Tíminn - 10.02.1984, Blaðsíða 9

Tíminn - 10.02.1984, Blaðsíða 9
FÖSTUDAGUR 10. FEBRÚAR 1984 Ctwmm Sigurður Óli Brynjólfsson, kennari, Akureyri Fæddur 8. sept. 1929 Dáinn 31. jan. 1984 Sigurður Óli Brynjólfsson kennari og bæjarfulltrui á Akureyri lést 31. f.m. og verður jarðsunginn frá Akureyrarkirkju í dag, föstudaginn 10. febrúar. Þótt hann væri maður á besta aldri og jafnan önnum kafinn hafði hann lengi fundið fyrir heilsubresti og fengið oftar en einu sinni nokkra viðvörun um að honum kynni að verða skemmra lífs auðið en flestir hljóta að kjósa sér eða vonast eftir. Sigurður Óli lét sem minnst á því bera að hann gengi ekki heill til skógar, hann var alltaf sama hamhleypan, marg- skiptur milli aðalstarfs síns, kennslunn- ar, og fjölþætts félagsmálastarfs á vegum Akureyrarbæjar, Kaupfélags Eyfirðinga og Framsóknarflokksins. Allt víl um eigin hag var honum víðs fjarri. En nú er Sigurður Óli fallinn í valinn, harm- dauði vinum sínum og samstarfs- mönnum, einn þeirra sem að er mikill mannskaði. Sigurður Óli Brynjólfsson fæddist 8. sept. 1929 í Steinholti í Glerárþorpi, þá í Glæsibæjarhreppi í Eyjafjarðarsýslu, en nú tilheyrandi Akureyrarkaupstað (Glerárhverfi). Foreldrar hans voru hjónin Brynjólfur Sigtryggsson kennari og Guðrún Rósinkarsdóttir frá Kjarna í Arnarneshreppi. Brynjóflur var Hörgdælingur að ætt (f. 1895, d. 1962), gagnfræðingur frá Akureyri 1914 og stundaði mikið barna- kennslu eftir það, lengst í Skriðuhreppi, en kenndi einnig unglingum þar og víðar og bjó nemendur undir menntaskóla- nám, enda miklu betur að sér í al- mennum námsgreinum en sem nam eigin skólagöngu, ekki síst í tungumál- um. Brynjólfur Sigtryggsson var einn þeirra íslendinga, sem náð hafa langt í sjálfsnámi, enda gáfaður maður og menntafús. Guðrún kona hans, móðir Sigurðar Óla, var ekki síður vel gefin og skörp til náms, þótt ekki gengi hún skólaveg. Hún var gædd sérstakri stærð- fræðigáfu og mun hafa átt mikinn þátt í því að glæða áhuga barna sinna á þeirri námsgrein, a.m.k. er stærðfræðiþekking þeirra bræðra, dr. Ara Brynjólfssonar og Sigurðar Óla, alkunn. Sigurður Óli var því alinn upp á menntaheimili. Þau hjón, Brynjólfur og Guðrún, fluttust að Ytra-Krossanesi við Eyjafjörð árið 1935. Þar bjuggu þau búi sínu síðan. Brynjólf- ur andaðist 1962, en Guðrún lést á síðasta ári, en hún var fædd árið 1905 og átti til eyfirskra og vestfirskra ætta að telja. Faðir hennar, Rósinkar Guð- mundsson, var eitt hinna landsþekktu Æðeyjarsystkina. Ekki var auður í garði þeirra hjóna, Brynjólfs og Guðrúnar, og líklega stund- um þröngt í búi, a.m.k. áður en þau settust að í Krossanesi, en þar vegnaði þeim vel. SigurðurÓli ólst uppí stórum og mannvænlegum systkinahópi í Krossanesi frá 5 ára aldri. Var hann lengi við þann stað kenndur, enda stund- aði hann búskapinn í Krossanesi með foreldrum sínum árum saman og átti þar heima þar til hann fluttist í eigið hús fyrir allmörgum árum. Sigurður Óli stundaði nám í Gagn- fræðaskóla Akureyrar og síðar í Menntaskólanum á Akureyri, lauk stúd- entsprófi úr stærðfræðideild 1950. Eftir það var hann einn vetur við verkfræði- nám í Háskóla íslands, en hóf kennslu við Gagnfræðaskóla Akureyrar haustið 1951. Þar starfaði hann fram á síðustu ár og kenndi auk þess mikið við Iðnskóla Akureyrar og á ýmsum námskeiðum fyrr og síðar. Kennsla í stærðfræði, eðlisfræði og efnafræði var aðallífsstarf hans. Á fyrstu kennaraárum sínum bjó hann sig undir að ljúka B.A.