Morgunblaðið - 04.07.2004, Blaðsíða 8
8 | 4.7.2004
Þ
að er engin englarödd sem hljómar yfir kröftugu galdrarokki hljómsveit-
arinnar Skandinaviu. Söngkonan hefur heldur ekki gefið sig mikið út fyrir að
syngja á blíðu nótunum. Eliza Newman, betur þekkt sem Eliza Geirsdóttir í
Kolrössu krókríðandi og Bellatrix, leynir þó á sér því síðastliðin ár hefur hún stund-
að nám í klassískum söng í Lundúnum. Þar býður Eliza upp á kaffibolla, á heimili
sínu í gamalgrónu gyðingahverfi í norðvesturhluta borgarinnar. „Ég kom hingað
fyrst fyrir fjórum, fimm árum með hljómsveitinni Bellatrix þegar við fengum plötu-
samning. Þá voru mikil læti og voðalega gaman,“ segir hún. „Við unnum hérna í
næstum tvö ár áður en hljómsveitin fór í pásu sem er enn yfirstandandi. Svo þegar
við hættum ákvað ég að vera hér lengur. Mig langaði að búa hérna og kynnast fólki
og upplifa borgina á persónulegu nótunum því þegar maður er í svona gengi getur
maður bara haldið sig í genginu og kynnist London ekki eins mikið.“
Skömmu eftir að hljómsveitin fór í hvíld hóf Eliza söngnám hjá Sigríði Ellu Magn-
úsdóttur, sem er búsett ytra. „Ég var búin með Söngskólann heima áður en ég kom
út og vissi að hún væri mjög skemmtileg. Hún ákvað að taka mig að sér og við erum
búnar að vinna saman í tvö og hálft ár. Það er búið að vera mjög
gaman og hún er algjörlega búin að breyta röddinni minni.“
Eliza viðurkennir með semingi að vera lýrískur sópran. „Það er
víst en mig langar náttúrulega að vera geðveikt dramatískt lýr-
ísk. Það kemur kannski seinna, þegar ég er búin að stækka að-
eins og bæta við mig.“
Í apríl síðastliðnum hélt Eliza óperutónleika í Lauderdale
House London sem hlutu góðar viðtökur viðstaddra, ekki síst félaga hennar úr
hljómsveitinni Skandinavia en það er hjartabarn söngkonunnar frá upphafi til enda.
„Hljómsveitin er stofnuð í kringum mína hugmynd um rokkhljómsveit. Mig langaði
að setja saman eitthvað spennandi og brjálað. Þetta er svona norrænt-goðafræði-
sögurokk. Að hluta til erum við undir áhrifum frá þjóðlögum og goðsögnum og
þetta er alltaf að verða íslenskara og íslenskara hjá okkur, kannski af því að ég er búin
að vera svo lengi í London. Ég er að reyna að setja saman eitthvert þema í músíkinni
sem endurspeglar brjálæði Íslands en ég veit ekki hvort það hefur tekist, við sjáum
bara til.“ Hún segir þjóðlagarokk Skandinavíu býsna frábrugðið því sem hún hefur
verið að sýsla við í tónlist hingað til. „Samt fór ég eiginlega aftur á byrjunarreit þar
sem Kolrassa byrjaði, þegar hún var í þjóðlegu rokki. Ég tek svolítið út úr því og set
yfir í stærra samhengi.“
Þrír Bretar eru með Elizu í hljómsveitinni, Claire Wakeman á gítar, Martin
Maddaford á bassa og Dave Collinder á trommur. Þau hafa nýlokið við að taka upp
geisladisk en Eliza semur öll lögin á honum, útsetur og hljóðblandar fyrir utan að
syngja og leika á fiðlu. „Ég er algjör einræðisherra í þessu máli sem var aðaláskor-
unin við að gera þetta,“ segir hún. „Við erum með samning við óháð plötufyrirtæki
sem heitir Global Warming en það gaf út fyrstu plötuna með Bellatrix. Platan kemur
út í byrjun september hér í Bretlandi og vonandi á Íslandi á sama tíma. Svo verður
henni dreift í gegn um aðra aðila í Evrópu.“ Það verður því nóg að gera hjá Elizu í
tengslum við þessa útgáfu á næstunni. „Þetta verður mikið stuð. Það sem eftir er af
þessu ári verður lögð áhersla á að koma þessu bandi á framfæri,“ segir hún og við-
urkennir að það sé óttablandin tilhugsun að vera aftur búin að kasta sér út í hringiðu
rokksins.
Eliza segir það henta sér vel að syngja bæði óperutónlist og rokk og að hún eigi
ekki í vandræðum með að skilja þar á milli þegar hún syngur. „Ég nota samt mikið af
óperutækninni í rokkinu, þótt ég syngi alls ekki óperurokk. Hins vegar nota ég
tæknina til að vernda röddina og Sigríður Ella hefur kennt mér nokkur góð trix svo
ég þreytist ekki þegar ég er að syngja. Það hefur verið mjög skemmtilegt fyrir mig því
ég lít á þetta allt sem músík.“ Hún segir Sigríði Ellu ótrúlega jákvæða út í þetta rokk-
brölt á sér. „Hún hefur verið mikill stuðningsmaður í öllu sem ég hef verið að bralla.
Hún hefur komið á rokktónleika og fílar þetta vel. Mér finnst það mjög gott því ég
hef aldrei upplifað áður svona jákvætt viðhorf gagnvart því að vera í bæði óperu og
rokki. En ég ætla bara að sjá hversu langt ég kemst í hvorutveggja og svo tekur bara
annað hvort yfir.“
Hvort verður ofan á er hins vegar ómögulegt að sjá enda er framtíðin hjá Elizu
óskrifuð bók. „Það er líf tónlistarmannsins,“ segir hún og hlær. „Maður tekur bara
einn dag í einu. Mig langar náttúrulega til að þetta litla verkefni mitt gangi vel því að
það er hálfgerð tilraun til að sjá hversu langt ég get farið sem lagahöfundur. Þetta er í
fyrsta skipti sem ég hef virkilega tekið allt að mér.“ Fyrsta skrefið er hins vegar að
koma plötunni út og fylgja henni eftir. „Við munum örugglega verða á einhverjum
tónleikaferðalögum til að kynna plötuna í haust og ég mun örugglega halda áfram að
fara í einhverja tíma í klassíska söngnum. Kannski tek ég einhverja masterklassa til
að sjá hvort hægt sé að temja mig eitthvað meira. En svo sjáum við bara hvað gerist.
Ég hef verið nógu lengi í þessu til að vita að maður veit aldrei – maður verður bara
að grípa tækifærin þegar þau koma og vona að lukkan sé manni hliðholl.“ ben@mbl.is
L
jó
sm
yn
d:
H
el
ga
E
gi
ls
on
Vildi vera geðveikt dramatísk
Eliza María Geirsdóttir Newman er lýrískur sópran og syngur galdrarokk í Lundúnum
„Ég er að reyna að
setja saman eitthvert
þema í músíkinni sem
endurspeglar brjál-
æði Íslands…“