Lesbók Morgunblaðsins - 19.06.2004, Side 3
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 19. JÚNÍ 2004 3
Hryðjuverkin
11. september
opinberuðu með áhrifamiklum hætti tví-
hyggjuna sem er ríkjandi í vestrænni orð-
ræðu. Sigrún Sigurðardóttir afbyggir hana
með lestri á tveimur ljósmyndum sem tengj-
ast atburðunum þennan örlagaþrungna
dag.
Klaus von See
hefur unnið mikið starf við rannsóknir og
kynningu á norrænum bókmenntum og
menningu í Þýskalandi í meira en hálfa öld.
Arthúr Björgvin Bollason ræðir við hann
um störf hans.
Hvað vildi
Þórbergur?
spyr Guðmundur Andri Thorsson í grein
þar sem hann veltir fyrir sér hugmyndum
skáldsins um íþróttir, stíl og þjóðfélagsmál.
Mary Wollstonecraft
er einn helsti fyrirrennari grunnhugmynda
femínismans í nútímanum. Í tilefni af
kvennadeginum 19. júní rifjar Brynhildur
Heiðardóttir Ómarsdóttir upp sögu þess-
arar merku konu í samtali við Heiðu Jó-
hannsdóttur.
FORSÍÐUMYNDIN
er af verki á sýningu Þorvalds Þorsteinssonar í Listasafni Reykjavíkur í Hafn-
arhúsi. Verkið heitir: Sumarbolir. Framleiddir í takmörkuðu upplagi og seldir
á staðnum. Sjá umfjöllun s. 14. Ljósmynd: Þorvaldur Örn Kristmundsson.
Á
rið 1925 var kennari að
nafni John Scopes dreg-
inn fyrir dóm í Tennes-
seefylki í Bandaríkj-
unum og gefið að sök að
kenna börnum þróun-
arkenningu Darwins.
Dómsmál þetta er stund-
um kallað apamálið því samkvæmt kenn-
ingu Darwins, sem Scopes sagði börnunum
frá, eru menn skyldir simpönsum og öðrum
apategundum. Scopes var dæmdur til að
greiða sekt en slapp við fjárútlát því fé-
lagsskapur sem kallaði sig American Civil
Liberties Union borgaði sektina fyrir hann.
Þeir sem höfðuðu mál gegn Scopes litu á
sköpunarsöguna í upphafi fyrstu Móse-
bókar sem vísindalega frásögn af því hvern-
ig heimurinn varð til. Réttarhöldin vöktu
mikla athygli í fjölmiðlum og kristnir bók-
stafstrúarmenn í suðurríkjum Bandaríkj-
anna urðu að athlægi víða um heim. Næstu
áratugi bar lítið á pólitískum afskiptum
þeirra en þeir mynduðu samt hópa sem ólu
á andstöðu við frjálslyndi, kvenréttindi og
veraldarhyggju. Þegar sjónvarp breiddist
út á 6. áratugnum hófu Billy Graham og
fleiri að senda út predikanir. Bókstafstrú-
arafturhaldið var ekki lengur á jaðrinum og
utan við alvarlega umræðu. Það hafði æ
meiri áhrif á almenningsálitið í stórum hluta
Bandaríkjanna og umturnaði kristinni trú í
skrípamynd af sjálfri sér. Í stað náunga-
kærleika kom hatursáróður sem beindist
m.a. gegn kvenréttindasinnum, frjáls-
lyndum menntamönnum og samkyn-
hneigðum. Í stað lotningar frammi fyrir
leyndardómum tilverunnar kom einstreng-
ingsleg kreddufesta.
Þeir sem hlógu hvað mest að fávisku
Tennesseebúa, þegar þeir dæmdu John
Scopes til sektar fyrir að kenna nátt-
úrufræði, álitu sjálfsagt að andóf gegn þró-
unarkenningunni heyrði senn sögunni til.
Þá hefur varla órað fyrir hve útbreidd öfga-
full bókstafstrú yrði í löndum gyðinga,
kristinna manna og múslima í byrjun 21.
aldarinnar.
