Lesbók Morgunblaðsins - 14.08.2004, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 14.08.2004, Blaðsíða 16
16 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 14. ágúst 2004 Þ jóð vor hefur í tímans rás gengið á brattann í baráttu sinni fyrir sjálfstæði sínu og fullveldi. Í því lífsstríði sker þjóðin sig frá flestum ef ekki öllum þjóðum, að hafa háð þá baráttu frið- samlega án blóðsúthellinga. Til þess að tjá hugsjónir sínar og efla þjóðrækni, hefur þjóð- in eins og önnur lönd notað merki og samein- ingartákn, er tekið hafa á sig ýmsar myndir og form. Næst á undan þeirri gerð fánans, sem vér nú höfum, var hinn svonefndi Hvítbláinn upp- rennandi þjóðartákn. Það var um aldamótin 1900, í þann mund, er Ungmennafélags- hreyfingin var með hvað mest- um blóma. Hún hafði þjóðræknis- og frels- ishugsjónir efst á stefnuskrá sinni með kjörorðinu „Íslandi allt“. Hvítbláinn varð þessari hreyfingu mikils virði, og hún tók fán- ann upp á arma sína. Þjóðlitir Íslendinga Í ágripi af sögu fánamálsins og fl. eftir Birgi Thorlacíus og gefið var út af forsætisráðu- neytinu 1991, er að finna mikinn fróðleik um þessi málefni. Hvítbláinn varð til fyrir atbeina hins hugmyndaríka stórskálds, Einars Bene- diktssonar. Hinn 13. mars 1897 ritar hann í blað sitt Dagskrá á þessa leið: „Þjóðlitir Ís- lands eru blátt og hvítt, er tákna himininn og snjóinn og þessa tvo þjóðliti eina eiga engir aðrir en Íslendingar. Nú er krossinn eins og kunnugt er hið algengasta og helgasta flagg- merki og er hann auðvita hið besta, fegursta og greinilegasta merki, ef hann verður settur rétt yfir allan fánann. Danski fáninn er því með réttu talinn einn frumlegasti og fegursti fáni. En Íslendingar geta einmitt tekið upp fána, sem er jafn einfaldur, kristilegur og frumlegur og sá danski. Það er hvítur kross í bláum feldi.“ Þessi fáni öðlaðist verðskuldaðar vinsældir Íslendinga og Einar Benediktsson lét ekki sitt eftir liggja. Hann orti um fánann ljóðið: Til fánans, Rís þú, unga Íslands merki“. Ljóðinu lýkur hann á þessum ljóðlínum: Meðan sumarsólir bræða svellin vetra um engi og tún, skal vor ást til Íslands glæða afl vort undir krossins rún, djúp sem blámi himinhæða, hrein sem jökultindsins brún. Þrátt fyrir vinsældir Hvítbláins, var fundið að því og það með réttu, að hann líktist of mik- ið gríska fánanum. Bent var á, að þessi sam- líking fánanna gæti villt um fyrir sjófarendum að gera greinarmun á hverrar þjóðar skipin væru, t.d. í slæmu skyggni. Hið sama var talið gilda um sænska fánann, hvað þetta snerti. Úr vöndu að ráða Konungur Dana neitaði að viðurkenna fánann fyrir hönd Íslendinga, og dönsk yfirvöld voru treg til þess að láta Íslendinga fá sérfána. Hér var úr vöndu að ráða. Þá kom fram á sjón- arsviðið Matthías Þórðarson síðar þjóðminja- vörður. Á fundi í Stúdentafélagi Reykjavíkur 27. september 1906 sýndi hann fánahugmynd sína, sem var eins og Hvítbláinn nema hann hafði sett rauðan kross inn í miðju hvíta kross- ins – góðu heilli, sem vér höfum fengið að njóta æ síðan. Gat Matthías þess um leið, að litirnir þrír táknuðu: „Fjallablámann, ísinn og eldinn.