Fréttablaðið - 29.07.2006, Síða 24
29. júlí 2006 LAUGARDAGUR24
Það er ekki boðið upp á soja-kaffi á kaffihúsinu við Aust-urstræti svo Emilíana pantar
sér te, sem er í svo framandi
umbúðum að hún kallar á þjón sér
til aðstoðar. Að lokum kemur hún
tepokanum ofan í rjúkandi bollann
og getur veitt blaðamanni alla sína
athygli. „Ég spilaði í eitt og hálft
ár, fór svo beint að semja en tók
mér svo frí,“ segir Emilíana um
farir sínar frá því platan Fisher-
man’s Woman kom út fyrir rösk-
um tveimur árum við góðan orð-
stír. „Ég reyni bara að vera sem
mest úti við þegar ég er í fríi, sitja
upp á einhverjum hól. Eða hanga á
eBay,“ segir hún og hlær.
Borgarfjörður eystri í uppáhaldi
Á fimmtudag héldu hún og Skot-
arnir í Belle and Sebastian vel
heppnaða tónleika á NASA við
Austurvöll og í kvöld endurtaka
þau leikinn á Borgarfirði eystri,
en Emilíana söng þar reyndar í
fyrra líka þegar hún fór í stutta
tónleikaferð um landið.
„Þetta er uppáhalds staðurinn
minn á landinu. Ég var þarna
allltaf hjá ömmu á sumrin sem
barn og vantaði bara afsökun til að
fara þangað,“ segir hún hlær. „Ég
var líka orðin þreytt á að spila
bara í Reykjavík þegar ég kem
hingað og ákvað að gera það að
reglu að fara líka mikið út á land.
Mér finnst skrýtið hvað íslenskir
tónlistarmenn túra lítið um landið
sitt. Svo fara þeir út að meika það
en hafa ekki einu sinni spilað fyrir
fólkið heima sem er búið að vera
þarna frá byrjun.“
Auk þess segir Emilíana að
margt spennandi gerist á tónleik-
unum úti á landi sem myndi ekki
gerast annars staðar. „Þegar ég
spilaði á Ísafirði vantaði alla lýs-
ingu á sviðið þannig að tónleika-
gestir komu með lampa að heiman
og þeim var raðað á sviðið. Á Borg-
arfirði eystri spiluðum við í gömlu
bræðslunni, þar sem var búið að
koma tveimur trillum fyrir inni. Í
annarri kom hljóðmaðurinn sér
fyrir og ljósamaðurinn í hinni og
við fylltum bræðsluna af lækn-
ingarjurtum úr garðinum hennar
ömmu og kertum. Svo skein mið-
nætursólin inn um rifur og nagla-
göt á húsinu og birtan inni var
undursamleg.“
Pólitískur náttúrusjúklingur
Þar sem Emilíana metur Borgar-
fjörð eystri og svæðið í kring
mikils og lýsir sér þar að auki
sem „náttúrusjúklingi“ líst henni
illa á að mikið landflæmi fari
undir vatn þegar hleypt verður á
Hálsalón í tengslum við Kára-
hnjúkavirkjun í haust. „Þessi
virkjun er algjört rugl. Mér
finnst þetta algjör óþarfi því það
er ekki verið að gera þetta til að
búa til rafmagn handa fólki held-
ur stóriðju. Það er alveg hægt að
fara aðrar leiðir,“ segir hún og
bætir við að það sé öllum hollt að
vera dálítið pólitískir.
„Sérstaklega þegar það snertir
eitthvað mikilvægt á borð við nátt-
úruna. Sjálf er ég meðvituð um
umhverfisvernd og tek þátt í henni
eins og ég get; labba frekar eða
hjóla í stað þess að keyra, ég endur-
vinn, nota allan lífrænan úrgang í
Emilíönu Torrini vantaði afsökun til að fara
á Borgarfjörð eystri og ákvað því að halda þar
tónleika í annað sinn á jafnmörgum árum. Í þetta
sinn dró hún kunningja sína frá Skotlandi með.
Bergsteinn Sigurðsson forvitnaðist um hvað hefði
drifið á daga söngkonunnar síðan síðast.
Ég er engin
gangandi dúlla
EMILÍANA TORRINI „Höfuðborgarsvæðið hefur breyst svo mikið á hálfum áratug að ég fyllist stundum óöryggiskennd. Það er búið að reisa
heilu bæina liggur við og ég rata ekki neitt lengur. Hvaðan kemur allt þetta fólk?“ FRÉTTABLAÐIÐ/GVA
TÓNLISTIN Í EYRUNUM: Heil ósköp, allt frá Yoko Ono og Grace Jones
til TV on the Radio. Fer algjörlega eftir skapinu sem ég er í.
MYNDIN Í TÆKINU: Ég horfi lítið sem ekkert á sjónvarp og fer sjald-
an í bíó. Síðasta mynd sem ég sá var Capote með Philip Seymour
Hoffman og mér fannst hún virkilega góð.
BÓKIN Á NÁTTBORÐINU: Sagnfræðingurinn eftir Elizabeth Kostova.
Hún er ekkert sérstök en ég er þannig úr garði gerð að ég drösla mér
alltaf í gegnum allt þótt það sé leiðinlegt; klára til dæmis alltaf að
horfa á bíómyndir sen ég byrja að horfa á sama hversu leiðinlegar
þær eru.
