Íslendingaþættir Tímans - 05.08.1982, Blaðsíða 2

Íslendingaþættir Tímans - 05.08.1982, Blaðsíða 2
Guðmundur Matthíasson tónlistarkennari Fxddur 26.02. 1909 Dáinn 17.07. 1982 Guðmundur Matthíasson er allur. Hann andaðist að Vífilsstöðum hinn 17. júlí, þegar sumarið brosir hvað blíðast. En dauðinn spyr ei um árstíð, aldur eða annað. Ég reyni að skrifa minningarorð um Guðmund, því að kynni okkar urðu allnokkur. Hann var kennari minn í 4 vetur í Kennaraskólanum og kunningi alla tíð síðan. Ég held að engum hafi verið í nöp við Guðmund. Hann átti það skap sem engin styrjöld fylgdi og græskulaust gaman var honum tamt. Fyndinn og fjörugur, einkum í fámennum hópi eða undir fjögur augu. Þannig minnist ég hans. Guðmundur Eggert hét hann fullu nafni. Hann fæddist í Grímsey, nánar til tekið að Miðgörðum, en þar var þá faðir hans prestur, Matthías Eggertsson Jochumssonar barnakennara og sýslu- skrifara á ísafirði Magnússonar. Eggert var albróðir þjóðskáldsins frá Skógum í Þorskafirði. Móðir Guðmundar var Guðný Guðmundsdóttir. Þau hjón bjuggu yfir fjóra áratugi í Grímsey, sem þá var lengi síðan afskekktasti staður þessa lands. Unnu merkilegt starf og verður lengi minnst með þakklæti og virðingu af eyjarbúum. Þau hjón eignuðust mörg börn, og var Guðmundur með þeim yngri. Matthías og Guðný urðu öldruð og létust með stuttu millibili, en þá var hann orðinn níræður, en hún lést á 77. afmælisdegi sínum, hinn 29. apríl 1956. Er sjaldgæft að fólk deyi á afmæli sínu. Guðmundur var til mennta settur. Hann var skarpur námsmaður, sem best sést á því að hann tók stúdentspróf ári síðar en gagnfræðapróf. Sagði hann mér raunar, að strangt hefði verið að ganga upp í námsefni nokkurra bekkja sama vorið. Hann lauk stúdentsprófi frá Mennta- skólanum á Akureyri árið 1934. Þá var hann orðinn 25 ára. Þætti nokkuð seint nú, þegar allt gengur sem á færibandi, en þá var nokkuð öðru máli að gegna. Hagur fólks var þröngur um þetta leyti - á kreppuárunum - og erfiðleikum bundið að kosta börn til mennta. Á þessum erfiðu tímum komust ekki aðrir í skóla en þeir, sem áttu sterka að eða gátu unnið fyrir námskostnaði sínum. Ekki voru lánin eða styrkimir. Sigursæll er þó löngum góður vilji. Guðmundur hélt til Þýskalands fljótlega að loknu prófi frá Akureyraskóla og lagði stund á tónvísindi við háskólana í Hamborg og Köln. Var þar fram að stríði, og var langt kominn með nám sem dugað hefði til doktors- prófs, en þá hvarf hann heim til gamla ættlandsins. Áður hafði Guðmundur stundað nám í píanóleik og tónfræði í Leipzig og Berlín, eða á árunum upp úr tvítugu. Sést af þessari upptalningu að hann var vel menntaður tónlistarmaður. Og þýskumaður var hann framúrskarandi. Hann var lengi prófdómari við stúdentspróf í þýsku í M.R. 2 Af langri dvöl í Þýskalandi öðlaðist hann mikla kunnáttu í hinni göfugu og sterku tungu Goethes og Schillers, mátti víst segja að honum væri þýskan jafntöm og móðurmálið. Minnist ég leiðbeininga hans í þessari grein, þegar ég var að brjótast í því utan skóla á miðjum aldri að taka stúdentspróf við M.R. - hina gömlu og virðulegu menntastofnun arftaka Skálholts- Hólavalla og Bessastaðaskóla. Er ég ævinlega þakklátur Guðmundi fyrir þessa aðstoð. Hann leiðrétti hundruð þýskra stíla fyrir mig, æfði mig í tugum endursagna og las með mér mikið lesefni. Og allt gerði hann þetta endurgjaldslaust. Ég mun hafa bundið fáeinar bækur fyrir hann, sem ég bauð honum, og hann var mér þakklátur fyrir. Ég var víst eina þrjá daga á heimili þeirra hjóna, Guðmundar og Helgu Jónsdóttur. Bæði sýndu þau mér sanna umhyggju. Þá bjuggu þau í húsi nokkru í Kópavogi, sem nú er löngu horfið. Stóð þar sem