Lesbók Morgunblaðsins - 06.08.2005, Blaðsíða 12

Lesbók Morgunblaðsins - 06.08.2005, Blaðsíða 12
12 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 6. ágúst 2005 Dómari í Los Angeles í Banda-ríkjunum tilkynnti í vikunni að samkomulag hefði náðst við Sony um að fyrirtækið greiddi þeim sem hefðu séð nokkrar kvikmyndir sem fyrirtækið framleiddi árið 2001 1,5 milljónir dollara, rúmar 95 milljónir króna. Ástæðan fyrir þessu eru til- vitnanir í góða dóma Davids Mann- ings, gagnrýnanda dagblaðsins The Ridgefield Press. Forsvarsmenn blaðsins könnuðust ekki við að nokk- ur með þessu nafni starfaði á vegum blaðsins og hefur Sony viðurkennt að svo virtist sem tveir starfsmenn fyrirtækisins hefðu búið persónuna til og vitnað til dóma hans, sem hefðu verið tilbúningur. Manning þessi á að hafa gefið myndum á borð við Hollow Man, The Animal og A Knight’s Tale góða dóma árið 2001. Sagði hann m.a. um Heath Ledger, sem lék aðalhlutverkið í síðastnefndu mynd- inni, að hann væri „nýjasta heita stjarna ársins“. Um The Animal sagði að Sony væri með „enn einn sigurvegarann“ og að Hollow Man væri „heljarinnar spennutryllir“. Forsvarsmenn Sony sögðu tveimur starfsmönnum tímabundið upp vegna málsins. Þar sem sýnt þykir að dómarnir eru byggðir á sandi og sköp- unarverk Sonys þá úrskurðaði dóm- arinn að þeir sem hefðu séð um- ræddar myndir gætu krafið fyrirtækið um 5 dollara, um 317 ís- lenskar krónur, í bætur. Sættir náðust í málinu á síðasta ári en Carolyn Kuhl, dómari í málinu í Los Angeles, komst ekki að dóms- niðurstöðu sinni fyrr en í vikunni. Lögfræðingur Sony, Norman Blum- enthal, sagði að ef þeir sem sáu myndirnar krefðust ekki allrar upp- hæðarinnar mundi afgangurinn renna til góðgerðamála.    Aðstandendur hinnar árlegu al-þjóðlegu kvikmyndahátíðar í Montreal hafa ákveðið að hætta við að sýna kvikmyndina Karla á hátíð- inni í ár eins og ráðgert hafði verið, að því er fram kemur á heima- síðu hátíðarinnar. Myndin er byggð á ævi Karla Homolka, eins þekktasta fjöldamorðingja Kanada, sem snemma á tíunda áratugnum pynt- aði og myrti ásamt eiginmanni sín- um tvær skólastúlkur frá Ontario. Málið vakti heimsathygli á sínum tíma, ekki síst fyrir þær sakir að morðingjarnir tóku upp á myndband hrottalegar nauðganir og aðrar mis- þyrmingar á fórnarlömbum sínum. Helstu styrktaraðilar hátíð- arinnar eru Air Canda, Visa, Univer- sal Studios, Warnes Bros., Kodak og Ferðamannaráð Montreal en það mun aðallega vera vegna þrýstings frá talsmönnum þeirra fyrirtækja sem myndin hefur verið tekin af dagskrá. Tim Danson, lögfræðingur fórn- arlambanna, hefur einnig hótað mál- sókn verði myndin sýnd í Kanada. Með hlutverk Körlu fer Laura Prepon (Svona var það ’78) og með hlutverk eiginmannsins fer Misha Collins (24). Talsmaður kvikmynda- hátíðarinnar, Serge Losique, sagðist ekki skilja hvers vegna fólk væri svo andstætt sýningu myndarinnar, sér- staklega í ljósi þess að gerðar hafa verið kvikmyndir um fjöldamorð- ingja á borð við Hitler og Boston- kyrkjarann, sem leyfðar hafa verið til sýninga. Erlendar kvikmyndir Heath Ledger Laura Prepon Langt fram eftir 20. öldinni ríkti sú hefðað endursýna myndir í kvikmynda-húsum. Oftar en ekki var um að ræðaábúðarmiklar, sögufrægar stórmyndir á borð við Á hverfanda hveli (Gone With the Wind), Arabíu Lawrence (Lawrence of Arabia), Boðorðin tíu (The Ten