ÁHRIFAVALDAR: Í tónlistinni eru það tvímælalaust Nick Cave og Tom
Waits. Ég veðraðist alveg upp þegar ég frétti að Waits væri að fara
að leika í mynd eftir Dag Kára. Dagur sagði mér að hann vantaði ein-
hvern til að leika róna í myndinni og ég bauð mig fram.
Emilíana í hnotskurn
Ég er óttalegur sveimhugi
og á stundum erfitt með
að halda fókus, þannig að
það verður alltaf einhver
að vera með svipuna bak-
við mig til að halda mér
við efnið, annars væri ég
komin út í sveit að rækta
kartöflur.
garðinn, vel matvörur, til dæmis
kjöt, vandlega og svo framvegis.“
Ratar ekki í Reykjavík lengur
Emilíana býr í bænum Brighton, í
grennd við London, og þrátt fyrir
að vera á miklu flakki tónlistarinn-
ar vegna segist hún hafa skotið
þar rótum. „Þetta er smábær sem
segja má að sameini það besta frá
London og Reykjavík.“
Gatwick-flugvöllur er aðeins
steinsnar frá sem gerir það að
verkum að hún kemst oftar heim
til Íslands til að slá á sárustu heim-
þrána. „Ég gríp þau tækifæri sem
ég get. Það hefur verið skrýtið að
fylgjast með þróuninni heima utan
frá. Höfuðborgarsvæðið hefur
breyst svo mikið á hálfum áratug
að ég fylllist stundum óöryggis-
kennd. Það er búið að reisa heilu
bæina liggur við og ég rata ekki
neitt lengur. Hvaðan kemur allt
þetta fólk?
En það eru líka ánægjulegar
breytingar. Það er mikill kraftur í
listalífinu til dæmis og fullt af
fólki að gera nýja og skemmtilega
hluti. Ég reyni að fylgjast með
hvað er á seyði í tónlistinni, fer
reglulega í 12 Tóna og tæmi búð-
ina. Það er gott að eiga góða vini
þar,“ segir hún og hlær.
Emilíana hefur þó lítið fylgst
með umtalaðasta tónlistarmanni
Íslands um þessar mundir og besta
syni Borgarfjarðar eystri, Magna
Ásgeirssyni, og frammistöðu hans
í Rockstar: Supernova. „Ég horfi
svo lítið á sjónvarp, allra síst raun-
veruleikaþætti. Ég fæ bara kjána-
hroll. Það er búið að taka alla dul-
úðina úr rokkinu, eiginlega snúa
því upp í andhverfu sína, og þá
missi ég áhugann.“
Kröfurharðari við sjálfa sig
Emilíana flutti út rétt fyrir alda-
mót til að einbeita sér að tónlist-
inni og hefur á þeim tíma tekið út
mikinn þroska sem tónlistarmað-
ur, eins og Fisherman’s Woman
ber með sér. „Helsti munurinn
eftir að ég flutti út er auðvitað sá
að ég fór að semja tónlist og eftir
því sem ég hef náð meira valdi á
því verð ég þeim mun harðari við
mig og vandlátari á það sem ég
skila af mér. Þetta er ekki níu til
fimm vinna sem er ágætt þótt ég
óski þess stundum að það væri
meiri regla á vinnunni. Ég er ótta-
legur sveimhugi og á stundum
erfitt með að halda fókus, þannig
að það verður alltaf einhver að
vera með svipuna bakvið mig til
að halda mér við efnið, annars
væri ég komin út í sveit að rækta
kartöflur. Þess vegna finnst mér
betra að vinna með öðrum frekar
en ein.“
Núna stendur hún frammi fyrir
þeirri pressu í fyrsta sinn að
útgáfufyrirtæki hennar vill fá nýja
plötu ekki seinna en á næsta ári.
„Ætli ég eigi nokkuð eftir að standa
við það,“ segir hún og hlær. „En það
er best að láta þessa menn fá á til-
finninguna að þeir ráði einhverju.“
Saknar sundlauganna
Hvort hún stefni í nýjar áttir á
næstu plötu segir Emilíana það
óráðið. „Ég læt það bara gerast
sem verða vill.“ Hún stekkur
hins vegar upp á nef sér spurð
um hvort hún líti á sig sem
merkisbera krúttkynslóðarinn-
ar. „Hvaða krúttkynslóð er þetta
eiginlega? Þetta hugtak fór
algjörlega framhjá mér. Sem
betur fer því mér finnst þetta
ömurlegt orð. Ég er engin gang-
andi dúlla!“
Emilíana verður á landinu
fram á miðvikudag. Hún ætlar
að taka með sér vini að utan aust-
ur á land og fara með þeim í úti-
legu á leiðinni aftur í bæinn.
„Við ætlum að stoppa í einhverj-
um fallegum lundi, tjalda og
grilla. Ég reyni alltaf að komast
út í náttúruna þegar ég kem
heim. Til þess kem ég. Svo fer ég
líka alltaf í sund. Mér finnst best
að fara í sund að vetri til þegar
það eru fáir á ferli og láta mig
fljóta og finna snjóflyksurnar
lenda á augnlokunum á mér. Auð-
vitað fæ ég stöku sinnum heim-
þrá en ég kem nógu oft heim til
að verða ekki eirðarlaus.“
Hún sér ekki fram á að snúa
heim fyrir fullt og allt í bráð,
jafnvel nokkurn tímann. „Draum-
urinn er að verða bóndakona uppi
í sveit einhvern tímann. Eða kór-
stjóri einhvers staðar í Austur-
Evrópu. Ég sé bara til. Það gerist
ábyggilega eitthvað.“ ■