Vikublaðið


Vikublaðið - 09.09.1994, Blaðsíða 8

Vikublaðið - 09.09.1994, Blaðsíða 8
8 Viðtalið VIKUBLAÐIÐ 9. SEPTEMBER 1994 Viðtal við Margréti eftir Elísabetu Jökuls Éqvi hafa knús .Þú situr í leikhúsmyrkrinu sem byrjar að blikka í öllum regnbogans litum og persónur stíga framá sviðið með blóm í hárinu og ástarorð á vörum og syngja og dansa af ein- skærri bjartsýni og trúa því að hægt sé að breyta heiminum og stöðva stríðið og hafa gaman. Leiksýningin á Hárinu vek- ur það góða í hjartanu og gleðina. Þetta er ekki bara gamall væminn hippasöngleikur. Margrét Vilhjálmsdóttir gefur reyndar orðinu væmin alveg nýja merkingu. Hún vill hafa leyfi til að vera væmin, knúsast, krúttast og syngja Lifi Ijósið, fullum hálsi. Margrét fer með eitt af aðalhlutverkunum í Hár- inu, í leikstjórn Baltasar, sem hefur verið á fjölum Gamla Bíós í sumar. Og fólk flykkist í leikhúsið og dansar á götum úti á miðnætursýningum. Sumarleikhús hefur átt erfitt upp- dráttar en nú er annað lag. - Þegar við vorum að æfa Hárið vorum við ógeðslega góð hvert við annað, það lak af okkur góðmennskan. Við vorum alltaf að knúsast og það var svo gott. Þetta var ekkert erfitt, við komumst öll á sömu bylgjulengdina. Þetta líf er svo erfitt að maður á að einbeita sér að því að hafa gaman og gott og mikið knús. Ég hélt að ég væri viðkvæmasta kona í heimi en eftir að hafa fengið öll þessi viðbrögð út af Hárinu veit ég að það er allt fullt af viðkvæmu fólki. Við erum svo mikil blóm, manneskjurnar. Það þarf að passa uppá að allir séu glaðir og allir fái nóg súkkulaði. - Hver manneskja þarf ofurlitla huggun hvern dag, skrifaði Halldór Laxness. En hvernig lýsir þessi viðkvæmni sér? - Það er bannað segja nokkuð Ijótt við mig. Þá fer ég að gráta. Þetta hefur ekkert breyst síðan ég var sjö ára. Held- urðu ekki að fjölskyldur séu misvæmnar? - Jú, það er tildæmis ekki mikið faðmast í minni fjölskyldu. - Mín fjölskylda er rosavæmin, haldin nostalgíukenndri væmni. Við fáum öll tár í augun við Söng villiandarinnar. Ég man ég sat á eldhúsvaskinum og samdi lag og texta og fékk gæsahúö yfir sjálfri mér. En ég er líka rosalegur töffari. Ég lærði á fiðlu i tíu ár, það ýtti undir væmnina. Músík hefur svona biluð áhrif á mig. Þú mátt miklu meira í músík í sam- bandi við væmni helduren í dansi. Á hippatímanum var kannski sunginn væminn texti undir rosa rokkmúsík, einsog í laginu Tælandi fögur. Eða þegar Shady Owens söng Ég elska alla. Ef maður öskrar það er það rosakúl. Margrét eða Magga einsog hún er kölluð útskrifaðist úr Leiklistarskóla íslands síðasta vor, en hún vakti mikla athygli fyrir hlutverk sín hjá Nemendaleikhúsinu. Nú hefur hún þegið fastráðningu hjá Borgarleikhúsinu í vetur og fyrsta hlutverk hennar verður Dísa í Galdra Lofti eftir Jóhann Sigurjónsson í leikstjórn Páls Baldvins Baldvinssonar. Við hittumst á Hótel Borg um eftirmiddaginn og hún er búin að velja sér sófa og virðist eiginlega bara vanta stóran skógarbjörn sem ætti að sitja með hana í fanginu og gefa henni konfektmola. Magga er einsog göldróttur æðarungi svona krúttleg, en þetta síða rauða hár fær mann til að trúa því að hún geti galdrað á næsta augnabliki. - Hippatíminn hefur verið í endurskoðun síðustu ár og hippar hafa legið undir ámælí fyrir að hafa bara verið kexruglaðir dópistar sem nú eru komnir í skrifstofustörf. En ég uppgötvaði í HárinU hvað þessi tími hefur haft mikil áhrif. Þetta var auðvitað alvöru bylting. Sem er enn að byltast. - Já, þetta fólk