Commandments), Lykilinn undir mottunni (The Apartment), Ben Hur, Stjörnustríðin, svo mætti lengi telja marg- Óskarsverðlaunaðar risasmíðar sem þóttu hverri kynslóð ómissandi. Myndirnar voru ekki endur- sýndar í eitt skipti heldur dúkkuðu bestu mjólkur- kýrnar upp á hverju ári og síðar með einhverju árabili. Að margra mati skilaði engin meira fé en Tónaflóð (Sound of Music), sem glöggir menn álíta að hafi halað inn yfir 120.000 manns í Háskólabíói einu, nema ef vera skyldi Á hverfanda hveli. Úr því verður aldrei skorið því bókhald fyrirtækja var ekki upp á marga fiska fram eftir öldinni sem leið. Það var ekki jafn hátt risið á mýmörgum, vin- sælum poppkornsmyndum sem skutu einnig upp kollinum aftur og aftur en þær voru lítið síðri gull- náma bíóunum. Arnarhreiðrið (Where Eagles Dare), Hetjur Kellys (Kelly’s Heroes), Byssurnar frá Navarone (The Guns of Navarone), Draugab- anar (Ghosbusters), Butch Cassidy and the Sun- dance Kid, Grikkinn Zorba (Zorba the Greek), eru örfáar þeirra mynda sem jafnan vöktu lukku. Táknmál ástarinnar (Kärlekens språk), var blóð- mjólkuð í Hafnarbíói þar sem þessi heldur ómerkilega „kynlífsfræðslumynd“ freistaði hátt í 50.000 manns. Hún þótti svo svæsin og opinská (!) Vitaskuld gerðist þetta fyrir tíma fjölsalabíó- anna og myndbandanna, kvikmyndahúsaeigendur gerðu að sjálfsögðu allt hvað þeir gátu til að nýta aðsóknarmöguleika mynda sinna til fullnustu og höfðu fá önnur ráð handbær. Textaðar myndir voru sjaldgæfar allt fram á áttunda áratuginn, þær voru einfaldlega mjólkaðar svo lengi sem ein- tökin hengu saman. Desember var lengi vel mánuður undirlagður endursýningum auk fáeinna ruslmynda sem bíó- stjórarnir formuðu ekki að bjóða á öðrum tíma. Annan dag jóla snöggbreytti til hins betra, þá flögguðu menn því besta sem þeir höfðu upp á að bjóða, jólamyndirnar voru rjóminn af rjómanum. Í dag eru bíómyndir komnar á DVD-mynddiska eftir 3–4 mánuði og „glugginn“; tíminn sem líður frá því að mynd er frumsýnd og fer á leigu- og sölumarkaðinn, styttist ár frá ári. Gömlu endur- sýningarnar heyra því sögunni til í síbreytilegum heimi. Eða hvað? Ekki má gleyma sjónvarpinu, mesta örlagavaldi kvikmyndanna frá upphafi. Lengi vel álitu þeir svartsýnustu í kvikmyndaiðnaðinum að litli kassinn gengi frá honum dauðum, en svo fór þó blessunarlega ekki. Breytingarnar sem hófust síðla á sjöunda áratugnum hafa orðið að byltingu sem sér ekki fyrir endann á, svo lengi sem tækn- inni fleygir fram. Nú er orðinn slíkur samruni í iðnaðinum að ekki er gott að segja hver hefur gleypt hvern en kvikmyndaverin eiga nú stóran hlut í bæði sjónvarpsstöðvum og sjónvarpsefnis- framleiðslu og sjónvarpstækjaframleiðendur eiga kvikmyndaver. Snar þáttur í dagskrá fjölda sjónvarpsstöðva eru einmitt endursýningar gamalla kvikmynda. Lengst af hafa þær verið tiltölulega ómarkvissar en upp á síðkastið höfum við kvikmyndaáhuga- menn verið að sjá stefnumarkandi breytingar sem gera endursýningarnar enn forvitnilegri og áhugaverðari. Eftir nokkrar tilraunir út um allan bæ er svo að sjá að Skjáreinn sé að festa mark- vissar endursýningar sem dagskrárlið og nægir að nefna myndaraðir með Bleika pardusinum, Clint Eastwood, o.fl. Síðustu vikurnar hefur stöð- in sýnt roskna vestra kl. 21 á laugardögum, vestraunnendur geta því gengið að þeim vísum á sínum stað og stund. Fleiri geta notið sýninganna