Lesbók Morgunblaðsins - 31.12.2005, Qupperneq 6
6 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 31. desember 2005
N
ýr þjóðleikhússtjóri er tekinn
til starfa. Þýskra áhrifa gæt-
ir nú í æ ríkari mæli innan ís-
lensks leikhúss. Enn hefur
dregið úr umsvifum Borgar-
leikhússins. Algengara hefur
orðið að leikhópar og jafnvel leikarar starfi er-
lendis. Þetta er það sem kemur upp í hugann
þegar horft er til baka yfir árið 2005 fremur en
einstakar sýningar, einstök afrek.
Stefán Baldursson kvaddi loks í upphafi árs.
Hans verður minnst fyrir það að hafa tekið
þátt í því ásamt fyrrverandi menntamálaráð-
herra í andstöðu við félög leikhúsfólks að
breyta leiklistarlögum til
hins verra fyrir leiklistina í
landinu. Versti kaflinn í þeim
lögum er að þjóðleikhússtjóri
sem áður var ráðinn í hæsta
lagi til átta ára getur nú setið til eilífðarnóns.
Það eru margir sem eiga enn erfitt með að fyr-
irgefa Stefáni þetta. Ástæðan kannski fyrst og
fremst sú að þegar hann tók við stjórn leik-
hússins, sagði hann upp fjölda starfsmanna,
einkum konum; flest leikhúsfólk studdi þá
vondu aðgerð hans með þeim rökum að leik-
hússtjóri ætti auðvitað að geta starfað með því
fólki er hann helst kýs og starfaði sá hinn sami
aðeins í fjögur eða átta ár ætti það að tryggja í
okkar litla samfélagi að hæfileikafólki sem
ekki félli að smekk þessa eina manns væri vart
haldið lengur utangarðs en í átta ár. Þessu
stuðningsfólki sínu brást Stefán þegar hann
ákvað að sitja í þrettán ár. Og eins og allir sem
sitja of lengi var hans ekki sárt saknað þegar
hann fór, því löng valdaseta spillir bestu mönn-
um. Margt gott gerði hann samt á fyrri hluta
starfstíma síns, styrkti leikarahópinn og sjálfs-
mynd hans, fékk til liðs við leikhúsið áhrifa-
mikla erlenda leikstjóra, hélt vel utan um leik-
stjóra hússins, stóð sem klettur með leiksýn-
ingum og stuðlaði að því að þær væru unnar
sem skýr listræn heild í anda þeirrar kynslóð-
ar sem hann er af og menntuð var á Norður-
löndum eða meginlandi Evrópu.
Það voru hins vegar mörg erfið verkefni sem
blöstu við nýjum þjóðleikhússtjóra Tinnu
Gunnlaugsdóttur þegar hún tók við störfum.
Það eitt og sér hlýtur að hafa verið harkalegt
að vera kastað inn í þjóðleikhússtjórastarfið án
þess að fá nokkurn undirbúningstíma (enn
einn vondur lagabókstafur í núverandi leiklist-
arlögum!) en í leikhúsum af stærð og gerð
Þjóðleikhússins má ætla að minnst tveggja ára
undirbúningstími sé nauðsynlegur til að setja
saman verkefnaskrá og undirbúa hvert ein-
stakt verkefni svo allir þættir þess séu vel úr
garði gerðir og ná megi í bestu listamennina.
En við henni blasti einnig að allur tæknibún-
aður hússins var í molum, litla svið Þjóðleik-
hússins óvistlegt og erfitt að reka það nema
með tapi, rekstur Þjóðleikhúskjallarans var í
döpru ástandi og sjálft húsið, þjóðareignin, í al-
gjörri niðurníðslu. Á þessu eina ári sem þjóð-
leikhússtjóri hefur setið hefur hún tekið á öll-
um þessum vandamálum, tæknibúnaður hefur
verið endurnýjaður, Þjóðleikhúskjallarinn
færður til upprunalegs horfs og viðmótið gert
betra, nýtt leiksvið „Kassinn“ hefur verið inn-
réttað og opnað í gamla Jóns Þorsteinssonar
húsinu, gamla hæstaréttarhúsið fengið að láni
fyrir fræðsludeild og fræðsluuppákomur og er-
lendir fagaðilar eru nú að gera nákvæma út-
tekt á húsinu sjálfu og kostnaði við viðgerð á
því. Um hvernig þjóðleikhússtjóri hefur tekið á
innri málum Þjóðleikhússins er færra vitað, en
Ýmislegt er ánægjulegt
Morgunblaðið/Sverrir
Tinna Gunnlaugsdóttir þjóðleikhússtjóri „Í verkefnavalinu og samstarfinu við Vesturport blasa við nýjar áherslur hjá þjóðleikhússtjóra.“
Leiklist
Eftir Maríu
Kristjánsdóttur
majak@simnet.is
Þ
etta er tvímælalaust ár krimm-
ans í íslenskum bókmenntum. Á
annan tug reyfara kom út á
árinu, ég hef lesið sjö þeirra og
naut misvel, mestum von-
brigðum olli Vetrarborg eftir
Arnald Indriðason, sem lullar í gegnum alla
bókina, en Tími nornarinnar eftir Árna Þór-
arinsson er best. Bækurnar eru mjög líkar og
gera litla tilraun til þess að takast á við formið
sem þær eru skrifaðar inn í með frumlegum
hætti – en það er reyndar smekksatriði hvort
það teljist galli eða kostur.
