Vikublaðið


Vikublaðið - 19.08.1994, Blaðsíða 3

Vikublaðið - 19.08.1994, Blaðsíða 3
VIKUBLAÐIÐ 19. ÁGÚST 1994 3 Tfl varnar velferðinni - Odd Einar Dorum heldur því fram að spurningin sé ekki hvort heldur hvenær velferðarkerfíð eins og við þekkjum það muni hrynja undan oki atvinnuleysisins - Svarið liggur í að virkja almenning og efla sjálfsvirðingu og sköpunarmátt fólks Odd Einar Dorum starfar fyrir Kirkens Bymisjon í Osló að málefnum þeirra sem allir eru búnir að gefa upp á bátinn. Hann er félagsráðgjafi að mennt og sat um skeið á norska Stórþinginu fyrir Venstre-flokkinn sem þrátt fyrir nafnið er miðjuflokkur. Myndin er tekin fyrir utan Háskólabíó í lok ráðstefnu norrænna félagsmálastjóra. Mynd: -ÞH að er ekki spurning hvort vel- ferðarkerfið í þeirri mynd sem við þekkjum það hrynur heldur hvenær. Atvinnuleysið sem nú ríkir á Norðurlöndum er komið til að vera og það gerir þvílíkar kröfur til velferð- arkerfisins að það mun ekki standa undir þeim. Þess vegna verðurn við að huga að nýjum leiðum til að sinna fé- lagslegri þjónustu. A þessa leið mæltist Oddi Einari Dorum frá Noregi á ráðstefnu nor- rænna félagsmálastjóra sem haldin var í Reykjavík í síðustu viku. Þetta var í fimmta sinn sem ráðstefha af þessu tagi er haldin og í fyrsta sinn sem ís- lenskir félagsmálastjórar eru gestgjaf- ar. Ráðstefnuna sóttu um 200 manns, félagsmálastjórar og aðrir sem að félagslegri þjónustu starfa á Norður- löndum. Viðfangsefni ráðstefnunnar að þessu sinni var atvinnumál og yfir- skrifdn sótt í fræg ummæli Sölku Völku: Lífið er saltfiskur. Fyrirlesarar frá öllum Norðurlöndum ræddu at- vinnuna, þýðingu hennar fyrir líf mannfólksins og áhrif atvinnuleysis á það frá öllum hliðum. Einna mesta at- hygli vakti fyrirlesmr Jóns Björnsson- ar félagsmálastjóra á Akureyri sem svaraði fullyrðingu Sölku Völku ját- andi og vísaði meðal annars til móð- urafa síns, máli sínu til smðnings. Stefnan á reiki En þar sem félagsmálastjórar korna saman hljóta menn að hafa áhyggjur af viðgangi velferðarkerfisins í breytt- um heimi. Þeir eru mennirnir sem halda kerfinu gangandi frá degi til dags og bera inesta ábyrgð á þróun þess. Það hlýmr því að vera áhyggju- efni þeirra þegar að þessu kerfi er sótt úr ölluin áttum. Willy Karlsson fyrrverandi félags- málastjóri í Stokkhólmi dró í fyrir- lestri sínum upp mynd af þeirn ógnum sem að kerfinu steðja. Hann nefndi að viðhorfin innan stjórnmálaflokkanna væru nú miklu margbreytilegri og ó- Ijósari en áður var. Það er ekki lengur einkamál hægrimanna að gagnrýna kerfið og heldur ekki einhugur meðal vinstrimanna um að verja það óbreytt með öllum tiltækum ráðum. Þeirri skoðun vex ásmegin í öllum flokkum að viss munur milli þegnanna að því er varðar aðgang þeirra að lífsins gæð- um sé allt að því náttúrulögmál og al- ger jöfnuður óhugsandi. Ein helsta ástæðan fyrir þessum breytm viðhorfum og áherslum er að sjálfsögðu efnahagskreppan sem herj- að hefur á Vesmrlönd á undanfömum árum. Hún hefur leitt til aukningar á atvinnuleysi, mas. hér á landi þar sem það var að heita mátti óþekkt. Nú