Fréttablaðið - 28.03.2007, Side 26
MARKAÐURINN
Sögurnar... tölurnar... fólkið...
28. MARS 2007 MIÐVIKUDAGUR10
S K O Ð U N
U M V Í Ð A V E R Ö L D
Einkageirinn á Íslandi er nánast
óþekkjanlegur frá því sem hann
var fyrir örfáum árum. Atvinnu-
fyrirtækin hafa aukist að afli og
ný sprottið fram á fjölmörgum
sviðum. Heilu atvinnugreinarn-
ar hafa tekið stakkaskiptum og
breytt landslaginu í efnahags-
lífinu. Skýrt dæmi er fjármála-
geirinn sem skotist hefur fram
úr sjávarútvegi á mælikvarða
framlags til framleiðslu í land-
inu. Annað dæmi eru stórsókn
til útlanda með glæsilegri útrás
fyrirtækja víða um heim. Allt
þetta hefur styrkt efnahag
þjóðarinnar og styrkt stoðirnar
undir hagsæld og lífsgæðum al-
mennings.
AÐGERÐIR Á STJÓRNMÁLAVETT-
VANGI
Aukin hagsæld er knúin áfram
af framtaki og ágóðavon. Aðild-
in að Evrópska efnahagssvæðinu
skóp jarðveg fyrir sögulegum
uppgangi í efnahagslífinu með
afnámi viðskiptahafta og auknu
frelsi til athafna. Sama gegn-
ir um einkavæðingu opinberra
fyrirtækja þótt framkvæmdina
hafi mátt gagnrýna í sumum til-
fellum.
Á stjórnmálavettvangi eru at-
vinnulífinu markaðar leikreglur
til að tryggja samkeppnisstöðu
og jafnan leik. Þar hefur margt
vel tekist eins og ofangreind
dæmi um efnahagssvæðið og
einkavæðinguna sýna. Eins má
nefna ýmsar skattbreytingar á
borð við lækkun á tekjuskatti,
afnám eignaskatts, og upptöku
einfalds fjármagnstekjuskatts.
Sterklega hlýtur að koma til
álita að lækka hlutfall tekju-
skatts félaga enn meir með það
að markmiði að stækka skatt-
stofninn og auka skatttekjur af
atvinnustarfsemi eins og reynd-
in hefur orðið. Þannig má skapa
færi á myndarlegri lækkun á
tekjuskatti einstaklinga sem er
löngu tímabær.
FJÁRMAGNSTEKJUSKATTUR ER
NÓGU HÁR
Í aðdraganda alþingiskosninga
heyrast raddir um að hækka
þurfi fjármagnstekjuskatt og er
rökstutt með því að of mikið bil
ríki milli hans og tekjuskatts af
launatekjum. Væri þá ekki rétt
að hækka skattinn? Já, af hverju
ekki bara tvöfalda hann fyrst
munurinn er svona mikill?
Von er að spurt sé, en hér þarf
að hyggja vel að. Fjármagns-
tekjuskattur leggst á fjármagns-
tekjur brúttó og er þess vegna
miklum mun hærri en hann virð-
ist við fyrstu sýn. Fjármagns-
tekjum má almennt skipta í arð,
vexti og leigu.
• Arður af hlutafé ber 26,2%
skatt í ljósi þess að áður en
10% fjármagnstekjuskatt-
ur er lagður á hefur félagið
greitt 18% tekjuskatt. Hluta-
féð sem stendur undir arð-
inum er áhættu undirorpið
og getur allt glatast eins og
mörg dæmi eru um.
• Vaxtatekjur reiknast brúttó
án frádráttarliða. Þetta þýðir
að maður sem fær 10% vexti
í 10% verðbólgu hefur í raun
engar tekjur fengið af inn-
stæðunni en þarf samt að
borga tíunda hluta vaxtanna
í skatt. Niðurstaðan er sú að
hann þarf að ganga á eign-
ina um sem næst 1% til að
greiða skattinn.
• Leiga af fasteign ber sömu-
leiðis 10% skatt án frá-
dráttarliða á borð við við-
haldskostnað og fasteigna-
gjöld. Eigendum fasteigna
er reiknuð leiga af eigninni
(nema eigin íbúðarhúsnæði)
jafnvel þótt engin leiga komi
fyrir hana.
Eru þetta rök fyrir því að
hækka þurfi fjármagnstekju-
skatt?
Mörgum virðist sjást yfir að
fjármagnstekjuskatturinn hefur
verkað sem aflvaki í atvinnu-
lífinu með því að hann hefur
gert eigendum fyrirtækja kleift
að selja þau án þess að greiða
tekjuskatt eins og um launatekj-
ur væri að ræða. Þetta hefur
leitt til samruna fyrirtækja sem
ekki hefði orðið að öðrum kosti
og skapað sterkari rekstrar-
einingar. Með þessu hefur fjár-
magnstekjuskatturinn án efa
leitt af sér styrkara atvinnulíf
í landinu. Fjármagnstekjuskatt-
ur skilar miklum tekjum í ríkis-
sjóð sem gætu gufað upp eins og
dögg fyrir sólu vegna þess hve
skattstofninn er kvikur.
