Morgunblaðið - 08.09.2004, Síða 24

Morgunblaðið - 08.09.2004, Síða 24
MINNINGAR 24 MIÐVIKUDAGUR 8. SEPTEMBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ Á sokkabandsárum mínum lenti ég í miklu áfalli. Ég náði þó að komast í gegn- um það án neinna gríðarlegra skemmda á sál minni. Fyrir það er ég gríðarlega þakk- látur. Þetta „afrek“ mitt hefur orðið til þess að fólk leitar stund- um til mín til að fá ráð í sorg eða erfiðleikum. Eins og ég viti nokk- urn skapaðan hlut. Ég er ekki hrifinn af því að gefa fólki ráð, en þegar ég ræði við fólk í fullri ein- lægni um erfiða reynslu og áföll hef ég eina ábendingu sem ég get ófeiminn gefið. Hún er eftirfar- andi: „Hetja er ekki sá sem aldrei bognar und- an álagi eða áföllum. Hetja er sá sem leyfir sér að bogna en getur staðið upp aftur eftir áföllin, þó það taki langan tíma. Sá sem ekki bognar, brotnar á endanum og þá er skaðinn oft meiri en mögulegt er að bæta. Fyrir alla muni, leyfðu þér að líða illa, leyfðu þér að þjást og gráta og faðmaðu sorgina, því ef þú afneitar sársaukanum mun ígerðin valda þér meiri skaða en þú getur ímyndað þér.“ Svona einhvern veginn hljóma ráð mín, afar almenns eðlis. Þeim er einungis ætlað að hvetja ein- staklinginn til að taka sorg sinni og lifa með henni. Því afneitunin er verri en nokkur sorg. Hún get- ur eitrað fyrir fleirum en manni sjálfum. Maðurinn á sér marga dásam- lega lesti. Þó held ég að ég sé ekki að gera lítið úr neinum þeirra þegar ég nefni breyskleikann þeirra fremstan í flokki og frá- bærastan af öllum. Það er í breyskleikanum sem kjarni mannsins kemur fram. Hin dásamlega órökrétta hegðun mannsins í breyskleika sínum kallar fram jafnt það besta og versta í okkur. Breyskleikinn, tímabundin afneitun hins rök- rétta, hins skynsama, leiðir af sér ofbeldi, ástríður, sköpunarkraft, þjáningu, gleði, samviskubit og í kjarna sínum ófyrirsjáanlegar af- leiðingar. Það er í breyskleik- anum sem flest öll meistaraverk mannanna hafa orðið til. Breysk- leiki mannanna eitraði fyrir Sókr- atesi og fæddi af sér heimspeki- hefðina, negldi Krist á krossinn, olli seinni heimsstyrjöldinni og hippatímabilinu, gaf okkur rokkið, djassinn, Pink Floyd, Miles Davis, Bítlana og Bubba Morthens. Breyskleikinn hefur getið af sér endalausa keðju ástarævintýra, svika, laumuspils, morða, þjófn- aðar, svindls og uppfinninga. Breyskleikinn er holdgervingur fjölbreytni manna. Það er í brest- um mannsins sem framfarirnar og hið litríka dvelur. Hefur einhver heyrt um sögu af hinum brestalausa og dyggðuga manni sem aldrei gerði neitt rangt? Ég veit um eina sögu. „To kill a Mockingbird“ fjallar um Atticus Finch, sem er dásamlegur maður, en allt í kringum hann er það breyskleikinn sem litar sög- una og gerir hana að því dásam- lega meistaraverki sem hún er. Breyskleikinn er í öllum sögum og ljóðum, allri sköpun. Hann er kryddið sem gefur lífinu bragð. Breyskleikinn er litarefni heims- ins. Án hans væri lífið litlausara og leiðinlegra en mögulegt er að tjá með orðum, fullt af hreinum og beinum leiðindaskörfum. En breyskleikinn er hins vegar tvíeggjað sverð. Hann getur bæði verið uppspretta sköpunar og eyðileggingar. En hvað er það sem úrskurðar um hvort afleið- ingar breyskleika verða jákvæðar eða neikvæðar, dimmir eða bjartir litir í málverki mannkyns? Ég held að það sé nokkurs konar iðr- un eða samviska. Þegar ein- staklingur finnur að hann hefur gert rangt hefur hann um tvennt að velja. Annaðhvort viðurkennir hann breyskleika sinn og leitar leiða til að glíma við hann eða þá að hann fer út í réttlætingar á gjörðum sínum og afneitar því að hann hafi breytt í breyskleika. Glöggir lesendur taka kannski eftir vissu samhengi við síðustu skrif mín um breyskleika og rétt- lætingu. „En hvað hefur þetta að gera við áföll og hetjuskap?