Reyfaravæðing íslenskra bókmennta hefur
væntanlega náð hámarki í ár, að minnsta kosti
er ólíklegt að á ann-
an tug glæpasagna
verði á markaði aft-
ur að ári liðnu. Skýr-
ingin á uppgangi
þessarar bókmenntagreinar er að einhverju
leyti sú hversu vilhallt henni hið markaðslega
umhverfi er. Hið sama hefur gerst í nágranna-
löndunum þar sem krimmar eru orðnir að
harðri bisnessvöru sem agentarnir í bóka-
bransanum berjast um. Bókmenntakerfið er
líka hliðhollt reyfurunum um þessar mundir,
ekki bara vegna þess að hátt og lágt hefur
runnið saman, eins og oft hefur verið bent á,
heldur og vegna þess að frásögnin – söguþráð-
urinn sem módernisminn hafnaði að vissu leyti
– á upp á pallborðið.
Þessi innrás krimmanna í íslenskt bók-
menntalíf er mjög spennandi og verður for-
vitnilegt að fylgjast með því hvaða áhrif hún
hefur á fyrrnefnt bókmenntakerfi og þar með
bókmenntamat.
En krimmarnir eru líka í útrás og hafa þeg-
ar haft mikil áhrif á þeim vettvangi. Eins og
kom fram í grein í Viðskiptablaði Morg-
unblaðsins skömmu fyrir jól hefur reyfarinn
rutt íslenskum bókmenntum braut erlendis en
þar á ótrúleg velgengni Arnalds Indriðasonar
stóran hlut að máli. Bókaútgefendur segja það
tvennt ólíkt að kynna íslenskar bókmenntir er-
lendis nú eða fyrir fimmtán árum. Eins og tón-
listin og myndlistin eru bókmenntirnar orðnar
hluti af alþjóðamarkaði. Hver bjóst við því?
Hver bjóst til dæmis við því að hægt væri að
selja áður óbirtan glæpasagnahöfund eins og
Yrsu Sigurðardóttur til útlanda með öðrum
eins látum og gerðist í haust þegar samningar
voru gerðir um sölu á Þriðja tákninu og næstu
bók Yrsu til hundrað landa. Milljónir í fyr-
irframgreiðslu fyrir íslenska bók á erlendum
markaði, eins og Árni Þórarinsson fékk fyrir
þýska þýðingu á Tíma nornarinnar, eru líka fá-
heyrðar. Og hver hefði trúað því bara í fyrra
að Íslendingur ætti eftir að hljóta helstu reyf-
araverðlaun Breta, Gullna rýtinginn, sem Arn-
aldur gerði sér lítið fyrir og halaði inn í októ-
ber? Þetta var örugglega einn af
athyglisverðustu viðburðum í íslensku bók-
menntalífi þessa árs. Við hljótum að taka ofan
fyrir Arnaldi.
Sjón hlaut einnig verðuga viðurkenningu á
þessu ári þegar hann tók við Bókmenntaverð-
launum Norðurlandaráðs í haust fyrir
Skugga-Baldur. Sama dag gaf Sjón út nýja
skáldsögu, Argóarflísina, en sú bók sýnir að
hann er án vafa einn af okkar albestu höf-
undum nú um stundir.
Annars var þetta ekki mjög spennandi
skáldsagnaár. Steinunn Sigurðardóttir er með
athyglisverða nóvellu, Sólskinshest, sem er þó
við það að detta í sundur á köflum eftir
grimmilega tálgun á textanum. Hermann Stef-
ánsson skrifar fyrstu skáldsögu sína og formið
hreinlega leikur í höndunum á honum. Jón
Kalman Stefánsson skrifar bráðfallega bók
um kunnuglegt sögusvið, smáþorp á Vest-
urlandi. Stíll Jóns Kalmans er sérstakt rann-
sóknarefni, hann hefur einkennilegt aðdrátt-
arafl, flæðandi og seiðandi, mjög töff, alveg við
það að vera of svalur en í senn er hann fullur af
rómantísku myndmáli sem er stundum alveg á
mörkum þess að vera væmið en verður það
samt aldrei, þetta er eiginlega svolítið daðurs-
legur stíll en á sama tíma er rödd höfundar
mjög afgerandi og algerlega einstök í íslensk-
Ár krimmans
Morgunblaðið/Einar Falur
Arnaldur Indriðason „Og hver hefði trúað því bara í fyrra að Íslendingur ætti eftir að hljóta helstu reyfaraverðlaun Breta, Gullna rýtinginn, sem Arnaldur
gerði sér lítið fyrir og halaði inn í október? Þetta var örugglega einn af athyglisverðustu viðburðum í íslensku bókmenntalífi þessa árs.“ Arnaldur áritar
Mýrina fyrir áhugasama lesendur í útgáfuhófi St. Martin’s Press-forlagsins í New York í nóvember stuttu eftir að hann hlaut Gullna rýtinginn.
Bókmenntir
Eftir Þröst Helgason
throstur@mbl.is