er atvinnuleysið frá 5% hér á landi upp í tæplega 19% í Finnlandi. Tölurnar verða enn svakalegri ef eingöngu er litið á ungt fólk. Atvinnuleysið hefur í för með sér aukin útgjöld hins opin- bera, bæði í formi atvinnuleysisbóta og aukinna útgjalda til félags- og heil- brigðismála vegna nýrra vandamála sem atvinnuleysið hefur í för með sér. Og til að kóróna þetta eru færri vinn- andi hendur til að skattleggja. Störfunum fækkar áfram Ljóst er að ekki er hægt að mæta aukinni þörf fyrir útgjöld til félags- mála með meiri skattheimm. íslend- ingar hafa að vísu eitthvað svigrúm í þeim efnum því skattheimta hér á landi er töluvert minni en á hinum Norðurlöndunum. En það eru þó tak- mörk fyrir því hve langt er hægt að ganga í skattheimm. Þarna er því þversögn sem með einhverju móti verður að leysa. Odd Einar Dorum viðurkennir að hann hafi enga patendausn á þessum vanda frekar en aðrir. Hann telur þó að lausnin muni felast í því að auka þátttöku hins almenna borgara í því að halda uppi þjónusmnni. Lykilorðið er sjálfboðaliðastarf almennings. „Það blasir við að tækniþróunin á eftir að fækka störfum enn frekar en nú er orðið. Vegna þess að sjálfsvit- und okkar verður að verulegum hluta til í gegnum vinnu munum við þarfn- ast þess að gera eitthvað annað en að sinna launavinnunni. Hlutur hennar minnkar og eitthvað verður að koma í staðinn. En þegar ég tala um sjálfboðaliða- starf á ég ekki við hefðbundið góð- gerðarstarf. Ef við tökum dæmi af unguin rnanni sem tekur að sér að líta inn til aldraðrar konu og halda henni félagsskap á kvöldin og um helgar þá er það jafhmikilvægt fyrir báða, kjarn- inn er sá að koma á nýjum samskipt- um. Með því móti gemr fólk endur- heiint sjálfsvirðinguna og hætt að vera einungis skjólstæðingar kcrfisins. Það er stærsti gallinn við þetta kratíska velferðarkerfi að það hefur búið til samfélag skjólstæðinga þar sem við erum ekki skilgreind sem mannverur heldur skjólstæðingar, neytendur og viðskiptavinir. Það er hætt að gera kröfur til okkar. Við það glatast sjálfs- virðingin og sköpunarmátturinn og það þurfum við að endurheimta." Þriðji geirinn Þessar hugmyndir byggir Odd Ein- ar á hugmyndakerfi sem upprunnið er í Bretlandi og kennt við Civil Society. Það byggir á þeirri kennisetningu að ríkið og sveitarfélögin spanni ekki allt samfélagið heldur séu aðeins hluti af því. Svokallaður þriðji geiri santfé- lagsins er einmitt fólginn í frjálsri fé- lagastarfsemi og ýmiss konar samhjálp sem byggir á frumkvæði og vinnu ein- staklinga án þess að hið opinbera komi þar nærri. Það er einmitt þessi þriðji geiri sem Odd Einar telur þörf á að efla, ef við eigum að geta gert okk- ur vonir um að viðhalda velferðarrík- inu. Hann segir að þetta byggi á evr- ópskri hefð sem víða sé sterk og komi fram í ýmsum myndum. Til dæmis má nefna ýmis átaksverkefni sem eru til komin vegna þess að fólk hefúr misst þolinmæðina og ekki nennt lengur að bíða eftir því að hið opinbera byggi skóla eða aðrar stofhanir sem vanti. Byggingasamvinnufélög eru annað dæmi þar sem eiginhagsmunir og al- mannahagsmunir