“ gætu sumir spurt. Og mér sýnist svarið nú þegar komið. Rétt eins og þeir sem bogna en rétta aftur úr sér geta þeir sem sætta sig við breyskleikann og reyna að gera hann upp innra með sér gert heiminn að betri stað og breysk- leikann sjálfan að uppsprettu sköpunar og jákvæðni. Þeir sem ekki bogna, þeir sem ekki við- urkenna breyskleikann, heldur réttlæta gjörðir sínar endalaust og moka yfir illa lyktandi afleið- ingar gjörða sinna, valda hins veg- ar bæði sjálfum sér og öðrum skaða. Breyskleikinn er nefnilega áfall sem krefst þess að einstakling- urinn vinni í honum og virki hann til góðs. Áföll geta verið misstór og smæstu augnablik breyskleik- ans geta verið lítilfjörleg og til lít- ils að hafa áhyggjur af þeim, en þó er alltaf mikilvægt að horfast í augu við breyskleikann og rétt- læta ekki gjörðir sínar eftir á. Það er eins og að afneita áfalli, að af- neita sorginni. Ég hef sjálfur reynt að virkja mitt áfall til góðra verka og þegar skynsemi mín bregst (a.m.k. daglega) reyni ég á sama hátt að finna eitthvað gott, einhvern lærdóm sem ég get dregið af útafsporinu. Breyskleikinn er tækifæri, hann er breytileiki sem getur orð- ið til góðs og ills. Viðurkenningin er lykillinn að því að nýta hann til góðs. Við þurfum ekki endilega að hrópa syndajátningar okkar út yf- ir land og þjóð, en við þurfum í hverju falli að viðurkenna breysk- leikann fyrir okkur sjálfum og reyna að finna leiðir til að virkja hann til góðs. Kannski verður allur breysk- leiki til góðs. Kannski verður lær- dómur alltaf dreginn af brest- unum. En það er verra ef fjöldi fólks þarf að þjást fyrir afneit- unina. Virkjum breyskleikann Hetja er ekki sá sem aldrei bognar und- an álagi eða áföllum. Hetja er sá sem leyfir sér að bogna en getur staðið upp aftur eftir áföllin, þótt það taki langan tíma. Sá sem ekki bognar, brotnar á endanum og þá er skaðinn oft meiri en mögulegt er að bæta. VIÐHORF Eftir Svavar Knút Kristinsson svavar@mbl.is ✝ Helga Sigurðar-dóttir fæddist í Reykjavík 21. mars 1919. Hún lést á Landakotsspítala 30. ágúst síðastliðinn. Foreldrar Helgu voru Sigurður Ey- leifsson skipstjóri, f. í Gestshúsum á Sel- tjarnarnesi 6. júlí 1891, d. 17. ágúst 1975 og Einhildur Þóra Jónsdóttir hús- móðir, f. í Hafnar- firði 25. júní 1886, d. 5. mars 1924. Seinni kona Sigurðar var Ólafía Stein- unn Ingimundardóttir, f. 1893, d. 1983. Alsystkini Helgu eru: Krist- jana Margrét, f. 1916, Sigurður, f. 1922 og Þóra Einhildur, f. 1923. Hálfsystkini Helgu samfeðra eru: Arinbjörn, f. 1928 og Ingibjörg, f. 1932. Helga giftist 11. janúar 1953 eftirlifandi eiginmanni sínum Lárusi B. Björnssyni yfirverk- stjóra, f. 18. apríl 1923. Foreldrar hans voru Björn Magnússon, f. á Gils- stöðum í Vatnsdal, A-Hún. 12. ágúst 1876, d. 25. október 1949 og Ólafía Guð- rún Lárusdóttir, f. í Selárdal í Arnarfirði 11. september 1879, d. 26. ágúst 1954. Börn þeirra eru: 1) Þórhildur, f. 1953, maki Vilmundur Jós- efsson, f. 1949, börn þeirra eru Arnar Freyr, f. 1974, Helga Guðrún, f. 1979, unnusti Hallgrímur Björns- son, f. 1980 og Styrmir Örn, f. 1991. 