Ég held að fyrsta skrefið í átt til skilnings
á fylgi manna við bókstafstrúarhreyfingar
nútímans sé að gera sér grein fyrir að það
er erfitt að samrýma trú og vísindi og bók-
stafstrú er viðbrögð við hugmyndalegum
ógöngum og vandræðum sem enginn veit
hvernig er best eða réttast að bregðast við.
Við getum áttað okkur á ofurlitlu broti
þessa vanda með því að skoða apamálið og
þróunarkenninguna. Í upphafi fyrstu Móse-
bókar segir að guð hafi skapað himin og jörð
á sex dögum og hvílt sig á sjöunda degi og
það er tekið fram að hann hafi skapað
manninn eftir sinni mynd. Vísindi nútímans
kenna að ættir manna og apa hafi greinst að
fyrir fáeinum milljónum ára og þegar það
gerðist hafi jörðin verið til í milljarða ára.
Ef sköpunarsaga Biblíunnar er skilin bók-
staflega stangast hún á við vitneskju sem
líffræðingar og jarðfræðingar telja hafna
yfir skynsamlegan vafa. Þeir sem vilja taka
mark á Biblíunni og trúa því að guð hafi
skapað heiminn og mannfólkið verða því
annað hvort að skilja sköpunarsöguna sem
einhvers konar líkingamál eða hafna þróun-
arkenningunni og fleiri grundvallaratriðum
í heimsmynd vísindanna.
Flestir sem gerðu grín að fávísum íbúum
Tennesseefylkis árið 1925 töldu sig kristna
og hafa ef til vill ímyndað sér að það sé lítill
vandi að taka í senn mark á Biblíunni og vís-
indunum án þess að lenda í mótsögn eða
hugmyndalegum ógöngum. Þróunarkenn-
ingin útilokar svo sem ekki að æðri mátt-
arvöld stjórni heiminum einhvern vegin bak
við tjöldin en hún gerir yfirnáttúrulegar
skýringar á tilurð mannfólksins óþarfar. Til
samanburðar getum við hugsað okkur barn
sem heyrir mannsrödd í útvarpi og ímyndar
sér að það sé maður innan í viðtækinu.
Seinna lærir barnið um rafsegulbylgjur og
fær skýringar á því hvernig mannsrödd get-
ur borist úr hljóðveri langt í burtu. Hvernig
eigum við nú að bregðast við ef barnið segir:
„Ég held samt að það sé maður í útvarpinu,
ekki venjulegur maður heldur draugur sem
er ósýnilegur og gerir ekkert en er samt
þarna.“ Við getum auðvitað ekki sannað að
barnið hafi rangt fyrir sér. Það er ekki hægt
að sanna með pottþéttum rökum að engir
draugar leynist í útvarpstækjum neitt frek-
ar en hægt er að útiloka algerlega að yf-
irnáttúruleg öfl hafi verið á kreiki þegar
ættir manna og simpansa greindust að fyrir
nokkrum milljónum ára. En það er með
þessi yfirnáttúrulegu öfl eins og manninn
inni í útvarpinu, vísindin gera trú á þau
óþörf.
Þeir sem hafna bókstafstrú og álíta samt
að guð hafi skapað veröldina og heimildir
um það sé að finna í Biblíunni hljóta að álíta
að sköpunarsagan í upphafi fyrstu Móse-
bókar sé beinlínis ósönn ef hún er túlkuð
bókstaflega en tjái samt einhver sannindi.
Það er langt frá því auðvelt að skýra hvers
konar sannindi þetta geta verið. Ef við trú-
um því ekki að sköpunarsagan sé sönn,
hvaða ástæðu höfum við þá til að taka hana
alvarlega eða líta á hana sem eitthvað annað
og meira en skáldskap? Eins má spyrja um
fleiri goðsagnir. Páskafrásögnin er t.d. öðr-
um þræði saga um einn yfirnáttúrulegan at-
burð þar sem maður var drepinn og lifnaði
við á þriðja degi. Hún flytur líka fallegan
boðskap á þá leið að guð geti gefið látnum líf
og það sé sama hvað ofbeldið er nöturlegt
og mennirnir vondir, ástin og það góða eigi
sér alltaf sér viðreisnar von. En hvað ef við
trúum því ekki að Jesú hafi í raun og veru
lifnað við? Hvaða ástæðu höfum við þá til að
trúa því að hið góða hafi betur? Skáldsaga
um upprisu er ekkert nema falleg og
heillandi ósannindi sem gefa mönnum enga
ástæðu til að trúa því að ástin og lífið eigi
sigur vísan í raun og veru. Vandi þeirra sem
hafna bókstafstrú en vilja samt halda í
kjarna trúarbragðanna er að boðskapur
goðsagnanna verður harla máttlaus ef
menn trúa því ekki að þær séu með ein-
hverjum hætti sannar og fyrir þá sem til-
einka sér vísindalegan þankagang er afar
erfitt að koma því heim og saman að sögur
af þessu tagi geti átt sér nokkra stoð í veru-
leikanum.
