Íslendingaþættir Tímans - 05.08.1982, Blaðsíða 8

Íslendingaþættir Tímans - 05.08.1982, Blaðsíða 8
Asgeir Bjarnason garðyrkjubóndi, Reykjum Mosfellssveit Ég var á ferðalagi vestur á Snæfellsnesi í annarri viku júnímánaðar s.l. Þegar ég eftir heimkomuna fór að kynna mér efni dagblaðanna vikuna, sem ég var að heiman, kom í ljós að meðal fregna af síðum dagblaðanna var sú sorgarfrétt, að minn góði skólafélagi, Ásgeir Bjarnason, garðyrkju- bóndi á Reykjum í Mosfellssveit, hafði látist þann 5. júní eftir tveggja daga sjúkrahúsdvöl og verið til grafar borinn 12. júní s.l. Enda þótt Ásgeirs hafi verið minnst í dagblöðum, vil ég með nokkrum orðum nú er leiðir skilja færa Ásgeiri þakkir fyrir þau góðu kynni, er ég hafði af honum á lífsleiðinni. Leiðir okkar Ásgeirs frá Reykjum lágu saman haustið 1937 í Búnaðarskólanum á Hvanneyri. Þar urðum við herbergisfélagar. Ekki höfðum við sést fyrr, hins vegar hafði ég séð og heyrt föður hans, Bjarna Ásgeirsson, þáverandi þingmann Mýramanna. Á honum hafði ég mætur. Hann var ræðumaður ágætur og glæsimenni í útliti og framkomu allri. Ásgeir var vel undir námið búinn. Hann var gagnfræðingur frá Menntaskólanum í Reykjavík, en ákveðinn í að verða bóndi og fyrst og fremst jarðræktar og ylræktar bóndi. Samvera okkar Ásgeirs á Hvanneyri hefur verið mér minnisstæð síðan. Hann var á margan hátt sérstakur persónuleiki, sérstakt snyrtimenni var hann, og reglusemi hans var á margan hátt óvenjuleg, sem m.a. kom fram í sambandi við námið. Hann notaði alltaf sama tíma dagsins til lestrar og undirbúnings undir næsta kennsludag og kom því ávallt vel undir hverja kennslustund búinn, enda var hann ákveðinn í að njóta námsins sem best. Það tókst honum líka því námshæfileikar hans voru góðir. Ásgeir hafði þá a.m.k. ekki þann áhuga fyrir þátttöku í félagsstörfum sem faðir hans var þekktur fyrir og eyddi því ekki tíma sínum í þau. Sumarið 1938 skildu leiðir okkar Ásgeirs. Ég lauk námi þá, en Ásgeir vandaði nám sitt með dvöl á Hvanneyri tvö skólaár. Að loknu námi á Hvanneyri fór Ásgeir til framhaldsnáms í búvfsindum til Bandaríkjanna. Eftir heimkomuna og að loknu námi í Bandaríkjunum tók Ásgeir til starfa við þann búskap, sem hann hafði alltaf að minni hyggju stefnt að. Hann breytti túninu á Reykjum í mikla grænmetisakra, sem færðist jafnt og þétt í aukana. Ásgeir á Reykjum kvæntist hollenskri konu Titiu Hartemink að nafni, sem var honum samhent við ræktunina, enda kunni hún vel til þeirra starfa. Fjögur börn eignuðust þau, þrjá syni og eina dóttur. Tveir synirnir voru orðnir þátttakendur í grænmetisframleiðslunni með föður sínum og halda nú ásamt móður sinni því starfi áfram. Enda þótt við Ásgeir á Reykjum ættum ekki samstarf áfram eftir að leiðir skildu á Hvanneyri, hélst vinátta okkar og mér er í minni gestrisni á glæsilegu heimili þeirra hjóna. Síðast-liðinn vetur hittumst við Ásgeir nokkrum sinnum. Hann sagði mér frá veikindum sínum og þeim læknisaðgerðum, sem hann hafði gengist undir. Sjálfur hafði hann þá trú á, að hann mundi endurheimta heilsu sína, sú var einnig mín von. Nú þegar þau þáttaskil hafa orðið, að hann er horfinn yfir móðuna miklu, minnist ég kynna okkar með hlýju þakklæti. Það er mikils virði að hafa kynnst á lífsleiðinni svo hugprúðum og háttvísum manni sem Ásgeir Bjarnason á Reykjum var. Eftirlifandi eiginkonu hans og börnum færi ég innilegar samúðarkveðjur. Halldór E. Sigurðsson Ingimundur M. Steinsson fæddur 24. sept. 1910 dáinn 19.júlí 1982 Það er skammt stórra högga á milli. Á tæpum 3 árum hafa 3 móðurbræður mínir fallið frá. Fyrst Ottó síðla árs 1979, þá Brynjólfur 1981 og nú Ingimundur. Fregnin um andlát hans kom mjög á óvart því ég vissi ekki betur en að heilsan væri sæmileg og að hann ætti langa lífdaga framundan. En vegir guðs eru órannsakanlegir og nú er Ingi horfinn líka á eftir bræðrum sínum og eiginkonu Þegar ég læt hugann reika til baka þá eru fyrstu kynni mín af þeim Ingimundi og Ruth óljós brot af sjóferð, maður á bryggju og lítið hús með garði. Eftir því sem árin liðu skýrðist þessi mynd. Sjóferðin var ferð með Akraborg, maðurinn á bryggjunni Ingi frændi og húsið heimili hans og Ruthar. Allar þessar ferðir upp á Skaga voru gleðiferðir, því ekki man ég fólk, sem var betra heim að sækja en einmitt Inga og Ruth. Ingi fæddist á tsafirði 24. sept. 1910 sá fimmti 8 af 9 systkinum og ólst þar upp. Árið 1930 fór hann til Reykjavíkur á Samvinnuskólann og var þar tvo vetur. Næstu árin var hann farmaður á M/S Eddu. Árið 1938 fór hann til Þýskalands til náms í niðursuðu. Þá skall stríðið á og hann varð innlyksa. Hann lauk námi og starfaði öll stríðsárin við niðursuðu lengst af sem verkstjóri í verksmiðjunni Pillan. Þar kynnist hann konu sinni Ruth Hildegaard Liedke, sem hann kvæntist 1943. í stríðslok lenti hann í ævintýralegri ferð frá Þýzkalandi til Svíþjóðar og þaðan til Danmerkur og svo aftur til Þýzkalands til þess að sækja eiginkonu sína. Er hann kom heim hóf hann störf við niðursuðu, fyrst á Siglufirði og síðan hjá Haraldi Böðvarsyni á Akranesi. Þau Ingi og Ruth festu rætur á Akranesi og starfaði hann alla sína ævi að niðursuðu sem verkstjóri. Þau eru ófá sporin sem við systkinin eigum Framhald á bls 4. islendingaþættir

x

Íslendingaþættir Tímans

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Íslendingaþættir Tímans
https://timarit.is/publication/303

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.