Lesbók Morgunblaðsins - 02.04.2005, Síða 8
8 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 2. apríl 2005
1.
apríl árið 1855 er merkur dagur í
sögu Íslendinga því þá veitti Dana-
konungur landsmönnum verslunar-
frelsi eftir aldalangan einkarétt
Dana. Það merkti að kaupmenn frá
öðrum ríkjum höfðu eftirleiðis leyfi
til að versla við Íslendinga til jafns við danska
þegna en fram að því höfðu þeir haft einkarétt
til verslunar á Íslandi. Á þessu ári er því 150 ára
afmæli verslunarfrelsis á Íslandi. Það gefur til-
efni til að rifja upp samkeppni, fákeppni og ein-
okun í verslun þá og hugleiða þýðingu þeirra nú
þegar miklir umbrotatímar í viðskiptalífi þjóð-
arinnar ganga yfir.
Verslunarfrelsið var mikils virði í augum
þeirra sem stuðla vildu að framförum á Íslandi
um miðja 19. öld. Það var að áliti Jóns Sigurðs-
sonar, forseta, forsenda flestra
framfara í landinu. Þær fram-
farir létu reyndar á sér standa
en að lokum urðu miklar breyt-
ingar á samfélaginu á síðustu áratugum ald-
arinnar og í upphafi 20. aldar. Fólk fluttist úr
sveitum landsins til sjávarþorpa, landbúnaði
hnignaði og smám saman fæddist fiskveiði-
samfélag 20. aldar. Þessar breytingar hefðu ver-
ið nánast óhugsandi án verslunarfrelsisins.
Þessi atburður, sem er svo merkilegur fyrir
Íslendinga, markar hins vegar engin tímamót í
sögu Dana. Fyrir þá er veiting verslunarfrels-
isins aðeins einn atburður af mörgum sem sýnir
frjálslyndisstefnu Dana um þær mundir. Danir
voru heldur ekki að afsala sér eða þjóðarbúinu
neinum mikilvægum efnahagslegum forrétt-
indum. Sumir Danir voru reyndar alveg á móti
því að veita Íslendingum verslunarfrelsi. Þetta
afsal særði þjóðernisstolt sumra Dana. En
mesta andstæðan kom frá Íslandskaupmönnum
sem sáu fram á að missa aðstöðu sína. Danska
stjórnin ákvað samt eftir deilur á danska
þinginu og þrýsting frá Íslendingum að taka
hagsmuni Íslendinga fram yfir hagsmuni hinna
fáu Íslandskaupmanna. Enda barst mikil frjáls-
lyndisalda til ýmissa þjóða í Evrópu um þessar
mundir frá Bretlandi. Bretar, sem Danir
versluðu þá mikið við, voru líka árið 1855 búnir
að afnema nánast alla toll- og einkaleyfismúra
sína.
„Frihandel“ á undan verslunarfrelsinu
Þær raddir höfðu heyrst allt frá 18. öld að Ís-
lendingar ættu að njóta frelsis til að versla við
hvaða ríki sem þeir vildu. En lengi vel hlustuðu
dönsk stjórnvöld lítið á það enda höfðu Danir
setið einir að verslun á Íslandi frá því um 1600
og reynt að hindra launverslun erlendra skipa á
Íslandsmiðum við landsmenn. Allt fram til 1787
höfðu danskir kaupmenn líka fengið íslenskum
verslunarhöfnum úthlutað og þeir haft einkarétt
til að versla á viðkomandi höfn.
Eftir að þessari einkaleyfisverslun var aflétt
árið 1787 var opnað fyrir samkeppni á milli
kaupmanna – að nafninu til – og talað var um
Frihandel. Fleiri en einn kaupmaður mátti nú
setja upp búð á hverjum verslunarstað og þeir
veittu hvorir öðrum ofurlitla samkeppni –
stundum. Þessa litlu samkeppni var meðal ann-
ars að finna sunnanlands og Reykjavík státaði
af nokkrum kaupmönnum þótt flestir hafi verið
smáir. Víða á landinu var samt bara einn kaup-
maður á hverjum stað.
