Morgunblaðið - 08.09.2004, Qupperneq 10
FRÉTTIR
10 MIÐVIKUDAGUR 8. SEPTEMBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ
STJÓRNENDUR Símans hafa sent
frá sér fréttatilkynningu, þar sem
áréttað er að markmið kaupa fyr-
irtækisins á Fjörni ehf. sé að auka
verðmæti Símans og skila arði til
eigenda hans. Fréttatilkynningin er
svohljóðandi:
„Vegna umfjöllunar að undan-
förnu um kaup Símans á Fjörni ehf.
vilja stjórnendur Símans árétta eft-
irfarandi:
Markmiðið með kaupum Símans á
eignarhaldsfélaginu Fjörni ehf. er
að stuðla að því að fjárfesting Sím-
ans í fjarskiptakerfum um land allt
skili hámarksarði til eigenda félags-
ins og að auka verðmæti félagsins,
m.a. í ljósi fyrirhugaðrar sölu þess.
Stjórn fyrirtækisins, sem kosin er á
aðalfundi, tók ákvörðun um þessi
viðskipti ásamt forstjóra.
Á undanförnum árum hefur Sím-
inn unnið ötullega að því að byggja
upp fullkomin fjarskiptakerfi sem
þjóna tugþúsundum viðskiptavina
vítt og breitt um landið. Síminn hef-
ur byggt upp GSM og NMT kerfi
sem samtals ná til 99% þjóðarinnar,
ADSL þjónustu sem nær til 92%
þjóðarinnar og ISDN þjónustu sem
nær til um 99,6% þjóðarinnar, auk
þess sem sjónvarpsþjónusta á ljós-
leiðaraneti Símans nær til um 35.000
heimila.
Dreifing á stafrænu sjónvarpsefni
um fjarskiptanet Símans er ný
tækni sem eykur möguleika á nýt-
ingu á fjarskiptakerfunum. Aukin
nýting eykur möguleika á því að
hagkvæmt verði að efla dreifikerfi
fyrirtækisins enn frekar, sem m.a.
mun koma íbúum í fámennari
byggðarlögum til góða.
Rekstur fjarskiptaþjónustu tekur
örum breytingum og skilin milli fjar-
skiptaþjónustu og afþreyingarþjón-
ustu eru óðum að hverfa, jafnt hér á
landi sem erlendis. Stjórnendur
Símans telja að kaupin á Fjörni séu
rökrétt skref í þá átt að tryggja
áfram sterka stöðu Símans á ís-
lenskum fjarskiptamarkaði. Með
kaupunum gefst Símanum möguleiki
á að dreifa vinsælu afþreyingarefni
um dreifikerfi sín, sem að mati
stjórnenda félagsins er ein forsenda
þess að Síminn geti áfram verið í
fremstu röð fyrirtækja á þessum
markaði.
Síminn mun áfram leita leiða til að
bæta nýtingu fjarskiptakerfa sinna
um allt land, m.a. með samningum
við önnur fyrirtæki um dreifingu á
afþreyingarefni. Kaup Símans á
Fjörni munu ekki hafa nein áhrif á
þjónustu Símans við önnur fyrirtæki
á þessu sviði og verður öllum við-
skiptavinum tryggður jafn aðgangur
að dreifikerfum fyrirtækisins.
Síminn hefur gert ráðstafanir til
að tryggja að rekstur Breiðvarpsins
sé aðgreindur frá öðrum rekstri
Símans, í samræmi við fjarskiptalög
og ákvörðun samkeppnisráðs frá
1998. Síminn hefur bæði upplýst
Póst- og fjarskiptastofnun og Sam-
keppnisstofnun um hvernig staðið er
að þessari aðgreiningu. Reiknings-
skil Breiðvarpsins eru í samræmi við
lög um ársreikninga og góða reikn-
ingsskilavenju. Þess misskilnings
hefur gætt að ákvörðun samkeppn-
isráðs frá 1998 snúi að ljósleiðar-
aneti Símans, oft nefnt Breiðband.