EVRAN EÐA KRÓNAN?
Bersýnilegt er að veruleg-
ar efasemdir hafa gripið um
sig meðal fyrirtækja og raunar
líka almennings hvort krónan
standi undir kröfum viðskipta-
lífsins um traustan gjaldmiðil.
Nefnd á vegum Viðskiptaráðs
Íslands um krónuna og atvinnu-
lífið komst að þeirri niðurstöðu
í skýrslu sinni í fyrra að um
framtíðarskipan gengismála
stæði valið á milli krónu og evru
með aðild að myntbandalagi
Evrópu. Með þeirri niðurstöðu
var í raun spurningarmerki sett
aftan við framtíð krónunnar.
Enginn vafi er á að gengis-
málin verða rædd ítarlega á
komandi misserum. Brýnt er
að varpa ljósi á þessa tvo kosti
og færi vel á að þeir yrðu tekn-
ir út á vettvangi atvinnulífsins
sjálfs með atbeina heildarsam-
taka fyrirtækja og launafólks á
þeim vettvangi. Fyrirtækin og
fólkið eiga mestra hagsmuna
að gæta.
Um þessar mundir bræða
mörg fyrirtæki með sér val á
uppgjörsmynt og kauphallar-
mynt. Ákvarðanir um þetta taka
þau á viðskiptalegum forsend-
um. Varhugavert er að opinberir
aðilar grípi til skyndiákvarðana
sem trufla fyrirtækin að þessu
leyti. Að sama skapi verður
að telja heppilegast að erlend-
ir aðilar skynji starfsumhverfi
fjármálafyrirtækja og annarra
fyrirtækja á Íslandi á þann hátt
að hér ríki stjórnfesta og stöð-
ugleiki í regluverkinu.
UPPGANGUR ÁFRAM EÐA HAND-
BREMSAN?
Miklu skiptir að atvinnu-
fyrirtækin og almenningur megi
treysta því að ný ríkisstjórn,
hvaða stjórnmálaflokkar sem
þar kunna að koma við sögu,
beiti sér fyrir því að uppgang-
ur atvinnulífsins megi halda
áfram. Reynir þar á leikreglur
fyrirtækja, skattalegt umhverfi,
frjálsræði til athafna og sam-
keppnisstöðu. Greinilegt er að
aðstæður eins og ríkt hafa í at-
vinnulífinu kalla á að háskólarn-
ir útskrifi enn fleira fólk sem er
fært um að takast á við krefj-
andi verkefni í síbreytilegu við-
skiptalífi. Úrslit kosninganna
gætu ráðið miklu um, hvort
áfram verði gengið á braut hag-
sældar og almennrar velmeg-
unar eða hvort ungt fólk þarf
að vera uggandi um hvort störf
bjóðist að námi loknu.
Jörmunkraftur í atvinnulífinu – en hvað svo?
Lán með veði í lygum?
Economist | Greinendur eru ekki á einu máli um
hvað samdráttur á fasteignalánamarkaði í Banda-
ríkjunum þýði í raun. Sumir
segja þetta engu skipta en þeir
svartsýnu segja að fasteigna-
lánamarkaðurinn muni draga efnahagslífið vestan-
hafs inn í samdráttarskeið sem muni taka tíma að
vinna sig upp úr. Breska vikuritið Economist bend-
ir á þann gríðarlega vöxt sem hafi verið á fast-
eignamarkaði í Bandaríkjunum og líkir honum
við netbóluna, sem sprakk með eftirminnilegum
hætti. Í uppganginum hafi fjármálastofnanir reynt
að ná til sín stærri sneið af fasteignalánamarkaðn-
um. Mörg fyrirtæki hafi gengið mjög langt í þess-
ari viðleitni sinni. Economist tekur dæmi af 24 ára
manni sem keypti fimm fasteignir á fimm mánaða
tímabili í fyrra. Maðurinn veitti engar upplýsing-
ar um fjárhagsstöðu sína og skáldaði það sem upp
á vantaði. Lánveitanda láðist að kanna upplýsing-
ar hans nánar og er nú svo komið að þrjá af fast-
eignum mannsins hafa verið teknar upp í skuld-
ir. Stefnir allt í að sama máli gegni um hinar tvær.
Margir virðast hafa misnotað fasteignabóluna
vestanhafs með sama hætti, og er talið að áttatíu
prósent fasteignalána vanskilahópsins séu einmitt
lán með veði í einhverju sem ekki er til.
Slæmt lánshæfi lánveitenda
Fortune | Bandaríska vikuritið Fortune er eitt fjöl-
margra vikurita sem halda áfram umfjöllun sinni
um fasteignamarkaðinn
vestanhafs í vikunni.