2) Ólafur Björn, f. 1958, maki Ásgerður Hallgrímsdóttir, f. 1962, börn þeirra eru Lárus Helgi, f. 1987, Þorgrímur Smári, f. 1990 og Bergsveinn, f. 1992. Útför Helgu fer fram frá Dóm- kirkjunni í Reykjavík í dag og hefst athöfnin klukkan 15. Góð kona er gengin á vit formæðra og feðra sinna. Í dag kveðjum við tengdamóður mína Helgu Sigurðardóttur hinstu kveðju. Fyrir rúmum þrjátíu árum var ég kynntur fyrir tilvonandi tengdafor- eldrum mínum, Helgu og Lárusi. Eins og vænta mátti fann ég til kvíða. Hvernig yrðu móttökurnar? Kvíðinn var með öllu óþarfur. Hlýja og um- hyggja umvafði mig frá fyrstu kynn- um. Þessu heimili var greinilega gott að tengjast. Helga bjó í 80 ár á Sólvallagötu 5a í Reykjavík. Þar lifði hún og hrærðist í rótgrónu hverfi. Vesturbærinn og miðbærinn voru hennar uppáhalds- hverfi. Þar var festa og reglusemi sem ein- kenndi líf hennar alla tíð. Nágrann- arnir á Sólvallagötunni bjuggu þar flestir áratugum saman og því var þarna gott og traust samfélag Helga starfaði sem hágreiðslumeistari en við fæðingu frumburðarins, Þórhild- ar, skipti hún yfir í hlutverk húsmóð- urinnar sem varð ævistarf hennar upp frá því. Húsmóðurhlutverkinu sinnti Helga með einstökum hætti. Velferð fjölskyldunnar var henni heilög. Yfir henni var hún vakin og sofin. Í hennar augum var enginn bón svo stór að hún legði það ekki á sig að reyna að uppfylla óskina. Helga setti sjálfa sig aldrei fremst í forgangsröð. Allir aðrir höfðu forgang. Barnabörn- in áttu alltaf athvarf hjá ömmu á Sóló og til hennar leituðu þau ætíð, jafnt eftir að sum voru komin á fullorðins- aldur. Alltaf var til eitthvað gott í gogginn en umfram allt var hlýjan og ástúðin ætíð til staðar. Ég þakka forsjóninni fyrir að hafa átt Helgu fyrir tengdamóður og þakka henni samfylgdina. Megi minn- ing hennar lifa. Vilmundur Jósefsson. Mig langar til að minnast tengda- móður minnar Helgu Sigurðardóttur með fáeinum orðum. Fyrir tuttugu og þremur árum fórum við Óli Björn sonur hennar að rugla saman reitum. Helga og Lalli buðu mig velkomna í fjölskylduna. Helga bætti við að nú væri hún búin að eignast aðra dóttur. Það er það fallegasta sem tilvonandi tengdadóttir getur fengið að heyra. Við Óli hófum okkar búskap í kjall- aranum á Sólvallagötunni og bjugg- um þar í fimm ár. Alltaf var Helga til staðar til skrafs og ráðagerða og ófá hlátursköstin fengum við af hinu minnsta tilefni. Þau hjónin áttu myndarlegt heimili og ekki skorti neitt á þeim bæ enda þótt nægjusem- in væri í fyrirrúmi. Helga var frábær hárgreiðslukona, kokkur og bakari. Hún var afskaplega fótfrá og hljóp létt allar fjórar hæðirnar á Sóló alveg fram á síðustu ár enda góð í leikfimi í gamla daga. Helga hafði til að bera einstaklega mikla og góða mannkosti. Hún var kærleiksrík, fyndin, brosmild og góð. Hún hafði þann hæfileika að sjá björtu hliðarnar á öllum hlutum og smita aðra í kringum sig með brosinu sínu bjarta. Í félagslegum samskiptum var hún einkar lagin og gat sett sig í spor ann- arra, sama á hvaða aldri þeir voru. Ef um börn var að ræða settist hún á gólfið með þeim og sturtaði úr dóta- kassa til að leika á þeirra forsendum. Við gamalt fólk var hún natin og hug- ulsöm. Menn segja að þeir sem guð- irnir elska deyi ungir. Helga var alltaf ung í anda og tilgangur hennar í þessu lífi var örugglega að kenna okk- ur listina að lifa, að gefa okkur nægan tíma með kærleik í fyrirrúmi. Börnin hennar tvö bera þess merki hversu góður kennari hún var enda bæði lærð og starfandi kennarar. Ég vil þakka Helgu fyrir að vera mamma mannsins míns, tengda- mamma mín og amma barna minna og bið Guð að varðveita hana. Elsku Lalli. Guð blessi þig og styrki í sorginni. Vertu yfir og allt um kring með eilífri blessun þinni, sitji Guðs englar saman í hring sænginni yfir minni. (Sig. Jónsson frá Presthólum.) Ásgerður Hallgrímsdóttir. Amma