Hið rétta er að hann snýr eingöngu
að fjárhagslegum aðskilnaði Breið-
varps sem er sjónvarpsþjónusta
Símans.“
Yfirlýsing frá Símanum um kaupin á Fjörni ehf.
Markmiðið að auka arð-
semi og verðmæti Símans
BORGARFULLTRÚAR Sjálfstæð-
isflokksins lögðu fram tillögu á
fundi borgarstjórnar í gær þess efn-
is að hefja undirbúning að sölu á öll-
um hlut Reykjavíkurborgar í Véla-
miðstöðinni ehf. og
Malbikunarstöðinni Höfða ehf. Var
henni vísað til borgarráðs að tillögu
Þórólfs Árnasonar borgarstjóra.
Þórólfur sagði eðlilegt að skipa
verkefnisstjórn til að skoða hvort
breyta þyrfti öðrum rekstri á veg-
um borgarinnar samhliða breyting-
um á rekstri þessara tveggja fyr-
irtækjum. Á verkefnisstjórnin, að
tillögu borgarstjóra, að kanna
hvernig losa megi Reykjavíkurborg
út úr rekstri Vélamiðstöðvarinnar
og Malbikunarstöðvarinnar Höfða
án þess að hagsmunir hennar sem
kaupanda þjónustunnar væru fyrir
borð bornir.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, odd-
viti Sjálfstæðisflokksins, gerði grein
fyrir tillögunni og sagði að Reykja-
víkurborg ætti að draga saman
seglin á samkeppnismarkaði. Leyfa
ætti fyrirtækjum að keppa um að
veita þjónustu fyrir borgina á sem
hagkvæmastan hátt.
Björn Bjarnason, borgarfulltrúi
Sjálfstæðisflokks, fagnaði ræðu
borgarstjóra og sagðist þeirrar
skoðunar að stefna ætti að sölu
þessara tveggja fyrirtækja. Reynsla
ríkisstjórnarinnar sýndi að skyn-
samlegt væri að losa fyrirtæki und-
an opinberum afskiptum þegar þau
væru í þeim aðstæðum að keppa við
einkafyrirtæki. Ekki ætti að setja á
laggirnar nefndir til að rannsaka
neitt í þessum efnum heldur til að
framkvæmda á sama veg og einka-
væðingarnefnd hefði gert á vegum
ríkisins.
Þórólfur hafði þá bent á að bæði
Vélamiðstöðin og Malbikunarstöðin
störfuðu á fákeppnismarkaði og
vera þeirra á markaðnum efldi sam-
keppni á þessum sviðum. Fá fyr-
irtæki veittu gámaflutningaþjón-
ustu eins og Vélamiðstöðin. Gæta
þyrfti að hagsmunum Sorpu sem
Reykjavíkurborg ætti stærstan
hluta í. Malbikunarstöðin Höfði
væri annar af tveimur langstærstu
aðilunum á því sviði á suðvestur-
horni landsins. Reykjavíkurborg
yrði að tryggja að hún yrði ekki
undirseld einokun losaði hún sig við
fyrirtækið.
Björn Bjarnason kom að því að
selja Skólavörubúðina og sagði
hann það hafa verið eina fyrirtækið
sinnar tegundar á þeim tíma. Marg-
ir hefðu talið það fara gegn hags-
munum skólanna að fyrirtækið yrði
ekki lengur í eigu ríkisins. Annað
væri uppi á teningnum eftir sölu
fyrirtækisins til einkaaðila. Þau rök
verkuðu því ekki sterkt á hann að fá
fyrirtæki störfuðu á sama sviði og
Vélamiðstöðin og Malbikunarstöðin
og því bæri að fara varlega.
Morgunblaðið/Þorkell
Stefán Jón Hafstein og Stefán Jóhann Stefánsson, borgarfulltrúar R-
listans, bera saman bækur á fyrsta fundi borgarstjórnar eftir sumarleyfi.