-prdfi í stærðfræði og eðlisfræði við Háskóla íslands, og fór ekki troðnar slóðir í því efni. Hann sat aðeins einn vetur í B.A.-deildinni sem fastur nemandi, en lauk B.A.-prófi vorið 1954 í stærðfræði, eðlisfræði og uppeldis- og kennslufræði. Árið 1953 kvæntist Sigurður Óli eftir- lifandi konu sinni Hólmfríði Kristjáns- dóttur frá Holti í Þistilfirði. Eignuðust þau 5 börn sem öll eru á lífi, en þau eru: Þorsteinn verkfræðingur á Akureyri, kv. Snjólaugu Pálsdóttur frá Dagverðar- tungu, Guðrún Brynja kennari á Akur- eyri, Ingiríður nemi í læknisfræði, Ragn- heiður, nemi í tölvunarfræði viðHáskóla íslands og Arnbjörg, sem er 11 ára og langyngst barnanna. Þetta er dugmikil og samhent fjölskylda, sem fluttar eru innilegar samúðarkveðjur á þessari sorg- arstundu. Sérstaka kveðju sendum við Auður Hólmfríði og börnum hennar og minnumst vinsemdar Sigurðar Óla í okkar garð. Á langt samstarf okkar bar aldrei neinn skugga. Þótt kennsla yrði þannig aðalævistarf Sigurðar Óla Brynjólfssonar og nem- endahópur hans í nærri þriðjung aldar stærri en tölu verði á komið í fljótu hasti, verður hans ekki síður minnst fyrir opinber störf og afskipti af félagsmálum og stjórnmálum. Hann gekk ungur í Framsóknarflokkinn og starfaði fyrir flokkinn sem liðsmaður og forsystumað- ur um meira en þriggja áratuga skeið. Hann varð varafulltrái í bæjarstjórn Akureyrar á vegum Framsóknarflokks- ins 1958 og kosinn í bæjarstjórn 1962 sem fjórði maður á lista flokks síns, og hafði Framsóknarflokkurinn ekki átt fleiri fulltrúa í bæjarstjórn áður, a.m.k. ekki um langt skeið. Æ síðan sat Sigurð- ur Óli í bæjarstjórn og nokkur síðustu kjörtímabil sem aðalforystumaður flokks síns og reyndar bæjarstjórnar í heild, ef út í það er farið. Ekki er unnt að telja hér upp þau trúnaðarstörf sem hann hefurgegnt ávegum bæjarstjórnar, enda eru þau mörg og spanna vítt svið. Sigurður Óli varenginn einstefnu maður í pólitískum áhugamálum, hann lét sig allt varða og var alls staðar heima í almennum landsmálum og bæjarmálum Akureyrar sérstaklega. Hann fékkst jafnt við atvinnumál og fræðslumál, almenn fjármál bæjarins og félagsmál. Sigurður Óli var kosinn endurskoð- andi Kaupfélags Eyfirðinga á aðalfundi 1963 og gengdi því starfi til 1972, þegar hann var kjörinn í stjórn kaupfélagsins, þar sem hann sat til dauðadags eða nærri 12 ár, og ætíð sem varaformaður stjórn- arinnar. Auk forystu fyrir Framsóknarflokkinn í bæjarmálum á Akureyri starfaði Sig- urður Óli af lífi og sál í almennu flokksstarfi, bæði í Framsóknarfélagi Akureyrar og á vegum Kjördæmissam- bands Framsóknarflokksins í Norður- landskjördæmi