Auk þess fengu lausakaupmenn einnig tæki-
færi. Það voru smákaupmenn í Danmörku,
nokkurs konar farandkaupmenn, sem fengu að
sigla upp til Íslands að sumrinu en urðu að
versla af skipi sínu og aðeins í takmarkaðan
tíma. Þeir komu einkum til hafna á Suðurlandi
og meðan skip þeirra stóðu við nærri verslunar-
höfnunum var verðlag hinna föstu kaupmanna
aldrei hagstæðara. Þegar lausakaupmenn voru
farnir aftur til Danmerkur um haustið breyttist
verðið til hins verra og að vetrinum, þegar
sneyðast tók um birgðir heimilanna og þörfin
fyrir vörur var mest, var verðið iðulega hækkað
enn frekar á innfluttu vörunni.
Þetta fyrirkomulag í Íslandsversluninni milli
1787 og 1855 átti lítið skylt við Frihandel í aug-
um Íslendinga enda var frelsið allt Dana megin.
Orðið fríhöndlunartímabil, sem oft hefur verið
notað af Íslendingum, er því kyndug lýsing á
tímabilinu enda arfleifð nýlenduorðræðunnar.
Samkeppni í orði –
fákeppni á borði
Fljótt á litið gæti virst að breytingin árið 1855
hefði ekki átt að skipta neinu máli úr því að sam-
keppni kaupmanna á sama verslunarstað var
ekki bönnuð. Reynsla undangenginna liðlega
sextíu ára (frá 1787) hafði hins vegar sýnt ræki-
lega fram á hið gagnstæða.
Staðreyndin var sú að jafnvel þar sem tveir
eða fleiri sæmilega stöndugir kaupmenn voru á
sama stað, þá var það opinbert leyndarmál að
viðkomandi kaupmenn höfðu meira og minna
verðsamráð. Samráðið fólst í því að samræma
það verð sem þeir buðu fyrir innlendar vörur og
útlendar vörur. Slík samráð héldust að vísu
misvel því freistingin til að svíkja lit, þegar
þannig var ástatt, var alltaf meiri en ella því
aðilar samráðsins vissu um verð hinna kaup-
mannanna.
Af þessum sökum leituðust kaupmenn við að
útiloka samkeppni og bola kaupmönnum frá
sem ætluðu að setja sig niður og veita verulega
samkeppni. Oftast var útkoman sú að nokkurs
konar jafnvægi komst á þar sem sumir sættu sig
við að vera smáir og fengu að þrífast upp á þau
býti, með eða án eiginlegs samráðs við aðra
kaupmenn. Þessir viðskiptahættir mynduðu
kúltúr Íslandsverslunarinnar sem kaupmenn
ýmist vildu ekki ganga í berhögg við eða gátu
það ekki.
Úrræði Íslendinga
Íslendingar kvörtuðu oft yfir viðskiptaháttum
kaupmanna og skorti á allri raunverulegri sam-
keppni í versluninni á fyrri hluta 19. aldar við
stjórnvöld í Danmörku. Lítið var hlustað á það
lengi vel enda var litið á Ísland sem nokkurs
konar nýlendu fyrir Dani. Frjálslyndisstefna
Breta í efnahagsmálum barst samt til Danmerk-
ur og smám saman fengu dönsk yfirvöld meiri
áhuga á því að koma til móts við umkvartanir Ís-
lendinga. Einhver helsta breytingin í því efni
var þegar þau veittu norskum kaupmönnum
leyfi til timburflutninga frá og með 1839 og kom
hún til af því að danskir kaupmenn fluttu sjaldn-
ast nóg timbur til landsins.