fara saman og hvetja menn til að gera eitthvað í mál- unum í stað þess að bíða eftir hinu op- inbera. Þessi hefð gerir víða vart við sig, en hún hefur verið vanmetin. Sjálfur starfar Odd Einar hjá kirkju- legum samtökum sem nefnast Kirkens Bymisjon og annast hjálparstarf við þá sem erfiðast eiga í samfélaginu, drykkjusjúklinga, eiturlyfjaneytendur, vændiskonur og -pilta og aðra utan- garðsmenn. „Við sinnum þeim sem aðrir eru búnir að gefa upp á bátinn og reynum að gefa þeim möguleika á að snúa aftur til eðlilegs lífs. Mest störfum við fyrir gjafafé og styrld frá almenningi, en tökum einnig að okk- ur verkefhi frá hinu opinbera eins og verktakar." Borgaralaun? - En getur sjálfboðaliðsstarf komið í staðinn fyrir velferðarkerfið eins og það er nú? „Nei, velferðarkerfið verður áfram til, en þetta starf þarf að koma sem viðbót við það. Nauðsynleg viðbót því velferðarkerfið mun ekki geta sinnt þeim þörfum sem skapast í framtíð- inni.“ - Hvað með fjárhagshliðina? „Við því hef ég engin svör önnur en þau að ef við gerum ráð fyrir að launa- vinnan dragist enn meira sarnan og tómið sem hún skilur eftir verði fyllt ineð sjálfboðaliðastarfi kallar það á einhvers konar borgaralaun sem ekki eru háð hefðbundnu vinnufrainlagi. Það er fjölmörgum spurningum ósvarað í þessu dæmi og ég er ekki á því að leiðin til að fá þeiin svarað liggi í gegnurn allsherjar umbyltingu á vel- ferðarkerfinu. Það þarf að gera rnarg- ar litlar tilraunir og finna þannig smám saman út hvernig best er að bregðast við breyttum aðstæðum. Danir eru komnir einna lengst í að þróa nýjar leiðir, enda hafa þeir búið lengi við mikið atvinnuleysi. Þar er verið að gera ýmsar tilraunir. I Ala- borg hafa fimm starfsmenn hreinsun- ardeildar borgarinnar, fjórir í vinnu og einn atvinnulaus, skipt með sér launum fyrir fjögur störf og einum at- vinnuleysisbótum. Einnig er víða far- ið að koma á vinnuskiptum sem byggjast á því að þeir sem eru í vinnu skipta við atvinnulausa sem ganga inn í störf þeirra tímabundið. Svona held ég að verði að gera þetta, finna nýjar leiðir í gegnum smáar tilraunir. Það hefur enginn svar við öllum þeim spurningum sem kviknað hafa.“ Spurning um hugarfar í fyrirlestri sínum á ráðstefhunni var Odd Einar ómyrkur í máli urn hlut stjórnvalda í því að svipta fólk sjálfs- virðingunni og frumkvæðinu og gera það þannig ófært um að leysa málin af sjálfsdáðum. „Þetta er spurning um hugarfarsbreytingu,“ segir hann. „Nú er búið að byggja upp kerfi þar sem einstaklingarnir hafa öll réttindin en hið opinbera allar skyldurnar. Breyt- ingin á þessu kerfi felst í því að þeir sein fara með völdin fái innsýn í þarfir fólks og vilja og skilji hvað það er að hugsa. Annars gerist ekkert. Það er útbreidd skoðun, ekki sfst innan félagsþjónustunnar, að sjálf- boðaliðastarf sé einungis fyrir aldraða eða atvinnulausa, en áhuginn á því er miklu meiri en menn halda. Við hjá Kirkens Bymisjon höfum oft auglýst eftir sjálfboðaliðum og í fyrstu héld- um við að við fengjunt einungis heilsuhraust gamalmenni. En það var eitthvað annað. Langstærsti