eystra. Fáir menn hafa setið fleiri kjördæmisþing framsóknar- manna í Norðurlandskjördæmi eystra frá stofnun samtakanna 1960 en hann. í þessu starfi var hann mjög virkur og óhætt að segja að fáum var betur treyst í málflutningi og málatilbúnaði á kjör- dæmisþingum en Sigurði Óla. Þar naut sín vel réttsýni hans og víðsýni og frábær skilningur á högum og hagsmunum fólks í þessu stóra og sundurleita kjördæmi, sem framsóknarmönnum þótti reyndar stofnað til á sinni tíð með nauðungar- sameiningu „gömlu“ kjördæmanna. Þrátt fyrir það hafa framsóknarmenn í kjördæminu unnið vel saman í heildar- samtökum sínum, og þar átti Sigurður Óli Brynjólfsson góðan hlut að máli. Um áratuga skeið sótti Sigurður Óli flokksþing Framsóknarflokksins og sat um tíma í miðstjórn. Fyrir öll þessi störf eru honum færðar þakkir og þess minnst hversu vel hann leysti þau af hendi. Þegar ég hugsa til langra kynna minna af Sigurði Óla Brynjólfssyni og samskipt- ánna við hann, er mér maðurinn sjálfur ekki síður hugstæður en málefnin, sem 'hann var að vinna að og við fleiri í sameiningu. Hann var ákaflega eftir- minnilegur maður og á ýmsan hátt ólíkur öðrum. Hann var mjög sjálfstæð- ur í skoðunum og gleypti ekki við hverjum og hverju sem var, en jafnframt mannblendinn og félagslyndur. Hann var frjálsmannlegur og djarfur í tali hvar sem var, en tróð sér ekki fram og var enginn leikari í gervi stjórnmálamanns- ins. Hann var einlægur og opinskár, svo að ýmsum þótti nóg um af stjórnmála- manni, og gersamlega laus við spjátr- ungshátt og hégómaskap. Hann var afar umburðarlyndur gagnvart skoðunum og tillögum annarra en átti það þó til að stæla við menn um það sem virtist smámunir og lék sér stundum að því að varpa Ijósi á umræðuefni frá ýmsum hliðum án þess að það sýndist hafa annan tilgang en íþróttina, sem slíku fylgir. Þessi rökræðuaðferð Sigurðar Óla bar þó oft góðan árangur og skýrði málin betur en margt annað, þegar upp var staðið. Þegar umsvif hans og vinnuálag var mest hér fyrir á árum, þegar hann stóð í því að kenna 30-40 tíma á viku í Gagnfræðaskóla og Iðnskóla, stundaði búskap í Krossanesi, sat í bæjarstjórn og tók þátt í ýmiss konar flokksstarfi og fundahaldi, þá mátti segja að það ryki af honum, og ekki var alltaf tími til að snurfusa sig nákvæmlega eftir tilefninu. Hann var eldfljótur að öllu, sem hann átti að gera, lét sig aldrei vanta þar sem honum bar að vera og taldi ekkert eftir sér, virtist alltaf hafa nægan tíma. Slíkur maður kemur miklu í verk, en hjá því getur naumast farið, að þreki hans verði að lokum ofboðið. Gaman var að gleðjast með Sigurði Óla og eiga við hann orðastað um næstum hvað sem var, enda var hann fyrst og femst gáfaður menntamaður, sem kunni góð skil á mörgum efnum og hafði áhuga á flestum hlutum. En vænst þykir mér þó að geta sagt það um Sigurð, að hann var hreinlyndur og heill í öllum samskiptum, reyndar svo að af bar. Hann varekki „vinnumaðurvarmennsk- unnar“, svo að notuð sé íslenskun Steph- ans G. Stephanssonar á einkunnarorð- um Þorleifs