Lesbók Morgunblaðsins - 07.08.2004, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 07.08.2004, Blaðsíða 16
16 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 7. ágúst 2004 Á fjögurra ára fresti er sem ríg- urinn milli flokkanna tveggja, sem skiptast á um að halda um stjórnartaumana í Bandaríkj- unum, Repúblíkana og Demó- krata, umturni fjölmiðlalands- laginu í einskonar vígvöll; lagt er af stað með úthugsaðar áróðursherferðir sem nú orðið jaðra nær undantekningalaust við hreinan og kláran dónaskap, málefni týnast í skítkastinu og ríkjandi vísdómur tengist ímyndasmiðum og tölfræðingum. „Skilgreindu andstæðinginn áður en hann nær að skilgreina sig sjálfur,“ er herópið og fé flæðir í kistur sjónvarpsstöðv- anna. Kosningarnar í ár, sem fara munu fram í nóvember næstkomandi, virðast þó ætla að vera með allra æsilegasta móti. George W. Bush hefur safnað meiri fjármunum í auglýs- ingapyngju sína en áður hefur þekkst, og er e.t.v. ekki vanþörf á þar sem upplausnar- ástandið í Írak er á hvers manns vörum, en frambjóðandi Demó- krata, John Kerry, hefur sömuleiðis slegið öll met innan síns flokks hvað fjáröflun varðar, og dynur afrakstur fjárplógs- hæfileika beggja á almenningi. Þá sýna flestar skoðanakannanir að stjórnmálaflokkarnir tveir eru nær hnífjafnir, líkt og í kosningunum árið 2000, og hópur óákveðinna kjósenda er minni en nokkru sinni fyrr. Markvisst beint gegn Bush Undir þessum kringumstæðum þarf ekki að undra að framlag Michaels Moores til kosn- ingabaráttu Demókrataflokksins, heim- ildamyndin Fahrenheit 9/11, hafi vakið miklar deilur, jafnvel meiri en síðasta mynd hans, Bowling for Columbine (Keilað fyrir Columb- ine; 2002), enda þykir gagnrýni hans á stjórn- völd með eindæmum harðsvíruð. Moore upp- lýsti snemma í framleiðsluferlinu að hann hefði í smíðum verk sem markvisst væri beint gegn stjórn ríkjandi forseta, og ætti helst að stuðla að mannaskiptum í Hvíta húsinu. Þegar Fahrenheit 9/11 hlaut svo Gullpálmann í Cannes fyrr á þessu ári hófst orrahríðin fyrir alvöru. Síðan hefur ekki verið hægt að þver- fóta í bandarísku fjölmiðlalandslagi fyrir ýmist upprifnum, reiðum, hneyksluðum eða hrifnum ummælendum sem láta gamminn geisa um kosti og galla myndarinnar – lengi vel án þess að hafa séð hana því nokkur tími leið milli þess sem myndin hlaut verðlaunin og hún var sýnd í kvikmyndahúsum í Bandaríkjunum. Í miðju hringiðunnar, og á forsíðum helstu tímarita þjóðarinnar, stendur svo höfundurinn mikill um sig og bara nokkuð ánægður af viðtölum að dæma. Að sumu leyti þarf það ekki að koma á óvart. Fahrenheit 9/11 hefur á fáum vikum slegið vinsældamet heimildarmynda og mun hugsanlega hafa áhrif á úrslit kosninganna í nóvember. Áróður eða heimildir Brýnasta spurningin hlýtur að vera hvort Moore lagi sig að umhverfinu sem lýst er hér að ofan eða hefji sig yfir það. Er myndin dóna- legur áróður, áróðurskenndur dónaskapur, sem jafnsjálfsagt er að leiða hjá sér og reip- togið sem birtist á bandarískum sjónvarps- skjám í þrjátíu sekúndna lotum nú um mundir, eða er um heimildarmynd að ræða, verk sem leitast við að birta raunsanna mynd af atburð- um undanfarinna fjögurra ára, kafa undir þá yfirborðskenndu og einfölduðu veruleikasýn sem ráðið hefur ríkjum í bandarískum fjöl- miðlum? Er þetta með öðrum orðum áróð- ursmynd eða eitthvað meira? Ef litið er til skil- greiningar Íslenskrar orðabókar á hugtakinu „áróður,“ en hún hljóðar svo: „umtal eða skrif til að fá menn til að taka afstöðu með eða móti e-u eða e-m,“ má þykja ljóst að myndin er hreinn og klár áróður – tilvistargrundvöllur myndarinnar er einmitt að fá áhorfendur til að „taka afstöðu.