Verkefnisstjórn undirbúi
sölu Vélamiðstöðvarinnar
BJÖRK Vilhelmsdóttir, borg-
arfulltrúi Vinstri grænna og
formaður félagsmálaráðs
Reykjavíkurborgar, vísaði
ásökunum Ögmundar Jónas-
sonar, þingmanns Vinstri
grænna, þess efnis að borgaryf-
irvöld væru að bera fársjúkt
fólk út á götu, á bug í ræðustól
borgarstjórnar í gær. Sagðist
hún hafa svarað gagnrýni Ög-
mundar opinberlega en gæti
ekki rætt málefni einstaklings á
opnum fundi borgarstjórnar.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson,
oddviti Sjálfstæðisflokksins í
borgarstjórn, fór fram á utan-
dagskrárumræðu um málefni
húsnæðislausra í Reykjavík í
gær. Sagði hann ásakanir Ög-
mundar alvarlegar og þetta
væri ekki bara einhver þing-
maður, eins og Björk hefði
haldið fram, heldur þingflokks-
formaður Vinstri grænna og
formaður Bandalags ríkis og
bæja (BSRB).
„Að borgarfulltrúinn vilji
ekki tjá sig um þessar alvarlegu
ásakanir tel ég gagnrýnivert,“
sagði Vilhjálmur. „Ég tel auð-
vitað að formaður félagsmála-
ráðs og borgarfulltrúinn, Björk
Vilhelmsdóttir, eigi að tjá sig
um það þegar slíkar ásakanir
eru bornar á hendur okkar
sveitarfélags í þessum efnum.“
Spurði Vilhjálmur hvort það
gæti farið svo að einhver ein-
staklingur borgaði Reykjavík-
urborg ekki leigu fyrir afnot af
íbúð í tíu ár. Vildi hann fá upp-
lýst hvernig brugðist væri við
langvarandi vanskilum. Björk
sagði að ýtarlegt svar við því
yrði lagt fram á fundi félags-
málaráðs.
Vísaði
ásökunum
Ögmundar
Jónassonar
á bug
„ÞEIR sem hafa komið til landsins
selja helmingi meira en þeir sem
ekki hafa komið,“ segir Baldvin
Jónsson, framkvæmdastjóri
Áforma, um rúmlega 30 bandaríska
og danska kaupmenn sem hér eru
staddir til að kynna sér búskap
sauðfjárbænda og íslenska sveita-
menningu.
Baldvin segir að ásamt fjölmiðla-
mönnum frá Bandaríkjunum og
Danmörku muni kaupmennirnir
taka þátt í göngum og réttum í
Gnúpverjahreppi og gæða sér á
kjötsúpu á Flúðum, svo eitthvað sé
nefnt.
Áform hafa um árabil fengið er-
lenda fjölmiðlamenn til landsins til
að vekja athygli á landbúnaði. Að
þessu sinni er hingað komið tökulið
frá bandaríska almennings-
sjónvarpinu PBS til að gera sjón-
varpsþátt um kokkinn Jeff Tunks
sem rekur þrjá veitingastaði í
Washington D.C. og verður þar
fjallað um sjálfbæran íslenskan
landbúnað og fiskveiðar. Hyggjast
þeir róa til fiskjar með trillukörlum
á Austfjörðum í dag. Einn helsti
fréttamaður CBS-sjónvarpsstöðv-
arinnar, James Adams, sé einnig að
kanna hvaða möguleikar séu fyrir
fréttaumfjöllun um Ísland. Að auki
eru blaðamenn frá dönsku blöð-
unum BT og Börsen og tveimur
virtum útvarpsstöðvum í Banda-
ríkjunum með í för. Baldvin segir
að allt sé þetta fólk hingað komið
fyrir tilstilli Áforma.
