Fréttablaðið - 18.06.2006, Page 10

Fréttablaðið - 18.06.2006, Page 10
10 18. júní 2006 SUNNUDAGUR Þótt sá leiðtogafundur Evrópusambandsins, sem lauk í Brussel á föstudag, teljist ekki til hinna sögu- legustu í hálfrar aldar sögu sambandsins mættu yfir 1.800 fréttamenn frá 65 þjóðlöndum til að fylgjast með honum í höfuðstöðv- um ESB-ráðsins í Brussel. Blaðamaður Fréttablaðsins var þar á meðal. Lengst af var það föst hefð að reglulegir leiðtogafundir Evrópu- sambandsins, sem að jafnaði fara fram í júní og desember – undir lok hvers formennskumisseris – færu fram í formennskuríkinu. Frá því aðildarríkjunum fjölgaði í 25 árið 2004 hefur sú regla hins vegar verið fest í sessi að þessir reglulegu fundir leiðtoganna fari fram í Brussel, í höfuðstöðvum ESB-stjórnsýslunnar, nánar tiltek- ið í Justus-Lipsius-byggingunni, sem reist var yfir stjórnsýslu ráð- herraráðs ESB í upphafi tíunda áratugarins. Nafnið hefur hún af lítilli götu sem hún er reist við, en hún var kennd við flæmskan 16. aldar fræðimann sem er einna helzt kunnur fyrir þá kenningu sína, að landsstjórn í hverju landi ætti aðeins að viðurkenna ein trú- arbrögð meðal þegna sinna og uppræta af hörku alla andstöðu við það. Í föstum skorðum Þar sem fundir sem þessir fara fram mjög reglulega er margt í kringum þá í mjög föstum skorð- um. Fundurinn hefst jafnan síð- degis á fimmtudegi. Leiðtogar for- mennskuríkisins koma fyrstir (inn um VIP-innganginn við bakhlið byggingarinnar), stilla sér síðan upp innandyra á palli með Evrópu- fánanum, þar sem þeir heilsa öllum hinum leiðtogunum þegar þeir tínast inn og brosa framan í ljósmyndavélarnar. Sumir leið- toganna svara spurningum sem blaðamenn varpa að þeim er þeir ganga eftir rauða dreglinum frá límúsínunum að innganginum. Síðan raða leiðtogarnir – það eru forsætis- og utanríkisráðherr- ar aðildarríkjanna, auk forseta lýðveldisins frá þeim löndum þar sem hann hefur meira en tákn- rænt hlutverk með höndum (Frakklandi og Finnlandi) – sér í kring um fundarborðið í aðalfund- arsalnum. Myndatökur eru leyfð- ar á meðan og nást þá gjarnan myndir af leiðtogunum að heilsast með virktum. Á upphafsdegi slíkra leiðtoga- funda notar forseti framkvæmda- stjórnarinnar gjarnan tækifærið til að vekja athygli á sínum sjónar- miðum í þeim málum sem leið- togarnir eiga að ræða um, að hans mati. Og forseti Evrópuþingsins gerir það líka. Íhugunarfrestur framlengdur Í þessu tilviki ákváðu leiðtogarnir fátt annað á fyrri fundardeginum en að samþykkja að þeir gæfu sér minnst tvö ár til viðbótar til að komast að niðurstöðu um hvað verða skuli um stjónarskrársátt- málann svonefnda, en það hefur verið eitt erfiðasta viðfangsefni Evrópusambandsins frá því full- gildingarferli hans strandaði við að kjósendur í Frakklandi og Hol- landi höfnuðu honum í þjóðarat- kvæðagreiðslum fyrir rétt rúmu ári. Öll aðildarríkin þurfa að ljúka fullgildingunni til að sáttmálinn geti tekið gildi. Þetta hefur hins vegar ekki komið í veg fyrir að á þessu ári sem liðið er frá