breytti svo miklu, tildæmis í sambandi við kvenréttindamál. Ég er alin upp við allt þetta frelsi og finnst það svo sjálfsagt. Gúrían, leikstjórinn sem kom hingað í sambandi við Víkingamyndina, hann er gamall hippi og sagði okkur að það voru ekki bara listamenn og sérvitringar sem voru að hippast og höfðu hugsjónir. Listamenn hafa kannski oft verið mestu hugsjónamennirnir. En á þessum tíma var það líka menntamaðurinn, þessi sem var í kjarneðl- isfræði, hann var alltíeinu kominn útá götu og orðinn hættu- . legur samfélaginu. - En afhverju er fólk komið aftur í hippaföt? Núna er aldarlokstímabil. Ég sé það í myndlist, ritlist, leik- list. Við förum í fötin tilað máta og finnum: Þetta hefur verið svona. Þetta er einhverskonar uppgjör. Hvað gerðist á þessari öld? Hippatímabilið er að.eiga við okkur núna. Hipp- arnir voru líka náttúrubörn. Ég elska Langanesið og Hljóða- klettar eru mitt uppáhald. Þar er brjáluð álfabyggð. En þegar ég kom þangað um daginn var búið að merkja hvert einasta blóm og hvern einasta stein. Ég sneri bara við, hrygg í bragði. Núna er ég á svona trippi að vita hvort allt er á sín- um stað. Ég er að gá. Er uppáhaldsstaðurinn minn á sínum stað. Þetta er kannski hættuleg íhaldssemi en ég væri til í að stofna hóp tilað endurvekja Hressó, einsog hann var og hlaupa inná Mokka og Ellingsen og hrópa: Jibbí, þú ert hérna, og skjótast svo aftur út að gá. Ég vil tildæmis þykkt smjör á brauðið mitt, sama hvað hver segir. Ég átti svo ynd- islega afa og ömmu. Þar fékk ég kringlu tilað dýfa í. Það var hápunkturinn. - Hefurðu séð álfa? - Mamma sér álfa, alveg stanslaust. Og hún sá einusinni svartklædda konu fylgja mér í göngutúr. Það er alltaf eitt- hvað gott sem fylgir manni. Við áttum hvítan land-rover sem hét Kitty kitty bang bang, svo ferðuðumst við um landið, mamma sá álfa í hverjum hól og sagði sögur og pabbi kunni ógrynni af vísum. Og ég er mikill dýravinur en ég get ekki treyst hundum. Ég átti einusinni vin sem var hundur og fór með hann í ævintýraferð útí kríuvarp og ákvað að sýna hon- um það fallegasta sem ég vissi um. Það var lítill æðarungi sem ég tók í lófann. Hundurinn slokaði unganum í sig án þess að kyngja. Ég grét í heila viku og fyrirgaf honum aldrei. En þess vegna get ég ekki verið í sveit. Sveit er of mikið fyrir mig. Ég verð að fá að vera í bómullarlandinu. Mér finnst í lagi að fólk deyi, bara að það deyi á eðlilegan hátt. - Hefurðu fengið leyfi tilað vera svona viðkvæm? - Þetta hefur náttúrulega verið erfiðast fyrir mig. Margrét hefur kímnigáfu fyrir viðkvæmninni og hlær hjart- anlega að sjálfri sér. Og svo segir hún frábært með óteljandi errum. - Ég get verið ógeðslega dugleg. En ég trúi alltaf öllu og held að allir séu góðir. - Er það ekki gott? - Ég veit það ekki. - Eru þá ekki allir góðir við þig á móti? - Jú vonandi. Ég fæ kannski aðeins meira gott heldur en vont frá fólki. - Hvað er svona gott við að verb góður? - Bara, þú hefur svo góð áhrif á heiminn, það er svo gott að vera góður og svo hlakka ég svo tilað verða gömul amma í strákofa sem fer með vísur og kvæði. En maður hefur ekki alltaf tíma til að vera góður og skemmtilegur. Ég hef alltaf fengið leyfi tilað bulla svolítið, ég fékk að láta einsog fífl þegar ég var unglingur og held það hafi verið góð útrás. Ég er svona viðkvæm, alveg fljótandi, en mér skilst að það sé ein lítil stjarna í stjörnukortinu mínu sem bjargar því að ég fljóti ekki burt. Ég get náð í varnir og töffaraskap og