Lesbók Morgunblaðsins - 07.08.2004, Side 10
10 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 7. ágúst 2004
E
itt sinn fyrir mörgum árum
þegar ég var í Mexíkóborg,
nánar tiltekið í hverfinu
Coyacán í fylgd með Sole, vor-
um við varla komin út úr bíln-
um hennar þegar hún tók eftir
að lyklarnir höfðu orðið eftir inni í honum. Ein
hliðarrúðan var rifuð til að lofta út, svo hitinn í
bílnum yrði ekki kæfandi, en rifan var ekki
nógu stór svo hægt væri að koma hendi inn og
ná lyklunum sem voru í seiling-
arfjarlægð í sætinu. Sole
gramdist minna að hún hafði
gleymt lyklunum en að þeir
skyldu vera með svona ósvífn-
um hætti fyrir augunum á henni en höndin næði
ekki til þeirra.
Við stóðum á götunni ráðalaus og ég spurði
hvort ekki væri hægt að fá aðstoð lögreglunnar.
Sole vildi það síst af öllu. Vegna þess að einu
sinni þegar hún hafði lent í smávandræðum og
beðið um aðstoð umferðarlögreglunnar leiddi
það til þess að maðurinn hótaði að sekta hana
nema hún tæmdi veskið.
Meðan á þessum vandræðum stóð bar að lög-
regluþjón sem horfði á bílinn og rifuna jafn
ráðalaus og við, en góðu heilli krafðist hann ekki
peninga.
Ekki langt frá okkur sat ungur piltur undir
húsvegg með systur sinni og fylgdist með okkur
af athygli meðan hann lék á gítar ítölsk lög úr
kvikmynd eftir Fellini og söng langdregið.
Allt í einu sagði lögregluþjónninn að eina ráð-
ið væri að finna þjóf sem kynni á bílalæsingar.
Við renndum augunum til söngvarans en hann
var saklaus á svip og auðheyrt á söngnum að í
honum leyndist ekkert þjófseðli. Þá var eins og
við manninn mælt, ungan pilt bar að og við
sögðum honum frá vandræðum okkar. Hann
velti vöngum en bar ekki fram tillögur um lausn
á málinu. Þetta virtist fara í taugarnar á lög-
regluþjóninum sem taldi sig vera mannþekkj-
ara.
Ert þú ekki þjófur? spurði hann í þannig tón
að auðheyrt var að hann vissi að þetta væri ekk-
ert annað en þjófur.
Jú, svaraði pilturinn hógvær. En þú ættir að
sjá að ég er vasaþjófur og kann ekki á læsingar.
Lögregluþjónninn rak honum ekki löðrung
fyrir hvað hann var hortugur. Þjófurinn og
hann voru auðsæilega af mildu mexíkönsku teg-
undinni.
Nú höfðu safnast um bílinn menn og reynt að
troða hendi inn um rifuna, þótt hver maður sæi
að það væri engin leið. Einhver sagði að ekki
einu sinni nýfæddur þjófur kæmi fingri inn um
svona þrönga rifu.
Mér fannst þetta viturlega mælt og í sam-
ræmi við þekkingu á höndum sem ég hafði feng-
ið hjá þjóf sem kallaði til mín: „Fáðu með mér
maísstöng, óhræddur, ég drep og ræni þegjandi
eða alls ekki.“
Nú kom sér vel fræðslan við maísátið. Ég sá
að hluti áhorfenda voru þjófar á ýmsum sviðum
öðrum en því að ljúka upp bíllásum.
Ég talaði við þjófana eins og jafningja og
fannst undarlegt að þarna skyldi ekki vera bíla-
þjófur. Lögregluþjónninn varð fyrir svörum og
sagði að á þessum tíma dags legðu fáir bílum
þar sem við vorum, heldur á stað sem ég man
ekki lengur hvar var. Þegar ég leit í kringum
mig var engan bíl að sjá.
Innan skamms höfðu þjófarnir misst áhug-
ann og horfið til starfa sinna. Sama var að segja
um lögregluþjóninn. Við vorum ein eftir að frá-
töldum drengnum sem hélt áfram að syngja.
Í eðli mínu er ég ekki næmur á þjófa, en
vegna maísins góða var hvíslað að mér að ég
skyldi tala við drenginn og segja af kurteisi inn-
fæddra:
Góðan daginn. Þú ert góður söngmaður og ef-
laust líka ágætur þjófur.
Ég er betri þjófur en gítarleikari, en sleppum
söngnum, svaraði drengurinn.
Mig grunaði það, sagði ég en hélt hann væri
nýgræðingur sökum ungs aldurs.
Geturðu opnað bílinn? spurði ég.
Drengurinn lét sem það væri fyrir neðan
virðingu sína að opna bíl, hann væri fyrir stærri
verkefnin. En þegar ég sótti meiri visku í maís-
stöngina ásakaði hann mig fyrir að hafa ekki
séð að hinir gátu ekkert.
Þetta voru þjófar á öðru sviði, sagði hann. Ég
er aftur á móti alhliða þjófur.
Mér fannst ég sjá það, sagði ég. Svo þú ættir
að opna bílinn.
Drengurinn reis á fætur, opnaði strax, varð
ekkert hreykinn og fór aftur undir vegginn að
syngja.
Sole vildi borga fyrir greiðann en drengurinn
virti hana ekki viðlits. Þá baðst hún afsökunar
að hafa gleymt að sannur þjófur yrði sér úti um
borgun með sínum hætti.
Drengurinn lét orðin sem vind um eyrun
þjóta og virti fyrir sér systur sína. Ekki var
þarna margt um manninn og kannski valdi
hann þess vegna dapurlega sönginn.
Við biðum í talsverðan tíma eftir hálfgerðum
þjóf. Það er sú tegund sem gætir bíla fyrir
greiðslu og stelur ekki nema við vissar að-
stæður. Þegar einn bar að, greiddum við honum
fyrirfram og fórum að skoða húsið þar sem
Trotský var myrtur.
Í húsinu var lítið að sjá og fyrst ég var þreytt-
ur á Fridu Kahlo snerum við fljótt aftur. Þjóf-
urinn stóð við bílinn og allt á sínum stað. Við
þökkuðum og hann þakkaði okkur og sagðist
líka leiðast Frida Kahlo.
Drengurinn söng og lék enn á sínum stað og
systir hans fletti upp um sig kjólnum auðsæi-
lega með litlum árangri.
Allt í einu datt Sole í hug að fara í bókabúð
ekki langt í burtu. Við skildum dótið eftir í bíln-
um, enda ætluðum við ekki að vera lengi, og
höfðum gleymt hættunni sem stafar af þjófum.
Við komum fljótlega aftur, sáum hvergi bílinn
og héldum andartak að við hefðum villst en átt-
uðum okkur. Á gangstéttinni var allt lauslegt úr
bílnum í snyrtilegri hrúgu og Sole spurði:
Tókst þú lyklana?
Þegar ég svipaðist um var drengurinn farinn
með gítarinn, systur sína og sönginn.
Í Mexíkóborg
’Nú höfðu safnast um bílinn menn og reynt að troðahendi inn um rifuna, þótt hver maður sæi að það væri
engin leið. Einhver sagði að ekki einu sinni nýfæddur
þjófur kæmi fingri inn um svona þrönga rifu. Mér
fannst þetta viturlega mælt og í samræmi við þekkingu
á höndum sem ég hafði fengið hjá þjóf sem kallaði til
mín: „Fáðu með mér maísstöng, óhræddur, ég drep og
ræni þegjandi eða alls ekki.“‘
Smásaga
Eftir Guðberg
Bergsson