrði sem ferlið lýtur. Í stað þess að stjórna byggingu
myndarinnar reynir hann að fylgja flæði verksins, sjá hvert
það leiðir hann og reynir að magna fram þau áhrif sem eru að
gerjast innra með verkinu. Síðan tekur við tímabil íhugunar
og endurmats, þar sem afraksturinn verður að sanna sig fyrir
fránum augum listamannsins og sýna fram á að hann standi
einn og sér. Þessi aðferð Bjarna er ekki sprottin af einhverri
þörf fyrir að tjá kenndir eða fá útrás og losa um hömlur.
Bjarni nálgast verkið af yfirvegun og íhygli málarans sem
einbeitir sér að því sem augað segir honum.
Sú upplausn, sundrun og einbeiting sem má sjá í plexígler-
málverkunum leiddu til þess að á tímabili urðu þau sífellt ein-
faldari og efnisminni, einlit og gegnsæ. Í nýjustu verkunum
sem eru til sýnis í Listasafninu á Akureyri hefur Bjarni aftur
á móti horfið frá einlitu málverkunum og farið að nýju að
tefla saman litum í því skyni að skapa annars konar dýpt sem
byggist á samspili lita og breiðari krómatískum skala.
Í augum Bjarna er málverk ekki endanlegur hlutur, heldur
vitnisburður um athöfn og ferli. Að þessu leyti finnur hann til
ákveðinnar samkenndar með hinu vonlausa verki alkemista
fyrri alda sem sökktu sér niður í leyndardóma efnisheimsins,
þröngvuðu andstæðum öflum til að stríða hvert gegn öðru,
splundruðu þeim, í von um að finna yfirnáttúrulegan sam-
hljóm. Innan alkemíunnar er vinnan hinn guðdómlegi „ópus“
þar sem ummyndunin er mikilvægust af öllu en takmarkið
alltaf rétt utan seilingar. Að vissu leyti eru glerverkin eins og
sneiðar í gegnum stöðug umbrot efnahvarfa og liturinn til
marks um orkuna sem leysist úr læðingi. Í litablossanum
skapast samhljómur og jafnvægi úr kaótískri óreiðu.
Arcus Svövu Björnsdóttur
Það er óhætt að segja að sýning Svövu Björnsdóttur í Lista-
safninu á Akureyri sé í grunnatriðum afar einföld. Hún sam-
anstendur af þremur pappírsörkum á vegg. Og hver pappírs-
örk myndar keilu, eða pýramídalagað form, sem byrjar í
horni hverrar arkar og leitar inn að miðju, inn að flötum rétt-
hyrningi. Keilurnar lýsa ekki aðeins hinu einfalda formi fern-
ingsins sem minnkar inn að miðju, þær lýsa einnig sjónkeilu
fjarvíddarskynjunar eins og henni hafa verið gerð skil á
stærðfræðilegu formi frá dögum endurreisnartímabilsins.
Pappír, grunnform, myndrými og dýpt – þetta eru klassísk
undirstöðuhugtök vestrænnar myndlistar. Kunnuglegustu
viðfangsefni myndlistarmanna, en þó svo nýstárleg að sjá í
þessari myndbirtingu voldugra pappírsarka.
Þótt hér sé talað um arkir er vissulega ekki um neinar
venjulegar pappírsarkir að ræða, enda eru þær steyptar sér-
staklega fyrir hvert verk úr hráu pappírsbeðmi. Þetta er
tækni sem Svava hefur sérhæft sig í og hefur verið einkenn-
ismerki á verkum hennar um árabil. Það er sérstakt við verk-
in á sýningunni í Listasafninu á Akureyri að þetta eru stærstu
verk sem Svava hefur unnið í einni samfelldri pappírörk og
eru þau afrakstur af þróun og nýjung í tækni sem hún hefur
sjálf uppgötvað. Svava notar sellúlósabeðmi, sem er uppi-
staðan í pappírsgerð, leysir beðmið upp og steypir í tilbúin
mót sem hún vinnur fyrir hvert verk.
Hingað til hefur Svava notað gifs til að gera mót sín, sem
hefur sett stærð verkanna skorður, en nýverið hefur hún
prófað sig áfram með að nota frauðplast sem gerir alla for-
vinnu auðveldari og gefur möguleika á mun stærri verkum.
Það kemur áóvart hversu sterkur efniviður pappír er. Hann
þolir vel að vera þaninn upp í þessa stærð án þess að eiga á
hættu að brotna eða rifna undan eigin þunga. Svava kynntist
pappírnum fyrst við Akademie der Bildende Künste í höf-
uðborg Bæjaralands á árunum 1978–84 hjá prófessor Edoard
Paolozzi. Um þær mundir stofnaði hann pappírsverkstæði við
akademíuna og var Svava meðal fyrstu nemenda í hinu nýja
verkstæði. Þótt hún hafi haldið tryggð við pappírinn allan
þennan tíma er það ekki vegna þess að hún líti á þennan efni-
við sem þungamiðju í sínum verkum. Pappírinn er afar hent-
ugt efni til að vinna með og ljær verkunum sérstaka eig-
inleika í áferð og léttleika, auk þess sem hann gefur færi á að
vinna með lit á fjölbreytilegri hátt en mörg önnur efni sem
skúlptúrlistamenn nota gjarnan. Þungamiðjan í verkum
Svövu er ekki efnið heldur formið og þær ímyndir rýmis og
dýptar sem hún skapar með forminu.