hluti fólksins sem svaraði var á aldrinum 20-50 ára og það vildi endilega fá að gera eitthvað. Það hafði kannski ekki mikinn tíma, tvo tíma hér og tvo tíma þar. En það hafði enginn spurt þetta fólk áður. Þetta kallar að sjálfsögðu á mikið skipulag, en svona kerfi verður að vera sveigjanlegt og laust við það eyðu- blaðafargan sem er að kaffæra félags- þjónustuna. Kerfið verður að byggja á borgaralegri skyldu og þeir sem stjórna því þurfa að skilja fólk vel og vera sér þess meðvitaðir að kerfið er ekki síður til fyrir fólkið sem leggur fram starf sitt en hina sem eru þiggj- endur þjónustu." Félagsmálastjórar í biðröð Odd Einar gagnrýnir stjórnendur félagsþjónustunnar fyrir að hafa kom- ið sér upp eigin hugmyndafræði sem þeir réttlæta gerðir sínar með. „Þeir hafa komið því þannig fyrir að þeir þurfa aldrei að setja sig inn í reynslu skjólstæðinga sinna. I kaþólsku kirkj- unni á miðöldum var það siður að einn dag á ári mátti söfnuðurinn hlæja að prestinum. Það var svona til þess að minna hann á að hann væri ekki ódauðlegur. Félagsmálastjórar ættu að koma sér upp þeirri reglu að sttilla sér amk. einu sinni á ári upp í biðröð á félagsmálastofnun, helst í öðru sveit- arfélagi þar sem enginn þekkir þá. Með því rnóti geta þeir upplifað þann veruleika sem þeir bjóða skjólstæð- ingum sínum upp á. Það hlýmr að vera þeim ho!lt.“ Hann segir í lokin að þær hug- myndir sem hann aðhyllist fái stöðugt meiri hljómgrunn í samfélaginu. „Fyrir nokkrum árum fannst flestum þetta vera út í hött, en nú eru þessi sjónarmið viðurkennd í Noregi. Til dæmis vinn ég nú fyrir félagsmála- ráðuneytið að því að þróa sjálfboða- liðastarf sem lið í félagsþjónustunni. Það verkefni var sett af stað eftir að Stórþingið hafði samþykkt ályktun um að kanna þessa leið,“ segir Odd Einar Dorum að lokum. -ÞH FLENSBORGARSKOLINN í HAFNARFIRÐI FRÁ FLENSBORGARSKÖLANUM - ÖLDUNGADEILD - Innritun í öldungadeild Flensborgarskólans fyrir haust- önn 1994, fer fram á skrifstofu skólans dagana 22.—24. ágúst kl. 14.00 - 18.00. Kennsla hefst skv. stundaskrá fimmtudaginn 1. sept. Kennt verður 4 daga vikunnar, mánudaga - fimmtudaga kl. 17.20 - 21.40. Námsgjöld eru kr. 10.000,- fyrir 1-2 námsáfanga og 15.000,- fyrir 3 áfanga og fleiri. Nemendafélagsgjald er kr. 400,- Eftirtaldir námsáfangar eru í boði og verða kenndir ef næg þátttaka fæst: Bókfærsla 203 Danska 153 Enska 103 Enska 302 Enska 522 Félagsfræði 203 Franska 203 íslenska 103 Islenska 313 Jarðfræði 103 Landafræði 103 Saga 103 Sálfræði 103 Sálfræði 223 Stærðfræði 102 Stærðfræði 122 Stærðfræði 363 Stærðfræði 463 Tölvufræði 103 Vólritun 202 Þjóðhagfræði 103 Þýska 103 Þýska 302 Þýska 502 Stöðupróf í dönsku verður haldið mánudaginn 29. ágúst kl. 18.00 og stöðupróf ( vélritun þriðjudaginn 30. ágúst kl. 18.00 Skráning í stöðuprófin fer fram á skrifstofu skólans, í síma 650400. Allar nánari upplýsingar eru gefnar á skrifstofu skólans.

x

Vikublaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vikublaðið
https://timarit.is/publication/310

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.