“ En þar með var þó málið ekki útkljáð, hvorki af hendi Dana né Íslendinga. Á öðrum áratug síðustu aldar var áköf deila og mjög heit á stundum innan Alþingis sem utan, við konung og dönsku stjórnina, þar til sá mikli dagur rann upp, að sambandslögin gengu í gildi um leið og þríliti fáninn. Það er af Hvítbláinn að segja að hann hélt áfram að vera merki ungmennafélaganna. Bláhvíti fán- inn varð skólamerki Menntaskólans á Laug- arvatni. Þegar skólinn var stofnaður fékk hann að gjöf Hvítbláinn úr silki sérsaumaðan, sem kista Einars Benediktssonar var sveipuð við minningarathöfn um hann í Dómkirkjunni í Reykjavík 26. janúar 1940. Það ber vott um aðdáun mína á þessum fána, að þegar finna skyldi gott merki fyrir æskulýðshreyfingu kirkjunnar á Akureyri, þá varð fyrir valinu hvítur fáni með bláum fer- hyrningi í efra stangarreit og í þeim bláa fer- hyrningi var hvítur kross – sem sagt hvítblár krossfáni. Þegar við séra Birgir Snæbjörns- son, sóknarprestar Akureyrarkirkju, vorum að velja tákn og myndir í steinda glugga kirkjuskipsins, þá völdum við neðst í næsta glugga við skírnarfontinn mynd af dreng og stúlku í fermingarkirtlum, bæði með íslenska þjóðfánann og þann hvítbláa með krossinum. Þáttaskil í fánamálinu Þá er loks að geta þess, sem gerði þáttaskilin í fánamálinu, er sambandslögin gengu í gildi, og Ísland varð frjálst og fullvalda ríki 1. des. 1918. Það verður jafnan talinn einn almerkasti dagur í allri þjóðarsögunni. Sunnudagurinn 1. des. var svo fagur sem fremst má verða um þetta leyti árs. Um há- degisbil var mikill mannfjöldi saman kominn við stjórnarráðshúsið, en þar fóru aðalhátíð- arhöldin fram. Aðalræðuna flutti Sigurður Eggerz, settur forsætisráðherra. Hann var málinu gagnkunnugur, enda barist mikið í þessu máli og lagt mikið í sölurnar fyrir mál- staðinn. Hann sagði: „Í dag byrjar ný saga, saga hins viðurkennda íslenska ríkis.“ Þegar ráðherrann vék að fánamálinu, sagði hann: „Í gær hefur konungur gefið út úrskurð um þjóðfána Íslands, sem blaktir frá því í dag yfir hinu nýja ríki. Fáninn er tákn fullveldis vors. Fáninn er ímynd þeirra hugsjóna, sem þjóð vor á fegurstar. Hvert stórverk, sem unnið er af oss, eykur veg fánans. Hvort sem það er unnið á höfunum í baráttunni við úfnar öldur, eða á svæði framkvæmdanna, eða í vís- indum og fögrum listum. Því göfugri sem þjóð vor er því göfugri verður fáni vor. Vegur hans og frami er frægð vor og konungs vors. ...Vér biðjum alföður að hjálpa oss til að lyfta fán- anum til frægðar og frama. Gifta lands vors og konungs vors fylgi fána vorum. Svo drögum vér fánann að húni.“ (Öldin okkar.) Í sama bili sveif íslenski ríkisfáninn að hún á stjórnarráðshúsinu. Og um sama leyti voru fánar dregnir að hún víðs vegar um bæinn. Áður en lengra er haldið, er rétt að minna á, að vér vorum þá í konungssambandi við Dani og til 17. júní 1944, þó konungsveldi Dana væri oft erfitt Íslendingum, þá reyndist kon- ungur og stjórnvöld oss þarna vel, er á hólm- inn var komið. Þegar litið er yfir þessi ummæli Sigurðar Eggerts um þjóðfánann, kemur í ljós hvað þau eru keimlík játningu Einars Benediktssonar um Hvítbláinn. Þar svífur sami andinn yfir vötnum, enda var um að ræða tákn fyrir þjóð- ina í báðum tilfellum. Með þökk og virðingu Það sem einna fyrst kemur fram við athugun á gildistöku sambandslaganna, daginn sem þjóðin verður frjáls og fullvalda, 1. desember 1918, er, að þá er vígsludagur þjóðfánans í orðsins fyllstu merkingu. Nú eru rúm áttatíu og fimm ár frá því þetta gerðist og hálfu ári betur. Fullveldisdagsins minnumst vér með mikilli þökk og virðingu, og af framan sögðu höfum vér jafn mikið og jafnvel ekki síður til- efni til að minnast dagsins þjóðfánans vegna, er hann var vígður og í fyrsta sinn dreginn að húni á stjórnarráðshúsinu, vegna þeirrar full- gildu og almennu þýðingar, sem hann hefur fyrir hvern Íslending, hvar sem hann er staddur og hvernig, sem högum vorum er háttað. Aldarfjórðungi síðar kom annar stærsti dagur fullveldisins, sem fullkomnaði