“ Það er hins vegar annað mál að orðinu „áróðri“ er gjarnan kastað fram á hugs- unarlausan hátt sem skammaryrði og er þá gjarnan átt við eitthvað annað en hugtakið sem Íslensk orðabók skilgreinir. Gotneskt út- lit Nürnberg-borgar á fjórða áratugnum og ímynd Leni Riefenstahl vill þá gjarnan svífa yfir vötnum, hugsanatengslin eru við lygar og misindismenn sem draga almúgann á asnaeyr- unum. Áróðursmeistarinn er hér orðinn að glæpamanni sem svífst einskis til að ná fram hagsmunatengdu ætlunarverki sínu. Ef áróð- urshugtakið er notað í þessum skilningi er jafnljóst að kvikmynd Michaels Moores er ekki áróðursmynd. Hér er mikilvægt að greina milli skoðana leikstjórans, túlkunar hans á samhengi og samfellu ákveðinnar sögulegrar framvindu, og þess sem í myndinni er framsett sem stað- reyndir. Sjálfsagt er að deila um túlkun Moores á þýðingu atburða en ásakanir um að hann fari með fleipur verða að byggjast á öðru og meira en því að maður sé honum ósammála. Þannig er ágætt að hafa í huga að Moore réð stóran hóp staðreyndatékkara – hóp sem áður starfaði við hið virta tímarit New Yorker – til að fara yfir allar staðhæfingar sem fram koma í myndinni. Áhrif þessa vinnuhóps eru líka greinileg ef samanburður er gerður á frekar galsafengnum staðhæfingum sem finna má í nýjustu bók Michaels Moore, Dude, Where is My Country? (Gaukur, hvar er landið mitt; 2003) og aðferðafræði kvikmyndarinnar sem er mun varkárari. Þegar síðan er talað um ákveðin atriði eins og t.d. fjárfestingar Sádi- Arabíu í Bandaríkjunum eða fjárhagsleg tengsl Bush-fjölskyldunnar við konungsfjöl- skylduna er rétt að hafa í huga að viðkomandi upplýsingar liggja ekki beinlínis á glámbekk. Að taka til máls um efni af þessu tagi er ávallt vandasamt. Þess má hins vegar geta að sá hluti myndarinnar sem fjallar um þessi mál- efni styðst við nýlega bók Craigs Unger, House of Bush, House of Saud, sem hefur til að bera þá heimildaskrá sem myndina eðlis síns vegna vantar. Heimildaskrá sem New York Times sá ekki ástæðu til að gagnrýna. Að morgni ellefta september En myndin hefur hlotið misjafnar viðtökur og líkt og um fyrri verk Moores virðist stjórn- málaskoðun ummælanda ráða miklu um við- brögðin. Upp að ákveðnu marki er svo sem ekki við öðru að búast. En stundum vill þó keyra um þverbak. Dagblað í miðvesturríkjum Bandaríkjanna hóf til dæmis umfjöllun sína um myndina með orðunum, „Leikstjórinn hat- ar augljóslega Bandaríkin og er á þeirri skoð- un að Bandaríkjamenn séu hálfvitar.“ Kvik- myndin, og höfundur hennar, eru með öðrum orðum ásökuð um landráð. Svona upphrópanir verða þreytandi til lengdar og er í raun erfitt að svara. Hins vegar má fjalla sérstaklega um tvö atriði í myndinni sem öðrum fremur hafa kallað fram neikvæð viðbrögð. Annars vegar er um atriðið að ræða þar sem Bush situr með hópi skólabarna að morgni ellefta september og les bókina Gælugeitin mín. Upptökur úr skólanum sýna aðstoðarmann Bush hvísla að honum að þjóðin hafi orðið fyrir árás, önnur flugvél hafi lent á seinni turninum. Mín- úturnar líða og Bush þykist hafa áhuga á bók- lestrinum meðan hann virðist í raun ekki hafa hugmynd um hvað gera skal. Á hljóðrásinni má svo heyra Moore geta sér til um hvað sé að fara í gegnum kollinn á forsetanum. Hitt myndskeiðið sýnir Írak fyrir loftárásir Banda- ríkjamanna. Brugðið er upp svipmyndum af brúðkaupi, börnum að leik og öðrum hvers- dagslegum athöfnum. Í seinna tilvikinu hefur Moore verið gagnrýndur fyrir að bregða upp of jákvæðri mynd af Írak. Er leikstjórinn að gefa í skyn að allt hafi verið í himnalagi áður en Bandaríkin gerðu innrás? Moore hefur sjálfur svarað þessum ásökunum á máta sem mér finnst sannfærandi. Í nýlegu viðtali spurði hann einfaldlega hvort einhver hefði ekki vitað að Saddam væri fantur. Bandarískir fjöl- miðlar, og fjölmiðlar annarra landa í hermi- leik, hafa ekki fjallað um annað í rúmlega tvö ár. Það sem vantar í slíka umfjöllun er dýpt. Moore reynir að benda á að þótt Saddam hafi verið miskunnarlaus einræðisherra hafi stærstur hluti þjóðarinnar gert sitt besta til að lifa venjulegu lífi. Fólk gifti sig, fór á kaffihús, börn léku sér með flugdreka. Pyntingarklefar Saddams náðu ekki yfir allt landakortið – handan alræðisins var annar veruleiki og sprengjunum rigndi þangað. Hér má líka benda á nýlega bók sænska