því myndirnar eru fræðandi og gefa ósvikna mynd af hugsunarhætti og bíósmekk áhorfenda á þeim tíma sem þær voru framleiddar. Það verður að segjast eins og er að ýmislegt kemur á óvart, ekki síst hve sakleysinu hefur hrakað á örfáum áratugum. Nú um stundir eru áberandi um þrítugir Uni- versal-vestrar, sem vissulega slógu sjaldan veru- lega í gegn, en þeir sýna svo ekki verður um villst að sagan var löngum í fyrirrúmi en hún hefur mátt víkja fyrir hraða og brellum sem eru ráðandi þættir í bíómyndum samtímans. Það er óskandi að fleiri sjónvarpsstöðvar taki fyrir kvikmyndaþemu, -tímabil, -leikara, -leik- stjóra, af nógu er að taka. Dósahlátrinum má linna. Forvitnilegar upprifjanir ’Lengi vel álitu þeir svartsýnustu í kvikmyndaiðnaðinumað litli kassinn gengi frá honum dauðum, en svo fór þó blessunarlega ekki. Breytingarnar sem hófust síðla á sjö- unda áratugnum hafa orðið að byltingu sem sér ekki fyrir endann á, svo lengi sem tækninni fleygir fram. Nú er orðinn slíkur samruni í iðnaðinum að ekki er gott að segja hver hefur gleypt hvern [...].‘ Sjónarhorn Eftir Sæbjörn Valdimarsson saebjorn@heimsnet.is H ryllingsmyndin hefur jafnan þurft á ákveðinni tegund hjálp- artækja að halda til að hlutgera þá frumspekilegu ógn sem svo oft undirbyggir frásögnina. Draugar og andsetið fólk, heim- ilistæki sem láta öllum illum látum, ólæknandi sjúkdómar og annað í þessum dúr. Í þessu sam- hengi má velta fyrir sér hversu óttalegur hlutur vatn sé og hvort þar sé um að ræða æskilegt hjálpartæki fyrir hryllingsmynd. Franski heim- spekingurinn Jean-Paul Sartre hefur bent á að þykkir vökvar líkt og hunang, efni sem líkjast hvorki fljótandi vatni né föstum og traustum hlutum, séu frekar óhugnanlegir en hvort vatn eitt og sér, sjálf uppspretta lífsins, sé nægilega þungvægt til að halda heilli hryllingsmynd á floti getur vissulega talist spurnarefni. Samhliða spurningunni, hinsvegar, hikum við ekki við að beina sjónum að mikilvægu hlutverki rigningar, þoku og þungbúins veðurs al- mennt, en allt þetta hefur löngum verið lagt á vogarskálar hryllilegs myndmáls með góðum ár- angri. En eftir stendur spurningin hvort leki úr lofti sé líklegur til að koma gæsagangi af stað á húð áhorfanda. Kvikmyndagagnrýnendur í Banda- ríkjunum hafa margir hverjir svarað þessari spurningu neitandi og gefið nýlegri kvikmynd Walters Salles, Dark Water (Dimmt vatn), vonda dóma (undantekningar eru reyndar nokkrar, þ. á m. tímaritið Rolling Stone og dagblaðið Chicago Tribune). Myndin skartar Jennifer Connelly í að- alhlutverki og leikstjórinn er nýorðinn frægur, en á síðasta ári leikstýrði hann myndinni The Motor- cycle Diaries (Mótorhjóladagbækurnar) sem bæði varð vinsæl og hlaut góða umfjöllun í fjölmiðlum. Fræg leikkona og virtur leikstjóri dugðu þó ekki til að mati flestra; og kemur þar, sýnist mér, þrennt til. Fyrst ber að nefna áhugaleysi áður- nefndra gagnrýnenda á vatni, í öðru lagi há- stemmdar hugmyndir þeirra um lífskjör ein- stæðra mæðra í Bandaríkjunum, og í þriðja lagi skilningsleysi frammi fyrir hliðarspori frá formúl- um hollywoodískra hryllingsmynda. Myndbirting fyrir djúp undirmeðvitundarinnar Söguþráður myndarinnar er reyndar ekki mjög flókinn og rétt er að drepa á honum áður en nánar er farið í þessi þrjú atriði. Connelly leikur unga konu sem er nýskilin og flytur með dóttur sinni í frekar hráslagalegt