Tíminn - 29.08.1982, Blaðsíða 4

Tíminn - 29.08.1982, Blaðsíða 4
SUNNUDAGUR 29. ÁGÚST 1982 bergmál ¦ íslensk blaðamennska? Það er von að spurt sé. Þó að rúm sjötíu ár séu liðin frá því að fyrsta dagblaðið var stofnað hér á íslandi (Vísir, sællar minningar), þó að hér séu nú gefin út fimm dagblöð, og þó að útbreiðsla þeirra sé meiri, miðað við margumtalaðan fólksfjöld- ann, heldur en flestra annarra blaða í veröldinni, þá er íslensk blaðamennska næsta lítt' skilgreint fyrirbæri. Fæstir blaðamenn sýna starfi sínu, sem fagi, mikiim áhuga og utan stéttarinnar er umræðan enn fáfengilegri, ef eitthvað er. Blaðamannafélag íslands er mikið til ónýtt félag. Sjálfur tel ég mér það til tekna, heldur en hitt, að hafa skrifað svolítið um íslenska blaðamennsku, per se, undanfarið eitt og hálft ár, og ætla nú að nota tækifærið (úr því ég er að hætta) til að fá nokkra útrás fyrir skoðanir mínar á þessu fyrirbrigði. Því miður geta eftirfarandi hugleiðingar ekki talist ýkja fræðilegar, en það verður bara að hafa það. Ég hef aldrei fræðimaður verið, og verð sjálfsagt ekki úr þessu. II. Mig langar að víkja fyrst að menntun blaðamanna. Eins og er eru engin menntunarskilyrði sett í blaðamanna- stétt, og eins og ég ætla að drepa á síðar tel ég það mikinn kost. En engu að síður er Ijöst að menntun blaðamanna verður að auka. Ég ætla að leyfa mér að taka dæmi af sjálfum mér. Ég byrjaði í blaðamennsku fyrir þremur og hálfu ári. Þá var ég ekki nema átján ára gamall, og hafði lokið þremur bekkjum í menntaskóla en hætt út úr leiðindum. Starfið fékk ég eftir að hafa sent inn umsókri; blaðið sem auglýsti reyndist vera Vísir. Ritstjórar Vísis voru þá Ólafur Ragnarsson og Hörður Einarsson og það var sá síðarnefndi sem var umfram aðra ábyrgur fyrir því að ég var ráðinn. Sjálfsagt út af pabba og íslensk blaðamennska — kannski er þetta grein númer eitt mömmu. Altént var ég orðinn blaðamaður og vissi varla hvað það þýddi, þó svo að ég hafi eflaust verið í betri aðstöðu en margir aðrir byrjendur. Ég var að vísu ákafur blaðalesandi (og er enn, þrátt fyrir allt) en mörg svið þjóðlífsins voru mér samt sem áður lokuð bók (og eru enn, guðisé lof!). Um efnahagsmál vissi ég ekki par. Þeir Hörður og Ólafur fullvissuðu mig um að ég þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur, ég yrði látinn fara rólega af stað og til að mynda ekki settur í að hringja í ráðherrana fyrsta kastið. Daginn eftir að ' ég byrjaði var mér svo sagt að hringja í Magnús H. Magnússon, þáverandi félagsmálaráðherra, og spyrja hann um flugmannadeiluna. Flugmannadeiluna? Og jú - þegar ég hugsaði mig um rámaði mig í að hafa séð fréttir um einhverja flugmannadeilu. Ég man ekki lengur um hvað hún snerist, og vissi satt að segja aldrei alveg, en fulltrúar flugmanna áttu í viðræðum við ráðuneytið og það var eitthvert vesin. Auðvitað hefði ég átt að viðurkenna það strax - á þessum ritstjórnarfundi klukkan átta að morgni þann þriðja apríl anno domini 1979 - að ég vissi nákvæmlega ekkert um þessa flugmanna deilu, og væri því varla rétti maðurinn til að spjalla við Magnús. Svoleiðis gerir maður bara ekki ef maður er að byrja í blaðamennsku, svo ég sagði bara já og amen, og fór og hringdi í Magnús. Þó þessi orð væru mér enn óþjál í munni sagði ég næsta stoltur: „Þetta er Illugi Jökulsson, blaða- maður á