dugnað þegar ég þarf á að halda. - Og nú ertu byrjuð að æfa Dísu í Galdra-Lofti. - Það er gaman að uppgötva uppá nýtt þessa ástar- sögu. Ástarelementið er svo sterkt, Loftur elskar lífið og mikill kajan, ég vil fá að koma við, snerta, káfa á lífinu galdrana, þekkinguna og konurnar en þetta snýst uppí and- stæðu sína hjá honum. Loftur, Steinunn og Dísa eru allar sterkar persónur. Sigrún Edda stórleikkona leikur Steinunni, ég finn hvað hún er miklu reyndari en ég og býr yfir mikilli tækni og ég get vonandi lært af henni. Og það er svo gam- an að hafa bókmenntafræðing einsog Pál Baldvin fyrir leik- stjóra. Svo hefur hann líka kalt útlit og hlýtt hjarta. • Leikhúsið er einsog teygjustökk, þessvegna þarf ég ekki að fara í teygjustökk. [ leikhúsinu er bannað að reyna að í- mynda sér hvað fólki finnst, maður verður bara að gera sitt besta. Þetta er svo dyntóttur heimur. Það er hægt að hefja einhvern uppá stall og næst þegar sama manneskja gerir eitthvað er hún púuð niður. Mér finnst þessi sirkus-fílingur allsráðandi í þessu þjóðfélagi. Við erum alltaf að leita að skeggjuðum konum og eldgleypum, ef einhver gerir eitthvað frumlegt er hann tekinn og kreistur einsog appelsína og hýðinu kastað burt. Vá, hvað ég er dramatísk. í Evrópu er meira jafnvægi, í Ameríku virðist vera einhver sýra í gangi hvað þetta snertir, allir eiga að vera stjörnur og við á íslandi erum að reyna að herma eftir. Þú veist, það hefur verið hringt í mig frá blöðunum og spurt: Hvað finnst þér best að borða? Ég meina, hverjum finnst þetta áhugavert? - Hvernig er að koma úr skólanum og byrja að taka þátt í leikhúsinu? - Það er kannski ágætt að líkja þessu við ferðalag. Leik- listarskólinn var frábær. Ég var líka í svo duglegum hóp, við vorum orðin algjör dekurdýr og farin að gera svo miklar kröf- ur. Ég vil tildæmis fá að læra heimspeki. Maður verður svo gráðugur þegar maður byrjar að læra og þekkja, maður vill vita meira. En afhverju er ekki leikræn tjáning í Heimspeki- deildinni. Mér finnst það ætti að vera árlegur viðburður að heimspekinemar settu Samræðurnar og Grísku harmleikina á svið. - Fannst þér þú breytast mikið í skólanum? - Skólinn er auðvitað ekki þerapía, þó maður sé að vinna með sjálfan sig og þurfi að grafa fullt upp og grúska í sér til að ná í hluti. Þegar þú ert að læra á hljóðfæri er hljóðfærið svo takmarkað en þú ekki, en í leiklistarskólanum ert þú hljóðfærið og ert svo takmarkaður og þarft að takast á við sjálfan þig til geta spilað betur. En að vinna með sjálfan sig finnst mér meira fyndið og skemmtilegt heldur en voða dramatískt. í upphafi ætlaði ég ekkert að verða leikari. Mig langaði bara í þennan skóla og var fullkomlega tilbúin og skemmti mér konunglega í inntökuprófinu og fannst svo gaman að geta sýnt það sem ég kunni. í leikhúsinu samein- ast svo margt og þú kemst svo nálægt því sem lífið hefur uppá að bjóða, ritlist, leiklist, myndlist, sirkus, Ijós. Ég er svo mikill káfari, mér finnst svo gaman að koma við. Ég vil fá að snerta, ég vil fá að káfa á lífinu. - Eigum við að segja þetta gott? - Frábært. Ég ætla að fara heim og vita hvort Maggi kærastinn minn er búinn að læra einhvern nýjan spilagaldur handa mér í dag. Ég heyrði nefnilegan einn svo góðan brandara sem ég ætla að segja honum. Það er svo gaman að safna leyndó-um.

x

Vikublaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vikublaðið
https://timarit.is/publication/310

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.