húsnæði utan borgarinnar. Ekki er hún fyrr sest að í íbúðinni en hún sér eftir ákvörðuninni. Allt hríðlekur og á hæðinni fyrir of- an hefur að því er virðist heilt unglingagengi tekið sér bólfestu (sem spillir svo sannarlega fyrir svefnfriðinum). Þetta er að sjálfsögðu bara upp- hafið og áður en yfir lýkur hafa yfirnáttúruleg öfl blandað sér í spilið. Þá virðist laumulegt framferði húsvarðarins, sem leikinn er af Pete Postlet- hwaite, ansi grunsamlegt. En framhjá því verður ekki litið að vatnsleki (sem í fyrstu virðist sakleysislegur en magnast eftir því sem líður á myndina) gegnir lykilhlut- verki í frásögninni og hefur sumum þótt lítið til koma. Þeir sem átt hafa vatnsrúm og orðið fyrir þeirri ólukku að fylla eitt slíkt um of, og í kjölfarið séð saumana rifna og drjúgan hluta fasteignar eyðileggjast, munu vafalaust skilja hversu óhugn- anlegur stjórnlaus vatnsflaumur getur verið inn- andyra. En umfram slíkar vangaveltur er líka við hæfi að líta til kenninga sálgreiningarinnar en vatn er þar oft séð sem myndbirting fyrir djúp undirvit- undarinnar, þess sem haldið er í kafi svo það trufli ekki vanabundinn gang þess sem fram fer á yfir- borðinu. Hér er um góðan túlkunarlykil að ræða; það sem leysist úr viðjum í vatnsflaumnum á bein- ar rætur að rekja til æsku söguhetjunnar. Þá hafa sumir gagnrýnendur kvartað yfir þeirri firru að kona sem er jafn falleg og Jennifer Connelly myndi nokkurn tíma búa í jafn óhrjálegri íbúð og raun ber vitni. Utan við þá víðfeðmu skynvillu sem slíkar athugasemdir bera með sér (fátækt fólk getur líka verið fallegt) er horft framhjá því að kringumstæður Connelly eru útskýrðar í nokkrum smáatriðum, en sem heimavinnandi hús- móðir var hún ekki fátæk meðan hún var gift eiginmanni sínum og mun e.t.v. ekki vera fátæk eftir að skilnaðurinn gengur í gegn, en hún þarf að þrengja sultarólina um stundarsakir meðan á erfiðu tímabili stendur. Það sem hér er gefið í skyn um kynjamismun og fjárhagslegt forræði karla í nútímasamfélagi er enn skýrara í japönsku frummyndinni, sem leikstýrt var af Hideo Nakata. Frummyndin og bandaríska endurgerðin eru líkar í flestum grunn- atriðum, nema sú bandaríska hefur fengið andlits- lyftingu þegar að útliti kemur og þótt endalokin séu efnislega þau sömu er allnokkur munur í út- færslu. En það eru japanskar rætur myndarinnar sem útskýra að hluta til hvers vegna úrlausn hennar fylgir ekki þeim fordæmum sem áhorf- endur bandarískra kvikmynda hafa vanist. En einmitt þessi uppreisnarstrengur gerir myndina jafn áhrifaríka og raun ber vitni og þegar öllu er á botninn hvolft er maður reiðubúinn til að afsaka lausa enda ef endirinn sjálfur kemur á óvart. Hin myrku vötn Eftir Björn Þór Vilhjálmsson vilhjalmsson@ wisc.edu Reuters Dark Water Jennifer Connelly, hlutverki móðurinnar í Dark Water. Hún býr í niðurníddu húsi eftir að hafa lent í erfiðu forræðismáli, og vandi hennar myndbirtist í eilífum og vaxandi vatnsflaumi. Hvað dugar til að hlutgera þá frumspekilegu ógn sem hryllingsmyndir nota til að undirbyggja frásagnarhátt sinn? Vatn hefur ekki þótt nægi- lega notadrjúgt fram að þessu, þrátt fyrir vís- anir til undirmeðvitundarinnar, enda veltir greinarhöfundur því fyrir sér hvort það dugi til að magna upp nægilega spennu í nýjustu mynd Walters Salles, Dark Water.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.