Í blaðinu er bent á að
fleiri geti átt yfir höfði sér að fá á sig lægra láns-
hæfismat en bandarískir lántakendur á þeim fast-
eignamarkaði sem nú þegar eiga í erfiðleikum
með að greiða af lánum sínum - og eru í sumum
tilfellum á svörtum lista fjármálastofnana. Tíma-
ritið segir að þegar aukið hlutfall lántakenda lendi
í vandræðum með greiðslur af lánum sínum og
jafnvel missi hús sín geti það leitt til þess að fjár-
málastofnanirnar sjálfar, lánveitendurnir, fái á sig
lægra lánshæfismat. Vikuritið gagnrýnir mats-
fyrirtæki á borð við Fitch, Moody‘s og Standard
& Poor‘s harðlega í blaðinu og segir þau hafa átt
að koma auga á yfirvofandi lægð á fasteignalána-
markaðnum í Bandaríkjunum. Fari svo að mats-
fyrirtækin lækki lánshæfiseinkunnir fjármála-
stofnana á fasteignalánamarkaði vegna aukinna
vanskila getur farið svo að rekstrarumhverfi
þeirra versni til muna. Það getur svo aftur leitt af
sér að fasteignaverð vestra taki dýfu sem getur
leitt af sér harða lendingu í bandarísku efnahags-
lífi, að mati Fortune.
Eitthvað hefur borið á því að heimilin í landinu hafi verið að flýja
krónuna og taka erlend lán að undanförnu. Fyrirtæki hafa flúið
háa stýrivexti yfir í aðrar myntir, sem er í fullkomlega eðlilegt í
þeim tilvikum þar sem tekjur eru í erlendum myntum.
Í fyrirtækjarekstri skiptir miklu að lágmarka sveiflur, þannig
að hægt sé að byggja reksturinn á raunhæfum áætlunum. Sama
gildir í raun um rekstur heimilis og þess vegna hafa jafngreiðslu-
lán í verðtryggðri krónu verið hentug. Fólk getur gengið að lang-
tíma greiðslubyrði vísri, á móti tekjum í krónum. Ekkert er þó
öruggt í þessum heimi og há verðbólga hækkar slík lán og rýrir
launin sem notuð eru til greiðslu.
Efnahagslífið er býsna þanið þessa dagana og hefur verið um
nokkurt skeið. Seðlabankinn tekur ákvörðun um vexti á morgun.
Líklegasta er að þeir verði óbreyttir, en
miðað við hagvísa er fremur ástæða til
hækkunar en lækkunar.
Sá mikli vaxtamunur á óverðtryggð-
um vöxtum milli krónunnar og mynta
í siðmenntuðum heimi hefur búið til
verulegt innstreymi lánsfjár til lands-
ins og styrkt krónuna. Erlend krónu-
bréfaútgáfa er orðin um 400 milljarð-
ar króna og bankar og fyrirtæki hafa
komið sér í þá stöðu að veiking krón-
unnar skaði þau ekki. Það eru því fáir
til að verja gengi krónunnar til skamms
tíma ef hún tekur að falla, nema ef vera
skyldi að heimilin flyttu lán sín í aukn-
um mæli yfir í erlend lán. Meðal ann-
ars er áhyggjuefni, ef þau eru að því
við núverandi aðstæður. Reynslan sýnir
líka að þegar myntin fellur, þá verða
lánastofnanir hikandi við að veita slík
lán, þvert á alla lógík. Þannig er það nú
einu sinni á markaði ef svartsýni tekur
völdin.
Það er full ástæða til að hvetja fólk
til að stíga varlega til jarðar þegar
kemur að gjaldeyrislánum við núver-
andi stöðu. Krónan er of sterk miðað við langtímajafnvægi. Fyrir
rúmu ári var hún allt of sterk og hafði verið það um skeið.
Gjaldmiðlar eru þeirrar náttúru að þeir geta staðið talsvert frá
því virði sem skapar jafnvægi. Það er ekkert sem segir að krónan
geti ekki verið of veik um skeið eins og of sterk. Agaleysi í ákvörð-
unum hins opinbera hefur ýkt þá áhættu sem er í hagkerfinu
vegna kerfisbreytinga og stóriðjuframkvæmda. Hátt vaxtastig
mun á endanum draga máttinn úr smærri fyrirtækjum og veiking
krónunnar mun hegna þeim sem reyndu að flýja.
Aðlögun núverandi viðskiptahalla getur einungis gerst með
tvennum hætti. Annars vegar að það dragi úr neyslu og hins vegar
í gegnum veikingu krónunnar. Því lengur sem hin innstæðulitla
gleði varir í hagkerfinu, því meira aukast líkur á að krónan verði
leiðréttingaraflið. Án þess að því sé spáð að þetta muni gerast, þá
er full ástæða til að spenna beltin. Lendingin gæti orðið harðari en
menn grunar.
Því lengur sem innstæðulítil veisla varir, því meiri
hætta á harðri lendingu.
Förum varlega í
gjaldeyrisáhættu
Hafliði Helgason
Ólafur
Ísleifsson
Lektor við
viðskiptadeild
Háskólans
í Reykjavík
O R Ð Í B E L G
Það er full ástæða
til að hvetja fólk
til að stíga var-
lega til jarðar
þegar kemur að
gjaldeyrislánum
við núverandi
stöðu. ... Agaleysi
í ákvörðunum hins
opinbera hefur ýkt
þá áhættu sem
er í hagkerfinu
vegna kerfisbreyt-
inga og stóriðju-
framkvæmda.