vopnaleitarmanns- ins Hans Blix, Disarming Iraq (Afvopnun Íraks; 2004), þar sem bent er á þá einföldu staðreynd að þótt það sé vitanlega æskilegt að einræðisherrum víða um heim sé steypt af stóli vanti um þessar mundir lagaleg úrræði til að það sé hægt. Handahófskenndar innrásir hingað og þangað í nafni mannúðar séu hé- gómi einn, ef ekki yfirskin, og stangist á við núverandi reglugerðir um sjálfræði þjóða. Nauðsynlegt sé að taka skipulega á málunum í alþjóðastofnun svo sem Sameinuðu þjóðunum en eins og frægt er hunsaði Bush ráðleggingar og samráð við þá ágætu stofnun. Fyrra tilvikið er í raun vandasamara. Í ljósi þeirra þungvægu atburða sem áttu sér stað virðist erfitt að útskýra ráðleysi Bush að morgni ellefta september. Tilgangur Moores er reyndar augljós. Hann vill koma skila- boðum áleiðis um ósjálfstæði forsetans – benda á að án Dicks Cheney varaforseta sé Bush líkt og brúða án strengja. Heldur bara áfram að lesa um gælugeitina. Er þetta ósann- gjarnt? Sumir vilja meina að svo sé. Spurt er hvað forsetinn hefði svo sem átt til bragðs að taka. Ekki vildi hann nú hræða börnin en gjarnan er bent á einmitt þessa hlið málsins. Ef forsetinn hefði skyndilega yfirgefið kennslustofuna hefði orðið uppnám hjá börn- unum. Skólastjóri viðkomandi skóla hefur til að mynda gefið út yfirlýsingu um að Bush hafi að sínu mati brugðist afskaplega vel við frétt- unum. „Hvaða gagn hefði verið að því ef for- setinn hefði sprottið á fætur og rokið út úr stofunni?“ spyr hann. Vandasamt er að gera upp við sig hvar sé best að byrja þegar svara á svona málaflutningi. Í ljósi þess að í fyrsta sinn síðan á öndverðri nítjándu öld hafði árás verið gerð á meginland Bandaríkjanna er e.t.v. ekki fjarstæðukennt að ímynda sér að forset- inn hefði haft áhuga á að kynna sér nánar málavöxtu. Án tafar. Í ljósi þess að hryðju- verkaárásunum var ekki lokið, flugvélar undir stjórn ræningja voru á þessari stundu enn í loftinu á leið að skotmörkum, er líka hugs- anlegt að hangs æðsta ráðamanns hersins, þ.e. forsetans, hafi ekki verið mjög gæfuríkt. Mik- ilvægar ákvarðanir, til að mynda hvort skjóta ætti niður flugvélarnar, biðu undirskriftar for- setans. Best geymdur í barnaskóla Kaldhæðnislegar tilgátur Moores um hugs- anirnar sem kunna að hafa flogið í gegnum huga Bush þessar löngu mínútur eru í raun hálf vanmáttug tilraun til að skýra hið óút- skýranlega. Á skólamyndbandinu sést stjórn- kerfi Bandaríkjanna lamast, spurningin er ekki endilega afhverju Bush gerir ekkert. Kannski er hann bara glópur. Spurningin er af hverju enginn annar gerði neitt. Fólkið í kringum forsetann, leyniþjónustan, örygg- isverðirnir, ráðgjafarnir – hafði forsetinn og geitin hans bara gleymst? Var það kannski álit þeirra sem voru að bregðast við ógninni að Bush væri best geymdur í barnaskóla suður á Flórída? Gildi Fahrenheit 9/11 felst í því að birta myndefni sem undir öðrum kringumstæðum hefði ekki endilega komið fyrir sjónir almenn- ings. Myndin er þess vegna heilmikið sjón- arspil og Moore vinnur makvisst með forvitni áhorfenda. Þá er boðskapurinn skýr og að mörgu leyti áþekkur því sem Noam Chomsky hafði fram að færa þegar hann tók við verð- launum Sameinuðu þjóðanna í New York fyrr á árinu. Heiminum stafar ógn af Bush og kosning- arnar í nóvember eru þess vegna afar þýðing- armiklar. Kvikmyndin er síðan lóð Moores á vogarskálarnar, nokkuð sem leikstjórinn sjálf- ur telur nauðsynlegt framlag vegna þess að „ekki er hægt að treysta Demókrötunum sjálf- um fyrir kosningabaráttunni. Þetta er flokkur sem tapar jafnvel þegar hann vinnur.“ Bálköstur hégómans Mikilvægasta spurningin er hvort Moore lagar sig að umhverfinu eða hefur hann sig yfir það? Michael Moore og deilurnar um Fahrenheit 9/11 Höfundur er bókmenntafræðingur. Eftir Björn Þór Vilhjálmsson vilhjalmsson@wisc.edu ’Ef áróðurshugtakið er notað í þessum skilningi er jafn-ljóst að kvikmynd Moores er ekki áróðursmynd.‘

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.