gamla Repps: „Gaa aldrig paa Akkord með Sletheden". Svik urðu ekki fundin í hans munni. Ingvar Gíslason. Mágur minn, Sigurður ÓIi Brynjólfs- son, kennari og bæjarfulltrúi á Akureyri, verður borinn til moldar í dag. Hann lést í Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 31. janúar sl. 54 ára að aldri. Með honum er fallinn í valinn drengur góður og eftirminnilegur öllum þeim sem honum kynntust en um leið ötull forystumaður um málefni Akureyrar. Sigurður Óli var fæddur 8. september 1929 að Steinholti í Glerárhverfi, sonur hjónanna Guðrúnar Rósinkarsdóttur og Brynjólfs Sigtryggssonar, sem lengst bjuggu í Ytra-Krossanesi við Akureyri. Hann var 5. í röðinni af 7 börnum þeirra. Hann ólst upp í Krossanesi við sveita- störf og síðarstörfí síldarverksmiðjunni. Hann lauk stúdcntsprófi frá Mennta- skólanum Akureyri vorið 1950 og BA- prófi í stærðfræði og eðlisfræði frá Háskóla íslands 1954. Að loknu námi gerðist Sigurður Óli kennari við Gagnfræðaskólann á Akur- eyri og gegndi því starfi alla tíð síðan ásamt kennslu við Iðnskólann. Þá hóf hann fljótlega þátttöku í stjórnmálum og hefir verið bæjarfulltrúi á Akureyri fyrir Framsóknarflokkinn óslitið frá ár- inu 1962. Því hafa fylgt margvísleg stjórnarstörf á vegum bæjarins og stofn- ana hans og hjá Kaupfélagi Eyfirðinga. Sigurður Óli bjó lengi með fjölskyldu sinni í Krossanesi ásamt foreldrum sínum. Byggði hann þar upp íbúðarhús og útihús með þeim og rak búskap í félagi við þau. Var hann þannig stoð og stytta foreldra sinna og gerði þeim kleift að búa í Krossanesi. Aðrir ættingjar og tengdafólk naut góðs af því og dvaldi þar lengur eða skemur á hverju sumri auk þess sem börn voru í sumardvöl. Þannig var elsti sonur okkar, Brynjólfur í Krossanesi flest sumur fram yfir fermingaraldur. Brynjólfur faðir Sigurðar Óla lést árið 1962 og nokkrum árum síðar fluttist hann með fjölskyldu sinni að Þingvalla- stræti 24 á Akureyri. En Guðrún bjó áfram í Krossanési með aðstoð Sigurðar Óla og íjölskyldu hans. Stóð svo allt fram á árið 1983 er Guðrún andaðist. Mun Sigurður Óli eða einhver úr fjöl- skyldu hans hafa komið út í Krossanes nær daglega öll þessi ár til aðstoðar og útréttinga. Sigurður Óli var störfum hlaðinn alla tíð. í fyrsta lagi var kennarastarfið. í öðru lagi bæjarstjórnar- og stjórnmála- störfin, sem voru ákaflega erilsöm. í þriðja lagi búskapurinn í Krossanesi og aðstoð við móður sína að halda uppi heimili þar. í öllum sínum störfum mun Sigurður Óli hafa sýnt mikla samviskusemi og ósérplægni og verið laus við að skara eld að sinni köku. Þetta var áberandi í samskiptum hans við foreldra sína og ættingja. En ég þykist vita að það hafi einnig átt við um bæði kennarastarfið og stjórnmálastörfin. Þó að Sigurður Óli hafi sinnt mörgum störfum er ekki allt þar með sagt. Mest var um það vert að kynnast manninum sjálfum. Hann var sérstaklega góðum gáfum gæddur eins og hann átti kyn til. Námsmaður var hann góður, hagmæltur og orðheppinn og hafði ánægju af að' ræða bæði alvöruefni og gamanmál. Hann hafði yndi