það, er sá fyrri hafði lagt grundvöllinn að, sjálf lýðveld- istakan. Báðum þessum dögum er þjóðfáninn svo fast tengdur, sem hugsast getur. Sama daginn, 17. júní 1944, er lýðveldistakan fór fram á Þingvöllum verður það á þeim stað og sama dag hið fyrsta verk hins fyrsta forseta, Sveins Björnssonar, að undirrita lögin frá Al- þingi um hinn íslenska þjóðfána. Hvað er þjóðfáninn? Hann sýnir það, sem sagt er og sungið í þjóðsöngnum og innsiglað í stjórn- arskránni, 62. og 63. grein: Kristur er vor drottinn – siðferðið góða – allsherjarregluna. Hér tengist hvert öðru eins og hlekkir í keðju líkt og nútíð og framtíð – fullveldið – lýðveldið – tenging lands og þjóðar sem hver dagurinn af öðrum tengist hinu ókomna. Fáninn er ímynd, tákn um eyju, sem varð til af eldgosum og ísbreiðum í úthafi, þar sem blámóðan ríkir yfir og allt um kring, þar sem býr þjóð, er hef- ur tileinkað sér að lifa í og fyrir hinn fórnandi kærleik Guðs í Kristi. Fáninn og friðarboginn Hátíðarblærinn yfir 1. desember hefur eilítið farið dvínandi sem fullveldisdagur vegna þess, að þar er um einn tiltekinn atburð að ræða í sögunni, svo stór sem hann er, þá vill hann sem slíkur fara inn í 17. júní, en sem flagg- dagur er hann alltaf jafn nýr sem og fáninn fyrir augum vorum. Svo heillaður, sem ég var af Hvítbláinn, þá hefur hinn þríliti íslenski þjóðfáni náð enn lengra í þá átt, hvort sem hann blaktir einn sér eða meðal annarra þjóð- fána. Það eru litirnir og samræmið í þeim sem er svo undurfagurt og geislandi. Það er greini- lega „rauða krossinum“ að þakka. Það vekur alltaf jafnmikla lotningu að horfa á fánann. Þegar hann var mjög á dagskrá nýverið vegna merkra tímamóta, bæði 85 ára afmælis full- veldisins og atburða, sem af því hafa leitt inn- anlands, í almennum umræðum. Áhugi minn vaknaði á því að yrkja um fánann. Þá fann ég líka samlíkingu með honum og friðarboganum marglita ( 1. Móseb. 9:13) sem birtist oss í þessum heimshluta með sína þýðingu og augnayndi, sem ljóðið bendir til og hefst á: Til þjóðfánans Lag: Ó, fögur er vor fósturjörð Sem friðarbogi í skýjum skín svo skartar Íslands fáni. Þitt útlit geislar – ásýnd þín, hér eins og sól og máni. Og fjallabláminn, helgist hann sem hvítt og rautt kross merkið. Næst jökulísnum eldhraun brann er Ísland kraftaverkið. Hann þjóðar tákn er það til sanns – að því vér skulum hyggja. – Á kristnum grunni Guðs og manns er gott að mega byggja. Ein er fánans leið ei löng þó leið er hugsvið þegna. í heila eða hálfa stöng er hafinn upp þess vegna. Skín yfir fáni Alþingis, og æðst á vakt þar standi, til forsjónar og fulltingis, hann fyrir þjóð og landi. Í musterum, og menntasal, á miðum – landsbyggð yfir, á ystu strönd sem innst í dal, þar eins vor fáninn lifir. Hann ruddi braut – Jón Sigurðsson vor sómi – lands og þjóðar. Og frelsið kom, hans fremsta von, var fáninn vígður óðar. Ó, vernda Drottinn borg sem byggð, og bæði loft og sæinn. Þín eilíf varir ást og tryggð, þú Íslands blessar daginn. „Fáninn er ímynd þeirra hugsjóna sem þjóðin á fegurstar“ Morgunblaðið/Golli Morgunblaðið/Jónas Erlendsson Finna má samlíkingu með íslenska fánanum og friðarboganum marglita. „Í dag byrjar ný saga, saga hins viðurkennda íslenska ríkis,“ sagði Sigurður Eggerz, settur forsætisráðherra, meðal annars 1. desember 1918 um leið og íslenski ríkisfáninn var dreg- inn að húni í stjórnarráðshúsinu. Greinarhöf- undur rifjaði upp fánamálið og orti ljóð fán- anum til dýrðar. Höfundur er biskup. Eftir Pétur Sigurgeirsson

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.