Helga var svo ljúf og góð. Við minnumst hennar með gleði. Hún átti hlýtt faðmlag og var alltaf til stað- ar fyrir okkur. Það var gaman að fara með henni í bíltúr og hlusta á hana syngja. Helga amma var skemmtileg og hún átti það til að fara með okkur í boltaleik. Alltaf átti amma eitthvað gott í ísskápnum, t.d. ís og gos. Hún kvartaði aldrei og hélt alltaf sinni reisn. Falleg var hún amma. Við hefð- um viljað eiga hana lengur hjá okkur en skiljum að hún þurfti að fara. Við eigum ljúfar minningar með henni og afa og það tekur enginn frá okkur. Elsku afi. Guð veri með þér um alla tíð. Láttu nú ljósið þitt loga við rúmið mitt. Hafðu þar sess og sæti, signaði Jesús mæti. (Höf. ók.) Ömmustrákarnir Lárus Helgi, Þorgrímur Smári og Bergsveinn Ólafssynir. Í dag kveðjum við mæðgurnar Helgu Sigurðardóttur og þökkum alla HELGA SIGURÐARDÓTTIR ✝ Gunnar JóhannSigurjónsson, fæddist á Akureyri 3. ágúst 1925. Hann lést á Fjórð- ungssjúkrahúsinu á Akureyri 28. ágúst sl. Foreldrar hans voru Sigurjón Bene- diktsson f. 19.8. 1882, d. 27.10. 1973, og Indiana Davíðs- dóttir f. 17.3. 1896, d. 3.1. 1989. Systk- ini Gunnars eru Helga f. 1921, Sig- urlína f. 1923, og samfeðra er Helgi f. 1919. Börn Gunnars og Jóhönnu Tómas- dóttur f. 19.4. 1929 eru Sigur- laug Þóra f. 08.12. 1950, maki Trausti Jóhannsson hún á 3 börn og 3 barnabörn. Tryggvi f. 1.5. 1953. hann á 2 börn. Gunn- ar Jóhann f. 4.10. 1954. Sigríður Dóra f. 14.1. 1956. Gunn- hildur f. 11.11. 1957, d. 25.12. 1957. Sigurjón f. 11.02. 1959 maki Elín Harðardóttir þau eiga 2 syni. Gunnhildur Harpa f. 10.3. 1961. Guð- mundur Tómas f. 16.12. 1964 maki Kristina Pere þau eiga 1 son. Gunnar vann mestallan sinn starfsaldur hjá Kaupfélagi Eyfirðinga. Hann keppti á sínum yngri árum fyrir íþróttafélagið Þór og var alla tíð mikill stuðningsmaður þess. Útförin fer fram frá Akureyr- arkirkju í dag miðvikudaginn 8. september kl. 13–30. Elsku afi og nafni. Það var slæmt að frétta að þú værir veikur. Ennþá verra var að frétta að þú værir dáinn. En nú ertu kominn upp í himnaríki, laus við öll veikindi og verki, hrukkurnar horfnar og þér líður vel. Það finnst mér gott. Ég þakka þér fyrir hvað þú varst góður við mig og frænkur mínar og frændur. Það var gott að eiga þig fyr- ir afa. Ég veit að þú manst að þú ert afi minn hvenær sem er, hvar sem þú ert eða hversu gamall sem þú verður. Kveðja. Gunnar Þór Sigurjónsson. Elsku afi minn. Oft skortir mann orð þegar hlut- irnir gerast hratt. Það gerðist svo sannarlega í þínu tilviki, en af þinni einlægni sofnaðir þú rótt, þú vildir aldrei láta hafa fyrir þér en varst þakklátur fyrir allt sem gert var fyrir þig. Þú sagðir líka við mig að nú væri sumri að ljúka og við tæki veturinn. Þú vissir þá að ekkert var hægt að gera. Í huga mér koma minningarnar fram frá því ég var lítil stelpa, þær varðveiti ég vel. Við töluðum mikið saman síðustu dagana, og meðal annars fræddir þú mig mikið um landið okkar, og sagðir mér frá ferðum sem þú hafðir farið í. En nú ertu farin í ferðina löngu, og ég veit að það hefur verið tekið vel á móti þér, og þú syngur öll uppáhalds lögin þín. Elsku afi, góða ferð. Ég, Kristinn og langafastrákarnir þínir biðjum góðan Guð að varðveita þig og fjölskylduna alla. Hvíl í friði. Stundin líður tíminn tekur toll af öllu hér. Sviplegt brotthvarf söknuð vekur, sorg í hjarta mér. Þó veitir yl í veröld kaldri, vermir ætíð mig að hafa þó á unga aldri eignast vin sem þig. (Hákon Aðalsteinsson.) Þín Hanna Gunnur. GUNNAR JÓHANN SIGURJÓNSSON

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.