af skák og bridge og margt fleira var honum til lista lagt. Hann var vaskur maður í hvívetna, hlífði sér aldrei. Hann lét ekki deigan síga þó að heilsan tæki að bila hin síðari ár og það var fjarri honum að kvarta. Hann var alltaf bjartsýnn og gat tekið undir með Einari Benediktssyni: Heyr mig, lát mig lífið finna, lœs mér öll hin dimmu þil. Gef mér stríð - og styrk að vinna, stjarna, drottning óska minna. Ég vil hafa hœrra spil, hœtta því, sem ég á til. Bráðum slœr í faldafeykinn, - forlög vitrast gegnum reykinn. Alls máfreista. Eitt ég vil. Upp með taflið. - Égá leikinn. En umfram allt var hann ákaflega hjartahlýr maður og góður heimilisfaðir, enda var fjölskyldan samhent og tengd ástúðlegum böndum. Sigurður Óli var kvæntur Hólmfríði Kristjánsdóttur frá Holti í Þistilfirði og lifir hún mann sinn. Þau eiga 5 mannvæn- leg börn, hið yngsta aðeins 11 ára. ÖIl á fjölskyldan sinn hlut aðstörfum heimilis- föðurins, ekki síst að hinu mikilsverða starfi í Krossanesi og má það ekki gleymast. Var alltaf jafn ánægjulegt að koma á heimili þeirra og njóta þar veitinga og skemmtilegra viðræðna. Nú er sárastur harmur kveðinn að konu og börnum sem fátækleg orð fá ekki breytt. En gott er að eiga minningu um vaskan mann og góðan dreng. Jón Erlingur Þorlákssun. Ég vil kveðja vin minn Sigurð Óla Brynjólfsson bæjarfulltrúa, sem dó 31. janúar sl., með nokkrum orðum. Sigurður Óli fæddist í Glerárþorpi en ólst upp í Ytra Krossanesi á bjargálna menningarheimili. Okkar kynni hófust sumarið 1948, en þá unnum við saman í Krossanesverksmiðjunni. Þettta var síldarleysisár og því gafst tími til sam- ræðna um stjórnmál og stærðfræði. Þessi greindi 19 ára piltur hélt vel á sínu og ávann sér virðingu mína, sem hefur aukist með nánari kynnum, því hann var vel gerður hæfileikamaður. Við bæjarstjómarkosningarnar 1962 urðum við samferða inn í bæjarstjórn og þar störfuðum við saman í tuttugu ár. Með okkur tókst góð samvinna þótt ekki værum við í sama stjórnmálaflokki. Sigurður Óli lagði sig fram við að ná sem breiðustu samstarfi við afgreiðslu mála, vildi sem minnst láta kenna afls- munar, þó formlegur meirihluti væri til. Hann á drjúgan hlut að því að bæjar- stjórn Akureyrar varð landsfræg fyrir eindrægni og gott samstarf. Akureyrar- bær sér nú eftir góðum bæjarfulltrúa og góðum manni. Sigurður Óli var einlægur samvinnu- maður, og réði sú hugsjón gerðum hans frekar en flokkshollusta. Á háskólaárum sínum kynntist hann eftirlifandi konu sinni Hólmfríði Krist- jánsdóttur frá Holti í Þistilfirði. Þau eignuðust fimm börn 4 dætur og einn son allt er þetta mannvænlegt fólk, eins og það á kyn til. Sigurður Óli var ósérhlífinn og kapps- fullur en enginn fjáraflamaður. Hann vildi umfram allt láta gott af sér leiða. Hann var góður sonur og bróðir og góður heimilisfaðir. Við hjónin sendum Hólmfríði, börn- unum og systkinum Sigurðar Óla innileg- ar samúðarkveðjur. Við þökkum sam- fylgdina og kveðj um hann með söknuði. Ingólfur Árnason

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.