Lesbók Morgunblaðsins - 07.08.2004, Side 9

Lesbók Morgunblaðsins - 07.08.2004, Side 9
burstaklipptur og þegar kemur að því að láta til skarar skríða og myrða Palantine er hann kom- inn með móhíkanakamb. Þessi móhíkanagreiðsla tengist hreinleikaáráttu Travis. Móhíkanaindj- ánahefðin er tengd hreinleika vatna og skóga en Apache-indjánar tengjast óhreinindum slétt- unnar. Óhreinindi og spilling borgarinnar eru persónugerð í dólginum Sport (Harvey Keitel) sem gerir út barnungu vændiskonuna Irisi (Jody Foster), en hann er með sítt hár og ennisband eins og Apache. Móhíkanakamburinn táknar „hreinleika“ Travis en sýnir um leið jaðarstöðu hans innan samfélagsins. Kamburinn klýfur hann í tvennt og undirstrikar sundrungina milli þess sem hann er (ekkert, geðsjúklingur) og milli þess sem hann er að reyna að vera (hetja, einhver sem skiptir máli). Tilgangslaus og misheppnuð hetjudáð Travis reynir að verða þessi „einhver“ sem tekur málin í sínar hendur með hinu ógeðfellda blóðbaði í lok myndarinnar og með því telur hann sig vinna sigur. En vel heppnuð „hetjudáðin“ er tvíeggjuð. Travis særist strax á hálsi og verður að lokum að murka lífið úr einum mannanna með berum höndum. Ef miðað er við hefðbundinn kvik- myndaveruleika er innrás Travis í vændishúsið óvenju ógeðsleg og blóðug. Iðulega tekst hetjum hvíta tjaldsins að ráða fram úr slíkum aðstæðum á mun snyrtilegri og beinskeyttari hátt. Þótt oft deyi mun fleiri en í þessari senu, en fórnarlömbin eru einungis þrjú, er ofbeldið yfirleitt hreinlegra og þ.a.l. ásættanlegra. Leikstjórinn notar þannig sína eigin þekkingu og áhorfenda á hefðbundnum hetjudáðum og lokaatriðum til að draga fram hversu tilgangslaus og misheppnuð aðgerðin er. Eftir morðin reynir Travis að taka líf sitt, en hann getur það ekki þar sem allar byssurnar eru tómar. Hann hnígur niður í sófa og lögreglan kemur. Með alblóðugri hönd beinir Travis fingri að höfði sér eins byssu og hleypir af. Látbragðið undirstrikar ósigur hans því þegar byssurnar tæmast hefur hann ekkert vald lengur og hin til- búna sjálfsmynd hrynur. Myndavélin svífur burt af vettvangi og allt bendir til að komið sé að endalokum myndarinnar – og endalokum Travis. En svo reynist þó ekki vera því á eftir kemur atriði sem er eins konar eftirmáli. Þar kemur fram að eftir þessa atburði er litið á Travis sem hetju. Hann lá í dái en er nú búinn að jafna sig og á yfirborðinu lítur allt út fyr- ir að vera í lagi. Betsy kemur til hans í bílinn og segist hafa lesið um hetjudáð hans í blöðunum. Koma hennar fram á sjónarsviðið opnar mögu- leika á að þau endurnýji kynni sín en Travis hafn- ar því og keyrir í burtu, líkt og hetja sem ríður ein út í sólarlagið að hlutverki sínu loknu. Allt er slétt og fellt, eða hvað? Travis lítur snöggt til hliðar og við sjáum eitt andartak andlit hans speglast í baksýnisspeglinum, rauður glampi og skerandi ískur í bakgrunni. Síðan keyrum við áfram með Travis og myndinni lýkur. Hylltur fyrir hrottaleg morð Þessi undarlegi endir minnir mann á að síðustu mínútur myndarinnar hafa alls ekki vakið upp þá tilfinningu að allt sé fallið í rétt horf eins og venj- an er, þó að á yfirborðinu líti það þannig út. Nið- urlagið er áleitið. Erfitt er að kyngja því að Trav- is verði hetja eftir að hafa framið slíkt voðaverk og honum sleppt lausum eins og ekkert hafi í skorist. Með því að gera Travis að hetju mætti líta svo á að samfélagið sé að breiða yfir eigin mis- tök og vanmátt að takast á við afleiðingar stríðs sem háð var í nafni þess. Travis varð ekki hetja þegar hann þjónaði í stríðinu en er nú hylltur fyr- ir hrottaleg morð og að hafa „frelsað“ barnunga vændiskonu. En um leið og horft er framhjá geggjuninni sem hefur búið um sig í huga hans, geggjun sem hugsanlega á rætur að rekja til Víetnamstríðsins. Travis er afurð samfélagsins og með því að gera hann að hetju fyrir hrotta- verkin er sú ábyrgð sem það ber á honum þurrk- uð út. Afleiðingar athafna hans hafa sömuleiðis verið þurrkaðar út, hetjudáðin, tvíræð eins og hún er, stendur ein eftir. Sekt hans er afmáð eins og sekt samfélagsins og blöðin hafa búið honum og gjörðum hans þægilegan sess. Sumir hafa túlkað lok myndarinnar þannig að Travis sé algerlega læknaður. Honum hafi tekist að hreinsa burt sína innri djöfla og hann geti nú lifað sáttur við sjálfan sig og aðra. Í samfélagi sem ekki er viðbjargandi hefur honum þó tekist að hjálpa sjálfum sér. Slík túlkun myndi þó færa Taxi Driver nær hefðbundnum hefndarmyndum tímabilsins sem samþykkja að sumir séu rétt- dræpir ef markmiðið gefur tilefni til. En þá væri algjörlega litið framhjá hinu íróníska sjónarhorni myndarinnar og hráum og köldum undirtóni hennar. Því maður fær á tilfinninguna að Travis sé alls ekki heill á geði í lokin og ef tekið er mið af hegðunarmynstri sem mótast af þráhyggju eins og þeirri sem Travis er haldinn, er ekki ólíklegt að fljótlega muni sama ferli hefjast á ný. Augna- tillitið í baksýnisspeglinum og ískrið í bakgrunni undirstrika óstöðugleika Travis og gefa til kynna að í speglum leigubílsins og í gegnum rúður hans sýnist borgin söm og áður. Endurtekningin er óhjákvæmileg. Kraftur myndarinnar felst helst í írónískri framsetningu en með henni er sett fram flókin samfélagsgagnrýni. Hart er deilt á hið frjálslynda samfélag sem virðist ekki geta ekki tekið al- mennilega á þeim vandamálum sem að því steðja og grípur þ.a.l. til yfirbreiðslu og bælingar. En gagnrýnin beinist í fleiri áttir þvímyndin sýnir einnig að þau viðhorf sem Travis stendur fyrir eru byggð á bjagaðri skynjun á vandamálum samfélagsins og að þær aðferðir sem hann og aðr- ir sem vilja taka málin í sínar hendur nota geta í raun og veru ekki leitt til annars en tilgangslauss blóðbaðs. lagsspegill Höfundur er bókmenntafræðingur.Gervi Jodie Foster sem hin barnunga gleðikona Iris vakti miklar umræður á sínum tíma. ’Greinilegt er að Travisá í miklum vandræðum með sjálfsmynd sína. Hann er í eilífri leit að fyrirmynd til að spegla sig í, fyrirmynd sem veitti brotakenndu sjálfi hans heild. Hann leitar fyr- irmynda bæði í klám- myndum og í baksýnis- spegli leigubílsins.‘ Lesbók Morgunblaðsins ˜ 7. ágúst 2004 | 9

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.