Aftur til fyrri verka
Í þessari sýningu hverfur Svava að nokkru leyti aftur til
fyrri verka þar sem hún fékkst við módernísk grunnform og
myndhugsun – ferning, hring, þríhyrning og keilu – en jafn-
framt er hún að endurvekja gleðina og léttleikann sem ein-
kenndi fyrstu verkin. Í einu verkanna er pýramídalöguð keil-
an brotin upp af sívölum keilum sem er dreift óreglulega um
fletina og brýtur upp hið stranga, reglulega formmunstur.
Svava hefur gjarnan byggt verk sín upp á einföldum grunn-
stefjum sem hún endurtekur og raðar saman í margvíslegum
tilbrigðum. Þessi tilbrigði birtast stundum sem munstur, ein-
ingar sem er raðað saman, formum er ýmist fléttað eða víxlað
saman. Munstrið brýtur ekki aðeins upp formið með nýjum
tilbrigðum, það gegnir einnig því hlutverki að styrkja papp-
írsflötinn, en eftir því sem sléttur flötur er stærri því meiri
hætta er á að það komi fram veikleikar og pappírinn rifni
undan eigin þunga. Svava hugsar hverja sýningu sem eina
samstæða heild, verkin eru gerð fyrir tiltekið umhverfi og
þau kallast hvert um sig á við umhverfið, bygginguna, og inn-
byrðis afstöðu þeirra innan byggingarinnar. Þetta er meðal
annars afleiðing af einfaldleika verkanna sjálfra, þau gefa
færi á að ríma við umhverfið og þann arkitektúr sem umlykur
þau. Slíkt samspil milli skúlptúrverka og þess umhverfis sem
þau eru í er líka í samræmi við ríkjandi hugsunarhátt hjá
skúlptúrlistamönnum nú á dögum, þar sem ekki er litið á
höggmyndina sem lokað verk, svipað og innrammað málverk,
heldur sem þrívíðan hlut sem lagar sig að og kallast á við um-
hverfið. Litir hafa verið sterkur þáttur í verkum Svövu og
það hefur ávallt verið stutt í malerískar tilhneigingar hjá
henni. Mörg verka hennar má jöfnum höndum líta á sem
skúlptúra og málverk. Jafnvel hvíti liturinn, hinn hlutlausi og
eiginlegi litur pappírsins, er notaður til að draga fram
skugga í reglulegu munstrinu og gefa áferð efnisins meiri
áherslu. Að vissu leyti má líta á hvítu verkin sem sambland af
skúlptúr og teikningu, þar sem hún notar skugga til að teikna
með og skapa tilfinningu fyrir formi og dýpt. En Svava hefur
ekki aðeins fengist við svo létt og, að því er virðist, viðkvæm
verk, þótt pappírinn sé sterkari og endingarbetri en mann
grunar. Hún hefur nú nýlega lokið við gríðarlega stórt og
áhrifamikið verk fyrir opinbera byggingu, hinar nýju höf-
uðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur í Reyjavík, sem hefur enn
ekki verið formlega afhjúpað þegar þessi orð eru skrifuð. Það
er 30 metra há súla úr kínversku, kolsvörtu graníti, sem hef-
ur verið staflað upp af keilulaga einingum og liggur í gegnum
allar hæðir byggingarinnar. Niður eftir súlunni lekur vatns-
taumur sem hlykkjast um hverja keilu. Í þessu sambandi má
einnig benda á annað opinbert verk Svövu sem hún gerði fyr-
ir Hæstaréttarhúsið í einum af minni réttarsölum hússins,
„Hlust“, sem er eins og eyrnakuðungur í einum veggnum sem
hlustar eftir öllu sem fram fer í munnlegum málflutningi fyrir
dómi – eyra réttvísinnar, ef til vill.
Eitt verka Bjarna Sigurbjörnssonar í Listasafninu á Akureyri:
Opus I, 2003. Blönduð tækni á plexigler 200 x 200 cm.
Svava Björnsdóttir: Án titils, 2003. Trjákvoða og litarefni 168 x 168 x 50 cm.
TILFINNINGAR
OG VITSMUNIR
Höfundur er listheimspekingur.
Fyrstu sýningar ársins í Listasafninu á Akureyri verða
opnaðar í dag kl. 15. Hér er sjónum beint að tveimur
íslenskum samtímalistamönnum, Bjarna Sigurbjörns-
syni og Svövu Björnsdóttur, og stöðu óhlutbundinnar
myndlistar eins og greinist hvað skýrast í abstrakt ex-
pressjónisma og harða geómetríu, eða tilfinningar og
vitsmuni eins og gjarnan er litið á það. GUNNAR J.
ÁRNASON fjallar um listamennina og sýningarnar.