þjóðarat- kvæðagreiðslunum hafa fimm ríki til viðbótar lokið þinglegri afgreiðslu fullgildingar sáttmál- ans. Alls hafa fimmtán ríki gert það, og Finnland - sem tekur við ESB-formennskunni um næstu mánaðamót - bætist væntanlega við í haust. Með því vilja Finnar skipa sér í hóp þeirra þjóða sem finnst rétt að gefa stjórnarskrár- sáttmálann ekki alveg upp á bát- inn þrátt fyrir ófarir hans í þjóð- aratkvæðagreiðslunum. Aðildarríkin skiptast þannig í tvær fylkingar, sem annars vegar vilja halda fullgildingarferlinu áfram eins og ekkert hefði í skor- izt, og hins vegar að einhver alveg ný lausn verði fundin svo að eng- inn vafi leiki á því að lýðræðisleg- ur vilji kjósenda í Frakklandi og Hollandi verði virtur. Hlustað á borgarana Óháð þessu ákváðu leiðtogarnir að leitast við að efla samstarfið á til- teknum sviðum, hvað sem um stjórnarskrársáttmálann kann að verða. Var þar sérstaklega minnzt á að „borgararnir vænti þess að sambandið sýni virðisaukann í starfi þess með því að grípa til aðgerða til að mæta þeim áskorun- um og tækifærum sem það stend- ur frammi fyrir: að tryggja frið, velsæld og samstöðu, bæta öryggi, efla sjálfbæra þróun og standa vörð um evrópsk gildi í hnatt- væddum heimi,“ eins og segir í lokaályktunum fundarins sem gefnar voru út eftir að leiðtogarn- ir stóðu upp frá borðum um hádegi á föstudeginum. Aðalvinnufundur leiðtogafund- arins er á föstudeginum, en hann stóð ekki lengi að þessu sinni, eða í rétt rúma tvo tíma. Wolfgang Schüssel Austurríkiskanslari var fljótur að þylja upp helztu niður- stöðurnar, á móðurmáli sínu með vingjarnlegum austurrískum hreim, að viðstöddum talsverðum hluta þeirra 1.828 fréttamanna sem skráðir voru til leiks. Barroso framkvæmdastjórnarforseti hnykkti á því sem hann taldi mark- verðast við niðurstöðurnar, á sinni ensku með léttum portúgölskum hreim. Og loks rakti austurríski utanríkisráðherrann, Ursula Plas- snik, þær ályktanir í utanríkismál- um sem leiðtogarnir hefðu afgreitt að þessu sinni. Fundinum lauk með því að Schüssel afhenti Barroso fyrsta eintak bókar með safni ritverka sem orðið hafa til undir yfirskrift- inni „Café Europa“, en það er verkefni sem austurríska for- mennskan hleypti af stokkunum í tengslum við Evrópudaginn 9. maí í vor, sem ætlað var að vekja athygli almennings á menningar- legum auði Evrópu og hvetja til uppbyggilegra skoðanaskipta um framtíð Evrópusamrunans, í víð- ara samhengi en þeim þröngsýna skotgrafahernaði sem umræðan um Evrópusambandið hefur gjarn- an fallið í. Gaddavír og alvæpni Þessi lágstemmdi lokablaðamanna- fundur staðfesti að þetta var ekki einn af eftirminnilegri leiðtoga- fundunum í sögu Evrópusam- bandsins. En þó skráðu sig 1.828 blaðamenn af 65 þjóðernum til leiks. Að sögn starfsmanna blaða- mannamiðstöðvarinnar er þetta meðalfjöldi. Á leiðtogafundum þar sem meiri hitamál eru til umfjöll- unar, eins og til dæmis þegar verið var að ganga frá samningsumboð- inu til að hefja aðildarviðræður við Tyrki í fyrra, mættu hátt í 2.500 fjölmiðlamenn. En þá eru líka