Ódýrara en auglýsingar
„Þetta er auðvitað ódýrara en að
kaupa auglýsingar í fjölmiðlum,“
segir Baldvin og bætir við að fjár-
munir til auglýsinga séu af af-
skaplega skornum skammti.
Baldvin bendir á að á þessu ári sé
íslenskt lambakjöt selt í 111 versl-
unum Whole-Foods verslanakeðj-
unnar sem, samkvæmt New York
Times, séu dýrustu og virtustu mat-
vöruverslarnir í Bandaríkjunum. Í
Danmörku verði hægt að fá íslenskt
lambakjöt í 150 verslunum. Um 20
veitingastaðir á austurströnd
Bandaríkjanna og þrír af vinsæl-
ustu veitingastöðunum í Kaup-
mannahöfn muni einnig bjóða upp á
íslenskt lambakjöt.
Kaupmenn og kokkar kynna sér íslenskan landbúnað
Selja meira eftir Íslandsheimsókn
Morgunblaðið/RAX
STJÓRN Heimdallar tekur heils
hugar undir nýbirtar tillögur nefnd-
ar forsætisráðuneytisins um úrbæt-
ur til þess að jafna réttarstöðu sam-
kynhneigðra og gagnkynhneigðra í
samfélaginu og hvetur til þess að
lögum um staðfesta samvist verði
breytt þannig að samkynhneigðum
pörum í staðfestri samvist verði
heimilað að frumættleiða börn.
Nefnd forsætisráðuneytisins
klofnaði í afstöðu sinni til þess hvort
heimila ætti ættleiðingar samkyn-
hneigða para á erlendum börnum
eða tæknifrjóvganir samkvæmt
tæknifrjóvgunarlögum til tveggja
kvenna í staðfestri samvist.
„Stjórn Heimdallar telur engin
rök til þess að gera greinarmun á ís-
lenskum og erlendum börnum í
þessu sambandi og telur að heimila
eigi tæknifrjóvganir til kvenna í
staðfestri samvist.
Þá tekur stjórn Heimdallar undir
tillögur nefndarinnar um það að
gerðar verði nauðsynlegar laga-
breytingar til þess að tryggja að
samkynhneigð pör geti stofnað til
sambúðar með sömu réttaráhrifum
og gagnkynhneigð pör.
Stjórn Heimdallar hvetur alþing-
ismenn til þess að beita sér fyrir
nauðsynlegum breytingum á lögum í
samræmi við tillögur nefndarinnar,
sem miða að því sjálfsagða markmiði
að samkynhneigðir og gagnkyn-
hneigðir búi við sömu réttarstöðu,“
segir í ályktun frá Heimdalli.
Heimdallur
Styður tillög-
ur um réttar-
stöðu sam-
kynhneigðra
TYRKNESKT fyrirtæki, SA-RA,
átti lægsta tilboð í stálmöstur Fljóts-
dalslínu 3 og 4, sem ætlað er að flytja
raforkuna frá Kárahnjúkavirkjun að
álveri Alcoa í Reyðarfirði. Megintil-
boð Tyrkjanna var upp á 479 millj-
ónir króna en frávikstilboð var nærri
sjö milljónum lægra. Tilboð SA-RA
er um 77% af kostnaðaráætlun
Landsvirkjunar upp á 623 milljónir.
Alls bárust tilboð frá fimm erlend-
um fyrirtækjum, en áður hafði tíu
fyrirtækjum verið boðið að taka þátt
í lokuðu útboði. Tilboð komu frá fyr-
irtækjum í Króatíu, Slóvakíu og á
Spáni, auk Tyrklands. Næstlægsta
boð var upp á 574 milljónir en hið
hæsta upp á 862 milljónir króna.
Fljótsdalslína 3 verður um 50 km
löng með 159 möstrum en Fljóts-
dalslína 4 verður 53 km með 166
möstrum. Alls eru möstrin því 325 og
20–37 metrar á hæð.
Tyrkir
buðu lægst
í möstrin