Fréttablaðið - 07.04.2006, Blaðsíða 11
FÖSTUDAGUR 7. apríl 2006 11
ÍRAN, AP Stjórnvöld í Íran upplýstu
á miðvikudag að þau hefðu giftu-
samlega skotið á loft þriðju leyni-
legu sprengiflauginni á einni
viku. Frá þessu var greint í frétt-
um íranska ríkissjónvarpsins.
Samkvæmt fréttinni voru tvö
öflug tundurskeyti prófuð á sama
tíma.
Í fréttinni kom fram að hægt
væri að skjóta sprengiflauginni
frá öllum herþyrlum og -þotum,
og sást stutt mynd af flauginni
þar sem henni var skotið frá þyrlu
og lent á haffleti.
Alþjóðasérfræðingum kemur
ekki saman um áreiðanleika
fréttanna frá Íran, en þær koma á
sama tíma og spennan milli Írans
og Bandaríkjanna vegna kjarn-
orkuáætlunar Írana fer vaxandi.
Íranar segjast eingöngu ætla sér
að nýta kjarnorku til raforku-
framleiðslu, en leiðtogar á Vest-
urlöndum, ekki síst í Bandaríkj-
unum, telja að þeir undirbúi smíði
kjarnorkuvopna.
Deilunni um kjarnorkuáætlun
Írana hefur verið skotið til örygg-
isráðs Sameinuðu þjóðanna, en
það hefur vald til að ákveða refsi-
aðgerðir. Eftirlitsmenn frá
Alþjóðakjarnorkumálastofnun-
inni ætla til Írans í dag, föstudag,
til að skoða búnað Írana til kjarn-
orkurannsókna. - smk
Íranar halda áfram vopnatilraunum:
Þriðja sprengiflaugin
prófuð á einni viku
SPRENGIFLAUG Önnur sprengiflaugin af
þremur sem Íranar segjast hafa skotið í
tilraunaskyni í vikunni. FRÉTTABLAÐIÐ/AP
SUÐUR-AFRÍKA, AP Margir Suður-
Afríkubúar eru æfir yfir orðum
fyrrverandi varaforseta landsins,
en hann sagði fyrir dómi á mið-
vikudag að hann hefði „farið í
sturtu“ til að minnka líkurnar á
HIV-smiti eftir að hann hafði sam-
farir við HIV-smitaða konu á
heimili sínu í nóvember.
Konan kærði Jacob Zuma fyrir
nauðgun, en hann neitar sök og
segir hana hafa leitað eftir kynlíf-
inu, sem var óvarið.
Orð Zuma þykja færa ungum
Suður-Afríkumönnum röng skila-
boð, því karlmenn þar í landi eru
þekktir fyrir að eiga marga bólfé-
laga og stunda óvarið kynlíf þrátt
fyrir mikla útbreiðslu HIV-smits.
- smk
Varaforseti um alnæmi:
Fór í sturtu til
að forðast smit
MÓTMÆLI Margir eru reiðir fyrrverandi
varaforsetanum Jacob Zuma, sem ákærður
er fyrir nauðgun. FRÉTTABLAÐIÐ/AP
FINNLAND Framkvæmdastjórn Evr-
ópusambandsins hefur óskað eftir
útskýringum frá sjö ríkjum vegna
einokunar á veðmálum og fjár-
hættuspili. Meðal annars hefur
verið óskað eftir útskýringum frá
finnskum stjórnvöldum á því
hvort einokunarreglurnar hindri
frjálst flæði þjónustu á innri
markaði Evrópu.
Í vefútgáfu dagblaðsins Hels-
ingin Sanomat segir að fyrirspurn-
in nái aðeins til íþróttaveðmála og
að framkvæmdastjórnin sé ekki
að draga lögmæti einokunarfyrir-
komulagsins í efa. Grunur leiki
hins vegar á að reglurnar séu í
trássi við reglur ESB. - ghs
Veðmálaeinokun rannsökuð:
ESB krefur
Finna skýringa
INNBROT Lögreglan á Akranesi
rannsakar nú innbrot á hár-
greiðslustofu og í tískuvöruversl-
un, en brotist var inn á staðina í
fyrri nótt.
Skiptimynt var stolið af hár-
greiðslustofunni, auk snyrtivara,
en óverulegar fjárhæðir voru í
kassa inn á stofunni.
Úr tískuvöruverslunni hafði
innbrotsþjófurinn lítilræði af
peningum á brott með sér, auk
fatnaðar. Innbrotsþjófurinn er
ófundinn en þeir sem geta ein-
hverjar upplýsingar veitt um
málið er beðnir um að hafa sam-
band við lögregluna á Akranesi.
- mh
Tvö innbrot á Akranesi:
Stal fatnaði og
snyrtivörum
ÍRAK, AP Lögmenn Saddams Huss-
ein segja nýbirtar ákærur gegn
einræðisherranum fyrrverandi
um þjóðarmorð þjóna pólitískum
markmiðum Bandaríkjanna.
Nú er verið að rétta yfir Sadd-
am og sjö öðrum vegna drápa á
148 sjíamúslimum, en nýju ákær-
urnar eru af mun alvarlegri toga.
Um 100.000 Kúrdar fórust í hern-
aðarlegum árásum sem saksókn-
arar segja Saddam hafa fyrirskip-
að árið 1988.
Saddam hefur viðurkennt að
hafa fyrirskipað drápin á sjía-
múslimunum, en ber því við að
nægar sannanir hafi verið fyrir
því að fólkið hafi staðið að morð-
tilraun gegn honum.
Undir þetta tók í gær einn hinna
sakborninganna, Awad al-Bandar,
dómarinn sem á sínum tíma
dæmdi fólkið til dauða. - smk
Lögmenn Saddams Hussein:
Segja ákærur
þjóna óvininum
SADDAM HUSSEIN Fyrrverandi einræðis-
herra Íraks í réttarsal. FRÉTTABLAÐIÐ/AP