Þeir sem vilja sætta trú og vísindi þurfa
að svara mörgum erfiðum spurningum ef
þeir ætla að standa fyrir máli sínu. Það er
einfaldara að hafna trúarbrögðum og líta á
sögur Biblíunnar sem hvern annan skáld-
skap. Að vissu leyti er líka einfaldara að
halda fram bókstafstrú, hafna vísindunum
og segja að sköpunarsaga Biblíunnar tjái
sannindi um upphaf mannlífsins á þann ein-
faldasta hátt sem hægt er, nefnilega með
því að skýra frá hvað gerðist í raun og veru.
Þessi leið bókstafstrúarmanna er samt
blindgata, a.m.k. fyrir fólk sem byggir af-
komu sína á nútímatækni, þar á meðal mat-
vælaframleiðslu, lyfjum og læknisfræði sem
er óhugsandi án líffræði og fleiri vísinda
sem stangast meira og minna á við heims-
mynd trúarbragðanna.
Þeir sem vilja halda í hefðbundin trúar-
brögð eiga aðeins um erfiða kosti að velja.
Þeir geta annað hvort reynt að feta sig eftir
erfiðum rökfræðilegum krókaleiðum til að
koma því heim og saman að það sé bæði vit í
trúnni og vísindunum eða gengið blindgötu
bókstafstrúarmanna. Fyrir evrópska
menntamenn sem búa að þriggja alda þróun
veraldarhyggju og veraldlegs siðferðis virð-
ist ef til vill auðvelt að hafna bæði bók-
stafstrú á þeim forsendum að hún sé ósönn
og frjálslyndri guðfræði á þeim forsendum
að hún sé óskiljanleg. En í flestum löndum
er samfélag trúlausra veraldarhyggju-
manna ekki raunhæfur möguleiki í bráð og
raunar óvíst hvort þorri fólks muni nokkurn
tíma kunna fótum sínum forráð án þess að
eiga sér einhverja trú.
BÓKSTAFSTRÚ
OG ÞEKKING
RABB
A T L I H A R Ð A R S O N
atli@fva.is
HALLDÓRA B. BJÖRNSSON
Á ÞJÓÐMINJASAFNINU
Mig langar til að spyrja þig, löngu horfna kona,
hvað leiddi hendur þínar
að sauma þessar rósir í samfelluna þína?
Og svona líka fínar!
Var það þetta yndi, sem æskan hafði seitt þér
í augu og hjarta?
Eða fyrir manninn, sem þú mættir fyrir nokkru,
að þú máttir til að skarta?
Áttirðu þér leyndarmál, sem leyfðist ekki að segja,
en lærðir ekki að skrifa?
Eða væntirðu þér athvarfs þar, sem ekkert var að finna,
þegar erfitt var að lifa?
Var það lífs þíns auðlegð, eða blaðsins bitri kvíði
þegar blómið hefur angað?
Var það ást þín í meinum, eða eilífðardraumur,
sem þú yfirfærðir þangað?
En hver veit nema finnist þér fávíslegt að spyrja,
hvað fólst í þínu geði,
því ég er máske arftaki allra þinna sorga
og allrar þinnar gleði?
Halldóra B. Björnsson (1907–1968) var rithöfundur og lengi ritstjóri 19. júní.
LESBOK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING LISTIR
2 5 . T Ö L U B L A Ð - 7 9 . Á R G A N G U R | U M S J Ó N Þ R Ö S T U R H E L G A S O N | T H R O S T U R @ M B L . I S
EFNI