allir taldir – skrifandi blaðamenn dag- blaða, ljósmyndarar, útvarps- og sjónvarpsfréttamenn, sjónvarps- myndatökulið o.s.frv. Miðað við umfangið má segja að það hafi komið sjónarvotti á óvart hversu smurt þetta gekk allt fyrir sig. Og Brusselbúar eru orðnir vanir að una öryggisráð- stöfununum sem óhjákvæmilega fylgja – á meðan á leiðtogafundi stendur er næsta nágrenni Justus- Lipsius-byggingarinnar lokað af með gaddavír og lögreglumönnum með alvæpni, þyrlur sveima yfir og öll umferð fer úr skorðum vegna allra fyrirmennabílalest- anna, sem þeysa með lögreglu- fylgd um borgina. Meðal bygginga sem lenda innan öryggissvæðisins er sú sem hýsir íslenzka sendiráð- ið. Það er uppi á efstu hæð í skrif- stofuhúsi hinum megin við Schum- an-torgið. Fulltrúar íslenzka lýðveldisins, sem þar starfa, horfa því daglega niður á valdamiðstöð Evrópusambandsins. Úr öruggri fjarlægð. audunn@frettabladid.is Lágstemmdur leiðtogafundur Í leiðtogaráði Evrópusambandsins (á ensku: European Council) sitja ríkis- stjórnaleiðtogar aðildarríkjanna auk forseta framkvæmdastjórnar ESB. Leiðtogaráðið leggur línurnar og er driffjöður í hinu pólitíska samstarfi aðildarríkjanna. Það tekur ákvarðan- ir í mikilvægustu málunum og þeim málum sem fagráðherrarnir hafa ekki náð samkomulagi um. Síðustu tvo ára- tugi eða svo hafa margar mikilvægustu ákvarðanirnar um framþróun, innihald og skipulag Evrópusamvinnunnar átt sér stað í leiðtogaráðinu – þó þær hafi verið undirbúnar, skilgreindar nánar, komið í lög og framkvæmd af öðrum stofnunum ESB (ráðherraráðinu, fram- kvæmdastjórninni og Evrópuþinginu). Leiðtogaráðið hefur látið æ meira að sér kveða í utanríkismálum og í dóms- og innanríkismálasamstarfi ESB-ríkjanna. Auk hinna reglulegu leiðtogafunda, sem að jafnaði eru haldnir í júní og desember (undir lok hvers formennskumisseris), hittist leiðtogaráðið stundum með skömm- um fyrirvara þegar aðkallandi er að fá niðurstöðu í knýjandi deilumálum. Hefð var fyrir því að reglulegu leið- togafundirnir færu fram í höfuðborg formennskuríkisins hverju sinni, en frá síðustu stækkun sambandsins komst til framkvæmda og aðildarþjóðirnar urðu 25 talsins hefur sú regla verið fest í sessi að fundirnir fari fram í Brussel, þar sem öryggisráðstafanir, túlkaþjón- usta og annað sem tilheyrir er allt fyrir hendi. Leiðtogaráðið er ásamt ráðherra- ráðinu hluti af Ráði Evrópusam- bandsins (enska: Council of the EU). Ráðherraráðið (enska: Council of Ministers) fer með löggjafarvald í ESB, ásamt Evrópuþinginu, gætir hags- muna aðildarríkjanna í ESB-samstarf- inu, undirritar samninga við önnur ríki, ríkjasamtök og alþjóðastofnanir, sam- hæfir stefnu og aðgerðir aðildarríkj- anna í flestum málaflokkum og hefur ákveðið framkvæmdavald fyrir hönd ESB. Hvert aðildarríki á einn fulltrúa í ráðherraráðinu, óháð íbúafjölda, en þeir fara með mismikið atkvæðavægi í málum þar sem ákvarðanir eru teknar með vegnum meirihluta. Heimild: www.esb.is Hvað er leið- togaráð ESB? WOLFGANG SCHUSSEL AUSTURRÍKISKANSLARI Á annað