Vísi." „Komdu blessaður," svaraði Magnús Ijúfmannlega. „Hvað geturðu sagt mér um flugmannadeiluna?" Það skal tekið fram að Magnús tók mér mjög vel. Hann gerði auðheyrilega ráð fyrir því að ég vissi um hvað ég væri að spyrja, og útskýrði að þó viðræður hefðu nú siglt í strand í bili myndi hann leita frekari sátta. Svo varð þögn. Mér datt ekkert í hug til að spyrja um. „Þakka þér fyrir, Magnús. Vertu blessaður," sagði ég loks og lagði á. Svo settist ég við ritvélina og skrifaði frétt um að Magnús H. Magnússon ætlaði að leita frekar sátta í flutmannadeilunni. Ég er handviss um að flestir þeirra sem lásu fréttina (sem ég var auðvitað mjög stoltur af því hún birtist á baksíðu og var fyrsta útsíðufréttin mín) - ég er sem sé handviss um að flestir hafa vitað meira um þessa flugmannadeilu en ég. En svona hófst sem sagt mín fréttamennska. Og fleiri hafa vafalaust byrjað á þennan hátt. III. Hörður Einarsson, sem þá var ritstjóri Vísis en telst nú vera útgáfustjöri afstyrmisins DV, er ekki vinsælasti maðurinn í íslenskri blaðamennsku; ég held að óhætt sé að halda því fram. En Hörður var reyndar eini maðurinn sem gerði tilraun til að kenna þessum bjána, sem þarna var kominn inn á gafl, nokkur undirstöðuatriði í blaðamennsku. Sú kennsla var að vísu hvorki mikil né sérstaklega gagnleg, en hann kenndi mér þó hvernig ætti að skrifa fréttir á Vísi sáluga og fyrir þetta hef ég alltaf virt Hörð Einarsson nokkurs. Aðra tilsögn fékk ég ekki, það var bara gert ráð fyrir að ég væri sérfræðingur í öllu milli himins og jarðar - saltframleiðslu jafnt sem 'þingi ungra Framsóknar- manna, en um hvorttveggja skrifað ég fyrstu dagana. Réttar'a sagt: kannski var ekki gert ráð fyrir því að ég gæti skrifað eins og ég væri sérfræðingur. Og á einmitt því - að látast hafa vit á því sem maður veit í rauninni ekkert um - á því byggist íslensk blaðamennska alltof oft. IV. Annar ritstjóri DV heitir Jónas Kristjánsson, eins og margir vita kannski. Jónasi er sjálfsagt margt til lista iagt, og meðal þess sem honum er lagið er að finna upp frasa sem merkja í verunni ekki neitt. „Frjálst, óháð dagblað" er frægt dæmi. Ég er aftur á móti svolítið hrifinn af annarri uppáfmningu Jónasar; honum hefur dottið í hug að kalla DV (og Dagblaðið þar á undan) „símstöð". Þetta er hárrétt lýsing hjá Jónasi, enda þótt ég leggi að vísu sennilega nokkuð aðra merkingu í orðið en Jónas. Ritstjórinn á við að DV fúngeri eins og símstöð að því leyti að það túlki skoðanir lesenda nákvæmlega, rétt eins og lesendur símuðu sjálfir inn efnið, en það er auðvitað þvættingur. DV er bara drasl og ekkert annað. Það sem ég á við með orðinu símstöð snertir hreint og beint sjálfa starfshætti blaðamannanna. Þeir sitja inni í klefum sínum (sem eru ennþá minni en flestir fangaklefar) og hringja. Hringja í lögguna. Hringja í slysavarnarfélagið. Hringja í alþingismennina. Hringja í Magnús H. Magnússon. Spyrja, og vita í raun og veru ekkert um það sem þeir spyrja um. Ég ætla að taka eitt nýlegt dæmi, en vil taka fram að það er ekkert sérstaklega slæmt. Blaðamenn hafa oft opinberað meiri fávisku. Þetta dæmi snertir öll þau innbrot í gull- og skartgripaverslanir semframin hafa verið undanfarna mánuði. Eins og allir vita hafa innbrot í slíkar verslanir verið óvenju tíð upp á síðkastið, en aðfaranótt sunnudags í síðustu viku var