Þótt Íslendingar ættu vissulega flest undir
dönskum stjórnvöldum í verslunarmálefnum
sínum voru þeir ekki alveg ráðþrota. Bændur
náðu sér stundum niðri á kaupmönnum með því
að dýfa ull sinni niður í læki eða ár á leið sinni í
kaupstað og ekki var „verra“ að strá dálitlum
sandi í hana. Hvort tveggja gaf „góða“ vigt og
sumir kaupmenn þóttu lítið skeyta um vörugæði
í verðlagningu. Mörinn af kindum var bræddur
saman í stóra tólgarskildi og stöku sinnnum
stungu menn grjóti í skildina – svona til drýg-
inda. Smáprettir og vörusvik af þessu tagi voru
afsakaðir með rangsleitni, sem menn á tíðum
urðu fyrir af hendi kaupmanna, og lélegri vöru.
Tiltæki af þessu tagi hafa kannski ekki verið
mjög algeng en verslunarlagið ýtti ekki undir
þann hugsunarhátt að vanda ætti vöruna eftir
bestu getu.
Landsmenn áttu líka til uppbyggilegri úr-
ræði, til dæmis reyndu þeir að bæta verslunar-
kjör sín með því að sammælast um að láta ekki
vöru sína nema þeir fengju tiltekið lágmarks-
verð fyrir hana. Óformleg samtök af þessu tagi
voru stofnuð af bændum á Norðurlandi á
fimmta áratug aldarinnar og óljós ummæli eru
um eldri dæmi frá því fyrr á öldinni. Samtök af
þessu tagi eru oft kölluð verðkröfufélög en
fremur lítið er vitað um langlífi þeirra eða ár-
angur. Kaupmannavaldið var erfitt viðureignar
og svo voru margir landsmenn í meiri eða minni
skuldum við kaupmenn og voru því í slæmri að-
stöðu til að krefjast betri verslunarkjara.
Fögnuður og hræðsla
yfir verslunarfrelsinu
Í íslensku blöðunum var verslunarfrelsinu fagn-
að vorið 1855 enda eðlilegt miðað við mikilvægi
verslunarfrelsisins og harða baráttu Íslendinga
fyrir því. Öll vonuðu þau að betri tíð væri í
vændum í verslunarmálefnum Íslendinga.
Kaupmenn voru líka vel með á nótunum, ekki
síst í Danmörku en líka sumir í Bretlandi.
Breskir kaupmenn höfðu frá því árið 1850 fengið
undanþágu frá einkarétti Dana til verslunar á
Íslandi til að kaupa hross, flytja lifandi til út-
flutnings og selja í kolanámur til að draga kola-
vagna. Þeir hafa án efa tekið verslunarfrelsinu
fagnandi enda juku þeir kaup sín eftir 1855 og
stóð þessi hrossasala næstu áratugi.
Hinir rótgrónu kaupmenn, sem flestir voru
danskir og bjuggu í Kaupmannahöfn, höfðu þó
ekki miklar áhyggjur af Bretunum. Spánverjar
voru helsta ógnin og aðalllega í augum þeirra
sem voru með verslanir sunnanlands og vestan.
Í deilunum um verslunarfrelsið hafði því nefni-
lega verið spáð að Spánverjar, sem keyptu mik-
inn saltfisk af Íslendingum, mundu flykkjast
hingað að kaupa fiskinn beint af Íslendingum.
Þá þyrfti hann ekki að fara um Kaupmannahöfn
og þannig yrði hann ódýrari í innkaupum fyrir
Spánverja. Saltfiskur var um miðja öldina önnur
helsta útflutningsvaran og ef Spánverjar næðu
að kaupa saltfiskinn beint af saltfiskeigendum á
Íslandi mundu kaupmenn verða fyrir miklu
sölutjóni. Þá gætu þeir ekki selt nærri því eins
mikið af innflutningi sínum því skipti á íslenskri
og útlendri vöru héldust í hendur. Ef það gerðist
væri yfir 250 ára fyrirkomulagi í verslun Íslend-
inga og Dana umbylt.