nú er gjáin mikla, og allir kannast við. Nábýlið var gott. f næsta húsi bjuggu sr. Gunnar Árnason og Sigríður Stefánsdóttir frá Auðkúlu. Guðmundur var lengi organisti við Kópavogs- kirkju. Var að heyra á Guðmundi að samvinna þeirra prestsins og hans, hafi verið mjög góð. Og ekki aðeins það, heldur gróin vinátta á báðar hliðar. En hverfum að öðru. Guðmundur var tónlistarkennari við Kennaraskóla íslands strax við heimkomuna frá Þýskalandi, haustið sem Hitler hleypti af stað mesta hildarleik veraldar- sögunnar. Honum leist ekki á að dvelja mikið lengur í þriðja ríkinu. Við Kennaraskólann varð aðalstarfsvettvangur Guðmundar.Hann hætti störfum þar nokkru fyrir sjötugsaldur, enda var heilsa tekin að gefa sig, svo og þrekið. Hann var ekki heilsuhraustur maður. Um kennslu hans get ég verið fáorður. Hann vildi gera vel, en því miður voru nemendur fremur áhugalitlir við tónlistar- námið, þar á meðal ég. Ég held að Guðmundur hefði notið sín best sem prófessor í tónlistarfræð- um, því að hann hafði alla burði til þess, hálærður í sinni grein, þótt hann lyki ekki lokaprófi. í Kennaraskóla kemur margt fólk með allgóðar almennar gáfur, en fágætt mun að tóngáfa sé þar framúrskarandi. Það hefur því miður orðið hlutskipti frábærra tónlistarmanna að þurfa að troða músik í þá, sem hvorki hafa til þess áhuga né getu. Auk þess að kenna tónfræði og láta nemendur syngja, kenndi Guðmundur á har- móníum. Skólinn átti nokkur ferðaharmóníum, sem nemendur fengu lánuð. Mun ég hafa haft eitt slíkt að láni. Auk þessa kenndi Guðmundur þýsku í skólanum, eftir að nám í þeirri grein var tekið upp. En það var eftir mína tíð. Þetta sýndist ærið verkefni. En auk framanritaðs kenndi Guðmund- ur um skeið tónlistarsögu í Tónlistarskólanum. Hann kenndi guðfræðinemum og organleikurum utan af landi organleik 1944-48. Guðmundur kenndi þýsku í Námsflokkum Reykjavíkur um árabil. Hann var í stjórn Fél. ísl. tónlistarmanna, þar af formaður í tvö ár. Flutti hann nokkur erindi um tónlist og tónlistarmenn í útvarp. Sögumaður var Guðmundur góður, en tónlistarsaga var sérgrein hans. Auk þeirra greina tónlistar sem Guðmundur stundaði í Þýskalandi í tveimur áföngum, lagði hann þar stund á frönsku og uppeldisfræði. Upphaf tónlistarnáms Guð- mundar, fyrir utan föðurhús, var hjá dr. Páli ísólfssyni. Mátti segja, að tónlistin væri bæði áhugamál hans og lífsstarf. Hið síðarnefnda hefur sjálfsagt ekki veitt slíka lífsfyllingu og hið fýrrtalda. En það er nú einu sinni þannig, að annað er að hafa eitthvað að áhugamáli en að brauðstriti. Guðmundur var hamingjumaður í einkalífi. Hann kvæntist 30. okt. 1943 Helgu kennara Jónsdóttur frá Möðruvöllum í Hörgárdal. Hún er stúdent frá M.A. 1940, og lauk kennaraprófi frá K.í. ári síðar. Eignuðust þau fjórar dætur. Eru þær María, Guðný konsertmeistari Sinfoníu- hljómsveitarinnar, Rannveig og Björg. Allar hafa þær öðlast góða menntun, en þau hjón voru mjög áhugasöm um að dætur þeirra gætu komist til þess þroska sem auðið væri. Heimili þeirra var menningarheimili. Ekki ætla ég mér þá dul, að engir aðrir en ég skrifi eftir Guðmund vin minn Matthíasson. Ég hef hér að framan dregið fram þá þætti sem blasa fyrst og fremst við mér. Mér er efst í huga þakklæti, er Guðmundur er horfinn frá okkur. Minningarnar lifa í huga mínum og allra sem þann vitnisburð fær við leiðarlokin. Með innilegum samúðarkveðjum til aðstand- enda Guðmundar Matthíassonar. Auðunn Bragi Sveinsson. Islendingaþættir

x

Íslendingaþættir Tímans

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Íslendingaþættir Tímans
https://timarit.is/publication/303

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.