handtekinn maður nokkur sem hefur játað flest þeirra. í DV á mánudaginn birtist náttúrlega frétt um þetta mál, hana skrifaði einhver aðili sem nefnir sig ,,-JHG" I fréttinni sagði meðal annars: „Það voru rannsóknarlögreglumenn á eftirlitsferð sem komu auga á manninn á Laugaveginum. Þótti þeim hann strax grunsamlegur pg ákváðu því að veita honum eftirför. Fór hann á bak við hús skartgripaverslunar Magnúsar Baldvins- sonar að Laugavegi 8. Maðurinn hafði engin verkfæri meðferðis, enda mun hann fyrst og fremst hafa verið að kanna aðstæður." Sem sé. Stutt og laggott; maðurinn var handtekinn af tilviljun, eða fyrir áverkni einstaklinga innan rannsóknarlögregl- unnar. Eða hvað? Hvað segir síðar í fréttinni? „Rannsóknarlögreglan hefur unnið geysilega tæknivinnu vegna innbrotanna í skartgripaverslanirnar. Var strax ljóst að sami maðurinn var að verki í þeim öllum." Gott og vel. En stðasta setningin er perla: „Og það var á grundvelli þessarar vinnu sem maðurinn vakti grunsemdir lögreglunnar." Nú vil ég ekki gera lítið úr lögreglunni ellegar tæknivinnu hennar. Ég efast ekki um að Iögreglan hefur lagt sig alla fram, og aukinheldur hefur hún sjálfsagt orðið einhvers vísari. En því miður dugði það ekki til að góma þjófinn, ef marka má frásögn DV, sem náttúrlega er höfð beint eftir lögreglunni - símstöðin er söm við sig. En hvers vegna segir þá í þessari frétt að á grundvelli hinnar miklu tæknivinnu lögreglunnar hafi innbrots- þjófurinn náðst? Getur það verið vegna þess að löggan hafi verið sár vegna þess að öll samviskusamlega tæknivinnan hafi ekki borið neinn árangur - og því sagt blaðamanninum „JGH" að það hafi einmitt verið hún sem leiddi til þess að Illugi Jökulsson blaðamaður skrif ar þjófurinn gekk í net lögreglunnar? Allt í lagi, ég get vel skilið að löggan hafi verið sár fyrir því. En hvers vegna í ósköpunum tók blaðamaðurinn mark á þessum mótsagnakenndu fullyrðingum? Af hverju spurði hann ekki hvað þetta ætti að þýða? Það getur velverið að blaðamaðurinn hafi farið vitlaust með upplýsingar lögreglunnar, en af hverju fór hann þá vitlaust með upplýsingar lögreglunnar? Það er jafn ástæðulaust og hitt að lögreglan segi blaðamönnum einhverja dellu - sem þeir virðast að vísu gleypa við. Ég hefði verið fullsæmdur af þessari dellu þann þriðja apríl árið 1979. V. Sagði ég ekki í upphafi þessarar greinar að ég væri að hætta? Það er alveg rétt. Kalinn á hjarta... En ég ætla að áskilja mér þann rétt að halda áfram að fjalla um íslenska blaðamennsku. Mér ku standa til boða að skrifa greinar í þetta blað á næstunni og sé ekkert því til fyrirstöðu. i VI. Svo ég er að hætta. Stundum var gaman, stundum ekki. Það var voðalega mikið að gera, það er aftur á móti víst. Ég er búinn að fá kaup fyrir að gefa út þetta blað í eitt og hálft ár, nú munu aðrir menn fá þann pening. Verði þeim að góðu. Og ykkur líka; ég held að Helgar-Tíminn hafi eignast nokkuð góða lesendur. Burtséð frá mínum eigin hæfileikum (sem lágu ekki í fréttamenn- sku, eins og ég var að enda við að segja), þá er svolítið skemmtilegt að hafa eignast góða og dygga lesendur. Má nota orðið samstarf? Þá þakka ég samstarfið. Gunnari Trausta þolinmæðina. Þið komist svo sem af án mín, er það ekki? VII. Og ég endurtek: ég áskil mér allan rétt... -u

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.