Pöntunarfélög – eitt hænuskref
Ekki voru þó allir kaupmenn mjög uggandi yfir
verslunarfrelsinu 1. apríl 1855. Kaupmenn, sem
versluðu norðanlands og austan, höfðu engan
saltfisk að selja og þeir bjuggu við litla sam-
keppni annarra kaupmanna. Hugsanlegur ótti
kaupmanna sunnanlands og vestan við sam-
keppni við Spánverja eftir 1855 reyndist líka
ástæðulaus því þeir sóttu hingað lítið eftir kaup-
um. Og landsmenn höfðu fremur hægt um sig
því allt fram til áranna 1869–70 beindust að-
gerðir þeirra nær undantekningarlaust að starf-
semi verðkröfusamtaka. Eftir það hófust breyt-
ingar sem mörkuðu upphaf nýrra tíma.
Á áttunda áratug 19. aldar voru stofnuð víða á
landinu formleg verslunarsamtök Íslendinga og
versluðu þau sjálf við kaupmenn erlendis. Starf-
semi þeirra fólst í því að félagsmenn pöntuðu að
hausti vöru sem kom að vori en þá og um haust-
ið átti að greiða fyrir hana með innleggi þeirra.
Innleggið var einkum afurðir sauðkindarinnar:
kjöt, ull og tólg. Þessi verslunarfélög ultu þó
flest fyrr eða síðar um koll vegna vanskila Ís-
lendinga og skuldasöfnunar. Þekktast þeirra
var Gránufélagið á Norðurlandi og það lenti
fljótt í höndunum á dönskum stórkaupmönnum í
Kaupmannahöfn og varð því eins og hver önnur
dönsk selstöðuverslun, þ.e. verslun þar sem höf-
uðstöðvarnar voru í Danmörku og búðirnar á Ís-
landi voru einungis útibú til að skipta á íslenskri
og útlendri vöru.
Pöntunarstarfsemi verslunarhlutafélaganna
hafði þá þýðingu að hún sýndi fram á að lands-
menn gætu treyst á sjálfa sig í verslun við út-
lönd. Gallinn var hins vegar að skuldasöfnun og
vanskil, sem menn höfðu óspart beitt gagnvart
hinum dönsku fastakaupmönnum, komu nú
þeirra eigin samtökum fyrir kattarnef. Senni-
lega hefði því þessi pöntunarstarfsemi borið
takmarkaðan árangur enn um hríð ef ekki hefði
komið nokkuð nýtt til sögunnar sem opnaði
landsmönnum nýjar dyr í verslunarmálefnum
þeirra.
Sauðasala og kaupfélög
Að hvötum íslenskra manna fóru breskir kaup-
menn þegar á sjöunda áratug 19. aldar að kaupa
lifandi fé til að flytja út, ala þar um tíma á ódýr-
um rófum og slátra svo. Þessi verslun gekk
brösulega í byrjun en komst á fastan fót um
miðjan áttunda áratuginn, meðal annars þegar
innlendir aðilar, svo sem Gránufélagið, gerðust
umboðsmenn bresku sauðakaupmannanna. Af
ýmsum ástæðum sættu Suður-Þingeyingar sig
ekki við að versla við félagið og vildu nokkrir
forkólfar þeirra semja beint við tiltekinn sauða-
kaupmann árið 1881. Gekk það eftir og keypti
„Lykillinn til Íslan
Íslendingar hlutu verslunarfrelsi 1. apríl 1855
eða fyrir 150 árum. Verslunareinokun Dana
var þar með lokið og kaupmenn frá öðrum
ríkjum gátu verslað að vild við Íslendinga. For-
vitnilegt er að rifja upp sögu einokunar, fá-
keppni og samkeppni nú þegar hræringar í
verslun Íslendinga eru meiri en oftast áður.
Eftir Halldór
Bjarnason
halldorb@hi.is
Verslunarfrelsi Verslun í Reykjavík á miðri nítjándu öld. Myndin er úr bókinni Íslenzk verzlun eftir Vilhjálm Þ. Gíslason.