þúsund blaðamenn frá 65 ríkjum fylgdust með leiðtogafundi Evrópusambandsins sem lauk í Brussel á föstudag. Fundurinn var tíðindalítill. Leiðtogarnir ákváðu að auka samstarfið og var sérstaklega minnst á að tryggja frið, velsæld og samstöðu, bæta öryggi, efla sjálfbæra þróun og standa vörð um evrópsk gildi. Ísland og Evrópusambandið Ísland og Íslendingar hafa að öllu jöfnu fátt af leiðtogafundum Evrópusam- bandsins að segja. Og þó. Þótt engir íslenzkir stjórnmálamenn, embættis- né blaðamenn sæki sjálfa leiðtogafundina og fréttir af þeim því jafnan lítt áberandi í íslenzkum fjölmiðlum ¿ að minnsta kosti í samanburði við fjölmiðla í aðildarríkjum ESB ¿ tengjast þessi fundir íslenzkum hagsmunum með ýmsu móti. Fyrst ber að nefna að fundir EES-ráðsins fara jafnan fram í framhaldi af fundi utanríkisráðherra sambandsins í sömu vikunni og sjálfir reglulegu ESB- leiðtogafundirnir fara fram í júní og desember. EES-ráðið er samkvæmt skipuriti æðsta valdastofnun EES-samstarfsins, en í því fer fram pólitískt samráð EFTA- ríkjanna í EES við ESB-stoð EES. Í reynd eru þetta fundir þar sem utanríkisráð- herrar EFTA-ríkjanna þriggja í EES, Íslands, Noregs og Liechtenstein eða stað- genglar þeirra, hitta utanríkisráðherra formennskuríkis EES eða staðgengil hans. Háttsettur fulltrúi úr framkvæmdastjórn ESB mætir stundum líka. Á fundum EES-ráðsins er blessun lögð yfir ályktanir sem varða EES-samstarfið. Stundum er þar skipzt á skoðunum um utanríkismál, en EFTA-ríkin lýsa oft yfir stuðningi við ályktanir og stefnumið sem ESB-ríkin ákveða. Á fundinum sem fram fór í Lúxemborg síðastliðið mánudagskvöld var til að mynda rætt um þróun mála á vestanverðum Balkanskaga, í Mið-Austurlöndum og í Darfur í Súdan. Það sem þó tengir íslenzka hagsmuni mest við það sem fram fer á leiðtogafundum ESB er þegar þar eru tekn- ar stórar ákvarðanir á borð við uppfærslu á stofnsáttmál- um ESB, um að taka ný ríki inn í raðir sambandsins, eða um breytingar á stefnumálum sambandsins ¿ svo sem á sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni, á Schengen-samstarf- inu eða á reglum um innri markaðinn. Vegna hinna nánu tengsla sem Íslands á í við Evrópusambandið, í gegnum EES, Schengen og annað samstarf, geta slíkar ákvarðanir ESB-leiðtoganna snert íslenzka hagsmuni með margvísleg- um beinum og óbeinum hætti. Með hliðsjón af því er það eflaust við hæfi að íslenzka sendiráðið - sem er það fjölmennasta af öllum sendiskrifstofum lýðveldisins og sinnir hinum daglegu samskiptum Íslands við ESB, sé nú til húsa uppi á sjöundu og áttundu hæð í húsi við Schuman-torg, gegnt höfuðstöðvum ESB-ráðsins og fram- kvæmdastjórnarinnar. Bygging Evrópuþingsins, þriðju burðarstofnunar stjórn- kerfis ESB, er nokkru fjær. Þarna uppi á áttundu hæð eru fulltrúar íslenzka lýðveldisins í sjónlínu við valdamiðstöðvar Evrópusambandsins. En jafnframt í öruggri fjarlægð frá þeim. AF EVRÓPUVETTVANGI: AUÐUNN ARNÓRSSON Leiðtogafundir ESB og Íslands

x

Fréttablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.